Tálmunarfrumvarpið og þegnréttur kvenna

„The more value-neutral a conceptual framework appears, the more likely it is to advance the hegemonous interests of dominant groups, and the less likely it is to be able to detect important actualities of social relations.“

Sandra Harding (2009)

Í frumvarpi til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, sem lagt hefur verið fram á Alþingi og gengur undir nafninu „tálmunarfrumvarpið” er lögð til breyting á barnaverndarlögum sem felur í sér að mögulegt verður að dæma það foreldri sem tálmar hinu foreldrinu umgengni við barn í allt að fimm ára fangelsi. Með því að horfa fram hjá kynjabreytunni í frumvarpinu er grafið undan þegnrétti kvenna og hagsmunir barna látnir víkja fyrir hagsmunum fullorðinna karla.

Eins og gengur og gerist í lagatextum er orðalag í frumvarpinu eins hlutlaust og hugsast getur og ekki er tilgreint kyn foreldra. Þar af leiðandi er horft fram hjá því að heimilisofbeldi er kynbundið samfélagslegt vandamál sem þarfnast undangenginna rannsókna. Í frumvarpinu er ekki vísað í neinar rannsóknir um tálmun eða takmarkanir, hvorki um meinta þolendur tálmunar né ástæður hennar. Þar af leiðandi má segja að þekkingarfræðilegar forsendur fyrir frumvarpinu séu af skornum skammti. Látið er að því liggja að tálmun sé algengt vandamál: „Alþekkt og nokkuð algengt er að það foreldri sem barn býr hjá tálmi alfarið eða takmarki verulega að barn umgangist hitt foreldrið og fari með því gegn úrskurði, dómi, dómsátt eða samningi aðila“. Þessi staðhæfing hefur verið hrakin í svari dómsmálaráðherra eins og kemur fram í þessari grein.

Löglegt og siðferðislegt, þingmaður stendur og klórar sér í hausnum.

Ennfremur er látið að því liggja að um geðþóttaákvarðanir foreldris eða forráðamanns sé að ræða en ekki er minnst á ástæður tálmunar í frumvarpinu. Horft er fram hjá því að heimilisofbeldi er kynbundið og að í yfirgnæfandi meirihluta er um að ræða karlmenn sem beita barnsmæður sínar ofbeldi, eins og komutölur Kvennaathvarfsins og Stígamóta gefa til kynna ásamt tölum um forsjá barna eftir skilnað. (Stígamót, 2017; Hagstofa Íslands 2016). Þessi kynbundni mismunur þarf að koma í ljós því undirliggjandi vandamál er ekki einstaklingsbundið heldur samfélagslegt vandamál, eins og kom fram í inngangi.

Í póstfemínísku nútímaumhverfi snýst umræðan um að konur njóti nú árangurs jafnréttisbaráttu 20. aldarinnar og því halli á stöðu karlmannsins. Eins og m.a. Pomerantz bendir á má greina tvennskonar viðsnúning kynjabaráttunnar í orðræðunni um velgengni stelpna. Það er ekki nóg með að þær standi strákum framar á öllum sviðum heldur eru þær einnig að ganga á hlut þeirra, sem veldur því að þær hafa hrundið af stað karlmennskukrísu þar sem karlinn er ekki lengur á sínum „venjulega“ stalli (Pomerantz 2013:191). Þessa orðræðu má yfirfæra á íslenskar kynsystur því sömu rök eru viðhöfð í athugasemdakerfum dagblaðanna í umræðum um tálmunarfrumvarpið svokallaða.

Orðræðuna um velgengni stelpna má jafnframt skoða í ljósi drengjaorðræðunnar og hvernig hún getur verið til marks um bakslag í kvennabaráttu. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson tilgreinir þrjú megineinkenni orðræðunnar og er það fyrsta nefnt „vesalings drengirnir“ því samkvæmt karlréttindasjónarmiðum eru drengir fórnarlömb mæðrahyggjugilda, þeir séu nú of mjúkir. Annað einkennið er „skólar sem bregðast drengjum“. Innleiðing markaðskerfisins í skólakerfið á síðustu árum fléttast þá saman við slakt gengi drengjanna og tengist að sama skapi við áhyggjur af agaleysi, siðferðislegri upplausn og hnignun í samfélaginu. Þriðja einkennið er „strákar verða alltaf strákar“. Strákum er eðlilegt að vera fyrirferðamiklir og árásargjarnir, mega alls ekki vera hommalegir eða kvenlegir og því einkennir gagnkynhneigðarremba orðræðuna. Þessi einkenni eru að mati Ingólfs einkar mikil einföldun því reynt er að finna sökudólga og „reynt að sýna fram á að drengir séu fórnarlömb aukinnar áherslu á menntun stúlkna“ . Sambærilega orðræðu er að finna á Íslandi og telur Ingólfur málefnið vissulega eiga upp á pallborðið hjá yfirvöldum, þó undir öðrum formerkjum sem ekki gefst tækifæri til að fara í hér (Jóhannesson 2004:44-46).

Eins og komið hefur fram eru meginrökin fyrir frumvarpinu þau að það halli á foreldra sem verða fyrir tálmun. Einnig hefur komið fram að tálmun er síðasta úrræði dómsvalda til þess að koma í veg fyrir ofbeldi og að tálmaðir foreldrar eru í meirihluta karlmenn. Tilkoma feðraréttindahópa sem hafa karlréttindasjónarmið að leiðarljósi hefur verið samfara þróun póstfemínismans. Fræðimenn hafa ekki sammælst um skilgreiningar á þeirri þróun og þar ber fyrst að nefna tengingar á milli þess sem kallast þriðju bylgju femínismi og póstfemínisma. Fyrsta og kannski algengasta skilgreiningin á bæði bylgjunni og póstfemínisma er kynslóðamunurinn, og þá á milli þeirra sem fæddust á meðan önnur bylgjan stóð og þeirra sem fæddust eftir hana. Í öðru lagi er hægt að skoða þróunina sem þekkingarfræðileg hvörf því póstmódernískar kenningar voru felldar inn í femínisma þegar annarskonar undirokun, t.d. á grundvelli aldurs, uppruna, líkamlegrar getu og kynáttunar, voru viðurkenndar. Auk þess hafa kenningar síðnýlendufemínista sýnt fram á að undirokun ólíkra þátta dreifist ekki jafnt og því ætti kyn ekki alltaf að njóta forgangs í jafnréttisbaráttu. Afleiðingarnar eru þær að þörfin fyrir sameinaðri, heildstæðri hreyfingu hefur verið dregin í efa. Í þriðja lagi geta báðar nafngiftirnar átt við ‘Girl Power dismissive of feminist politics, trendy me-first power feminism’ sem tengist gildum nýfrjálshyggjunnar sterkum böndum í gegnum valdeflingu neysluhyggjunnar. Að lokum má skilja póstfemínisma sem andfemínískt bakslag því sóst er eftir því að innleiða, endurskoða og afvegaleiða pólitíska hugmyndafræði femínismans því markmiðum hans virðast hafa verið náð (Mendes, 2012).

Það sem vekur athygli hér eru tvær síðustu skilgreiningarnar því þær virðast beinlínis eiga sérstaklega við málshefjendur frumvarpsins sem eru flestir, ef ekki allir, á hægri væng stjórnmálanna. Frumvarpið má þess vegna gagnrýna á sömu forsendum og póstfemínismann en sú gagnrýni hefur beinst að því að hann hampi gildum nýfrjálshyggjunar á kostnað róttæks femínisma félagshyggjunnar, og því sé athygli kvenna beint að persónulegri neyslu og kynferðislegu valdi, fremur en pólitísku og fjárhagslegu valdi. Afleiðingin er sú að ekki er ýtt undir sameiginlega ábyrgð né barist fyrir breytingum sem koma meirihluta kvenna til góða (Mendes, 2012), en frumvarpið myndi líklega einvörðungu þjóna tiltölulega fámennum hópi karlmanna.

Einstaklingshyggja póstfemínisma og sjálfshygli ásamt auknu óþoli gegn samstöðu og mannréttindum hafa knúið frjálslyndar hugmyndir um þegnréttinn (Gústafsdóttir 2016:68). Þegnréttur er hugtak sem notað er til að skilja og skýra forsendur fyrir fullri aðild einstaklinga að samfélagi og nær yfir laga- og félagslega stöðu, réttindi, skyldur og þáttöku, sem og ástand, athafnir og sjálfsmyndir (Einarsdóttir 2010:30). Hin hefðbundna, frjálslynda hugmynd um þegnrétt byggist á hugmyndum Grikkja um tvískiptingu samfélagsins í tvö svið; almenna sviðið og einkasviðið, og tilheyrðu karla því fyrrnefnda en konur því síðarnefnda. Að sama skapi helst hugmyndin um þegnrétt í hendur við hugmyndina um einsleitni og líkindi meðal þegna þjóðríkis, þeir voru jú karlarnir sem tilheyrðu hinu almenna og þar af leiðandi var ekki gert ráð fyrir mismun á meðal þegnrétta (Gústafsdóttir 2016:62).

Hér er það mismunurinn sem vekur athygli en í frumvarpinu er einmitt ekki gert ráð fyrir kynjamismun eins og áður hefur verið tæpt á. Við útilokun kvenna frá þegnrétti hafa komið tvennskonar viðbrögð; að krefjast kynhlutlauss þegnréttar annarsvegar og hinsvegar að forsendur þegnréttar séu endurskoðaðar með tilliti til sérstöðu kvenna og að þær fái kynjamismuninn viðurkenndan (Gústafsdóttir 2016:64). Eins og Guðný Gústafsdóttir færir rök fyrir býður síðarnefnda krafan upp á að fallið sé í gryfju eðlishyggjunnar. En rétt eins og hún bendir á þá hefur lagasetning sem tekur ekki tillit til mismunar kynjanna ekki leitt til fulls þegnréttar, líkt og íslensk þjóðfélag er gott dæmi um; meðal annara dæma hefur 100 ára kosningaréttur ekki leitt til jafnrar stjórnmálaþáttöku kynjanna. Að sama skapi er ekki hægt að horfa fram hjá kynjabreytunni og þá sérstaklega ekki í lagasetningu (Gústafsdóttir 2016:66).

Á tuttugustu öld hvíldi þegnréttur kvenna á forsendum húsmóðurhugmyndafræðinnar og vann hann gegn yfirlýstum markmiðum nýfenginna réttinda með því að beina „virkni kvenna og gerendahæfni í tiltekinn farveg“. Eins og Þorgerður Einarsdóttir hefur bent á hefur þessi hugmynd í dag vikið fyrir hugmyndinni um að „konur hafi frjálst val um hlutverk sín í lífinu“, þ.e. hugmyndinni um óheft frelsi nýfrjálshyggjunnar. Sú hugmynd „horfir hins vegar fram hjá kerfislægum en ósýnilegum hindrunum, þeim menningarbundnu hugmyndum sem veita möguleikum og tækifærum í tiltekinn farveg. Ríkjandi kynjamynstur sýnir í reynd að hinar ýmsu leiðir eru misjafnlega greiðfærar“ (Einarsdóttir 2010:42).

Með því að draga hulu yfir jafnmikilvægan þátt og kynjabreytuna í frumvarpinu er því grafið undan þegnrétti kvenna og má segja að hér varpi málshefjendur ljósi á það hverjir séu í raun fullgildir þegnar íslensks samfélags. Þetta vandamál sem framsetning frumvarpsins varpar ljósi á endurspeglar eitt stærsta og rótgrónasta vandamál lýðræðisríkja sem byggja á hugmyndum um almenn mannréttindi, það er að ekki er gert ráð fyrir margbreytileika mannlegs samfélags. Í stað þess að byggja á orðræðu sem gefur sér að tálmun sé „alþekkt og algeng[t]“ fyrirbæri væri nær að rannsaka þekkingarfræðilegar forsendur tálmunar. Hvað er tálmun, af hverju er henni beitt og hverjir beita henni? Hér er um að ræða illa ígrundað og hroðvirknislega unnið frumvarp þar sem hvorki er horft til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja varðandi fjölda barna sem búa hjá foreldrum af hvoru kyni né upplýsinga um lyktir mála sem komið hafa upp undir núgildandi löggjöf. Reyndar er það hin mesta furða að það skyldi fá viðlíka umfjöllun eins og raun ber vitni.

Upphafsorð þessarar greinar, þar sem vitnað er í kenningar Söndru Harding, eiga vel við og fellur frumvarpið að þeim eins og flís við rass; hlutleysið eflir hagsmuni ráðandi hópa og gerir það að verkum að hugtakaramminn nýtist ekki til að greina mikilvæg vandamál félagslegra tengsla. Frumvarpið er þannig ekki til þess fallið að bæta hag barna og hagsmunir barna eru ekki í forgrunni heldur er hagsmunum örfárra karla hampað á kostnað barna um leið og gengið er á þegnrétt kvenna.

 

 

Heimildir:

Barnalög nr. 76/2003. (án dags.). Sótt 9. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2003076.html
Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002 (refsing við tálmun eða takmörkun á umgengni). (án dags.). Sótt 9. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/altext/146/s/0559.html
Guðný Gústafsdóttir. (2016). Mediated through the mainstream: Image(s) of Femininity and Citizenship in Contemporary Iceland 1980-2000. Háskóli Íslands, Faculty of Political Science. Reykjavík: Háskólaprent ehf.
Harding, S. G. (2009). The Feminist Standpoint Theory Reader: Intellectual and Political Controversies. London: Ruthledge.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2004). Karlmennska og jafnréttisuppeldi. Reykjavík: Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum.
Kvennaathvarfið. (2016). Ársskýrsla kvennaathvarfsins 2015. Reykjavík: Samtök um kvennaathvarf. Sótt 13. apríl 2017 frá http://www.kvennaathvarf.is/media/arsskyrslur/SUK-2015.pdf
Mendes, K. (2012). ‘Feminism rules! Now, where’s my swimsuit?’. Media, culture & society, 554–570. doi:DOI: 10.1177/0163443712442701
Pomerantz, S., Raby, R., & Stefanic, A. (2. april 2013). Girls run the world? (Print, Ritstj.) Gender & Society, 185-207. doi:DOI: 10.1177/0891243212473199
Stígamót. (2017). Ársskýrsla Stígamóta 2016. Reykjavík: Stígamót. Sótt 11. apríl 2017 frá Stígamót: https://www.stigamot.is/static/files/arsskyrslur/stigamot-arsskyrsla-2016-loka.pdf
Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn um úrskurði um umgengni barna við umgengnisforeldra. (4. apríl 2017). Sótt 11. apríl 2017 frá Alþingi: http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=172
Þorgerður Einarsdóttir. (2012). Kreppur og kerfishrun í ljósi kyngerva og þegnréttar. Íslenska þjóðfélagið. Tímarit Félagsfræðingafélags Íslands.
Þorgerður H. Þorvaldsdóttir. (1997). „Gender“ sem greiningartæki í sögu. Íslenska söguþingið. Ráðstefnurit II, 28-31.

Ein athugasemd við “Tálmunarfrumvarpið og þegnréttur kvenna

  1. Auðvitað er ekki hægt að gera þær kröfur að a) réttur barna til beggja foreldra og b) að lögbundinn réttur foreldra til þess að fá að umgangast börn sín, sem fengist hefur annað hvort með dómi eða samkomulagi, séu virtir á meðan ekki er búið „að rannsaka þekkingarfræðilegar forsendur tálmunar“ til þrautar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.