Rauðhetta

Una Margrét Jónsdóttir segir frá:

Ég líka? Já, ég líka. Ég set hér fyrir neðan frásögnina af því. Þetta er kafli úr óprentaðri ævisögu minni sem kannski kemur út eftir svona 50 ár.

Þegar ég var lítil átti ég heima á Ljósvallagötu 32. Beint á móti húsinu okkar var gamli kirkjugarðurinn. Fyrir sunnan kirkjugarðinn var svolítið tún, þar var líka göngustígur meðfram kirkjugarðsveggnum, bekkir og blómabeð. Við enda túnsins, rétt hjá syðra Suðurgötuhorni kirkjugarðsins, var þyrping af grenitrjám. Hún stendur þar enn og trén eru orðin mjög há. Þegar ég var lítil voru þau líka býsna há og greinarnar mynduðu heilmikið þykkni svo vel var hægt að fela sig þarna inni. Það er ekki lengur hægt því nú er neðsti hluti trjábolanna ber.
Þessi trjálundur var eins og pínulítill skógur og hentaði sérlega vel til þess að leika Rauðhettu. Ég fór stundum þangað með litla körfu og þóttist vera Rauðhetta. Það var ein fyrsta sagan sem ég hafði lesið þegar ég lærði að lesa. Ég hafði ekki hugmynd um það að til var önnur túlkun á sögunni en sú sem liggur beinast við eftir orðanna hljóðan, allt frá dögum 17. aldar þjóðsagnasafnarans Perraults hafði sagan verið túlkuð sem viðvörun til ungra stúlkna að gæta sín á kynferðisglæpamönnum sem gætu verið jafn slungnir og úlfurinn. Ég vissi ekki að slíkt væri til. Því síður vissi ég að ég ætti eftir að hitta úlfinn – og einmitt þarna í þessum skógi.
Margir hafa fjallað um söguna um Rauðhettu. Einn þeirra er rithöfundurinn Lucy Maud Montgomery. Í sögunni „Emily of New Moon“ lætur hún Emilíu litlu segja þannig frá því í dagbókinni þegar hún les Rauðhettu í fyrsta skipti: „Mér fannst hún heimsk stelpa að láta plata sig svona. Mér fannst úlfurinn áhugaverðasta persónan.“ Og fleiri hafa verið á svipaðri skoðun.
Ég gerði fleira fyrir sunnan kirkjugarðinn en að leika Rauðhettu. Eftir að ég eignaðist tvíhjól hjólaði ég fram og aftur eftir stígnum. Ég mátti ekki fara niður á Suðurgötu af því að þar var umferðin hættuleg. En á stígnum voru engir bílar. Hjólið mitt hafði verið keypt notað, en það var býsna fallegt að sjá því pabbi hafði málað það gult og skærblátt. Út af litunum hafði ég gefið hjólinu nafnið Fífill. Ég leit svo á að hjólið væri lifandi eins og flestir aðrir hlutir.

Á bekkjunum sat oft gamalt fólk og hvíldi lúin bein. Sumt af fólkinu var frá elliheimilinu Grund sem var þarna rétt hjá, þetta var mátulegur göngutúr þaðan. Ég spjallaði oft við gamla fólkið og kynntist sumum. Margir, bæði karlar og konur, klöppuðu mér á kollinn og gáfu mér sælgæti eða aura. Reynsla mín var sú að gamalt fólk væri yfirleitt gott.
Dag nokkurn hafði ég verið að hjóla fyrir sunnan kirkjugarðinn og sat nú í grasinu rétt hjá trjálundinum og hvíldi mig. Ég hef líklega verið svona 9 ára. Hjólið Fífill lá við hliðina á mér. Gamall maður í frakka sat á bekknum þarna hjá og það var auðvitað kunnugleg sjón. Hins vegar varð ég dálítið undrandi þegar hann tók allt í einu út á sér tippið. Ég kunni ekki almennilega við þetta og reyndi að horfa á eitthvað annað. Sem betur fer setti hann fljótt tippið inn aftur.
Gamli maðurinn tók mig síðan tali. Ég man ekki hvernig samtalið byrjaði, en eftir svolítinn tíma sagði maðurinn:
„Værirðu til í að lofa mér að snerta þig hérna“ (hann benti á klofið á sér) „ef ég borga þér 200 krónur?“
Mér fannst þetta fremur undarleg tillaga. Af hverju í ósköpunum vildi maðurinn fá að borga 200 krónur fyrir að snerta smekkbuxurnar mínar? En mér var svo sem sama, fullorðið fólk gerði svo margt einkennilegt sem ég botnaði ekkert í. Þetta virtust auðunnir peningar svo ég sá ekkert á móti þessu og samþykkti óðara.
Gamli maðurinn stóð nú á fætur og benti mér að koma með sér niður á Suðurgötu til þess að komast inn um kirkjugarðshliðið sem þar var. En ég neitaði því. Ég var yfirleitt smásmyglislega samviskusöm og hlýðin foreldrum mínum. Mér hafði verið bannað að fara niður á Suðurgötu og mér fannst sjálfsagt að fara eftir því. Hins vegar hafði mér aldrei verið bannað að láta gamlan mann snerta klofið á mér.

Fyrst kirkjugarðurinn kom ekki til greina fékk gamli maðurinn mig til þess að fara inn í trjáþykknið með sér. Við hurfum inn á milli greinanna og hann fór að troða höndinni niður í smekkbuxurnar mínar. Þá leist mér ekki lengur á blikuna. Ég hafði misskilið hann, ég hafði haldið að hann vildi bara fá að snerta mig utan frá, en hann vildi greinilega fá að snerta mig bera. Hefði ég vitað það hefði ég ekki samþykkt þetta, en nú var ég eiginlega búin að samþykkja svo mér fannst að það væri of seint að neita. Ég vonaði bara að hann kæmist ekki niður í smekkbuxurnar, en honum tókst það á endanum og hann fór að káfa á kynfærunum. Mér fannst þetta heldur óþægilegt og eftir stutta stund var hann farinn að þreifa svo fast að hann meiddi mig. Þá fannst mér mælirinn fullur. „Nú er nóg komið,“ sagði ég og reyndi að ýta honum frá mér. En hann var miklu sterkari en ég og gerði ekkert með það sem ég sagði.
Allt í einu var samt eins og hann færi að taka orð mín alvarlega. Hann steinhætti, snerist snögglega á hæli og hvarf inn á milli greinanna. „Heyrðu, bíddu!“ kallaði ég, því hann átti eftir að borga mér 200 krónurnar. En í því var nafnið mitt nefnt fyrir aftan mig. Mamma var komin og Inga vinkona mín með henni.
„Hvaða maður var þetta?“ spurði mamma og röddin var hvöss og áhyggjufull.
Mér datt ekki í hug að fara að leyna því sem gerst hafði, enda vissi ég ekki að það væri venjan í svona málum. Þvert á móti sagði ég mömmu og Ingu allt saman alveg hiklaust.
Mamma varð æst og ég gat ekki fundið betur en hún væri hálfreið við mig. „Þú átt aldrei að fara neitt með svona mönnum!“ sagði hún, „þeir eru hættulegir!“ „Já, ég fer aldrei neitt með ókunnugum mönnum,“ sagði Inga og setti upp svip sem hæfði prúðu barni.
Þegar heim kom virtust pabbi og mamma bæði í hálfgerðu uppnámi. „Þú mátt aldrei fara neitt með svona mönnum þegar þú ert ein!“ endurtóku þau bæði ásakandi.
„En Fífill var með mér,“ sagði ég.
Þetta fannst foreldrum mínum ekki gott svar. Það var greinilegt að reiðhjólið Fífill var ekki fullgildur félagi í þeirra augum. Á framkomu þeirra mátti finna að eitthvað mjög alvarlegt hefði gerst, eitthvað sem virtist miklu verra en ég áttaði mig á, eitthvað enn verra en óþægindin sem ég hafði af því þegar kallinn var að káfa á mér. Ég hafði gert eitthvað rangt. Og nú var jafnvel farið að minnast á að kalla til lögregluna.

Þetta gerðist í kringum 1975. Á þessum tíma var aldrei fjallað um kynferðisafbrot í fjölmiðlum nema kannski rétt þegar skýrt var stuttaralega frá dómum fyrir glæpi. Aldrei nokkurn tíma voru viðtöl við þá eða þær sem höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ekkert var um það fjallað hvernig rétt væri að bregðast við. Þess vegna var ekki við því að búast að foreldrar mínir kynnu það frekar en aðrir. Þeim þótti vænt um mig og þau vildu allt fyrir mig gera, en þau höfðu ekki lag á því að vara mig við svona mönnum öðruvísi en að koma um leið inn hjá mér þeirri tilfinningu að ég hefði gert eitthvað mjög rangt. Og þegar ég heyrði minnst á lögregluna sagði ég þvert nei. Það var ekki svo að ég héldi að hún myndi handtaka mig, en ef ég hafði gert eitthvað rangt vildi ég náttúrlega ekki fara að auglýsa það út um allan bæ með því að tala við ókunnuga lögreglumenn. Ég vildi ekki heyra á það minnst að talað væri við lögregluna. Og pabbi var líka alveg á móti því. Hann vildi ekki að mér væri komið í uppnám með því. Auðvitað má segja að það hafi verið rangt. En hann var að reyna að vernda mig og ég get ekki ásakað hann fyrir það. Að önnur börn gætu verið í hættu fyrir barnaníðingnum var nokkuð sem hann hugsaði ekki út í og ég vissi náttúrlega ekkert um. Þess vegna var lögreglan ekki látin vita. Mamma minntist bara á atvikið við mömmu Ingu og varaði hana við því að láta Ingu vera eina fyrir sunnan kirkjugarðinn.
Daginn eftir að þetta gerðist fór ég út í Brekku, búðina á horni Ljósvallagötu og Ásvallagötu. Þar sá ég allt í einu karlinn aftur. „Góðan daginn,“ sagði ég kurteislega, en karlinn starði út í loftið og lét sem hann sæi mig ekki.
Ég sagði pabba og mömmu að ég hefði séð karlinn hjá Brekku. „Og talaðirðu eitthvað við hann?“ sögðu þau æst. „Ég bauð honum góðan dag,“ sagði ég, „en hann svaraði ekki.“ „Við vorum búin að segja þér að þú átt ekkert að tala við svona karla!“ sögðu pabbi og mamma og virtust aftur komin í uppnám. Hvað var nú? Hafði ég enn gert eitthvað vitlaust? Átti maður ekki að vera kurteis og bjóða góðan daginn? Það var orðið erfitt að skilja hvernig maður átti að haga sér.

Með tímanum varð þetta að óþægilegri minningu sem varpaði svolitlum skugga á fallega trjálundinn við hornið á kirkjugarðinum. Það var svo árið 1986, þegar ég var orðin tvítug, sem Svala Thorlacius lögfræðingur skrifaði grein í Morgunblaðsins þar sem hún fjallaði um kynferðisglæpi Steingríms Njálssonar gagnvart börnum og getuleysi dómkerfisins til þess að taka á svona málum. Það var eins og sprengju hefði verið varpað. Allt í einu voru allir farnir að tala um kynferðisbrot gegn börnum, glæpi sem maður hafði ekki gert sér grein fyrir að væru til. Ég hafði fulla samúð með börnunum og það leið dálítill tími þangað til ég áttaði mig á því að ég hafði sjálf orðið fyrir kynferðislegri áreitni á barnsaldri, að það var það sem í rauninni gerðist þennan dag. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fyrr en farið var að tala um þessa hluti.
Þó að börn sem urðu fyrir kynferðisofbeldi ættu alla mína samúð og mér dytti ekki í hug að kenna þeim um var ekki laust við að ég kenndi sjálfri mér um það sem gerst hafði. Mér fannst ég hafa verið svo vitlaus. Hafði ég kannski ekki samþykkt að láta hann káfa á mér fyrir 200 krónur? Að ég skyldi ekki strax átta mig á því hvað maðurinn vildi! Að ég skyldi ekki átta mig á því að maðurinn var hættulegur!

Það var ekki fyrr en ég giftist og sagði manninum mínum frá þessu – og hann sagði að það væri fráleitt að ásaka mig fyrir þetta – sem ég trúði því loksins að þetta hefði ekki verið mér að kenna. Núna finnst mér furðulegt að ég skyldi geta yfirleitt geta trúað því á fullorðinsárum að ég hefði átt einhverja sök á því að gamall kall káfaði á mér þegar ég var níu ára. Rauðhetta hafði aldrei hitt úlf og þess vegna vissi hún ekki að úlfar væru hættulegir. Henni datt ekki í hug að úlfurinn vildi henni nokkuð illt. Í rauninni er Rauðhetta ekki heimsk. Hún er bara saklaus.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.