SANNLEIKURINN ER SÁ… #höfumhátt

Höfundur: Friðrik Erlingsson

Sannleikurinn er sá að í okkar litla samfélagi fá dólgar og dópdílerar að komast upp með að halda stúlkum og drengjum í ánauð fíknar og neyslu og selja þessi börn í vændi eða gera þau út til innbrota. Sannleikurinn er sá að lögreglan veit og lögmenn vita og fjöldi embættismanna vita vel hverjir þessi menn eru. Þrátt fyrir það virðast dólgarnir búa við algjöra friðhelgi.
Sannleikurinn er sá að stúlkur og drengir sem hafa losnað úr ánauð þessara manna sem vændisþrælar, hafa sagt í viðtölum að kúnnar þeirra hafi verið hátt settir menn, m.a. prestar, þingmenn, embættismenn, forstjórar, lögmenn o.sv.fr.
Í okkar litla samfélagi er ótrúlegt að dólgarnir fái að komast upp með slíkt ofbeldi gagnvart börnum.
Ótrúlegt en satt. 
Það er líka ótrúlegt að í kúnnahópi vændis séu karlar úr svokölluðum „efstu lögum samfélagsins.“
Ótrúlegt en satt.

Um þetta efni hafa verið skrifaðir glæpareyfarar sem seljast í bílförmum, en því miður virðist það ekki hreyfa við nógu mörgum að margt í þessum reyfurum er byggt á raunverulegum kringumstæðum, raunverulegu fólki. Í okkar litla samfélagi vita mjög margir um ótal hluti sem þeir velja að tala ekki um, nema í hvíslingum. Það gengur ekki lengur. Við verðum að hafa hátt, mjög hátt.
Málið sem hæst hefur risið undanfarið, og það með réttu, varpar ljósi inn í sótsvart skúmaskot samfélags okkar. En svo virðist sem samfélagið hafi náð þeim þroska, a.m.k. tímabundið, að það lætur hvorki skömm né þöggun halda aftur af sér, en tjáir sig opinskátt af réttlátri reiði og heilbrigðri hneykslan.
En málið er mun stærra en einn maður og afbrot hans og hin fáfengilega yfirbót sem honum er rétt úr hendri siðblindra yfirvalda; gætum þess að halda þessum eina manni ekki svo fast í brennipunktinum að hin illmennin falli utan sjónsviðsins. Því að í „efstu lögum samfélagsins“ eru karlmenn sem halda hlífiskildi yfir dólgunum sem selja aðgang að börnum, sem halda þeim í viðjum fíknar og græða á því.
Og sé það nú raunin að lögregla og yfirvöld viti vel hverjir þessir menn eru, þá má það teljast með hreinum ólíkindum að þeim sé ekki safnað saman og settir á bakvið lás og slá.
Ótrúlegt en satt.
Getur það verið satt að kerfið hlífi þeim í eiginhagsmunaskyni? Getur það verið satt að karlar innan kerfisins nýti sér þjónustu dólganna og séu þess vegna undir hælnum á þeim?
Sannleikurinn er sá að það er erfitt að treysta kerfi sem lætur það óáreitt að börn hér á landi séu neydd til að stunda vændi. Með alltof vægum dómum í kynferðisbrotamálum hefur dómsvaldið virðislækkað þann skaða sem þolendur verða fyrir og um leið virðislækkað afbrot gerenda. Og í hinu margumtalaða máli, sem mest hefur verið um fjallað að undanförnu, gengur virðislækkun afbrotsins út yfir allan þjófabálk.
Það er ótrúlegt en satt. 

Því hvernig eiga þolendur að rétta æru sína gagnvart sjálfum sér og umhverfinu? Hefur dómsvaldið einhver svör við því? Hversu mörg börn til viðbótar verða ginnt til fíknar, sem mun að lokum leiða þau inn á braut vændis? Og hvar er endastöð þeirra barna sem eru seld og keypt með þessum hætti?
Fæstir ná að endurheimta nokkuð sem hægt er að kalla heilbrigt og eðlilegt líf. Flestir fyrirfara sér. Örfáir einstaklingar ná að byggja sér leið út úr hyldýpi örvæntingar, kvíða, depurðar og skammar og ná fótfestu í lífinu á nýjan leik. En skugginn fylgir þeim samt við hvert fótmál.
Sannleikurinn er sá að samfélagið vill að dólgar og dílerar verði settir á bakvið lás og slá fyrir þau níðingsverk á börnum sem þeir eru ábyrgir fyrir og stuðla beint að.
Því þjáning eins er þjáning okkar allra; ofbeldi gegn einu okkar er ofbeldi gegn okkur öllum og bein árás á hin margumtöluðu gildi, sem við viljum hafa sem grunn að okkar samfélagi – og hreint brot á þeim alþjóðasáttmálum sem við höfum samþykkt að vera aðilar að.
Sannleikurinn er sá, að ef ekkert gerist af hálfu yfirvalda í þessum málum, nú þegar krafan um aðgerðir er hærri en nokkru sinni fyrr, þá mun slíkt aðgerðarleysi staðfesta þann illa grun að dólgarnir séu í raun fleiri og staðsettir mun víðar í okkar litla samfélagi en aðeins í hinum svokölluðu „undirheimum.“
Sannleikurinn virðist semsagt vera sá, að þessir „undirheimar“ nái yfir mun stærra svæði í samfélaginu en okkur óraði fyrir.
Þess vegna þurfum við að halda áfram að hafa hátt, hafa mjög hátt

Ein athugasemd við “SANNLEIKURINN ER SÁ… #höfumhátt

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.