Höfundur: Ingibjörg Eir Einarsdóttir
Þann 16 maí 2017 skrifaði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins greinina „Leikskóli frá níu mánaða aldri“ í Morgunblaðið og á vefsíðu samtaka atvinnulífsins. Í þessari grein telur Halldór að jafna megi stöðu kynjanna á vinnumarkaði með því að setja börn á leikskóla frá þeim tíma sem fæðingarorlofið endar. Hann skrifar: „Örugg dagvistunarúrræði frá níu mánaða aldri eru sennilega öflugasta verkfæri samfélagsins gegn launamun kynjanna”. Jafnframt leggur hann til að skorið verði niður í fjárframlögum til annarra málaflokka til að standa straum af kostnaði við byggingu og reksturs dagvistunarheimila fyrir yngri börn. Sem svar við grein Halldórs skrifar Elín Björg Jónsdóttir í Vísi 25.5.2017: „Það er miður að eina lausnin sem samtökin [atvinnulífsins] koma auga á sé að setja níu mánaða gömul börn á leikskóla í stað þess að styðja augljósar leiðir til að lengja þann tíma sem ungabörn fá með foreldrum sínum í fæðingarorlofi“.
Ég vil taka undir með Elínu. Eins og á hinum Norðurlöndunum ættu það að vera skýlaus réttindi barna að fá að njóta samvista við foreldra sína í að minnsta kosti eitt ár og að kostnaður sem því fylgir sé greiddur úr sameiginlegum sjóðum. Það er góð leið til að skapa mannúðlegra og réttlátara samfélag. Ekki ætti að þurfa að stilla einum hópi borgara upp á móti öðrum, með niðurskurði á annarri þjónustu til að ná því markmiði. Ríkið hefur ýmsa möguleika til að auka tekjur sínar, sem ekki verður farið út í hér.
Ísland hefur stysta fæðingarorlof á Norðurlöndunum. Í stuttu máli eru reglurnar þannig að móðir getur tekið barnsburðarleyfi í 3 mánuði, faðir í 3 og þremur mánuðum geta þau skipt að vild. Samtals fá foreldrar á Íslandi 9 mánaða fæðingarorlof með 80% greiðslum af meðaltali heildarlauna en 500,000 kr á mánuði sem hámarksgreiðslu. Heimilt er að lengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu eða á meðgöngu. Í grein Elínar kemur fram að þeir karlmenn sem taka barnseignarleyfi (það gera 3 af hverjum fjórum) taka að meðaltali 2.5 mánaða leyfi og konurnar 6 mánuði. Yfirleitt eru börn 12 til 15 mánaða gömul þegar að þau komast í pössun hjá dagmæðrum eða á leikskóla og þessa 3 til 8 mánuði sem vantar upp á fæðingarorlofið verða foreldrarnir, yfirleitt mæðurnar, að brúa með kauplausu umönnunarleyfi. Fæðingarorlofið er hægt að framlengja um allt að sjö mánuði vegna alvarlegs sjúkleika barns eða fötlunar. Ekkert fæðingarorlof er greitt við tilfallandi veikindi barna (hlaupabólu, eyrnabólgu eða flensu).
Til samanburðar fá foreldrar í Danmörku, Noregi og Finnlandi 12 mánaða foreldraorlof. Þar af er sá tími sem er bundinn við föður, hálfur mánuður í Danmörku, tæpir tveir mánuðir í Finnlandi og þrír og hálfur mánuður í Noregi. Í Svíþjóð, sem er komið lengst í heiminum í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna, og þar sem ég þekki best til, fá foreldrar lengst orlof á öllum Norðurlöndunum, eða16 mánuði. Þar af eru 3 mánuðir bundnir við móðurina, 3 við föðurinn og 10 mánuðum fá þau að ráðstafa að eigin vild. Foreldrarnir halda 80% af launum sínum, en fá að hámarki um 11,000 íslenskar krónur á dag í 13 mánuði, og svo lækka greiðslurnar þangað til þær eru um 2,000 íslenskar krónur á dag síðustu 3 mánuðina. Hægt er að spara daga og taka út hluta af fæðingarorlofi þar til barnið er 12 ára gamalt, en í mesta lagi er hægt að spara 96 daga eftir fjögurra ára aldur. Á Íslandi fellur réttur foreldra til fæðingarorlofs niður við 24 mánaða aldur barns. Þar að auki hafa sænskir foreldrar mjög örlát fjárhagsleg réttindi til að vera heima með veikt barn fram að átján ára aldri. Þau fá 80% af launum í allt upp að 120 daga á ári og foreldrar með mjög veik börn fá ótakmarkaðan dagafjölda. Sömu reglur gilda sé móðir í likamlega erfiðri vinnu á meðan á meðgöngu stendur eða við veikindi tengd meðgöngu. Sænskir foreldrar hafa rétt á styttru vinnutíma í allt að fjórðungi eftir barneignarleyfið.
Öll Norðurlöndin, að Íslandi meðtöldu, hafa mun betra fæðingarorlof en flest önnur Evrópulönd. Samkvæmt EU reglum frá 2010, sem gilda líka í EES löndunum, hafa foreldrar rétt á fjögurra mánaða fæðingarorlofi, með einn mánuð bundinn við annað foreldrið. Að auki hafa foreldrar óskoraðan rétt til að koma tilbaka í sömu vinnu með sömu verkefni og áður. Ekki má segja þeim upp eftir leyfið, né færa þau í lægri stöðu. Foreldrar geta einnig farið fram á breyttan vinnutíma í samráði við vinnuveitendur. Mörg Evrópulönd hafa þurft að rýmka löggjafir sínar til að framfylgja þessari reglugerð, sem á skandinavískan mælikvarða þykir mjög íhaldssöm. Í Suður- og Austur-Evrópu hafa margar konur valið að eiga fá börn vegna lélegra hlunninda eftir barnsburð. Má þar nefna að fæðingartíðni á Spáni, Portúgal, Ítalíu, Möltu, Grikklandi og Póllandi eru 1,2 til 1,4 börn á hverja konu á meðan að í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, á Færeyjum og á Íslandi er fæðingartíðnin 1,7 til 2,4 börn á hverja konu. Þó að fæðingartíðni á Íslandi og í Sviþjóð sé hin sama (1.9 börn á hverja konu), búa íslenskir foreldrar við mun lélegri skilyrði, bæði hvað varðar lengd fæðingarorlofs og möguleika á að vera heima með veik börn. Það er brýn nauðsyn að lengja fæðingarorlofið á Íslandi í samræmi við hin Norðurlöndin.
Tilraunir hafa verið gerðar til að lengja fæðingarorlof á Íslandi. Árið 2015 lagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, ásamt fleirum, fram frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og og foreldraorlof frá árinu 2000. Á þeim tíma voru mánaðarlegar hámarksgreiðslur 370,000 kr. Samkvæmt því frumvarpi hefði hvort foreldri um sig átt rétt á fimm mánuðum og tveimur mánuðum sameiginlega, samtals 12 mánuðum. Hámarksgreiðslu yrðu hækkaðar í 500,000 kr á mánuði. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. Athyglisverðar upplýsingar komu fram í greinagerð sem fylgir þessu frumvarpi og vil ég vitna beint í eftirfarandi: „Í árslok 2012 voru samþykkt lög nr. 143/2012 um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið var á um lengingu fæðingarorlofs úr samtals níu mánuðum í tólf mánuði og átti lenging að hefjast frá og með 1. janúar 2014 og taka að fullu gildi frá og með 1. janúar 2016.” Þetta var í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. „Þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum í maí 2013 breyttist forgangsröðun í ríkisfjármálum. Í árslok 2013 voru samþykkt lög nr. 140/2013 um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem fólu m.a. í sér að fallið var frá því að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði.“
Í ágúst 2016 lagði þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, fram frumvarp um breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi til umsagnar til alþingis. Frumvarpið byggði á tillögum starfshóps, sem ráðherra hafði skipað tveimur árum áður. Á heimasíðu Velferðaráðuneytisins segir: „Helstu markmið þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu eru að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína, jafnframt því að gera foreldrum betur kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.” Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að fæðingarorlof yrði lengt í áföngum úr níu í tólf mánuði og að hámarksgreiðslur hækkuðu í 600,000 kr. á mánuði. Þetta frumvarp varð ekki að lögum.
Eftir hrun 2008 voru fæðingarorlofsgreiðslur lækkaðar til að veita auknu fjármagni í atvinnuleysisbætur og lágmarksgreiðslur almannatrygginga. Í október 2016 samþykkti ríkisstjórnin hækkun hámarksgreiðslna foreldraorlofs úr kr. 370,000 í 500,000 krónur. Þær breytingar tóku gildi viku síðar. Greiðslurnar eru nú hærri en í Svíþjóð og Danmörku, en lægri en í Noregi.
Eftir stendur að lengja þarf fæðingarorlof í að minnsta kosti 12 mánuði til að ná sömu lífsgæðum fyrir nýbakaða foreldra á Íslandi og er hjá þeim á hinum Norðurlöndunum og til að auka jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með því að brúa bilið milli núverandi fæðingarorlofs og dagvistunar má auka þátttöku feðra í uppeldi barna sinna. Það liggur í augum uppi að það er tekjulægra foreldrið sem neyðist til að taka launalaust leyfi og í flestum tilfellum í gagnkynhneigðum samböndum, er það konan. Lenging fæðingarorlofs stuðlar að jafnrétti kynjanna.
Heimildir:
Grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar: http://www.sa.is/frettatengt/frettir/leikskoli-fra-niu-manada-aldri
Grein Elínar Bjargar Jónsdóttur: http://www.visir.is/g/2017170529431
Upplýsingar um fæðingarorlof á Íslandi eru fengnar á vefsíðu fæðingarorlofssjóðs: http://www.faedingarorlof.is/rettur-foreldra-til-greidslna-ur-faedingarorlofssjodi/
Upplýsingar um fæðingartíðni: http://data.worldbank.org/indicator/SP.DYN.TFRT.IN
Upplýsingar um fæðingarorlof Norðurlandanna eru fengnar á vefsíðum tryggingastofnana viðkomandi landa.
Upplýsingar um fæðingarorlof EU eru fengnar á vefsíðu EU
Frumvarp Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og fleiri 2015 http://www.althingi.is/altext/145/s/0288.html
Frumvarp um breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi til umsagnar 2016: https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/frumvarp-um-breytingar-a-faedingar-og-foreldraorlofi-til-umsagnar
Hækkun fæðingarorlofs 2016 https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/hamarksgreidsla-i-faedingarorlofi-haekkar-i-500000-kr-a-manudi