VG svarar knúzspurningum

 1. Teljið þið að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi?Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?
  Nei. Á Íslandi búa konur enn við ógnina af kynbundnu ofbeldi. Launamunur er enn til staðar milli kynjanna og kvennastéttir fá ekki réttlát laun. Fæstar konur komast á fullorðinsár án þess að upplifa misrétti eða áreitni vegna kyns síns. Ný form af áreitni og ofbeldi hafa orðið til með tækninýjungum og aukinni internetnotkun. Við erum líka komin skammt á veg í að takast á við margfalda mismunun sem konur af erlendum uppruna, konur sem búa við óvissu um réttindi sín til að dvelja á Íslandi, fatlaðar konur og hinsegin konur verða fyrir.
 2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, teljið þið rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Að sjálfsögðu. Femínismi er ein af fjórum grunnstoðum VG. Ítarleg kvenfrelsisstefna hreyfingarinnar útlistar tillögur okkar. Í kosningaáherslum VG 2017 er lögð sérstök áhersla á að:

 • lengja fæðingarorlof,
 • leikskólar taki við strax að loknu fæðingarorlofi,
 • útrýma kynbundnum launamun og afnema launaleynd í því skyni,
 • stytta vinnuvikuna og stuðla þannig að jafnari ábyrgð á heimilisstörfum og jafnari tækifærum til þátttöku í samfélaginu, í atvinnulífi og stjórnmálum,
 • útrýma kynbundnu ofbeldi,
 • tryggja jafnréttismenntun, og
 • endurskoða löggjöf um trans og intersex.
 1. Teljið þið ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar?Ef já, hvers vegna og hvernig? Ef nei, hvers vegna ekki?

Já. Eitt af fyrstu verkum VG í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu (síðar innanríkisráðuneyti) haustið 2010 var að hrinda af stað viðamiklu samráði um meðferð kynferðisbrotamála í réttarkerfinu, með markvissri aðkomu lögreglu, dómstóla, ríkissaksóknara, neyðarmóttöku, fræðasamfélags, Stígamóta og annarra grasrótasamtaka. Viðlíka samráð hafði aldrei áður farið fram.

Á grunni þessa samráðs voru tillögur til úrbóta skilgreindar og ráðist strax í þær breytingar sem mögulegt var á þessum tíma þegar allar ríkisstofnanir stóðu frammi fyrir skertum fjárframlögum.

Meðal þess sem fram kom í samráðinu var að skortur væri á bæði fræðslu og fræðilegum rannsóknum í málaflokknum, auk þess sem lögregla og ríkissaksóknari liðu fyrir fjárhagsskort sem kæmi niður á málaflokknum. Vakin var athygli á að miska- og skaðabætur hefðu nánast ekkert hækkað um lengri tíma og var ráðist strax í úrbætur á því. Stofnað var sérstakt fagráð innan innanríkisráðuneytisins sem fjallaði um ásakanir vegna kynferðisbrota sem eiga sér stað innan trúfélaga, ráðist var í lagabreytingar varðandi kynferðisbrot gegn börnum þar sem m.a. var kveðið á um að sækja megi barnaníðinga til saka sem fremja brot sín utan Íslands og sett var á lagginar Vitundarvakning um ofbeldi gegn börnum (stuttmyndin Fáðu já! var framleidd sem hluti af þessu átaki).

Kallað var eftir frekari fræðslu og efndi ráðuneytið, í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands og fleiri aðila, til viðamikils fræðsluátaks og gerð fræðsluefnis fyrir dómara og aðra, auk þess að vinna með EDDU – öndvegissetri að fræðilegri rannsókn á meðferð nauðgunarmála. Niðurstöður fyrsta áfanga rannsóknarinnar lágu fyrir rétt fyrir kosningar 2013 og því fengum við ekki tækifæri til að fylgja úrbótartillögunum eftir. Síðan þá hefur verið lokið við þessa rannsókn auk þess sem Hildur Fjóla Antonsdóttir, sem leiddi rannsóknina en leggur nú stund á doktorsnám í Lundi, hefur lagt til enn frekari úrbótatillögur.

Innanríkisráðuneytið hélt þessu starfi á lofti um tíma og er því fyrir hendi nokkuð víðtæk pólitísk samstaða um mikilvægi úrbóta á borð við að endurskoða stöðu brotaþola innan réttarkerfisins svo að þeir fái aukna aðild að málum, endurskoða stöðu réttargæslumanna, halda áfram að efla fræðslu og endurmenntun fyrir starfsfólk réttarvörluskerfisins, halda áfram að byggja réttarkerfið upp þannig að brotaþolar mæti þar sanngirni og virðingu (óháð niðurstöðu máls) og að þróa enn frekar viðmið við sönnunarmat en á síðustu árum hafa andlegar afleiðingar kynferðisofbeldis hlotið aukið vægi. Við þetta má bæta að bregðast þarf við fjárskorti innan réttarvörluskerfisins og heilbrigðiskerfisins, þannig að velferð brotaþola sé alltaf í öndvegi.

Hins vegar hefur skort á pólitískan vilja til að láta fjárframlag fylgja úrbótartillögunum. Það er okkar mat að nú sé tími á að hrinda þeim úrbótartillögum sem eftir standa í verk og við erum reiðbúin að láta verkin tala.

 1. Styðjið þið kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Já. Þegar valið stendur á milli þess að bíða í eina öld eða grípa til aðgerða, þá erum við tilbúin til að grípa til aðgerða.

5. Teljið þið rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Vinstri græn hafa verið leiðandi í umræðu um skaðsemi ofbeldisfulls kláms og í að auka á skilning á tengslum milli kláms, kynferðisofbeldis, vændis, mansals annars vegar og stöðu kvenna í samfélaginu almennt.

Í samráði innanríkisráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota komu ítrekað fram áhyggjur fagaðila af áhrifum ofbeldiskláms á kynferðisofbeldi og á kynhegðun ungs fólks. Í áðurnefndri rannsókn EDDU – öndvegisseturs, sem unnin var af Hildi Fjólu Antonsdóttur og Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur, kemur fram að greina mátti skýr áhrif kláms í að minnsta kosti 19% nauðgunarmála á því tímabili sem var til skoðunar.

VG hefur ekki viljað sitja aðgerðalaust og í tíð Ögmundar Jónassonar í innanríksiráðuneytinu var efnt til úttektar á samfélagslegum áhrifum ofbeldisfulls kláms, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið, og unnar sundurliðaðar tillögur, þar á meðal um stórefldar forvarnir, sem voru síðan að hluta til fjármagnaðar í byrjun árs 2013. Aftur hefur skort á pólitískan vilja til að fylgja þessu starfi eftir en Vinstri græn eru tilbúin til að takast á við það verkefni.

 1. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað teljið þið útskýra þennan launamun?Finnst ykkar flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Kynbundinn launamunur er bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis í samfélaginu og það þarf því að takast á við hann í samhengi við kynjamisrétti almennt. Kynbundinn launamunur verður ekki að fullu upprættur nema það takist að jafna ábyrgð á heimilishaldi og útrýma kynbundnu ofbeldi, svo dæmi séu tekin.

En það þarf líka að takast á við launamuninn í heild sinni þar sem stórar kvennastéttir búa við slök kjör. Til þess þarf að leiðrétta skekkjuna sem gengur eins og rauður þráður í gegnum alla efnahagsstjórn þar sem störf sem karlar eru líklegri til að sinna eru álitin fjárfesting en störf sem konur sinna eru færð til bókar sem rekstur, eða öðru nafni eyðsla. Slík vinna kvenna er oftar en ekki fjárfesting í félagslegum innviðum, til dæmis menntun og heilbrigði þjóðarinnar. Sem dæmi má nefna að starfsemi Landspítalans er ekki síður fjárfesting til framtíðar en bygging nýs Landspítala.

 1. Telur ykkar flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi?Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?

Já (og tæplega er hægt að halda öðru fram miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir). Við munum beita öllum tiltækum ráðum til að útrýma kynbundnu ofbeldi í hvaða formi sem það birtist. Til þess þarf öflugar forvarnir, kröftugt menntakerfi, þekkingu og úrræði innan heilbrigðiskerfisins og réttarkerfi sem virkar. Við höfum látið verkin tala í þessum efnum. Við höfum beitt okkur fyrir bættri löggjöf. Við lögðum ítrekað fram frumvarp um sænsku leiðina í vændismálum, austurrísku leiðina í heimilisofbeldismálum og bann við nektardansi. Öll þessi mál fóru í gegn í okkar ríkisstjórnartíð. Okkar þingmenn hafa verið leiðandi í að tryggja endurskoðun á lögum um uppreist æru.

Í komandi kosningum biðjum við um tækifæri til að halda áfram á þessari braut.

Halla Gunnarsdóttir
4. sæti á lista VG í Reykjavík norður

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.