Höfundur: Hedda Lingaas Fossum
Ungir norskir múslimar eru frjálslyndari en kynslóð foreldra þeirra þegar kemur að jafnrétti kynjanna og samkynhneigð, en báðir hópar grundvalla skoðanir sínar með vísan í trúna.

Nancy Herz og Sofia N. Sour teljast til „stúlknanna sem ekki kunna að skammast sín“. Þær hafa hvatt til umræðu um svokallaða heiðursmenningu, hlutverk kynjanna og félagslega stjórn á konum í minnihlutahópum. Mynd: Dóms- og varnarmálaráðuneyti Noregs.
Að sögn guðfræðingsins Levi Geir Eidhamar, styður stór hluti ungra múhameðstrúarmanna ríkjandi jafnréttishugmyndir og margir þeirra byggja rökstuðning sinn á trúarbrögðunum þegar þeir verja jafnréttið. Í doktorsritgerð sinni tók hann viðtöl við tuttugu og fjögur múslímsk ungmenni um kynhlutverk og samkynhneigð.
Nær ríkjandi viðhorfi

Doktorsritgerð Levis Geirs Eidhamars er um viðhorf ungra, norskra múslima gagnvart kynhlutverkum og samkynhneigð. Mynd: Háskólinn í Agder.
Samkvæmt könnun sem rannsóknarstofnunin Fafo lét vinna árið 2016 er nokkur munur milli viðhorfa ungmenna með bakgrunn innflytjenda og þeirra ungmenna sem tilheyra meirihluta landsmanna. Þó sé tilhneigingin sú að gjáin milli viðhorfa þeirra og viðhorfa meirihluta landsmanna sé smám saman að minnka, sérstaklega þegar litið er til almennra viðhorfa í landinu þaðan sem foreldrar þeirra komu.
Flest benti til að viðhorf ungmenna í minnihlutahópum væru nálægt ríkjandi jafnréttishugmyndum annarra í Noregi. Viðhorf gagnvart samkynhneigð eru þó mun íhaldssamari en viðhorf meirihlutans.
Guðfræðingurinn Levi Geir Eidhamar fékk sömu niðurstöðu úr djúpviðtölum við unga norska múhameðstrúarmenn, eins og sagt er frá í greininni „Spennuþrungnar breytingar – afstaða til kynhlutverka og samkynhneigðar hjá kristnum og múslimum í Noregi“. Viðtölin voru hluti af doktorsritgerð hans.
Undir menningaráhrifum
Eidhamar ber saman í grein sinni tengslin milli almennra breytinga á viðhorfum í þjóðfélaginu og svo breytinga á viðhorfum kristinna og múslima sem grundvallast á trúarbrögðum. Eftir því sem Eidhamar segir ræðst traust á trúarlega undirbyggðum viðhorfum og hversu mikilvæg þau þykja, auðvitað af stærra félagslega samhengi sem þau eru hluti af. „Við erum öll merkt menningunni sem umvefur okkur, norskur hugvísindamaður er það líka. Það væri einkennilegt að halda einhverju öðru fram“.
Könnun Fafo fjallaði um ungmenni með bakgrunn ýmissa landa, en Eidhamar ræddi einungis við ungmenni með múslimskan bakgrunn, því áhugi hans beindist að því hvernig unga fólkið túlkaði trúartexta og kennisetningar um samkynhneigð og jafnrétti kynjanna.
Hugmyndir túlkaðar á mismunandi hátt
„Í rannsóknum mínum hef ég verið áhugasamur um tengslin milli þess sem kalla má múslimskan siðalærdóm og múslimskt siðferði. Með þessu meina ég tengslin milli kenninga – hvað skrifað stendur – og hvernig þær verka á daglegt líf. Ég er einnig forvitinn um samband fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda í Noregi og hvernig menning og siðir þjóðfélagsins hafa áhrif á trúarlega túlkun“. Eidhamar hefur einnig tekið viðtöl við múslima í Indónesíu sem hluta af lengri rannsókn og hann hefur tekið eftir því hvernig trúarhugmyndir eru túlkaðar á mismunandi hátt frá einu þjóðfélagi til annars. „Ef múslimi frá Indónesíu og annar frá Noregi væru spurðir um hvað fyrirmyndar-kynhlutverk innibæru, kæmu ólík svör, en báðir væru þeirrar skoðunar að eigin túlkun væri sprottin úr hinni einu og sönnu múhameðstrú.“
Lífið eftir dauðann
Eidhamar leggur áherslu á hve hugmyndin um gæsku sé mismunandi frá einu samfélagi til annars.
„Þegar maður er alinn upp og mótaður í Noregi er jafnrétti kynjanna álitið jákvætt. Þá er litið á það sem mikilvægt gildi innan sannrar múhameðstrúar. Hins vegar eru eiginleikar eins og hlýðni, skipulag og samræmi taldir mikilsverðir kostir í Indónesíu. Þar er talið áríðandi að eiginkonan sé eiginmanni sínum undirgefin vegna lífsins eftir dauðann. Hjá múslimum í Noregi snúast hlutverk kynjanna um hér og nú.“
„Þýðir það að unga fólkið er ekki eins upptekið af lífinu eftir dauðann eins og kynslóð foreldra þess?“
„Það er mjög breytilegt. Sumir múslimar í Noregi eru mjög uppteknir af lífinu eftir dauðann, en meirihluti múslimskra ungmenna er nokkuð veraldlega þenkjandi og hefur minni áhuga. Þá eru nokkrir sem temja sér frjálslegt líferni með áfengi og ástarsamböndum, en eru á sama tíma þjakaðir af samviskubiti og ótta um að þeim verði refsað handan grafar fyrir lífsstílinn.“
Undir áhrifum norskra viðhorfa
Eidhamar segir að ungir norskir múslimar séu undir áhrifum norskra jafnréttisviðhorfa þegar kemur að túlkun þeirra á trúarsetningum. „Hún endurspeglar viðtekin viðhorf í norsku samfélagi.“ Þó eru ekki allir viðmælendur í rannsókn Eidhamar endilega sammála um að sú sé raunin.
„Fyrir þeim snýst þetta ekki um norsk gildi; þetta snýst um hina sönnu trú. Þeir eru stundum efins um túlkanir foreldra sinna, sem þeir kalla dæmigerðar fyrir upprunaland þeirra. Ungmennin fullyrða að foreldrar sínir séu „blindir að halda að þetta sé múhameðstrú“ og með því að leita í upphafið – Kóraninn og hadíðurnar – þá séu þau með hina réttu þekkingu á sannri trú. Samtímis geta þau verið blind á það að norsk gildi gætu hafa haft áhrif á þeirra eigin trúarlegu túlkanir.“
„Hvernig fórstu að því að finna viðmælendur?“
„Ég notaði tengslanet mitt á ýmsum stöðum í Noregi og svo hef ég verið opinn gagnvart fólki. Ég tala við fólk í lestinni, á kaffihúsum, í moskunum, alls staðar. Þó hef ég gætt þess að leita að fólki á mismunandi aldri, menntunarstigi, kyni og ekki síst sem er mismunandi trúrækið. Ef maður leitar viðmælendanna eingöngu í moskunum eru þeir aðeins af einu tagi, þeir iðka trú sína opinberlega. Maður verður einnig að leita múslima sem ganga aldrei til mosku. Það er mikilvægt að hafa úrtakið eins margbreytilegt og mögulegt er.“
Kristni og samkynhneigð
Eidhamar líkir breytingum í afstöðu múslima til jafnréttis kynjanna og samkynhneigðar við breytingar sem áttu sér stað á síðustu öld á afstöðu norskra kristinna:
„Viðhorf til kynhlutverka breyttust fyrst og síðan breyttust viðhorfin til samkynhneigðar. Það er ekki undarlegt að kynjajafnréttið hafi komið á undan. Konur eru stór og sýnilegur hópur í þjóðfélaginu, en samkynhneigðir eru minnihluti og síður sýnilegir,“ segir hann.
Þegar kemur að viðhorfum hvort tveggja í senn til kynhlutverka og samkynhneigðar, er tilhneigingin yfirleitt sú að séu þau grundvölluð á íhaldssemi og trú hafa þau rekist á við breyttar skoðanir í hinu stærra samfélagi. Sem dæmi má nefna að þegar Norska landlæknisembættið lagði til árið 1954 að hætt yrði að líta á samkynhneigð sem glæp brást kirkjan við með því að lýsa yfir að samkynhneigð væri „hættuleg mannlegu samfélagi á heimsvísu“ og lagði sitt af mörkum til þess að hvítþvottur samkynhneigðar fengi ekki meirihluta atkvæða á norska þinginu.
Hinar öru breytingar á almennu viðhorfi samfélagsins eftir 1972 (þegar samkynhneigð var loks löglega viðtekin) brutu í bága við hinar einstrengingslegu trúarskoðanir sem ríktu á þessum tíma, skrifar Eidhamar. „En nýjar túlkanir á textum Biblíunnar hafa komið fram,“ sem hafa lagt til og innleitt umburðarlyndari viðhorf meðal kristinna.
Íhaldssöm sýn á samkynhneigð

Jon Horgen Friberg félagsfræðingur vann Fafo-könnunina um félagslegan hreyfanleika og menningarlega aðlögun ungra norskra múslima. Mynd: Fafo.
Eidhamar tók eftir því að ungu múslimarnir sem hann ræddi við fyrir doktorsverkefnið túlkuðu trúartextana á nýjan hátt.
„Næstum allar konurnar og flestir karlarnir studdu að öllu leyti þær hugmyndir um jafnrétti kynjanna sem eru við lýði í norsku samfélagi. Þetta hafði áhrif á það hvaða heilaga texta þau vitnuðu í og hvernig þau túlkuðu þá,“ skrifar hann.
Meðal viðmælenda Eidhamars gætti meiri íhaldssemi í garð samkynhneigðar en til kynjajafnréttis. Þó er það svo að jafnvel meðal íhaldssamra norskra múslima, eru fáir þeirrar skoðunar að samkynhneigð sé eitthvað sem ætti að vera refsivert samkvæmt lögum.
„Meirihluti norskra íhaldssamra múslima myndu segja að samkynhneigðir sem búa saman verði refsað eftir dauðann, en ekki að þeir ættu að hljóta refsingu hér og nú,“ segir hann.
Í annarri grein sem ber titilinn „Rétt á móti góðu? Skoðanir og rökstuðningur hjá ungum múslimum í spurningum um kynhlutverk og kynferði“ (Rett kontra godt? Holdninger og resonnementer blant unge muslimer i spørsmål om kjønnsroller og seksualitet) ritar Eidhamar: „Næstum allir gagnkynhneigðir viðmælendur höfðu hóflega íhaldssama sýn.“ Af fjórum samkynhneigðum viðmælendum héldu tveir fram skoðunum sem þeir byggðu á trúarlegum grunni þess eðlis að sambönd samkynhneigðra ættu að vera samþykkt. Hinum tveimur fannst að samkynhneigðir ættu að lifa til samræmis við langanir sínar „þrátt fyrir þeirra eigin skoðun um að slíkt bryti í bága við múslimska siði.“
„Almennt séð hefur fólk með bakgrunn innflytjenda þá reynslu að vera málaðir upp sem „fylgjendur ójöfnuðar“ og á það sérstaklega við um múslima. Þeim er stillt upp sem andstæðingum jafnréttis, sem er „norskt“ gildi. Sérðu vandamál við kröfuna um að setja upp „norsk“ viðhorf til jafnréttis, eins og þau eru núna, sem viðmið og mælistiku fyrir aðra hópa?
„Ég sé vandamálið en á hinn bóginn er þetta einmitt ástæðan fyrir því hvers vegna það er svo mikilvægt fyrir marga af annarri kynslóð innflytjenda að leggja áherslu á að þeir, sem múslimar, styðji að öllu leyti jafnréttis-fyrirmyndir í norsku þjóðfélagi. Það þreytir og angrar ungar, múslímskar stúlkur að vera stöðugt sýndar undir staðalímyndinni „kúgaðar.“
Á leið til aukins frjálslyndis
Að sögn félagsfræðingsins Jon Horgen Friberg, sem er ábyrgðarmaður ofangreindrar Fafo-könnunarinnar, eru mörg ungmenni með bakgrunn innflytjenda með neikvæðara viðhorf gagnvart samkynhneigð en ungt fólk án slíks bakgrunns. „Þó er þróunin greinilega í átt til meira frjálslyndis meðal þessara ungmenna, sérstaklega þegar haft er í huga að mörg þeirra eru frá samfélögum sem alfarið hafna samkynhneigð,“ segir hann.
Í viðhorfskönnun Fribergs um jafnrétti kynjanna var fyrst spurt um jafnrétti kynjanna til menntunar og atvinnu.
Er hætta á því vandamál sem tengjast félagslegri stjórn og kynferðislegu sjálfræði verði ekki lengur tekin fyrir í þess háttar könnunum?
„Þú ályktar rétt að viðhorf til kynjajafnréttis í menntun og atvinnulífi breytist mun hraðar en viðhorf til kynjajafnréttis þegar kemur að persónulegu sjálfræði, kynferði og „skírlífi“. En „stelpurnar sem kunna ekki að skammast sín“ (sjá mynd efst} sýna að breytingar gerast líka á því sviði. Félagslegar breytingar taka tíma og eiga sér sjaldan stað án baráttu.“
Grein þessi var fyrst birt á vefsíðunni Kilden – upplýsingar og fréttir um kynjarannsóknir í Noregi. Upphaflegur greinina má lesa hér: http://kjonnsforskning.no/en/2017/08/justifying-gender-equality-through-islam