Píratar svara knúzspurningum

*1. Teljið þið að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hversvegna? Ef nei, hvað vantar upp á?*

Nei, en markmiðið er skýrt, við viljum kynjajöfnuð og Ísland hefur og getur verið framúrskarandi í jöfnuði allra kynja. Kvótar og vottanir eru ekki eina lausnin, þetta er spurning um að breyta menningu og hugarfari. Jöfnuður allra kynja er ekki bara á ábyrgð kvenna eða kynsegins fólks heldur okkar allra. Næsta skref er að karlmenn æxli ábyrgð á þessu, hlusta og trúa og treysta konum, komi lausnmiðaðir að borði og taka á þessu svo næstu kynslóðir verði ekki forritaðar af feðraveldinu! Hjá Pírötum er nýstofnað Kallpungafélag sem tekur á þessu málum innan hreyfingarinnar okkar.

* 2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, teljið þið rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá hverjum?

Mikilvægustu stefnur Pírata í þessum málaflokkur, fyrir utan grunnstefnuna sem leggur áherslu á sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins og friðhelgi einkalífs, er Jafnréttisstefna varðandi staðalmyndir. Í stuttu máli (hún er í fullu formi aðgengileg á netinu) fjallar hún um menntun og fræðslu sem grundvöll breytinga í samfélaginu. Hún hvetur til þjóðfélagsumræðu um staðalmyndir sem er bráðnauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð til þess að geta stuðlað að fjölbreytileika í samfélaginu. Að auki kemur þar fram að umburðarlyndi og virðing eru mikilvæg tól til þess að ná markmiðum stefnunnar. Stefna um málefni transfólks kemur líka að þessu máli. Grunnurinn að henni er sjálfsákvörðunarréttur og markmið hennar er að breyta samskiptum einstaklingsins og kerfisins þannig að þau verði á forsendum einstaklingsins. Í þeirri stefnu er einnig tekið fram að menntun og fræðsla er lykillinn að breytingum. Við erum með stefnur um gagnsæi í launamálum og um kynbundið ofbeldi sem tekur á mikilvægustu breytingunum sem við viljum ná fram í samfélaginu, þar stendur „Tryggt verði að kynfrelsi njóti fullrar og ótvíræðar lagaverndar“. Við sjáum ekki að því hafi verið náð og teljum það grundvallar réttindamál.

Það þarf að auka meðvitund um kynja og kynsegin halla. Fólk sem skilgrenir sig karlkyns þarf að taka ábyrgð, hætta að tala fyrir hönd annarra, td minnihlutahópa. Þau okkar sem erum í forréttindastöðu verðum að gefa þeim sem ekki eru í þeirri stöðu rými til þess að tala fyrir eigin hönd. Við þurfum að hlusta. Treystum fólki sem skilgreinir sig kvenkyns og þeirra upplifun í samfélaginu. Þetta þarf að gerast á vinnustöðum, inni á heimilinu, í opinberum rýmum og fjölmiðlum.

  1. Teljið þið ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna og hvernig? Ef nei, hvers vegna ekki?

Já. Lágt hlutfall sakfellinga og ákærumeðferða kynferðisbrota og lágar refsingar í samanburði við önnur brot er einungis eitt dæmi af mörgum um bága stöðu þessarra brota innan dómskerfisins. Bæta þarf fræðslu í ölli refsivörslukerfinu um meðferð kynferðisbrota, það er hjá lögreglu, saksóknurum, verjendum og dómurum. Styrkja verður stöðu þolenda í kynferðisbrotamálum með því að veita þeim aðild að málum og með því að veita þeim aukinn stuðning í gegnum ferlið með aðstoð félagsráðgjafa, sálfræðingi eða öðrum sambærilegum úrræðum.

4.Styðjið þið kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?

Kynjakvóti er eitt af mörgum verkfærum sem er nauðsynlegt að beita. Píratar telja að kynjakvótar séu skammtímalausn á langtímavandamáli. Við viljum komast að rót vandans og uppræta hann. Til staðar eru lög og reglur sem eiga að tryggja jafnrétti kynjanna, en það er ekki nóg til þess að breyta hugarfari innan samfélagsins og stofnana. Kynjakvótar eru vissulega eitt skref af þeim fjöldamörgu sem þarf að taka til þess að breyta samfélagsmynstrinu. Íslensk stjórnmál, flokkar og stjórnsýsla þurfa þó að taka virkan þátt í að tryggja jafnrétti og réttlæti í samfélaginu.

  1. Teljið þið rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?

Svarið við þessari spurningu er alls ekki einfalt. Píratar telja ekki að besta lausnin til þess að stemma stigu við framboðinu sé að banna það. Líkt og með margt annað tengt kynlífsiðnaðinum, snýst þetta um að tryggja réttindi þeirra einstaklinga sem innan hans starfa. Klám er framleiðsla af fantasíum. Fantasíur spretta upp frá hinum almenna borgara og eru ekki endurvarp af þeim raunveruleika sem við búum við. Því getur klámframleiðsla stuðlað að staðalmyndum sem eru kynjaðar og sem sýna hegðun eða aðstæður sem í raunveruleikanum eru á skjön við hugmyndir samfélagsins um kynlíf eða ganga gegn hugmyndum um jafnrétti. Það sem við verðum að muna er að fantasíur eru ekki raunveruleiki. Lausn Pírata felst í því að sporna gegn neikvæðum áhrifum kláms á kynhegðun og kynjamyndir, ekki síst þeim áhrifum sem það hefur á börn og unglinga. Við viljum gera þetta með því að stuðla að öflugri fræðslu og þjóðfélagsumræðu sem vekur fólk til umhugsunar um eðli og áhrif kláms.  Það eru skiptar skoðanir innan Píratahreyfingarinnar á Íslandi um kynlífsvinnu en við erum sammála um að núverandi löggjöf á Íslandi varðandi klám er úrelt og að konur eigi rétt á að hafa stjórn yfir eigin líkama. Við teljum því ekki rétt að banna klám heldur að styðja við og efla réttindi þeirra sem starfa í kynlífsiðnaðinum. Brot á réttindum fólks er alltaf alvarlegt mál.

  1. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki höfð inni í þeim útreikningum. Hvað teljið þið útskýra þennan launamun? Finnst ykkar flokki nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Það sem útskýrir þennan launamun er það að „karla-” og „kvennastörf” eru ekki metin jafnt að verðleikum. Við erum enn að reyna að brjótast út úr þeim ramma sem við höfum sett kynin í síðustu hundrað árin. Venjan hefur verið að konur sinni umönnunar- og þjónustustörfum á meðan karlar sinni tækni- og valdastörfum. Þau störf sem teljast hafa „karlastörf” hafa verið metin mikilvægari og því hafa launin verið hærri innan þess geira. Við þurfum að horfa til framtíðar og átta okkur á að öll störf eru mikilvæg til þess að halda hagkerfinu gangandi. Ef við erum ekki með starfandi leikskóla þá kemst fólk ekki í vinnuna. Ef við erum ekki með verkfræðinga þá getum við ekki byggt brýr. Samfélagið græðir einnig á því að hafa alls konar fólk í öllum störfum. Það gerist með því að auka fjölbreytileika innan allra starfsstétta. Einsleitni á vinnumarkaðanum er engum til góða. Píratar eru með jafnréttisstefnu í launamálum þar sem kemur meðal annars fram að við viljum tryggja launajafnrétti óháð kyni. Til þess að stuðla að því viljum við afnema launaleynd og gera upplýsingar um launakjör aðgengilegar. Einnig viljum við að vinnuveitendum verði gert skylt að upplýsa starfsfólk um lagaleg réttindi og skyldur þess við ráðningu

  • Unnið verði að breytingum á kjarasamningum til að tryggja launajafnrétti óháð kyni.
  • Afmá skuli launaleynd og stuðla að gagnsæi og sanngirni í launamálum með því að skylda fyrirtæki og stofnanir til að gera öllu starfsfólki aðgengilegar nákvæmar og réttar upplýsingar um launakjör alls starfsfólks. Fyrirtæki megi þó skylda starfsfólk sitt til að meðhöndla upplýsingar þessar sem trúnaðarmál nema í samskiptum við hið opinbera, við stéttarfélög og þegar kemur að eigin kjörum.
  • Vinnuveitendum verði gert skylt að upplýsa starfsfólk um lagaleg réttindi þess og skyldur við ráðningu.
  • Séð verði til þess að eftirlitsaðili hafi heimild til þess að rannsaka launamál fyrirtækja til að leita skýringa á óútskýrðum launamun.
  1. Telur ykkar flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist þið bregðast við því?*

Píratar viðurkenna að hér á landi viðgengst kynbundið ofbeldi. Það þarf að bregðast við því með kerfisbreytingum. Líkt og við höfum tekið fram hér í fyrri spurningum teljum við lausnina felast í aðgerðum í dóms- og löggæslukerfinu. Einnig verður að auka menntun og fræðslu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.