Um úttekt á vinnuumhverfi Stígamóta

Höfundur: Steinunn Gyðu-og Guðjónsdóttir

Knúzið leitaði til Stígamóta og óskaði eftir því að við skýrðum betur hvað fólst í úttektinni sem gerð var nýlega á vinnustaðnum og hvernig ákveðið var hverjir tækju þátt í matinu. Við þökkum kærlega fyrir fyrirspurnina og gerum hér nánari grein fyrir þeirri vinnu sem fram fór.

Við umræðuna um einelti á Stígamótum vöknuðu spurningar hjá okkur um hvort það væri mögulega tilfellið að óheilbrigð vinnustaðamenning hefði þróast hjá okkur sem einkenndist af þöggun, meðvirkni og slæmum samskiptum. Því þótti okkur nauðsynlegt að láta gera hlutlausa, faglega úttekt á vinnustaðnum svo allt starfsfólk Stígamóta fengi tækifæri til að tjá sig nafnlaust og í trúnaði um eigin líðan og upplifun af vinnunni á Stígamótum. Aðeins þannig væri hægt að leggja mat á hvort valdníðsla og kúgun væri eitthvað sem einkenndi samskipti samstarfsfólks.

Leitað var til þeirra aðila sem eru á lista Vinnueftirlitsins yfir viðurkennda aðila til að gera úttektir af þessu tagi. Forvarnir ehf, sem leitt er af Ólafi Ævarssyni geðlækni, tók verkefnið að sér en þau búa yfir áratuga reynslu af vinnuverndartengdum málum. Sérfræðingar Forvarna hafa hannað aðferð til þess að framkvæma sálfélagslegt áhættumat þar sem allar upplýsingar eru ónafngreindar og öruggt að þær eru ekki persónugreinanlegar í úrvinnsluferlinu. Þetta tryggir trúnað og kemur í veg fyrir þöggun.

Við höfum áður birt samantekt á niðurstöðum matsins og skýrsluna í heild sinni má finna á heimasíðunni okkar. Í stuttu máli voru niðurstöðurnar þær að núverandi starfsfólki Stígamóta líður vel í vinnunni, er ánægt með stjórnun og finnst á það hlustað. Samstaða, sveigjanleiki og góður starfsandi einkennir vinnuumhverfið. Að sjálfsögðu stöndum við einnig frammi fyrir áskorunum eins og talsverðu starfsálagi, nokkurri streitu og að finna jafnvægi milli starfs og einkalífs, en öll þessi atriði höfðu að gera með eðli starfsins fremur en samskipti starfsfólks. Niðurstöður matsins endurspegluðu því það sem áður hafði komið fram í samtölum starfshópsins um að traust, trúnaður og starfsgleði einkenndi samstarf hópsins.

Ekki aðili málsins

Eftir stendur spurningin af hverju ekki var leitað til þeirra kvenna sem segja farir sínar ekki sléttar í störfum fyrir Stígamót þegar úttektin var gerð. Meginástæðan er sú að fagaðilar sem haft var samband við, þ.e. Vinnueftirlitið og vinnustaðasálfræðingar mæltu með því að skoða stöðuna á vinnustaðnum eins og hún er í dag, því markmiðið væri að kanna hvort á vinnustaðnum væru aðstæður sem gætu leitt til eineltis. Á heimasíðu Vinnueftirlitsins kemur fram að í ferli svona mála þar sem starfsmaðurinn sem taldi á sér brotið er hættur störfum er viðkomandi ekki aðili málsins, en þó geti kvörtun hans leitt til mikilvægra úrbóta á starfsstaðnum. Hér var því ekki um rannsókn eða úrskurð að ræða, enda á slíkt heima hjá þar til bærum yfirvöldum, heldur skoðun á því hvort verið væri að viðhalda aðstæðum þar sem einelti og ofbeldi þrífst.

Í ljósi yfirlýsingar níu kvenna sem starfað hafa á vettvangi Stígamóta og sögðust hafa neikvæða upplifun af starfinu þá könnuðum við hvort þær starfskonur sem hætt hafa störfum á Stígamótum á síðustu árum væru í þeim hópi. Frá árinu 2010 hafa sex konur, utan Helgu, horfið til annarra starfa, fjórar þeirra hafa snúið til baka og vinna í dag á Stígamótum en hinar tvær könnuðust ekki við að vera í þessum hópi níu kvenna. Það er því ljóst að sá hópur er skipaður konum sem störfuðu á vettvangi Stígamóta fyrir hartnær áratug eða lengra síðan. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum tíma og starfsemi Stígamóta þróast og breyst, því fannst okkur það heldur langt seilst að sækjast eftir sjónarmiðum kvenna sem komu að starfinu fyrir árum og jafnvel áratugum síðan. Leiðbeiningum fagaðila var því framfylgt í einu og öllu og úttektin gerð á starfsumhverfinu eins og það er í dag.

Við viljum læra af þessu máli og halda áfram að bæta okkur. Nú stendur yfir vinna við forvarnaáætlun um aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi sem bæði inniheldur skýrar leiðbeiningar um hvað skuli gera ef slíkt kemur upp en einnig fræðslu um streitu, forvarnir og samskipti til að tryggja heilbrigt starfsumhverfi.

Fyrir hönd stjórnar og starfshóps Stígamóta,

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

2 athugasemdir við “Um úttekt á vinnuumhverfi Stígamóta

  1. Það er eitthvað mjög skrýtið við þessa varnarræðu. Það átti semsagt ekki að tala við fyrrverandi starfsfólk en samt var það gert eins og hentaði og vísað í þau samtöl í greininni til að styrkja vörnina („hinar tvær könnuðust ekki við að vera í þessum hópi níu kvenna“). Ekki er talað við brotaþolann af því að: „Á heimasíðu Vinnueftirlitsins kemur fram að í ferli svona mála þar sem starfsmaðurinn sem taldi á sér brotið er hættur störfum er viðkomandi ekki aðili málsins…“ !! Hverskonar málflutningur er þetta? Ekki má gleyma því að fyrstu viðbrögð Stígamóta voru ekki þau að leita til Vinnueftirlitsins eða annarra heldur að skella fram yfirlýsingu þar sem málflutningur brotaþola var dreginn í efa. Í þessari grein er reynt að draga úr vægi níumenningana og einangra brotaþola. Í mörg ár hef ég farið með skólahópa í heimsókn til Stígamóta og borið ómælda virðingu fyrir starfseminni þar en þessi viðbrögð stjórnar og starfsfólks samtakanna hafa dregið verulega úr þeirri virðingu.

  2. Mikil vonbrigði með framkomu Stigamotakvenna Það er ekki gott að vera a vinnustað þar sem þu att von a orettmætum reiðilestri fra þeirri konu sem alitur sig oskeikula Eg hef vitað þetta i mörg ar og nu er mal að hreinsa til Það er ekki rettlatt að folk se baðum megin borðsins og ransaki sjalft sina aðkomu a þessu mali

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.