Fótboltanöfnin okkar

Höfundur: Brynhildur Björnsdóttir

„Við verðum verðum verðum verðum verðum verðum verðum verðum verðum verðum verðum verðum að hætta að skrifa föðurnöfnin aftan á treyjurnar okkar, „skrifaði Bragi Valdimar í stöðufærslu í gær þegar fótboltalandsleikurinn stóð sem hæst. Og ég gæti ekki verið meira sammála.

Ég heiti Brynhildur og er Björnsdóttir. Ég er kölluð Brynhildur, ekki Björnsdóttir. Fornafnið mitt er það sem ég kynni mig með, eftirnafnið greinir mig frá öðrum Brynhildum og tengir mig við fornafnið hans pabba míns eins og sumir tengja sig við fornafn mömmu sinnar. Ég hef ekkert ættarnafn sem hefur tengt fjölskylduna saman mann fram af manni og merkt hana fyrir öðrum, tilheyri engu klani sem kennir sig við stað og ber ekki starfsheiti forfeðra minna í marga ættliði eins og tíðkast í öðrum löndum, með ættarnöfnum eins og Baker, Carter og Schneider. Ég er reyndar komin af Axlar-Birni og það væri forvitnilegt að vita hvernig starfsheiti hans hefði lagað sig að nafnahefðum. Brynhildur Fjöldmorð, til dæmis.

NAFNAHEFÐ okkar Íslendinga er frábrugðin nafnahefð flestra annarra og í morgun sá ég langt innslag frá alþjóðlegri fréttaveitu þar sem íslenskar nafnahefðir, já og meira að segja mannanafnanefnd þótti til mikillar fyrirmyndar. Það eru ekki margar þjóðir sem hafa fornöfn í jafnmiklum hávegum og við. Forsetinn heitir Guðni, stundum er Th bætt við. Konan hans heitir Eliza. Fjármálaráðherrann heitir Benedikt, stundum Bensi. Einstöku sinnum er nauðsynlegt að bæta eftirnafninu við, einna helst þegar margir bera sama fornafnið í sama hópi. Björk heitir bara Björk. Bragi Valdimar heitir það. Annars notum við Íslendingar flestir fornöfnin okkar og fornöfn foreldra okkar til að kynna okkur og kalla hvert á annað.

ÉG HEF reyndar verið kölluð Ms Bjornsdottir. Á flugmiðum, hótelbókunum og þegar ég hef pantað eitthvað á netinu. Í öllum tilfellum þegar ég er í samskiptum við útlönd. Ég hef náttúrulega líka
verið kölluð Ms Bjoersdotter, Miss Beonsdotir og útgáfurnar eru fleiri og skrautlegri. Uppáhaldið mitt er Broomhandle Bieourns.

EN ÞAÐ er ekki ég. Brynhildur, það er ég. Íslendingar heita fornafninu sínu og bera eftirnafnið, svo einfalt er það. Ég á eina næstum alnöfnu sem mér er ruglað saman við. Mér finnst það gaman og leiðrétti um leið því hún vinnur allskonar afrek sem ég get ekki eignað mér. Samt er ég alltaf mest Brynhildur og á svo reyndar ýmsar styttingar og gælunöfn sem mér þykir óskaplega vænt um og fáir útvaldir fá að nota.

ÞESS VEGNA varð ég alveg óskaplega glöð þegar ég sá stelpurnar okkar á vellinum í Tampere árið 2009. Glöð yfir þeim, velgengni þeirra, orkunni sem stafaði af þeim, treyjunum sem þær klæddust og síðast en ekki síst: nöfnunum þeirra. Hólmfríður í staðinn fyrir Magnusdottir, Margrét Lára í staðinn fyrir Vidarsdottir. Og ég hefði alveg viljað sjá Fanndísi, Glódísi Perlu, Sif og Dagnýju og allar hinar merktar með fornöfnunum sínum í gær. Nöfnin sem við, aðdáendur þeirra, þekkjum þær með, skrifuð á íslensku með íslenskum stöfum þegar þess þarf. Íslensk hefð, íslenskar stelpur, flottastar í heimi, ekkert síður nú en þá.

Greinin er byggð á Bakþönkum frá árinu 2009 þegar stelpurnar okkar fóru á EM í Tampere í Finnlandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.