Marilyn Monroe

Þetta er Marilyn Monroe. Þú hefur kannski heyrt talað um hana eða séð þessa mynd eða aðrar myndir af henni.

Hún var manneskja.

Hún fæddist sama ár og Hugh Hefner, sem lést í síðustu viku, 91 árs að aldri.

Hún gifti sig þegar hún var 16 ára til að sleppa úr klóm fósturheimilakerfisins. Nokkrum árum seinna var hún að reyna að koma sér á framfæri sem fyrirsæta og leikkona og þá sat hún fyrir nakin á myndum í dagatal, til að eiga fyrir mat. Hún fékk borgaða 50 dollara fyrir að fara úr fötunum og brosa.

Hún gaf upp falskt nafn fyrir þessa myndatöku því hún vildi skapa fjarlægð milli sín og myndanna.

„Ég veit eiginlega ekki af hverju, en líklega var ég að reyna að verja mig. Ég var kvíðin, mér fannst þetta óþægilegt og ég hef líklega líka skammast mín fyrir þetta og ég vildi ekki að nafnið mitt birtist á upplýsingum um þessar myndir.“

Nokkrum árum seinna fékk hún hlutverk í kvikmynd og eftir það lék hún sætu stelpuna í þó nokkrum kvikmyndum.

Á meðan var Hugh Hefner að byggja upp fyrirtækið sitt og viðskiptaímynd. Þegar hann ákvað að koma á fót „karlatímariti“ var nafn Marilyn Monroe þekkt um heim allan. Hefner keypti útgáfuréttinn að þessum ljósmyndum frá því að hún var að hefja ferilinn, nektarmyndunum, og borgaði 500 dollara fyrir.

Hefner notaði svo eina þessara mynda sem forsíðumynd fyrsta tölublaðs nýja tímaritsins, án þess að detta í hug að leita leyfis fyrir því hjá leikkonunni. Á forsíðunni stóð: „Birtist hér í fyrsta sinn í tímariti, Í LIT: Hin heimsfræga Marilyn Monroe, NAKIN“

Þegar Monroe var spurð um þetta síðar meir sagði hún þetta:

„Ég fékk aldrei svo mikið sem kveðju eða þakkir frá neinum þeirra sem græddu milljónir á að selja ljósmyndir af mér nakinni. Ég þurfti meira að segja að kaupa eintak af tímaritinu sjálf til að fá að skoða sjálfa mig á síðum þess.“

Kerfið fór óblíðum höndum um Marilyn Monroe. Hún lést aðeins 36 ára, eftir að hafa verið gleypt í heilu lagi, melt og loks spýtt út af neyslumenningu karlasamfélagsins. Hún var þokkalega efnuð þegar hún lést, en ekki rík. Eftir dauða hennar hafa margir auðgast mun betur á því að selja ímynd hennar en hún gerði nokkru sinni sjálf; enn í dag er verið að selja ódýrt glingur og dót með myndum af henni.

Og svo, árið 1992, var legstaðurinn við hliðina á hennar legstað auglýstur til sölu og Hugh Hefner keypti legstaðinn og stærði sig svo af því að þegar fram liðu stundir myndi hann verða fá að deila með henni rúmi um alla eilífð.

Marilyn hafði ekkert um það að segja, enda dáin.

Hún hefur verið dáin í fimmtíu og fimm ár og nú er „Glaumgosinn“ í þann mund að svipta sænginni af hinstu hvílu hennar og skríða upp í.

Hugh og Marilyn hittust aldrei í lifanda lífi.

Hún gaf aldrei sitt samþykki fyrir neinu af þessu, hvorki fyrir birtingu nektarmynda af sér í Playboy, né fyrir því að deila hvíldarstað sínum með honum, því hann spurði hana aldrei, hann yrti ekki einu sinni á hana.

Konan sem leitaði að ástinni alla sína ævi … fær að lokum „Hef“. Manninn sem eyddi heilli mannsævi í að afmennska konur og fara með þær eins og honum þóknaðist og er nú hylltur sem mannréttindafrömuður og baráttumaður fyrir tjáningarfrelsi.

Ég hef enga sögu heyrt sem er meira lýsandi fyrir þennan drullusokk en þessi.

Megi hvíldin færa þér vald, Norma Jean.

***UPPFÆRT***

Mig langar að minnast á tvennt:

Í fyrsta lagi er ég með skilaboð til allra vitleysinganna sem eru sífellt að deila myndum af Lawrence Olivier og halda því fram að þær séu af Hugh Hefner: Viljið þið hætta þessu, þið eruð að gera ykkur að fífli. (http://mashable.com/…/marilyn-monroe-hugh-hefner-fake-pict…/also https://www.washingtonpost.com/…/marilyn-monroe-helped-la…/…)

Í öðru lagi vil ég segja við ykkur hin, allt almennilega fólkið: Þessari færslu hefur verið deilt mjög mikið og þess vegna hefur fullt af MRA-liði (Men´s Rights Activists) komið með alls konar fáránlegar athugasemdir við hana. Það er alveg óhætt að spara sér ónotin og bara sleppa því að skoða þessar athugasemdir. Þær eru ógeð. Sorrí, en netið er stundum alveg ferlega glatað.

Sarah Vaughn Patzel skrifaði. Textinn birtist sem stöðufærsla á Facebook-síðunni New Wave Feminists og má lesa í upprunalegri gerð hér.

—-

Halla Sverrisdóttir þýddi, með góðfúslegu leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.