Ekki bara ég…

Adda Ingólfsdóttir Heiðrúnardóttir segir frá:

Ég hef oft tekið þátt í hreyfingum og samstöðu hér á FB og annars staðar þar sem ég hef sýnt samstöðu með konum og fólki sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi, og gefið til kynna að ég sé ein af þeim. En ég hef aldrei sagt frá hvað gerðist. Ég vil segja svolítið um það núna og um leið lýsa hvernig mér líður eftir að hafa lesið yfirlýsingu Bjarkar Guðmundsdóttur um áreitið sem hún var beitt af Lars Von Trier.

**TW**- kynf.ofbeldi gegn börnum, niðrandi orðræða um konur o.fl.

Ég er hrærð, sorgmædd, og þakklát.

Ég er sorgmædd af því að einhverstaðar í mínu unglingshjarta, því sama og uppljómaðist og umturnaðist við að hlusta á tónlist Bjarkar, var ég að vona að hún hefði sloppið. Þetta er sama tilfinning og ég fæ í hvert einasta skipti sem kona segir frá. Æ nei, ekki líka hún. Af því ég er alltaf að vona að einhverjar hafi sloppið. Sloppið við ofbeldið og allt helvítið sem fylgir. Því ég veit, að þó að kona hafi náð að jafna sig á atvikinu, eða fundist hún hafa unnið úr því og það hafi ekki áhrif, þá er áreiti og ofbeldi aldrei einangruð atvik í lífi fólks og sérstaklega ekki kvenna þar sem þöggun og skömm eru innrætt okkur frá blautu barnsbeini. Það er engin leið að vita hvernig, hvort og hve lengi svona atvik spilast út og yfirleitt eru þau ekki ein á ferð – það voru fleiri á undan, það verða fleiri á eftir og þau geta dýpkað förin. Aukið á hræðsluna, sjálfsefann, vantraustið gagnvart karlmönnum, fólki, ástmönnum, gert það ennþá erfiðara að vera hlý, vera barnslega saklaus í ástinni, vera þú sjálf. Bara það að segja ekki frá atvikinu eykur hættuna á einangrun, kvíða, depurð…. Svo ekki sé talað um allar aðrar mögulegar afleiðingar.

Í allri þessari samlíðan gleymdi ég eitt augnablik að það eru ekki einu sinni allir sem trúa henni. Æ já, auðvitað, ekki einu sinni henni. Björk kom og studdi við okkur allar – og ekki síst konur í kvikmyndabransanum – með því að viðurkenna það sem hún hefur lent í, en henni er þá heldur ekki trúað. Alveg rétt, það er alltaf einhver góð ástæða fyrir að trúa ekki konu. Hún er of valdalaus. Eða nei, hún er með of mikil völd. Hún er grunsamleg.

Ég las eina athugasemd við yfirlýsingu Bjarkar sem fékk mig til að hugsa. Í þeirri athugasemd kom fram sú skoðun höfundar að Björk væri lélegur pappír fyrir að koma með þessar ásakanir, vegna þess að Lars og aðrir hefðu sjálfir verið fórnarlömb Bjarkar, fórnarlömb hennar hegðunar. Hún væri alveg jafn slæm og leikstjórinn. Hún er sem sagt ekki bara grunsamleg, heldur sek að hans mati.

Þetta er, að ég held, ein af stóru ástæðunum fyrir að konur segja ekki frá.

Þær upplifa sig sekar. Með öðrum orðum, þær eru ekki fullkomin fórnarlömb. Þær komu illa fram við manninn, þær komu illa fram við annað fólk, þær voru stjórnlausar í hegðun, svo ég tali nú ekki um kynferðislega óútreiknanlegar. Í öllu falli, hvað sem þær gerðu, það var alltaf nógu slæmt til að þær geti ekki farið að segja frá áreiti, hvað þá nafngreina geranda. Og kannski áttu þær þetta beinlínis skilið, og þá er auðvitað hræsni að segja frá.

Ég var fyrst beitt kynferðislegu ofbeldi þegar ég var fimm ára. Nú er ég 39 ára. Það eru um það bil fjögur ár síðan að ég skildi og sá að ég hefði ekki átt sök á þessu ofbeldi og að ég hefði verið saklaus þegar ég var fimm ára. Það var ekki nóg að rifja upp atvikið, segja frá því og fá viðbrögð frá góðum vinkonum og sálfræðingum. Nei. Eftir marga sálfræðitíma, ólíkar tegundir af meðferðum og langan tíma á stígamótum þá sýndi sálfræðingurinn minn mér myndir af fimm ára stelpum og spurði mig: Ef þær hefðu lent í sama atviki og ég, hefðu þær verið sekar, eða hefði gerandinn átt ábyrgðina?

Þegar ég sá þessar glöðu hressu saklausu fimm ára stelpur, þá táraðist ég, í fyrsta skiptið, af raunverulegri samlíðan fyrir litlu fortíðar fimm ára mér og fann í hjartanu að hún átti ekki sökina. Allan tímann hafði ég haldið að ég hefði hreinlega fæðst sek, og bar þá sekt með mér út í lífið. Önnur atvik sem ég lenti í, bæði ofbeldi og áreiti, staðfestu öll þessa sekt. Nú ætla ég að nafngreina einn af mínum gerendum. Það er afi minn Steinn Stefánsson. Fari hann í heitasta helvíti segir litla 8 ára Adda við hann núna, eftir að hafa styrkst og eflst við hugrekki annarra kvenna og fengið hjálp frá Öddu eldri við að að vinna úr öllu þessu ofbeldi og áreiti. Ég hef fengið að lifa í 4 ár með hinum nýja sannleika að ég hafi ekki verið og sé ekki sek. Það er eins og að endurfæðast og það var hvorki auðvelt né þægilegt.

Ég held að fáir sem hafa ekki upplifað kynferðislegt ofbeldi og áreiti geti skilið hvernig það er að upplifa sig seka frá fæðingu. Þetta er ekki skoðun, hugmynd, ekki einu sinni tilfinning. Þetta er samofið sjálfsmyndinni, heimsmyndinni. Þetta er sannleikur. Samkvæmt þessum sannleika fæddist ég einhverskonar femme fatal.

Og það er ekki bara ég, og ekki bara þetta atvik síðan ég var fimm ára eða átta ára. Nei, það er öll þöggunin í kring, það er menningin, orðræðan um konur og kynlíf, karla og kynlíf, grínið, nauðgunarmenningin, hver man ekki eftir „nei þýðir nei, nauðgun er kækur“? Ha ha ha ha.

Þegar ég var táningsstúlka var ég flatbrjósta (hverskonar orð er þetta? Ætli konur hafi fundið það upp? Ég efast um það). Strákar hreyttu í mig og gerðu grín að mér vegna þess. Hvernig? Meðal annars með því að kalla mig hóru. Svo kölluðu þeir stelpurnar með stóru brjóstin líka hórur. Why not. Það er okkur að kenna að vera ekki nógu flottar fyrir ykkur, og það er okkur að kenna að vera of flottar, svo að þið getið ekki fengið okkur. Og hórur, vændiskonur? Þær eru ekki manneskjur, nei þær eru viðbjóðslegt skammaryrði og á sama tíma helsta þrá unglingsstráka – segi ég byggt á eigin reynslu af unglingsárunum. Það er niðurlægjandi og óþægilegt þegar strákar í skólanum skoða klám. Konurnar í kláminu – sem þá langar svo voðalega í – eru nefnilega líka einhverskonar hórur eða druslur. Það er óþægilegt bæði vegna þess að þú ert ekki þessi kona sem þá langar í, og það er óþægilegt vegna þess að þeir virðast líta niður á þessa konu sem þá langar í sem þú munt samt aldrei verða.

Út frá eigin reynslu held ég að ég geti fullyrt að allar konur sem ég hef talað við sem hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi hafa upplifað sekt, í minna eða meira mæli. Og þá skiptir ENGU máli hversu ung hún var, hversu mikill aldursmunurinn var milli hennar og geranda, hversu alvarlegt eða endurtekið ofbeldið var, hversu mikil valdatengslin voru eða í hvaða átt, milli hennar og geranda, hvort þau þekktust eða voru skild eða hvort hún elskaði hann eða hataði.

Heimsfrægar söngkonur og heimsfrægir leikstjórar standa ekki utan við þessa menningu þar sem konur eru gerðar sekar um ofbeldið sem beitt er gegn þeim, og karlar spila sig sem fórnarlömb þeirra og fá samúð annarra karla fyrir.

Að lokum vil ég segja til ykkar konur og fólk sem hefur orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi: Það eru ekki til nein fullkomin fórnarlömb. Ef þú treystir þér ekki til að opna þig um það sem þú lentir í þá virði ég það, þú ein/n veist hvað er best fyrir þig. En mundu bara að við erum allar alltaf sekar inní orðræðu nauðgunarmenningar. Slæm hegðun sem þú hefur viðhaft gagnvart fólki, fyrir eða eftir að brotið var á þér, dregur ekki úr og hefur ekki áhrif á alvarleika brotsins.

Þið eruð ekki sekar.

Og elsku börn sem var brotið á:

Þið eruð ekki sek.

#höfumhátt #metoo

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.