Rétta tegundin?

Höfundur: Hrafnhildur Anna Björnsdóttir

Grein Snæbjörns Ragnarssonar í Stundinni í gær vakti mikla athygli og umræður. Hrafnhildur Anna Björnsdóttir lagði þessi orð í belg á Facebook í gærkvöldi:

Í samtali við góðkunningja minn um daginn átti ég samtal um femínisma sem fékk mig til að hugleiða birtingamynd femínismans í heimi karlmanna, og sumra kvenna.

Án þess að draga fram sérstaklega samhengi þessa samtals þá benti hann mér vinsamlega á að ég væri ekki svona “social justice warrior”, þrátt fyrir að ég væri aktívisti.
Ég hef ekki enþá náð að negla hvað “social justice warrior” er í þessu samhengi, en upplifi sem svo að kvenkyns “social justice warrior” í heimi femínismans megi þýða sem einhverskonar “öfgafemínisti” á íslenskunni.
Þessi kunningi minn ætlaði þetta sem hrós, svo mikið var víst. Það var vinsamleg ábending um að ég væri “rétt tegund af aktívista” sem “væri með penlega mikil læti” líklegast fyrir “rétta málstaðinn”.

Mín upplifun sem femínsti er sem svo að því háværari sem ég er því meiri mótbyr mætir mér. Það stuðar mig ekkert sérstaklega, en ég trúi því að ég hafi aldrei beðið kosmósinn eða samfélagið mitt um neitt sem ætti ekki að öllu jöfnu að vera sjálfsagður réttur minn sem persóna og partur af samfélaginu. Mótbyrinn lýt ég á sem einhverskonar fæðingarhrýðir áður en takmarkinu er náð.

Því meiri sem mótbyrinn er og gagnrýninn því lengra hef ég, og aðrir femínistar, þurft að ganga. Það er oftast í formi rökræðna en oftar og oftar verður til hreyfing í þessum drullupoll internetsins þar sem ljós kviknar, hópurinn læsir saman olnbogum og tekur skrefið lengra. Frelsar geirvörtuna. Beautytips byltingin. Halda Druslugöngu. Gjörningar. Þið þekkið þetta alltsaman.

Og samfélagið og heimurinn öskrar. Við verðum öfgafemínistar. Social justice warriors. Við verðum yfirþyrmandi og við verðum óvinir. Við erum að hræra í norminu og það er átakanlegt. Plástrar af sárum áralangrar niðurlægingar og þöggunar rifna af og gröfturinn vellur í allar áttir. Á sama tíma og sárin eru öllum augljós neitar stór hópur að taka ábyrgð á þeim. Samtök eins og “meninists” fæðist og hópurinn maldar í móinn með “ekki allir menn”. Konur sem þykjast aldrei hafa upplifað kynjaskiptan mun í samfélaginu fussa yfir kynsystrum sínum og karlmenn grípa það sem viðurkenningu á því að sárin séu ekki raunveruleg eða stærð og dýpt þeirra hreinlega ýkt. Þar af leiðandi virðist háværi femínistinn óþarfur og gjörningurinn asnalegur. “Venjulegar konur” sem sammælast “venjulegum mönnum” um að allir eigi að vera vinir verða einhverskonar “baseline” og allt umfram það verður of mikið.

Fermínísk plássfrekja

Í þessum heimi verður til hugmyndafræði sem er “rétt tegund af femínisma” sem hópurinn sem upplifir meiri óþægindi en skilning fyrir femíniskri plássfrekju býr sér til til að jafna út tilfinningarnar sínar. Þær tilfinningar eru einhver blanda af því að vita og viðurkenna að konur eigi að standa jöfnum fæti við karlmenn en á sama tíma finnast aðferðafræðin að því takmarki óþæginleg og jafnvel vandræðaleg. Femínistar sem leggja minni orku í eða hafa minni tíma fyrir aktívismann fá klapp á bakið. “Þú ert ekki svona social justice warrior”. Ég verð þægilegur femínsmi að díla við.

Kæri vinur. Þú hefur rangt fyrir þér og hrósið þitt er svo sannarlega ekki hrós. Það er vanþekking á stöðu minni sem kona og stöðu minni sem yfirlýstur femínisti. Ég nærist á aktívisma kynsystra minn sem hafa úthald í harkið sem það er að takast á við sóðalegu graftargrysjuna sem fylgir þessum viðbjóð sem rökræðan er. Það er ekkert þægilegt við að upplifa sig og kynsystur sínar sem annars flokks á fjölmörgum stigum samfélagsins. Kynbundið misrétti er ekki þægilegt fyrir neina nema þá sem það hefur engin áhrif á. Að sjálfsögðu verður baráttan óþægileg fyrir þann hóp þegar þeim er bent á að mögulega sé vanþekking þeirra og skilningsleysi á vandamálinu stór hluti þessa tiltekna vandamáls. Skiljanlega hugsar þú vinur minn “já en ég gerði ekkert af mér”.

Nei, líklegast fórstu ekki frammúr í morgun með það að leiðarljósi að viðhalda kynbundnu misrétti. Þú ert ekki fáviti. Hinsvegar breytir það því ekki að við erum öll tannhjól í sömu vélinni og þú ert einn af þeim ryðguðu og ósmurðu í þessu samhengi. Á meðan þú neitar að horfast í augu við það að gera ekki neitt er vandamál eitt og sér þá hefur þú ekki rétt á að segja mér hvað og hvernig ég tala og tekst á við vandamálið. Þangað til þú skilur að vandamálið er ekki mitt heldur okkar getum við ekki rætt það sem jafningjar.

Mig dreymir ekki um heim þar sem þú þarft að beygja þig fyrir mér sem konu. Ég sækist ekki eftir því að þú neyðist til að horfa upp til mín sem konu. Gefir mér aukið credit fyrir það eitt að vera kona. Ég ætlast ekki til þess að fá hærri laun einfaldlega því ég er kona. Ég ætlast ekki til þess að ég megi berja þig því ég er kona.

Minn heimur:

En kæri vinur minn. Ég bý í heimi þar sem konur þurfa að beygja sig fyrir karlmönnum. Ég bý í heimi þar sem konur neyðast til að horfa upp til karlmanna, þar sem karlmann fá credit umfram mig fyrir það eitt að vera karlmenn. Ég bý í heimi þar sem karlmenn fá meira borgað en ég. Ég bý í heimi þar sem karlmenn berja konur og konur bera ábyrgðina.

Er til of mikils ætlast að við verðum jafnir leikmenn þarna?
Er vandamálið ekki augljóst? Er undarlegt að kona eins og ég sé með læti því ég og kynsystur mínar búum við þennan raunveruleika? Ég þarf hjálp þína. Ég þarf að þú skiljir raunveruleikann minn og skiljir hversvegna ég er aktívisti. Ég þarf að þú skiljir að þessi bardagi er ekki þægilegur fyrir hvorugt okkar. Það vinnur enginn þegar konur eru underdogs í heiminum.

Ég er svo lánsöm að ég upplifi þetta í margfalt minna magni en margar kynsystur mínar. Það þýðir þó ekki að bardaginn minn sé unninn eða búinn. Það þýðir einfaldlega að ég er í forréttindastöðu sem kona og hef aukin tækifæri og meira rými til að takast á við vandamálið annarstaðar eða fyrir hönd þeirra sem geta það ekki sjálfar.

Það er ekki neitt sem heitir “rétt tegund af femínista”. Ég tek ofan fyrir öllu því fólki sem mætir mótbyrnum af öllu afli alla daga og tekur við holskeflu af mótlæti fyrir það eitt að benda á gröftinn í sárinu. Það er ógeðslega leiðinlegur bardagi. En hann er nauðsynlegur

– og hann er ekki að fara neitt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.