Gleymum aldrei-höfum hátt

Þórdís Elva skrifar:

Mannkynssagan veltur á því hver ritaði hana, lét mannréttindafrömuðurinn Nelson Mandela hafa eftir sér. Ég las þessi orð þar sem ég var stödd í Robben Island fangelsinu, einum fjölfarnasta ferðamannastað Suður-Afríku, þar sem Mandela var fangelsaður um margra ára skeið. Engar konur voru í umræddu fangelsi og framlag þeirra til baráttunnar gegn aðskilnaðarstefnunni barst aldrei í tal í þriggja klukkustunda langri skoðunarferð minni um fangelsið, ásamt hundruðum annarra túrista. Samt er vitað mál að konur börðust við hlið karla og guldu fyrir það dýru verði, enda voru mannréttindi svartra kvenna ennþá skertari en svartra karla undir aðskilnaðarstefnunni. Hefðin fyrir því að skrifa konur út úr mannkynssögunni er rík og sterk, enda hafa það löngum verið karlar sem haldið hafa um pennann. Að slíkir tilburðir séu ennþá viðhafðir í dag er hneykslanlegt, en kemur því miður ekki á óvart í ljósi sögunnar.

Fyrir fimm dögum bárust fréttir af því að almannatengslaskrifstofa á vegum utanríkisráðuneytisins hafi reynt að fá dagblaðið Washington Post til að breyta og/eða fjarlægja setningu um þátt kvenna í atburðunum sem leiddu til þess að ríkisstjórnin sprakk. Sérstaklega var sett út á setninguna „Women’s protests forced Benediktsson to step down“ og fullyrt að hún væri afbökun á raunveruleikanum. Samt leikur enginn vafi á því að konurnar sem máttu þola ofbeldi Roberts Downey, þær Nína Rún BergsdóttirAnna Katrín SnorradóttirGlódís Tara og Halla Ólöf Jónsdóttir hrifu þjóðina með sér þegar þær töluðu af yfirvegun og hugrekki um hvernig kerfið brást þeim. Þær færðu í orð tilfinningarnar sem margir Íslendingar glímdu við, tilfinningin um að réttlætið hafi verið að engu haft og að orðspor níðings hefði meira vægi en réttur brotaþola. Að samtryggingarkerfi ‘valinkunnra manna’ væri yfirsterkara mannréttindum og réttlætiskennd okkar hinna. Að ekkert væri heilagt þegar karl þekkir réttu karlana.

Dropinn holar steininn og kynferðisbrotamál eru komin út úr myrkrinu og inn í dagsljósið vegna ötullar baráttu ýmissa kvenna. Já – k v e n n a – sem hafa rofið þögnina, safnað í sjóði, stofnsett stuðningsúrræði fyrir þolendur, rifist í þingsölum, smalað í mótmælagöngur og komið þessu málefni á kortið, þrátt fyrir að vera með vindinn í fangið og nær alltaf í slítandi sjálfboðastarfi. Það voru konur sem stofnuðu Kvennaathvarfið, Stígamót og Neyðarmóttökuna. Það voru konur sem boðuðu til Druslugöngu, sem tugþúsundir Íslendinga hafa tekið þátt í og er að verða ein stærsta fjöldasamkoma ársins. Þannig að jú víst – women’s protests forced Benediktsson to step down, alveg sama hvað sá sannleikur stendur mikið í íslenskum pótintátum. Réttarmorðið sem fremja átti á íslensku þjóðinni í sumar var einungis dropinn sem fyllti mælinn eftir margra ára óánægju með vangetu yfirvalda til að taka á ofbeldi, sem lægi ennþá í þagnargildi ef hugrakkar konur hefðu ekki tekið af skarið.

#égman

Nýjasta tilraunin til að fjarlægja konur af spjöldum sögunnar er úr smiðju Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, sem hélt því fram í gærkvöldi að það „myndi varla nokkur lengur“ hvað hefði orðið til þess að ríkisstjórnin féll. Með því að flýta sér að gleyma þætti kvenna í þessari sögulegu atburðarás má reyna að koma í veg fyrir að þær fái vægið sem þær eiga skilið í framtíðinni. Öllum brögðum er beitt til að neita konum um hlutdeild að sögunni, hvort sem um er að ræða þöggun, valdníðslu, afneitun eða gleymsku.

Munurinn er sá að við látum það ekki viðgangast lengur. Við #höfumháttnúna. Ég hef skrifað ýmislegt á lífsleiðinni, sumt sem ég er ánægð með og annað sem ég hef argasta aumingjahroll yfir, en litla myllumerkið sem óx ásmegin og átti þátt í að afhjúpa ónýtt kerfi er líklega eitt af því sem ég er stoltust af að geta lagt nafn mitt við. Því konur hafa nefnilega alltaf haft hátt, þótt valdhafar hafi skellt við skollaeyrum þar til nýlega. Konur hafa alltaf mótað söguna, þær hafa alltaf staðið vörð um lífið og barist gegn harðstjórn og misrétti. Við látum ekki hunsa okkur lengur og krefjumst þess að eiga sæti við borðið þegar mannkynssagan er rituð framvegis. Við ætlum að tryggja að afrek okkar blási komandi kynslóðum kjark í brjóst og kenni þeim að hafa hátt, líka.
Við munum ekki gleyma.
Og við munum aldrei nokkurntíma þagna. 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.