Tara Margrét segir frá:
***TW** kynferðislegt áreiti og ofbeldi
Eins og svo mörg önnur setti ég #metoo-statusinn á facebook vegginn minn. Ég hef orðið fyrir kynferðislegu áreiti í gegnum tíðina og þóttist vita það fullvel. Eftir að ég hef sá svona margar konur stíga fram með sögur sínar fór ég að hugsa nákvæmlega í hverju þessi áreitni fólst, ég fór að rifja upp. Hafði ég sömu sögur og konur sem töluðu um áreitni og káf alveg frá því að þær voru litlar stelpur? Það sem kom úr þessari sjálfsskoðun kom mér verulega á óvart. Í fyrsta lagi af því að ég er greinilega orðin svo vön þessu áreiti og valdbeitingu að ég þurfti að rembast við að grafa upp það minnistæðasta og í öðru lagi vegna þess að þetta eru svo miklu fleiri tilvik en ég gerði mér grein fyrir. Ég ætla að skrifa helstu atvikin sem ég náði að rifja upp niður á blað:
1. Ég var 8 eða 9 ára og gekk í Selásskóla. Ég var þykkur krakki og var fyrst af stelpunum til að fá brjóst. Eftir íþróttatíma einn daginn reyndu strákarnir að riðjast inn í stelpnaklefann til að ná að sjá okkur alssberar eins og venjan var. Eitthvað bilað sport sem strákarnir stunduðu bara eiginlega alveg frá 1.bekk. Nema að núna var ég ein til að halda hurðinni lokaðri gegn einhverjum 5 strákum og að lokum náðu þeir að ryðjast inn og sáu brjóstin á mér. Þeir öskruðu sigrihrósandi “ég sá brjóst, ég sá brjóst strákar”. Niðurlægingin var algjör. Og hvar voru kennararnir, gangaverðirnir? Boys will be boys, right…
2. Partý, ég var 17 ára og mig minnir að þetta hafi verið annað eða þriðja fylleríið mitt. Einn strákurinn í partýinu, jafngamall mér, reyndi ítrekað að króa mig af og leiða mig eina inní herbergi. Ég hafði áhuga en ég vissi að besta vinkona mín væri skotin í honum og ég margsagði honum að hann ætti ekki sjéns vegna þess. Hann gafst ekki upp, yfir mig skyldi hann komast (ætli neitunin hafi ekki æst hann enn frekar upp). Síðasta minninginn sem ég frá þessu kvöldi var að hann hafði læst mig inni á baðherbergi og ég var að segja “nei” í þrjúþúsandasta skiptið. Síðan er algjört blackout. Í gegnum þriðju aðila fékk eg einhverja mynd af því sem gerðist og ég veit ekki hvort það sé satt, hvort hann gerði eitthvað meira. Það eina sem ég veit er að það sem hann sagði að hafi gerst okkar á milli var ekki með mínu samþykki og ég er nýbyrjuð að geta kallað það nauðgun. Þetta var mín fyrsta reynsla af kynlífi.
3. Sami aldur, fyrsti kærastinn. Við fórum á fyrsta deit og svo heim til hans þar sem við töluðum fram eftir nóttu og fórum svo að sofa. Þegar ég var alveg að sofna fann ég að hann fór að fikta við mig þarna niðri. Strauk bara svona létt yfir, gekk ekki lengra en það. En ég fraus, lét sem ég væri sofandi og hann hætti á endanum þegar hann fann að honum yrði ekkert ágengt enda ég “sofandi”.
4. Sumarið sem ég varð 17 ára vann í frystihúsi við að pakka inn og verðmerkja kjötvörur. Allir verkstjórar og yfirmenn voru miðaldra karlar og þeir gerðu sér það að leik að taka utan um mann og spyrja hvort þeir ættu nú ekki að hlýja manni. Þegar ég minntist á þetta við hinar stelpurnar og hversu óviðeigandi þessi hegðun væri, sérstaklega hjá einum þeirra fékk ég þvílíka ræðuna um að hann K væri svo yndislegur maður, fjölskyldumaður sem gerði allt fyrir starfsmenn mína. M.ö.o. “vertu sæt og haltu kjafti”.
5. Annað partý, ennþá 17 ára. Ég drapst í rúminu hjá vinkonu minni. Meðan allir hinir krakkarnir fóru í bæinn varð einn gaur eftir til að “passa” upp á mig. Hann var mjög hrifinn af mér og hafði verið lengi. Ég man slitrótt eftir því að hann lá í rúminu við hliðina á mér og var að segja mér frá því hversu skotinn hann væri og hann lét höndina mína síðan ofan á kynfæri sín og lét mig þukla á þeim. Veit ekki hvort meira gerðist.
6. Djammið fyrir nokkrum árum. Ég var að dansa á Kaffibarnum og það var alltaf einhver gaur sem kom aftan að mér, lét mig “grinda” upp við hann og káfaði grimmt og gróflega. Ég færði mig alltaf undan en hann varð ágengari og ágengari og það endaði með því að ég prófaði að flýja hann og fór að reykja. Hann elti mig þangað og glotti svona ógeðslega til mín, þetta var greinilega einhver leikur af hans hálfu. Ég leitaði að lokum til hóps stráka sem voru þarna og þeir enduðu næstum því í slag. En allan tímann var skömmin mín, það var ég sem blandaði öðrum í málið. Skömmin var aldrei hans.
7. Starfsþjálfun í félagsráðgjafarnáminu. Það var haldin árshátíð fyrir starfsstaðinn og ég sat við hliðina á einum starfsmanninum. Hann fór fljótlega að opna sig um allskonar vandamál og við duttum á trúnó. Daginn eftir fékk ég e-mail frá honum, veruleikafirrt og yfirþyrmandi ástarbréf þar sem ég var sögð sú eina sem skildi hann og ég væri konan fyrir hann. Á mánudeginum kom hann til mín og ég gerði honum það ljóst að þetta bréf hefði valdið mér miklum óþægindum og ég hefði alls ekki upplifað þetta eins og hann. Hann hélt áfram að senda mér bréf sem hann grátbað mig um að svara og var mjög óþægilegur í framkomu. Hann elti mig inn á kaffistofu þegar ég fór þangað og stundum leit ég upp frá tölvunni og hann var hinum megin við skrifstofuna og starði á mig. Mér létti mikið þegar hann fór loksins í fæðingarorlof (já, konan hans var á steypinum með barn nr.2 allan tímann).
8. Ég var að dansa á Dillon fyrir nokkrum árum og einn gæjinn reyndi hvað eftir annað að króa mig af. Ég forðaðist hann alltaf. Eftir lokun var ég að bíða eftir leigubíl og hann kom upp að mér og byrjar að spjalla. Eftir fyrri reynslu hef ég passað mig að vera ekki of kammó við ókunnuga menn og því var ég frekar þurr á manninn við hann en kurteis. Þegar leigubíllinn kom og ég settist upp í hann öskraði hann reiður á eftir mér: “kommon, ertu ekki að grínast í mér?!”. Hvernig hann fékk það út að ég skuldaði honum nokkurn skapaðan hlut mun ég aldrei vita, tilætlunarsemin og frekjan var að gera út af við hann.
9. Síðan í mars á þessu ári hafa virkir í athugasemdum fært sig verulega upp á skaftið og margir karlar hafa spurt hvort ég þurfti ekki bara að fá að ríða í kommentum. Tveir karlar hafa bókstaflega áreitt mig og verið mjög ógnandi í hegðun gagnvart mér. Það er ekki beinlínis kynferðislegt en það hefur klárlega með kynferði mitt og samfélagslega stöðu að gera. Þeir vilja sýna mér hver fer með valdið. Ég hef aldrei séð það jafn skýrt hversu hlutgerð ég er sem kona og núna undanfarna mánuði.
Þetta eru bara helstu atriðin sem ég hef náð að rifja upp síðustu tvo daga og sem hafa haft áhrif á sjálfsmynd mína, kynfrelsi og samskipti og framkomu við aðra. Konur mótast af svona áreiti og ofbeldi og þær eru skilyrtar til að vera auðmjúkar og undirokaðar. Ekki bara í samskiptum við karlmenn heldur á öllum sviðum samfélagsins. Mér fannst Drífa Snædal setja það vel í orð hérna: http://www.visir.is/g/2017171019014
Þetta er orðinn svo eðlilegur partur af lífi kvenna að margar okkar eru enn að uppgötva það kynferðislega áreiti og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, setja það í samhengi og vinna úr því. Ég er heppin, mér finnst reynsla mín ekki það slæm. Það er það fáránlegasta við þetta allt saman. Ég hef ekki orðið fyrir hrottafenginni nauðgun og ég upplifi mig heppna. Þetta er samfélagið sem við búum, þetta er feðraveldið. Og þið kæru karlmenn sem látið orðið “feðraveldið” fara meira í taugarnar á ykkur en kynjamisréttið og sögurnar sem hafa dunið á ykkur undanfarið; þið þurfið virkilega að fara í sjálfsskoðun og leiðrétta forgangsröðun ykkar. Nú ætla ég að vera frökk og einfaldlega segja ykkur að þetta er ekki ykkar reynsluheimur. Ef að hann væri það þyrftuð þið ekki að pakka í vörn og spyrja: “hvað með okkur?”. Þið mynduð taka þátt í slagnum með okkur, viðurkenna okkur reynslu og deila ykkar eigin, þó með þeim fyrirvara að ykkar reynsla er í allt öðru samhengi. Í nútíma samfélagi eruð þið sterkara kynið á flestan hátt og það vinnur með ykkur, hvort sem þið viðurkennið það eða ekki.
Og enginn ykkar er saklaus, enginn ykkar er undanskilinn. Þó að þið hafið kannski ekki káfað, áreitt eða nauðgað að þá hafið þið allir hlegið með karlrembubröndurum, mögulega nauðgunarbröndurum, og ekki sagt neitt þegar karlar í kringum ykkar tala um konur eins og hluti. Það þýðir ekki að þið eruð vondir menn, ég elska alla karlana í mínu lífi skilyrðislaust og þeir væru ekki partur af lífi mínu nema þeir væru yndislegir. En þið ólust upp innan ákveðins kerfis og þessi meðvirknishegðun er partur af samfélagslegu uppeldi ykkar. Það er ekki ykkur að kenna að svo er. En það er hinsvegar ykkar að taka ábyrgð á hegðuninni, læra af mistökunum og breyta.
Þetta er ekki tilraun til ásökunar eða afleiðing biturðar. Þetta er öllu heldur örvæntingafullt ákall eftir aðstoð, samvinnu við að fella feðraveldið. Ef þið segið eða gerið ekkert eruð þið partur af vandanum. Plís verið partur af lausninni ❤