Af svokölluðu tálmunarfrumvarpi

Að fá ekki að umgangast ástvin getur verið óendanlega sárt. Það er því ekki að undra að það snerti taugar margra þegar rætt er um tálmanir, nánar tiltekið tilfelli þar sem foreldri sem fer með forræði stendur í vegi fyrir því að hitt foreldrið fái að hitta barnið. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 sem lagt hefur verið fram á Alþingi og gengur undir nafninu „tálmunarfrumvarpið“. Í frumvarpinu er lögð til breyting á barnaverndarlögum sem felur í sér að mögulegt verði að dæma það foreldri sem tálmar hinu foreldrinu umgengni við barn í allt að fimm ára fangelsi.

Á Íslandi er sameiginleg forsjá langalgengasta úrræðið við skilnað foreldra, í sumum tilvikum heldur móðirin eingöngu forsjánni en í örfá skipti fer faðir með forsjá. Af 598 skilnuðum foreldra á árunum 2006-2010 voru 477 þeirra með sameiginlega forsjá, 112 mæður voru einar með forsjána á móti níu feðrum (Hagstofa Íslands, 2017). Í tölum sem birtar eru á vef Hagstofu Íslands kemur fram að enn búa rúmlega 90% barna einstæðra foreldra hjá konum. (Hagstofa Íslands, 2017). Það er því ljóst að þeirri þyngingu refsirammans, sem fyrirhuguð er með frumvarpinu, yrði fyrst og fremst beitt gegn konum.

 

Nokkuð hefur borið á fréttum um svokölluð tálmunarmál undanfarið. Í ítrekuðum tilfellum hafa málavextir verið á þá leið að faðir leitar á náðir fjölmiðla og heldur því fram að barnsmóðir hans tálmi umgengni. Í nokkrum af þessum tilfellum hefur móðir einnig stigið fram og skýrt frá sinni hlið sem í öllum tilfellum er gerólík. Í sumum tilfellum hafa legið fyrir vísbendingar um vanrækslu eða jafnvel ofbeldi af hálfu barnsföður. Ekki er ætlunin að dæma um slík mál í þessari grein, en mikilvægt er að hafa í huga að þar stendur orð á móti orði. Ef rýnt er nánar í frumvarpið kemur einnig í ljós að í því er lögð til viðbót við 98. gr. barnaverndarlaga (Barnaverndarlög nr. 80/2002) sem hljóðar svo:

Tálmi það foreldri sem barn býr hjá hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt samkvæmt úrskurði, dómi, dómssátt foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni að neyta umgengnisréttar, eða takmarki hann, varðar það fangelsi allt að fimm árum.

  1. gr. barnaverndarlaganna hljóðar svo í gildandi lögum:

Ef þeir sem hafa barn í sinni umsjá misþyrma því andlega eða líkamlega, misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt, vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin þá varðar það fangelsi allt að fimm árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Af texta frumvarpsins má því draga þá ályktun að flutningsaðilar þess leggi að jöfnu annars vegar misþyrmingar, kynferðislega misnotkun og vanrækslu – og tálmun þess foreldris sem barnið býr hjá á umgengi við hitt foreldrið, hins vegar. Þau taka ekki til greina mögulegar ástæður svokallaðrar tálmunar, sem gæti einmitt verið að viðkomandi foreldri sé með þessu örþrifaráði að forða barni sínu frá misþyrmingu eða vanræsklu af því tagi sem getið er um í barnaverndarlögum – eins og umræða í athugasemdakerfum hinna ýmsu miðla hefur leitt í ljós.

Í frumvarpinu er ekki minnst á 37. gr. barnalaga en þar eru taldar upp aðstæður sem leitt geta til nálgunarbanns, sem einu orði má kalla heimilisofbeldi:

Ef barnaverndarnefnd þykir heilsu eða lífi ófædds barns stefnt í hættu eða barni háski búinn af háttsemi eða framferði manns, svo sem vegna ofbeldis, ógnana eða hótana eða vegna vímuefnaneyslu eða annars athæfis, getur nefndin krafist þess fyrir dómi að viðkomandi verði bannað að koma á tiltekinn stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðrum hætti í samband við barn [eða þungaða konu]. Enn fremur er með sama hætti heimilt að krefjast þess að manni verði bönnuð dvöl á heimili ef nefndin telur það nauðsynlegt vegna hagsmuna barns [eða þungaðrar konu].

  1. og 99. greinar barnalaganna fjalla einnig um brot gagnvart börnum og viðurlög við þeim sem felast í sektum eða fangelsisvist.

Af framangreindu er ljóst að ákvörðun um tálmun þarf að öðlast samþykki stjórnvalda til þess að teljast gild. Það er hins vegar einnig skýrt í lögunum að börn eigi rétt til að umgangast báða foreldra og að taka skuli tillit til vilja barna í þeim efnum og hafa þeirra hagsmuni að leiðarljósi.

Deila má um hversu „óumdeilt“ það sé að fyrirliggjandi úrræði virki ekki til að tryggja rétt barnsins til að umgangast bæði foreldri. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar alþingismanns (Viðreisn) um hvernig málum hafi verið háttað undanfarin tíu ár kemur eftirfarandi fram (Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn um úrskurði um umgengni barna við umgengnisforeldra, 2017):

  • Fjöldi úrskurða um umgengni árin 2007 til 2016 var 639 (á bilinu 53 til 79 árlega).
  • Fjöldi umgengnismála sem lauk með samkomulagi á sama tímabili var 2.078 (á bilinu 160 til 271 árlega).
  • Fjöldi tilfella þar sem sett var krafa um dagsektir á tímabilinu var 550, fjöldi úrskurða um dagsektir var 107.
  • Í 9 tilfellum á þessu tíu ára tímabili var sett fram krafa um aðför til að koma á umgengni.
  • Meðalafgreiðslutími sýslumannsembætta í mánuðum er á bilinu 5 til 14 mánuðir (lengstur á höfuðborgarsvæðinu).

Í svarinu kemur einnig fram að dómsmálaráðherra hefur þegar ákveðið að taka til skoðunar meðferð umgengnis- og dagsektarmála hjá embættum sýslumanna og skoða m.a. sérstaklega málsmeðferðartíma og kanna hvort og þá hvaða úrbætur þarf að gera á lögum, reglugerðum, verklagi og framkvæmd. Þarna er bent á mikilvægi þess að hafa hagsmuni barnsins í huga og skýrt tekið fram að fullnusta núverandi lagaheimilda með aðför geti valdið börnum erfiðleikum eða skaða. Í því ljósi er það hreinlega óskiljanlegt að setja fram tillögu að svo þungum refsiramma vegna tálmunar sem gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem hér er fjallað um. Spurningin er þá á hvaða hátt hagur barna, í þeim tilfellum þar sem um tálmun er að ræða og ekki næst samkomulag, vænkist við að heimilt sé að dæma foreldrið sem þau búa hjá til fangelsisvistar?

Ef litið er til nágrannalandanna kemur í ljós að í Noregi er einungis gert ráð fyrir dagsektum. Í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð er gert ráð fyrir dagsektum og möguleika á aðför til að koma á umgengni við tilteknar aðstæður. Í Svíþjóð er einungis gripið til aðfarar í undantekningartilvikum. Í Finnlandi er einnig kveðið á um afstöðu barns til aðfarar til að koma á umgengni. Verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum væri þar með verið að þyngja refsirammann verulega ekki í neinu samræmi við refsiramma hinna Norðurlandanna.

Eins og gengur og gerist í lagatextum er orðalag í frumvarpinu eins hlutlaust og hugsast getur og ekki er  tilgreint kyn foreldra. Þar af leiðandi er horft fram hjá því að heimilisofbeldi er kynbundið samfélagslegt vandamál sem þarfnast undangenginna rannsókna og að í yfirgnæfandi meirihluta er um að ræða karlmenn sem beita barnsmæður sínar ofbeldi, eins og komutölur Kvennaathvarfsins og Stígamóta gefa til kynna ásamt tölum um forsjá barna eftir skilnað. (Stígamót, 2017; Hagstofa Íslands 2016). Í frumvarpinu er ekki vísað í neinar rannsóknir um tálmun eða takmarkanir, hvorki um meinta þolendur tálmunar né ástæður hennar. Þar af leiðandi má setja spurningarmerki við þekkingarfræðilegar forsendur fyrir frumvarpinu. Látið er að því liggja að tálmun sé algengt vandamál og orðalagið „alþekkt og nokkuð algengt“ notað án þess að reynt sé að rökstyðja það frekar. Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn þingmanns um málið kemur hins vegar fram að sátt næst í flestum málum af þessu tagi og mjög fá mál enda með aðför. Þar kemur einnig fram að yrði frumvarpið að lögum hefði það í för með sér mun þyngri refsiramma hér á landi en í nágrannalöndunum.

Við erum öll sammála um að hvert barn á rétt á ástríkum og umhyggjusömum foreldrum. Ekkert barn á að upplifa einangrun frá foreldri, vanrækslu eða ofbeldi. Umrætt tálmunarfrumvarp er án nokkurs vafa sett fram í góðri trú, en eins og fram er komið hér að framan eru á því alvarlegir gallar sem nauðsynlegt er að huga að áður en lengra er haldið.

 

Heimildir

Barnalög nr. 76/2003. (án dags.). Sótt 9. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2003076.html

Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna. (án dags.). Sótt 9. apríl 2017 frá barnasattmali.is: http://www.barnasattmali.is/barnasattmalinn/barnasattmalinnheildartexti.html

Barnaverndarlög nr. 80/2002. (án dags.). Sótt 9. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/lagas/146a/2002080.html

Femínistafélag Íslands. (23. maí 2011). Athugasemdir Femínistafélags Íslands við frumvarp til um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003. Sótt 12. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/altext/erindi/139/139-2674.pdf

Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002 (refsing við tálmun eða takmörkun á umgengni). (án dags.). Sótt 9. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/altext/146/s/0559.html

Hagstofa Íslands. (2017). Sótt 11. apríl 2017 frá Hagstofa Íslands: http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__fjolsk__Fjolskyldan/MAN07108.px/table/tableViewLayout1/?rxid=17d9996f-7364-42e0-91c9-b55e3f4fe3fb

Innanríkisráðuneytið. (apríl 2017). Sótt 11. apríl 2017 frá Innanríkisráðuneytið: https://www.innanrikisraduneyti.is/verkefni-raduneytis/barnalog/upplysingar/forsja-barns/

Kvennaathvarfið. (2016). Ársskýrsla kvennaathvarfsins 2015. Reykjavík: Samtök um kvennaathvarf. Sótt 13. apríl 2017 frá http://www.kvennaathvarf.is/media/arsskyrslur/SUK-2015.pdf

Stígamót. (2017). Ársskýrsla Stígamóta 2016. Reykjavík: Stígamót. Sótt 11. apríl 2017 frá Stígamót: https://www.stigamot.is/static/files/arsskyrslur/stigamot-arsskyrsla-2016-loka.pdf

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn um úrskurði um umgengni barna við umgengnisforeldra. (4. apríl 2017). Sótt 11. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=172

 

3 athugasemdir við “Af svokölluðu tálmunarfrumvarpi

  1. Bakvísun: Tálmunarfrumvarpið og þegnréttur kvenna | Knúz - femínískt vefrit

  2. “ og að í yfirgnæfandi meirihluta [heimilisofbeldis] er um að ræða karlmenn sem beita barnsmæður sínar ofbeldi, eins og komutölur Kvennaathvarfsins og Stígamóta gefa til kynna“

    Væri fáránlegt að álykta að karlar sem verði fyrir heimilisofbeldi leiti annað en konur?

    Ef að þessi fullyrðing er meginforsenda niðurstöðu greinarinnar, væri þá ekki ráð að tína til haldbærari og gögn um tíðni heimilisofbeldis, svo sem einhverjar góðar megindlegar rannsóknir?

    Annað
    „Látið er að því liggja að tálmun sé algengt vandamál og orðalagið „alþekkt og nokkuð algengt“ notað án þess að reynt sé að rökstyðja það frekar.“

    Þarf lögbrot að vera algengt til þess að réttlæta aðgerðir gegn því?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.