Þegar sexí hillusamstæða verður að mjólkandi brjóstum með geirvörtum

Höfundur: Ida Irene Bergstrøm

Norskir félagsvísindamenn vara við auknum púrítanisma á kostnað réttinda mæðra

Í Noregi er brjóstagjöf á almannafæri viðtekin venja, samt veigra sér sumar mæður að fylgja henni eða eru feimnar við það. Mynd héðan.

Þegar Ida Marie Henriksen gerði vettvangsrannsókn fyrir doktorsverkefnið „Kaffihúsið sem opinbert og félagslegt rými“ vakti einn hópur fremur athygli hennar en aðrir; mjólkandi mæður. „Svo margar mæður eru með barnavagna í kaffihúsum! Þær fara þangað til að hitta mann og annan, og þær fara þangað því þar er hægt að gefa börnum brjóst.“ Þá tók hún eftir því að mæður mundu oft eftir því þegar þær gaf barni brjóst í fyrsta sinn á opinberum stað. Ein þeirra sem hún talaði við lýsti því hvernig hún hefði æft brjóstagjöf á kaffihúsi áður en hún tók skrefið og lét verða af því.
Ida Marie Henriksen hefur safnað tuttugu og fimm frásögnum um brjóstagjafir. Tuttugu mæðranna mundu vel eftir fyrstu brjóstagjöfinni í almennu rými, hinar fimm höfðu gleymt henni. „Margar þeirra mundu fyrstu brjóstagjöfina svona vel, því þær vönduðu sig við að gera það rétt, á félagslega viðtekinn hátt,“ segir Ida Marie.
Engin kvennanna, sem sögðu sögu sína, hafði þurft að heyra gagnrýnisraddir um brjóstagjöf á almannafæri. Hins vegar sögðu þær frá óskrifuðum reglum um opinberar brjóstagjafir. Krafist er sérstakrar kurteislegrar aðgætni. Brjóstið má sjást, en ekki geirvartan.

Slæmar aðstæður til brjóstagjafar

Brjóstagjöf á almannafæri og hvar skal draga mörkin kom til umræðu í vor sem leið með bloggpóstinum „Nei, jeg kommer ikke til å rulle inn puppen’ („Nei, ég ætla ekki að fela brjóstið“) eftir höfundinn Ida Jackson. Pistillinn var birtur seinna í dagblaðinu Dagbladet.no. Í honum skrifar Ida að hún hafi haldið að viðhorf til brjóstagjafar í Noregi væru ákaflega frjálsleg, en nú, eftir að hún sjálf var orðin mjólkandi, hefði hún komist að því að sú er ekki raunin.
„Það er ekki undarlegt að sumar nýorðnar mæður séu hikandi við að setja barnið á brjóst á almannafæri,“ skrifar Ida Jackson og vísar í frásagnir vinkvenna sem taka pelann með þegar þær fara út á meðal fólks. Einnig má benda á þó nokkuð margar fyrirspurnir í brjóstgjafarhópnum á Facebook um hvort það sé við hæfi að gefa brjóst í kirkju á meðan á skírn stendur,“ bætir hún við. „Hið mjólkandi brjóst á lítið og þröngt rými á almannafæri og álitið er best að það hverfi sem fyrst inn í sexí brjóstahaldarann, þar sem það á heima,“ skrifar Ida og kemst að þeirri niðurstöðu að brjóstagjöf á almannafæri sé pólitískur gjörningur.

Mikilvægi þess að ýkja ekki

„Ég er á báðum áttum um hvort svona pistlar geri umræðunni gagn,“ segir Ida Marie Henriksen. „Þeir geta orðið þess valdandi að konur óttist að fá aðfinnslur fyrir að gefa barninu brjóst.“
Þar að auki, eftir því sem Ida Marie Henriksen segir, er þetta ekki mikið mál í Noregi. Sérstaklega ekki ef Noregur er borinn saman við lönd eins og Bretland eða Bandaríkin, þar sem rannsóknir sýna að brjóstagjöf þykir pólítísk og vandmeðfarin.

„Pistill Idu Jackson er góður að því leyti að hann styður konur, sem gætu verið óöruggar um brjóstagjöf á almannafæri, eða fyrir þær sem blygðast sín fyrir brjóstagjöf. Á sama tíma er brjóstagjöf álitin sjálfsögð í Noregi og hluti af umhverfi okkar. Ida Jackson leggur til og berst fyrir þessu umhverfi þegar hún sýnir brjóst sitt. Ég kann vel við það.“

Rannsóknir sýna að konum í Bretlandi finnst brjóstagjöf á almannafæri feimnismál því brjóstið hefur verið gert svo kynferðislegt. Þær kjósa að gefa barni sínu pela og ýta þar af leiðandi undir þann sið.
Jafnvel þótt konurnar sem Ida Marie Henriksen tók viðtal við muni eftir því þegar þær gáfu fyrst brjóst á opinberum vettvangi og hafi sumum fundist það dálítið erfitt, ákváðu þær samt sem áður að fara yfir þann þröskuld.
„Norskum konum finnst mjólkurgjöfin líka feimnismál og eru óöruggar í fyrsta sinn. Þær velja þó engu að síður að gefa brjóst opinberlega og reynsla þeirra er að það er vandalaust. Svo að þær halda því áfram og styrkja þar með brjóstgjafarsiðinn,“ segir doktorsneminn.
„Þetta er rótgróinn vani í Noregi; það þykir sjálfsagt að gefa brjóst á almannafæri. Það er mikilvægt að vera ekki með ýkjur og draga þessa viðteknu venju í efa.“

Skýr mörk

Ida Jackson hefur reynt það sjálf að það eru viss mörk sem segja til um hvenær það er ekki lengur við hæfi að gefa brjóst á almannafæri. Reynsla hennar rímar við niðurstöður nöfnu hennar Henriksen. „Því eldra sem barnið er, þeim mun fleiri aðfinnslur fæ ég,“ skrifar Ida Jackson. Hún ætlar ekki að hætta. Samt hefur hún, vegna þeirrar yfirlýsingar, fengið þó nokkur hatursbréf frá kvenkyns lesendum. Þeim finnst hún vera eigingjörn, þeim finnst það vera almenn kurteisi að notast við pela og segja að barn hennar verði lagt í einelti í skólanum.
Óopinber mörk um brjóstagjöf á almannafæri eru í kringum eins árs aldur barnsins, skrifar Ida Marie Henriksen í grein sinni „Kafépupp“ („Kaffibrjóst“), sem birtist í norska tímaritinu „Félagsfræðitíðindi“ („Sosiologisk Tidsskrift“) fyrir tveimur árum. Þó er það ekki við vissan aldur barnsins sem fólki fer að finnast það gagnrýnivert að gefa brjóst.
„Það fer eftir því hversu stórt fólk telur að barnið sé og hvaða færni barnið hefur öðlast,“ segir hún.
„Almenna skoðunin er sú að frá því að barnið kann að ganga eða setur hönd sína undir peysuna til að ná í brjóstið sjálft, þá sé það of stórt fyrir brjóstagjöf. Það getur tengst því að mæður í mæðraorlofi snúa yfirleitt til fyrri starfa um þetta leyti. Því er það ekki algengt að sjá börn á þessum aldri fá brjóst í almannarými.

Streita, þrýstingur og kennisetningar um brjóstagjöf

„Ef raunin er sú að ungar konur finni fyrir því að brjóstagjöf á almannafæri sé óásættanleg, þá er það nýnæmi,“ segir Therese Andrews. Hún er rannsakandi við „Rannsóknarstöðina í norðri“ („Nordlandsforskning“) og hefur kannað tabú varðandi brjóstagjöf. Therese Andrews tók viðtöl við um það bil þrjátíu konur frá Hörðalandi á árunum 2012-2013 um reynslu þeirra af brjóstagjöf.
„Að gefa ekki brjóst er ekki samþykkt venja,“ segir Andrews. Það sem helst ber á í frásögum kvennanna er streita og þrýstingur.
„Streita er allsráðandi, sérlega á fyrstu mánuðum, þegar mistök geta helst orðið. Þrýstingurinn kemur ekki aðeins utan að og frá heilbrigðisstarfsfólki, heldur líka innan að, frá þeim sjálfum og þeirra innsta hring. Ráð heilbrigðisyfirvalda um að barnið fái einungis móðurmjólk fyrstu sex mánuðina, kallar Andrews kennisetningu. Eftir könnun Hagstofu Noregs að dæma frá 2013 eru það aðeins sautján hundraðshlutar norskra kvenna sem gefa börnunum ekkert nema móðurmjólk fyrstu sex mánuðina. Fjörutíu og fjögur prósent kvennanna gefa aðeins mjólk fyrstu fjóra mánuðina. „Sumum kvennanna fannst þær hafa mistekist ef þær gátu ekki fylgt kennisetningunni um sex mánaða brjóstagjöf. Það er hluti þess að vera góð móðir og að gera rétt. Vitanlega vilja þær vera fullkomnar mæður.“ En á sama tíma og ætlast er til að börnum sé gefið brjóst á almannafæri eru takmörk fyrir því hversu lengi það er samþykkt, leggur Andrews áherslu á.
„Það þykir ekki gott að gefa stærri börnum brjóst, í það minnsta ef fleiri en nánasta fjölskylda eru viðstödd. Línan er dregin svona um eins og hálfs árs aldurinn.“

Einblínt á klám og feimni

„Í menningu okkar geta skoðanaskipti um brjóstagjöf orðið mjög tilfinningahlaðin,“ segir Brigitta Haga Gripsrud, doktor með rannsóknarstöðu við Háskólann í Stafangri.
„Þar stangast á náttura og menning, líffræði og siðmenning. Greinilega liggur þarna eitthvað undir, eins og hugmyndir um kynferði, kvenleika og móðurhlutverk, sem segja til um hver sé álitinn staður konunnar og staða hennar í almannarýminu.“
Verkefni Gripsrud frá 2006 fjallar um hve menning Vesturlanda hefur verið upptekin af brjóstum; sögulega séð og nú á tímum. Sem doktor í rannsóknarstöðu kannar hún enn brjóstin og um þessar mundir ýmsa fleti brjóstakrabbameins. Í nýlegri vísindagrein tók hún gagnrýna afstöðu vegna afleiðinga af mannlegum inngripum í erfðir þegar gerðar eru tilraunir til að reyna að finna arfgengan brjóstakrabba.
Gripsrud kannast sjálf við það sem Ida Jackson skrifar um í pistli sínum.
„Þótt langt sé um liðið man ég enn hvað mér fannst það frekt þegar starfsmaður á leikskóla gelti á mig að ég hefði átt að hætta (að gefa brjóst) áður en hann byrjaði á leikskóla. Það var eins og það væri dónalegt gagnvart henni að sonur minn væri enn á brjósti, orðinn tuttugu mánaða gamall.“
Engu að síður leggur Gripsrud áherslu á það, rétt eins og Ida Marie Henriksen og Andrews, hve sá siður að gefa brjóst á almannafæri stendur föstum fótum í Noregi og hve viðtekinn hann er.
„Ég velti því þó fyrir mér hvort við munum koma til með að sjá „ameríkaníseraða“ tilhneigingu í norsku samfélagi sem tengist tvöfeldni. Á annan veginn eykst það að hlutir séu gerðir kynferðislegir, einblínt er á klám og kvenlíkaminn upphafinn sem fagur. Hins vegar sjáum við aukna blygðun yfir hversdagslegri nekt og líkamlegum fjölbreytileika. Í Bandaríkjunum hefur það orðið til þess að brjóstagjöf er orðin pólitísk og mjólkandi aðgerðarsinnar mynda sína eigin hreyfingu,“ segir Brigitta Haga Gripsrud.
„Rými kvenna og barna í Noregi mun takmarkast ef mjólkandi mæðrum finnst þær þurfa að notast við pelann í stað brjóstsins þegar þær eru á opinberum stað. Kannski má líta á pistil Idu Jackson sem aðvörun um hve norskt samfélag sé að breytast. Ef sú er raunin, erum við að glata einhverju sem er mikilvægt. Því hefur það visst táknrænt gildi að Jackson tekur á þessu máli.“

Hinn saklausi og hinn kynferðislegi hnappur

Eftir því sem Birgitta Haga Gripsrud segir hefur ekki alltaf verið illa séð að sjáist í geirvörtuna. Á endurreisnartímum þótti það þokkafullt að hún sæist að hálfu leyti. Við aðra bylgju femínisma á áttunda áratug þótti sjálfsagt að mótaði fyrir geirvörtum kvenna undir treyjunum, öðru vísi en nú á tímum þegar ætlast er til að konur séu í brjóstahöldum, og þeir verða æ efnismeiri.
Samtímis eru geirvörturnar sá hluti brjóstsins sem er mest kynferðislegur, hvað líffræðina áhrærir.
„Þegar kemur að brjóstagjöf, er vartan farvegurinn fyrir mjólkina, auk þess að vera túttan fyrir barnið sem örvar mjólkurframleiðsluna með því að sjúga hana,“ segir Gripsrud og heldur áfram:
„Geirvartan er viðkvæmi hluti brjóstsins. Hún er tilfinninganæmt svæði, sem stinnist við kynferðislega örvun og við kulda. Með því að örva geirvörturnar er hægt að gera hríðir sterkari. Síðan örvar brjóstagjöf samdrátt legsins eftir að barnið er fætt. Þannig að það er tenging á milli kvenbrjóstanna og móðurlífsins eftir fæðingu og líta má þessi líffæri sem hluta sama líffærakerfis, hins kynferðislega. Í raun má líkja kvenbrjóstinu við getnaðarliminn.“
„Líkt og getnaðarlimurinn er brjóstið líffæri sem stendur út. Það getur verið mjög útstætt, getur stækkað í umfangi við kynferðislega örvun, það getur fyllst og tæmst, og það hefur vörtu sem getur orðið stinn. Þannig á litið, eru brjóstin eins og við berum þau í almannarýminu, sýnilegust af einkennum kvenmannsins.“
Nú á tímum er hin kynferðislega geirvarta orðin tabú. Einn vina Idu Jackson sagði að brjóstagjöf á almannafæri væri eins og að sýna sig nakta – óásættanlegur, kynferðislegur gjörningur sem beindist tilviljunarkennt að ókunnugu fólki.
„Það er eins og við séum orðin púrítanskari gagnvart því að sjá allt brjóstið og þeirri tvíræðni sem því fylgir,“ segir Gripsrud.
Um þessar mundir er lögð áhersla á kynferðislegt hlutverk brjóstanna og oft er gert út á það á klámfenginn hátt, bæði í hversdeginum sem og í fjölmiðlum, segir rannsakandinn. Samtímis höfum við sterkar hugmyndir um móðurbrjóstið þegar kemur að mjólkurgjöf. Og að lokum eru brjóstin hjá mörgum konum tengd kvenlegri ímynd, sem er aftur hluti af kynferðislegum tengslum við elskhugann.
„Þessar þrjár leiðir að líta á brjóstið má sjá sem kröfur á kvenleikann sem ekki er hægt að samræma; þar sem brjóstagjöf er tengd við „hreinleika“ og sakleysi, á meðan kynlíf er enn á margan hátt með bannhelgi á sér.“

Spendýr í frjálshyggjuheimi

Gripsrud segir að sögulega séð hafi brjóstagjöf verið talin sjálfsögð aðferð að næra ungabörn. Hún vísar í bókina „Sögu brjóstsins“ (A History of the Breast) eftir sagnfræðinginn Marilyn Yalom.
„Það var enginn öruggur valkostur við móðurmjólkina fram til loka nítjándu aldar og því snerist brjóstagjöf ávallt um líf eða dauða.“
Einnig var algengt að gefa brjóst þar til barnið var orðið tveggja til þriggja ára gamalt.

„Sem tegund er maðurinn spendýr og brjóstagjöf vísar til eðlis hans sem lífveru,“ segir Gripsrud. „Brjóstagjöfin sýnir manneskjuna sem viðkvæma og ósjálfstæða; á þann hátt ögrar hún orðræðu frjálshyggjunnar sem hampar manninum sem óháðum.“

Hvernig við hugsum um muninn á kven- og karllíkamanum er ólíkt frá einum menningarheimi til annars. Eftir því sem rannsóknir leiða í ljós voru brjóstagjöf og réttindi þar að lútandi hátt skrifuð fyrir norska femínista áttunda áratugarins.
Þó er sífellt efast um þessa áherslu á brjóstagjöf í Noregi, meðal annars vegna feminískrar baráttu fyrir foreldrajafnrétti á vinnumarkaði. Nefndin sem samdi skýrslu ríkisstjórnarinnar um opinberan stuðning við barnafjölskyldur lagði nýlega til að foreldraorlofi yrði skipt að jöfnu milli móður og föður. Formaður nefndarinnar, Anne Lise Ellingsæter, prófessor við félagsfræðideild Óslóarháskóla, hefur kannað hvernig rök sem tengjast brjóstagjöf eru notuð í umræðunni um foreldraorlof.
Ellingsæter bendir á að feðraréttindi lendi í mótsögn við opinbera ráðgjöf um brjóstagjöf. Í grein sem birtist í „Tímariti um samfélagsrannsóknir“ („Tidsskrift for samfunnsforskning“) árið 2011, lýsir prófessorinn brjóstagjöf sem „nýrri tegund af pólitískum átakapunkti þar sem réttur föðurins til að vera umhyggjuaðilinn stangast á við rétt móður, eða skyldu, um að gefa brjóst.“
Breski félags-sálfræðingurinn Wendy Hollway hefur nýlega komið með mikilvæga gagnrýni á ráðandi (svokallaðar) félagslegar úrbætur, sem leggja blindandi að jöfnu feður og mæður,“ segir Gripsrud.
„Hættan er sú að slík stefna gleymi hinum greinilega og skýra mun sem liggur í þeim möguleika kvenna á að að skapa líf. Stór hluti sjálfsmyndar konu er í húfi þegar hún verður móðir viðkvæmrar og ósjálfstæðrar veru sem er nátengd líkama hennar, gegnum meðgöngu og brjóstagjöf. Holliway bendir á að við þurfum að vera á verði gagnvart vanhugsaðri eftirgjöf á mæðraréttindum, til dæmis þegar kemur að foreldraorlofi.

Þörf á nýjum femínisma mismunar?

Hollway fullyrðir að hin nauðsynlega stöðutaka femínismans gegn líffræðilegri nauðhyggju og áhrifum hennar á hugmyndasmíð samfélagsins – hugmyndin um að kynferði verði aðallega vegna félagslegrar mótunar – geti hafa gert okkur skilningssljó gagnvart því hvað það þýðir að verða móðir.
Að vera móðir er hluti menningar og líffræði, auk náinna tengsla við sálfræðileg ferli, bendir Hollway á. Rannsókn hennar sýnir að sérhver verðandi móðir gengur í gegnum meiri háttar breytingar hvað varðar tilfinningalíf, líkama og sambönd.
„Hvernig á þjóðfélag að skapa rými fyrir líkamlegar breytingar hinnar verðandi móður og fyrir móðurhlutverkið, og hvað er í hættu ef þetta rými er minnkað?“ spyr Gripsrud og bætir við:
„Við Hollway könnumst við að feður eða annað foreldri sé einnig mikilvægt en þörf konunnar fyrir foreldraorlof getur verið annars konar og ætti því kannski að óbreyttu vera haldið í fyrirrúmi.“
Í samfélagi sem verður fyrir síauknum áhrifum af hugmyndum nýfrjálshyggjunnar, er launuð vinna hærra metin en allt annað, að mati hugvísindamannsins.
Afleiðingin er sú að litið er framhjá og jafnvel lítið gert úr því framlagi sem felst í sköpunarhlutverki kvenna. Á margan hátt er nýja pólitíska fyrirmyndin sú að sjálfstæða konan haldi skjótt aftur til vinnu og „taki á því eins og karlmaður,“ gróflega sagt. Það hugnast mörgum konum, en öðrum mæðrum og börnum síður“, segir Gripsrud.
„Máski er kominn tími á mótun nýs femínisma með hliðsjón af því að mæður eru öðruvísi? Það væri pólitískt svar til að vernda og verja rými fyrir breytingar á ímynd verðandi mæðra, til að halda við brjóstagjöf á almannafæri sem nauðsynlegum hluta þess að vera móðir og að viðurkenna mjólkurframleiðslu og brjóstagjöf sem mikilvæga „auðlind“ – sem sagt í þjóðfélagi frjálshyggju. Máski er Ida Jackson nýr talsmaður slíkrar tilhneigingar.“

 

Grein þessi var fyrst birt á vefsíðunni Kilden – upplýsingar og fréttir um kynjarannsóknir í Noregi. Upphaflegu greinina má lesa hér

Einkennismynd er af þessari síðu:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.