Saga þernunnar snýr aftur

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar: Nú er verið að sýna á efnisveitunni Hulu sjónvarpsþætti byggða á skáldsögunni The Handmaid’s Tale eða Sögu þernunnar, eftir kanadíska rithöfundinn Margaret Atwood. Bókin kom fyrst út árið 1985 og er dystópísk vísindaskáldsaga sem þar sem konur eru eign ríkisins. Sögusviðið er ekki svo fjarlæg framtíð í Bandaríkjunum þar sem kristnir bókstafstrúarmenn, sem kalla sig Syni Jakobs, hafa komist til valda og stofnað klerkaveldið Gilead í kjölfar umhverfisslysa og hryðjuverka sem þeir kenna íslömskum öfgahópum um en bera sjálfir ábyrgð á.

Margaret Atwood ætti að vera mörgum lesendum kunn enda er hún með þekktari samtímahöfundum og eru helstu einkenni höfundarverks hennar beinskeyttur femínismi og óhugnanleg hæfni til þess að lýsa heiminum sem gæti orðið, enda kýs hún sjálf að kalla þessa tegund bókmenntaverka nokkurs konar getgátu skáldskap (e. speculative fiction). The Handmaid’s Tale olli töluverðu fjaðrafoki þegar hún kom fyrst út en festist fljótlega í sessi sem sígilt femínískt bókmenntaverk og var innlegg í umræðu þess tíma, en kristilegir sjónvarpspredikarar drottnuðu yfir sjónvarpsskjánum og samfélagsumræðunni þá. í bókinni er að finna beinar vísanir í fræga sjónvarpspredikara þess tíma. Það var svo gerð kvikmyndaaðlögun eftir bókinni árið 1990 með Natöshu Richardsson í aðalhlutverki og kom Harold Pinter að handritsgerðinni sem þótti mjög flókið verkefni vegna þess að sagan er að mestu leyti sögð í fyrstu persónu.
Umræða um Handmaid’s Tale hefur sprottið upp aftur núna bæði út af nýju sjónvarpsþáttunum og í kjölfar umdeilds framboðs og svo sigurs Donalds Trump í kosningabaráttunni um forsetaembættið vestra. Það þarf vart að taka það fram að Donald Trump hefur með framgangi sínum tekist að normalísera hatursfulla orðræðu gagnvart konum og fólki af öðrum þjóðernum og kynþáttum en hvítum bandarískum auk þess sem hann afneitar hnattrænni hlýnun. Leikkonan Elizabeth Moss, þekkt fyrir hlutverk sitt sem Peggy í Mad Men, sem fer með aðalhlutverkið í nýju þáttunum segir í viðtali við Vulture á netinu að sig hafi ekki órað fyrir því þegar undirbúningur hófst fyrir þáttagerðina að þeir ættu eftir að eiga svona mikið erindi við samtímann.

Frá Gilead til Afganistan
Ástandið er eins í Gilead og víða annars staðar í dystópískum framtíðarsýnum að frjósemi er gríðarlega sjaldgæf (af völdum mengunar) þannig að þær konur sem enn eru frjóar verða að samfélagseign, líkamar þeirra að útungunarvélum og þeim sem ekki framleiða er hent á haugana – í vændi eða vinnuþrælkun. Orð og notkun tungumálsins er jafnframt forboðin í Gilead, enda er þöggun eitt mikilvægasta vopn þeirra sem vilja beygja aðra undir sig. Söguhetjan í Handmaid’s Tale heitir þannig Offred – Of Fred, hún tilheyrir Fred.

Setningin „Ekki leyfa óþokkunum að brjóta þig niður“ úr The Handmaid’s Tale er slagorð sem enn nýtist femínistum sem og öllu umhverfis- og mannréttindabaráttufólki 21. aldarinnar sem nú þarf að takast á við fjögur ár af Donald Trump á forsetastóli Bandaríkjanna.

Konurnar í Gilead eru skyldaðar til þess að ganga í nokkurs konar einkennisbúningum sem að minna einna helst á nunnuklæði frá miðöldum, litamerktar eftir röðun innan stigveldisins. Þrátt fyrir að þetta hljómi eins og mjög fjarstæðukenndur veruleiki fyrir flestar konur á Vesturlöndum í dag þá er þetta samt sem áður óhugnanlega líkt því sem gerst hefur til dæmis í Afganistan undir stjórn Talíbana. Langvarandi stríðsátök og hernaðarlegrar íhlutanir vestrænna heimsvelda allt frá nýlendutímum 19. aldar allt fram til dagsins í dag undirbjuggu jarðveginn fyrir valdatíð Talíbana. Það fyrsta sem flestum kemur í hug í dag þegar minnst er á Afganistan er kona í búrku. Innrás Bandaríkjanna í Afganistan var að mörgu leyti réttlætt á þeirri forsendu að nú þyrftu hin frjálslyndu Vesturlönd að frelsa konurnar úr búrkunum. Í sláandi lýsingu í bókinni upplifir Offred sig sem sýningargrip þegar hún verður á vegi hópi ferðamanna sem ljósmynda hana í bak og fyrir, hún má vitaskuld ekki tala við þá og hún skynjar það hvernig hún er hlutgerð sem forvitnileg og exótísk vera. Þetta kallast óneitanlega á við blætið sem til hefur orðið í heiminum (sérstaklega á Vesturlöndum) gagnvart fatnaði og þá aðallega búrkunum og hijabinu – höfuðslæðunum – sem múslimskar konur ganga með, sumar tilneyddar en aðrar að eigin vali – en allir virðast hafa skoðun á því hvernig
múslimskar konur eigi eða eigi ekki að klæða sig. Eflaust, eins og margar konur sem ólust upp í Mið–Austurlöndum fyrir sirka 1980, man Offred lífið eins og það var áður en klerkarnir tóku völdin. Konur hafa ekki alltaf verið í búrkum og svarið við spurningunni um það hver hafi klætt konurnar í þær er alls ekki svo einfalt.

Elizabeth Moss leikur aðalhlutverkið í Sögu þernunnar.

Umhverfisváin og þríleikurinn
Þrátt fyrir að Handmaid’s Tale sé enn þekktasta verk Atwood hefur hún skrifað fjölmargar bækur og hefur hlotið mörg verðlaun fyrir. Maddaddam þríleikur hennar, (Oryx and Crake (2003), The Year of the Flood (2009) og Maddaddam (2013), hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og eru einnig sjónvarpsþættir byggðir á þeim í leikstjórn Darren Aronofsky í framleiðslu. Maddaddam þrí- leikurinn gerist, líkt og Handmaid’s Tale, í dystópískum heimi þar sem hamslaus neyslu- og gróðahyggja í skugga loftslagsbreytinga og siðlausrar tilraunastarfsemi með genamengi manna og dýra leiðir til nokkurs konar (manngerðs) heimsendis sem fáir lifa af. Í heimi Maddaddam, áður en mannkynið nær útrýmir sjálfu sér, er lífi þegnanna stjórnað af CorpSeCorps, stórfyrirtæki sem sér um allt eftirlit og öryggismál. Ríkisvaldið hefur flust alfarið yfir á risavaxnar fyrirtækjasamsteypur og öll spilin eru lögð í hendur genatækninnar sem fer vitaskuld úr böndunum. Skyndibitinn heitir „Secret Burger“ vegna þess að enginn má eða vill vita nákvæmlega hvers konar kjöt fer í hann, hugvísindi og listir eru einskis virði í samfélaginu þar sem sjálfsmorð í beinni útsendingu á netinu eru skemmtiefni og að- alpersónurnar spila EXTINCTATHON, flókinn leik á netinu sem gengur út á að geta nefnt allar lifandi og útdauðar dýrategundir. Efalaust hafa margir lesendur bóka hennar rekið sig á ýmislegt ísamtímanum sem virðist vera eins og beint upp úr ímyndunarafli Atwood.

Heimurinn sem gæti orðið
Margaret Atwood varpar því fram í bókum sínum ansi myrkri framtíðarsýn á heiminn sem gæti orðið ef við höldum áfram á sömu braut og við erum á í dag. Hvort sem það er hvert við stefnum í umhverfismálum eða hvað gerist þegar hættuleg öfl sem grassera undir yfirborðinu, eins og rasismi og kvennhatur, ná yfirhöndinni. Handmaid’s Tale lifir því enn góðu lífi árið 2017 og á mikið erindi við samtímann. Það er gleðiefni að sagnabrunnur Atwood nái enn meiri útbreiðslu með sjónvarpsþáttum byggðum á bæði Handmaid’s Tale og Maddaddam þrí- leiknum.

Ein frægasta tilvitnunin úr Handmaid’s Tale er „Nolite te bastardes carborundorum“. Offred finnur þessa dularfullu setningu á latínu rista inni í skáp í herberginu þar sem hún sefur. Þrátt fyrir að hún skilji ekki setninguna fyrr en síðar veitir hún henni von í ánauðinni, fyrirheit um einhverskonar samstöðu á milli þjáningarsystra en líka andstöðu og baráttu við ríkjandi öfl. Setningin þýðir „Ekki leyfa óþokkunum að brjóta þig niður“ – slagorð sem enn nýtist femínistum sem og öllu umhverfis- og mannréttindabaráttufólki 21. aldarinnar sem nú þarf að takast á við fjögur ár af Donald Trump á forsetastóli Bandaríkjanna.

Greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum í ársbyrjun 2017 og er endurbirt með leyfi höfundar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.