Höfum hátt. Lifi ljósið!

Höfundur: Hulda Hólmkelsdóttir

Góðan dag fallega samkoma og gleðilega hátíð.
Byrjum á því að fara saman í lauflétta ferð tvö ár aftur í tímann. Þá birtust nektarmyndir af söngvaranum Justin Bieber sem teknar voru þar sem hann var í fríi. Ljósmyndarinn var augljóslega langt í burtu.
Mig langar að framkvæma smá könnun og bið ykkur að vera alveg hreinskilin, hér eru allir saman í liði.

Rétt upp hönd þeir sem sáu nektarmyndirnar af Justin Bieber?

„Mín fyrstu viðbrögð voru:  Hvernig geta þeir gert þetta? Mér finnst að brotið hafi verið á mér. Mér finnst ég ekki geta farið út eða farið út nakinn. Manni á að líða vel í sínu eigin rými, sérstaklega úr þessari fjarlægð“

Þetta var það sem Justin Bieber hafði um málið að segja.

Næst langar mig að biðja ykkur að treysta og framkvæma með mér aðra svona litla könnun.

Mig langar að biðja alla hér sem hafa á einhverjum tímapunkti yfir ævina, tekið af sér nektarmynd eða annað kynferðislegt efni, jafnvel þó enginn annar hafi fengið að sjá það, að rétta upp hönd.

Ég leyfi mér að efast um að allir sem réttu upp hönd hafi lent í því að nektarmyndum eða kynferðislegu efni hafi verið dreift án samþykkis. Ég leyfi mér að efast um það einfaldlega vegna þess að ég hef sjálf aldrei lent í því.
Þegar ég sendi manni af mér nektarmynd þá vissi ég nákvæmlega hver áhættan var sem fylgdi. Ég vissi hvaða afleiðingar það gæti haft. Ég hef horft upp á manneskju breytast í skuggann af sjálfri sér vegna afleiðinganna sem fylgja stafrænu kynferðisofbeldi. Samt gerði ég það.

Nektarmyndir

eða kynferðislegt efni eru ekki eitthvað sem fæddist með klámkynslóðinni. Nektarmyndir eru eldri en nútímasamfélag. Fólk risti nekt í stein og úr urðu hellismyndir. Nekt er mannleg, eðlileg og ekkert til að skammast sín fyrir. Vandamálið sem við horfumst í augu við er ekki af því allir eru núna með aðgang að Snapchat. Nektarmyndir og myndefni hefur fengið dreifingu eins og herpes síðan internetið varð til.
Sexting er, á tölvuöld, orðið eðlilegur og stundum daglegur hluti af tilhugalífi fólks. Oft er fólk í sambandi með einstakling sem býr ekki í sama landi, kannski var makinn í útlöndum, eða kannski var bara einhver sæt manneskja sem heillaði.
En við höfum, með þessari litlu tilraun hér í dag sannað að myndirnar sjálfar eru ekki vandamálið. Það er dreifing mynda og myndefnis án samþykkis fólks sem er skaðandi. Sama hver birtingarmyndin er.

Það er auðvelt og jafnvel mannlegt að verða forvitinn þegar umræða sprettur upp um slíkt myndefni í dreifingu. Fyrr á þessu ári bárust fréttir af því að dreifing kynlífsmyndbands sem tekið var upp á salerninu á skemmtistaðnum Austur væri til rannsóknar hjá lögreglu. Mál sem þessi vekja undrun fólks og misjöfn viðbrögð.

“Hvernig er fólk svona heimskt? Ef fólk er að stunda kynlíf á almannafæri þá má það alveg kenna sjálfu sér um? Af hverju má ég ekki horfa á þetta? það eru allir búnir að sjá þetta?”

Þetta voru spurningar sem vöknuðu hjá mörgum. En hver hefur ekki gert eitthvað heimskulegt um ævina? Hvar liggur línan? Liggur línan í skemmtistaðasleik? Liggur hún í ástaratlotum í íslenskri náttúru á bjartri sumarnóttu? Hvenær hættum við að bera virðingu fyrir einkalífi annarra og sjálfræði þeirra yfir líkömum sínum?

Hvenær hættum við að segja “Þú getur sjálfum þér um kennt?“
Fjölmargar rannsóknir sýna að kynin taki af sér nektarmyndir eða kynferðislegt efni í jafn miklum mæli, karlmenn jafnvel oftar en konur. Nektarmyndir af körlum fara líka í dreifingu. Þrátt fyrir það eru konur meirihluti þolenda í stafrænum kynferðisofbeldismálum. Það er hluti af enn rótgrónara vandamáli í okkar samfélagi. Vandamáli sem átök eins og druslugangan eiga þátt í að uppræta.
Það er ekki á okkar ábyrgð sem samfélag að segja fólki hvað það megi og megi ekki gera með eigin líkama, svo fremi sem það skaðar ekki aðra. Enginn getur bannað fólki að skiptast á nektarmyndum eða stunda kynlíf í gegnum netið. Það er hins vegar á okkar ábyrgð hvernig við bregðumst við því þegar brotið er á fólki. Hvort við ætlum að smána einstaklinginn, smætta hann niður þangað til hann er ekkert nema nakinn líkami, opinberaður í leyfisleysi.
Það er á okkar ábyrgð hvort við sitjum hjá og leyfum því að tíðkast að nektarmyndir af fólki séu notaðar eins og fótboltaspjöld.

Netið gleymir engu

Það sem gerir stafrænt kynferðisofbeldi frábrugðið öðrum tegundum kynferðisofbeldis er að það getur dúkkað upp aftur og aftur og aftur og aftur. Internetið gleymir engu. Tökum dæmi. Tinna Ingólfsdóttir opinberaði sína reynslu af stafrænu kynferðisofbeldi í apríl árið 2014. Hún var bráðkvödd mánuði seinna. Ég er enn að fá ábendingar um að nafnlaust og andlitslaust fólk á netinu sé að óska eftir nektarmyndum af vinkonu minni sem lést fyrir rúmlega þremur árum síðan.

Það er mikilvægt að hafa í huga að allt sem er sagt og skrifað í dag um stafrænt kynferðisofbeldi verður fljótt úrelt. Ofbeldið er þess eðlis að það þróast með tækninni sem breytist hratt. Íslensk löggjöf hefur ekki náð að fylgja tækninni eftir þegar kemur að því að skilgreina ofbeldi sem á sér stað á netinu, hvort sem um er að ræða kynferðisofbeldi eða annars lags ofbeldi.

Við þurfum líka öll að vera á varðbergi. Við þurfum að passa hvað við gerum þegar við fáum nektarmyndir eða kynferðislegt efni sent eða þegar við vitum af slíku efni í dreifingu. Meira að segja ég sem var sérstaklega beðin að ræða við ykkur um hversu skaðleg þessi hegðun er, ég þarf líka að passa mig. Við þurfum að passa að gúggla ekki nektarmyndina af fræga manninum þótt að hún sé í fréttum. Horfa ekki á kynlífsmyndbandið þótt að allir séu að tala um það. Vera meðvituð um hvernig klám við horfum á. Senda ekki nektarmynd nema viðtakandinn vilji fá hana. Vera meðvituð um að á bakvið allt er manneskja af holdi og blóði.

Stafrænt kynferðisofbeldi skilur ekki eftir sig áþreifanlega líkamlega áverka, en afleiðingarnar eru engu að síðar alveg jafn alvarlegar og af öllu öðru ofbeldi.

Höfum hátt. Lifi ljósið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.