Viðreisn svarar knúzspurningum!

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir og Jón Steindór Valdimarsson skrifa:

  1. Teljið þið að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Nei, fullum jöfnuði kynjanna hefur ekki verið náð á Íslandi. Hvað varðar lagalegt jafnrétti má segja að Ísland standi mjög framarlega, en enn er staðan sú að hinn daglegi veruleiki birtir ekki jafnrétti kynjanna. Merki þess eru víða, svo sem á vinnumarkaði, þar sem kynbundinn launamunur er enn fyrir hendi. Þá birtast ákveðin viðhorf í því að dæmigerðum kvennastéttum eru greidd lág laun. Almennt hvílir ábyrgð á heimilsstörfum, umönnun barna og aldraðra foreldra þyngra á konum en körlum. Þar er verk að vinna. Við sjáum ójafnrétti í atvinnulífinu, þar sem hlutfall kvenna í stjórnendastöðum er áberandi lægra en karla. Fjölmiðlar birta þetta ójafnrétti, þar sem konur eru sjaldnar viðmælendur en karlar. Skýrasta birtingarmynd þessa ójafnrétti er hins vegar kynbundið ofbeldi, sem er útbreitt vandamál á Íslandi. Við sjáum það á ógnvænlegum tölum um fjölda stúlkna og kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi. Við sjáum það á þeim fáránleika að hér þarf að starfrækja athvarf fyrir konur og börn sem flýja eigin heimili vegna ofbeldis.

  1. Ef svarið við spurningu 1. er nei, teljið þið rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Já. Kynjajafnrétti mun ekki nást fram af sjálfu sér og tíminn einn mun ekki leiða til þess heldur. Það þarf pólitískan vilja til þess og aðgerðir. Viðreisn barðist fyrir jafnlaunavottun í síðustu kosningabaráttu, lagði fram frumvarp sem er orðið að lögum. Jafnlaunavottun er dæmi um ráðstöfun sem ætlað er að eiga við ákveðinn vanda, sem ekki mun leysast án aðgerða.

Atvinnuþátttaka kvenna er með því hæsta sem þekkist á Íslandi er kynbundinn launamunur er staðreynd. Bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þarf að brúa og sjá til þess að karlar jafnt sem konur taki fæðingarorlof. Við viljum að skólarnir og menntakerfið bjóði upp á kennslu um jafnréttismál til þess að breyta viðhorfum. Við viljum að kjör kvennarstétta verði leiðrétt. Þar sem löggjafinn getur stigið inn með lagsetningu, eins og hvað varðar kynjakvóta er rétt að gera það, enda hafa kynjakvótar haft áhrif. Og þar sem hægt er að stuðla að viðhorfsbreytingu er rétt að gera það.

Sama gildir um kynbundið ofbeldi af öllu tagi. Þar þarf að huga að lagabreytingum, til dæmis um skilgreiningu á nauðgun, en þar hefur Viðreisn lagt fram frumvarp um að setja samþykki í forgrunn við skilgreiningu á nauðgun. Einnig þarf að skerpa lög til að stemma stigum við stafrænu kynferðisofbeldi, svo eitthvað sé nefnt.

  1. Teljið þið ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna og hvernig? Ef nei, hvers vegna ekki?

Já.  Meðferð kynferðisbrotamála byggir á því að lögin geti náð utan um brotin, að kerfið hafi burði til að sinna málum og síðast en ekki síst á viðhorfum. Allt eru þetta þættir sem á að taka til sérstakrar skoðunar. Umræðan um uppreist æru sýnir auðvitað að lög og viðhorf þurfa að ganga hönd í hönd. Þar kom í ljós að framkvæmdin var fullkomlega á skjön við réttlætiskennd fólks. Og þar birtist mikilvægi þess að hegningarlögin okkar þurfa að geta náð utan um veruleika brotanna. Þess vegna lagði Viðreisn t.d. fram frumvarp um nýja skilgreiningu á nauðgun. Lögin þurfa að geta tekist á við kall tímans um breytt viðhorf og löggjafinn á taka frumkvæði en ekki láta löggjöf úreldast og lenda í andstöðu við réttarvitund fólks. Við höfum t.d. ekki sett okkur lagaákvæði sem tekur á stafrænu kynferðisofbeldi sérstaklega. Svo eru það þær stofnanir sem hafa þessi þungu sakamál til meðferðar. Lögreglan og ákæruvald eru að drukkna í málum. Málsmeðferðartími kynferðisbrotamála er alltof langur. Það er ekki bara þungbært fyrir þolendur heldur getur það skaðað sakamál, því að sönnunarstaðan getur veikst. Refsing getur verið milduð vegna þess að málsmeðferð hefur verið of löng. Hluti af því að sýna að samfélagið taki þessi brot alvarlega er þess vegna að lögregla og ákæruvald hafi burði til þess að vinna að þessu málum ekki aðeins faglega heldur líka innan eðlilegra tímamarka. Svo er það stuðningur við þolendur sem glíma við afleiðingar brotanna, þar þarf að gera svo miklu betur. Gagnvart þolendum og fjölskyldu þeirra. En það er heldur ekki hægt að ræða meðferð kynferðisbrotamála án þess að ræða forvarnir og hvernig hægt er að stuðla að því að gerendur hætti að beita ofbeldi

  1. Styðjið þið kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Já. Viðreisn styður kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Þessi lög voru nauðsynleg og þau hafa virkað svo langt sem þau ná. En enn sjáum við að stjórnendur fyrirækja eru að langstærstum hluta karlmenn. Hugmyndafræðin að baki jafnlaunvottun var hin sama, að bregðast við vanda sem blasti við og þurfti aðgerðir til að taka á.

  1. Teljið þið rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Það er rétt að leita leiða til að stemma stigu við öllu ofbeldi og birtingarmyndum þess. Öll hvatning, bein og óbein, til ofbeldis er þar með talin.

  1. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað teljið þið útskýra þennan launamun? Finnst ykkar flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Já. Að frátöldum kynbundnum launamun innan fyrirtækja og stofnana sem jafnlaunavottun er ætlað að vinna gegn eru svokölluð kvennastörf almennt metin til lægri launa en þau störf sem karlar sinna. Það á sér á sér skýringar sem teygja sig langt aftur í tímann. Tvennt þarf einkum að koma til að bæta úr þessu að mati Viðreisnar. Auka verður jafnrétti á öllum sviðum og breyta viðhorfum. Viðreisn telur brýnt að ná samkomulagi á vinnumarkaði um að hefja markvissa vegferð til þess að jafna þennan mun. Það gerist ekki nema um það náist samstaða í þjóðfélaginu.

  1. Telur ykkar flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Já. Kynbundið ofbeldi er meinsemd í íslensku samfélagi. Tölur sýna glögglega að konur og stúlkur verða fyrir ofbeldi vegna kynferðis og þetta vandamál er útbreitt. Það skiptir miklu að umræða um þessi  brot séu í kastljósinu, að þau séu ekki lengur falin. Gerendur hagnast á því að brotin séu falin og til umræðu.

Við kynbundnu ofbeldi þarf að bregðast með markvissri fræðslu á öllum skólastigum um jafnrétti. Einnig með breytingum á löggjöf þar sem það á við og þeim skilaboðum sem þær breytingar senda til samfélagsins. Má þar nefna breytta skilgreiningu nauðgunar með því að setja samþykki í forgrunn eins og Viðreisn hefur lagt til.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.