Uppreist æru – gjöf frá Kristjáni IX

Kristín Pálsdóttir skrifar:

uppreistæruforsíðumyndÉg var aðeins að skoða hvaðan hið úrelta fyrirkomulag er varðar uppreist æru er komið. Ég fann í fljótu bragði ekki mikið skrifað um þetta á íslensku en komst að því að auðvitað er þetta gjöf frá danska konunginum frá seinni hluta 19. aldar.
Í fréttum hefur komið fram að ákvæði um uppreist æru sé 77. ára gamalt, í lögum frá 1940, en það á sér þó mun lengri sögu.
Margir komu af fjöllum þegar fréttir bárust af því að það tíðkaðist í stjórnsýslunni að veita hættulegum kynferðisbrotamönnum uppreist æru og að þetta virtist vera ósjálfrátt ferli sem enginn axlar ábyrgð á.
Fyrir okkur sem berjumst fyrir auknu réttlæti til handa þolendum kynferðisofbeldis þarf ekki að rýna lengi í ferlið til að komast að því að það er ekki hannað með þeirra hag í huga. Þeir sem sömdu lög og reglur um uppreist æru höfðu ekki áhyggjur af þolendum ofbeldisglæpa því flest þau störf sem krefjast óflekkaðs mannorðs snúa að meðferð fjármuna. Toll- og skattheimtumenn og aðrir sem meðhöndla fé þurfa samkvæmt lögum að vera með hreint mannorð. Hins vegar er ekki minnst á að yfirmenn stofnana sem fara með málefni barna, kennarar eða fólk sem stýrir tómstundastarfi barna þurfi að uppfylla þessa kröfu.
Í Skírni 44. árg. 1870 rekur Eiríkur Briem fréttir frá Íslandi 1869-1970. Á þessum árum börðust Íslendingar fyrir sjálfstæði sínu og eigin stjórnarskrá sem kom 1874 frá kónginum í það sinnið. Eftir þinghlé Alþingis frá 1867, samkvæmt ákvörðun konungs, var haldið þing hinn 27. júlí 1870 þar sem „lagaboð þau til Íslands, er út höfðu komið síðan um þinglok 1867“ voru samþykkt og „ennfremur hafði alþingi til meðferðar þessi konungleg álitsmál: 1. Um lögleiðingu danskra lagaboða, er út hafa komið árin 1867-68. Út af því er komin tilskipun fyrir Ísland um uppreist æru og fl. dags. 12. Martsm, 1870 (sbr. Lagab. 3. April 1868)“.
Íslendingar fengu þannig tilskipun um uppreist æru frá danska konungnum en í Danmörku voru, eftir því sem ég kemst næst, sett slík lög árið 1868 þar sem segir að sá sem væri „straffet for en „i den offentlige mening vanærende handling“, en række almindelige rettigheder og adgangen til visse stillinger eller hverv. Disse virkninger af straf kunne bringes til ophør ved „æresoprejsning““. Í Danmörku féllu þessi lög hins vegar úr gildi árið 1939 og eftir það hafa þeir sem fá dóma ekki misst við það borgaraleg réttindi: „Ved ophævelsen af straffelovens § 78 med lov nr. 88 af den 15. marts 1939 ophørte 2 adgangen til at fradømme straffede „de borgerlige rettigheder“. Dermed mistede straffelovens § 97 om æresoprejsning sin betydning og ophævedes.“ Samkvæmt dönsku lögunum varð uppreist æru ekki til þess að hreinsa sakarvottorð viðkomandi, einungis var um endurheimt borgaralegra réttinda að ræða. Á Íslandi hafa ákvæði um uppreist æru hins vegar staðið efnislega óbreytt frá árinu 1940.
Upphaflega virðast meðmælendur hafa átt að vera hreppsnefndarmenn og þannig var það líka í Danmörku.
Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, skrifar langa grein um uppreist æru í blað sitt í október 1890, eða stuttu eftir að tilskipun kóngsins berst til Íslands. (Enginn er skráður fyrir greininni en Björn var ritstjóri og væntanlega höfundur greinarinnar). Hann hefur mestar áhyggjur af jafnræði og því hversu íþyngjandi það er brotamönnum að missa æruna og að ekki sé gert ráð fyrir því að þeir sem hafa hlotið vægari dóma fái að þessu leyti sömu refsingu og þeir sem hafa fengið þunga dóma.
Hugmyndin um uppreista æru er hins vegar miklu eldri og í Litteraturhåndbogen 1 er fjallað um mikilvægi ærunnar í samfélögum þar sem ekki er til staðar formlegt yfirvald, eins og t.d. á tímum Íslendingasagnanna. Þar segir að það sé dæmigert fyrir karlmennskukúlturinn sem hér ríkti á þeim tíma að það versta sem hægt hefði verið að gera mönnum væri að gera grín að þeim. Það er ljóst að tengsl þessarar hefðar eiga sér djúpar rætur í feðraveldismenningunni en hér er textinn á dönsku:
Það væri nú gott að fá nýja stjórnarskrá um leið og við losnum við þetta úrelta og skaðlega lagaákvæði, segjum bless við kónginn og karlayfirráðin og #höfumhátt.
Heimildir:
Claus Allan Bonnez. 1995. Lovgivningen og de administrative regler om straffeattester Námsritgerð. Sjá: http://www.krim.dk/undersider/straffede-rettigheder/straffeattest/straffeattester-bonnez-1996.pdf.
Eiríkur Briem. 1870. Fréttir af Íslandi 1869-1870, í Skírnir, 44. árg. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1999911.
Forlaget Grifo. 2014. Lov om Æresoprejsning af 3. april 1868. Sjá: http://www.grifo.dk/slaegt_db.php?id=790.
Klemens Jónsson. 1898. Handbók fyrir hreppsnefndarmenn, í Lögfræðingur. Tímarit um lögfræði, löggjafarmál og þjóðhagfræði. 1898. Útg. Páll Briem. 2. árg. bls. 106. Sjá; http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=955512.
Mbl.is. 2017. Lög um uppreist æru 77 ára gömul. 29. ágúst. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/08/29/log_um_uppreist_aeru_77_ara_gomul/.

Ein athugasemd við “Uppreist æru – gjöf frá Kristjáni IX

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.