Þegjum ekki…

Stefanía Ragnarsdóttir skrifar:

Fyrsta skiptið sem ég man eftir var í Sundhöll Reykjavíkur. Ég hef verið um tíu ára gömul. Man það ekki nákvæmlega. Þar var strákur, þremur árum eldri en ég, sem var að fíflast eitthvað í mér og vini mínum. Svo allt í einu lyftir hann mér upp á bakkann, þannig að ég sitji, en strýkur fingrunum innanundir sundbolinn milli læranna á mér. Skömmin og sektarkenndin var yfirþyrmandi.

Þegar ég var fjórtán/fimmtán ára var ég í strætó. Upp að mér gekk strákur, tveimur árum eldri en ég og settist við hlið mér. Hann var hluti af hópi sem kom ógnandi og hreint út sagt ógeðslega fram, við fjölmarga yngri nemendur í skólanum okkar. Þegar hann kom að mér þetta sinn í strætónum settist hann við hliðina á mér. Hann tók utan um mig og spurði háðslega, kvikindislega og á sinn viðbjóðslega hátt, hvort ég vildi ekki verða kærastan hans. Ég bað hann vinsamlega að setjast annars staðar í vagninn, þar sem öll önnur sæti voru laus en mitt og vinkonu vinnar sem sat fyrir framan mig. Ég bað hann kurteislega, skíthrædd, lítil í mér. Þegar ég hafnaði honum hrækti hann framan í mig og kýldi í vörina svo hún sprakk, rétt áður en hann stóð upp til að fara úr vagninum. Vagnstjórinn sá til og bauð mér að vera vitni ef ég vildi kæra hann. Vagnstjórinn opnaði ekki hurðina fyrir stráknum, stóð upp, gekk aftast í vagninn, var aðeins haltur í sérsmíðuðum skóm, en lét það ekki stoppa sig. Hann vildi athuga hvort það væri í lagi með mig og gaf mér það vald að segja til um hvort lögreglan yrði kvödd til og hvort stráknum yrði hleypt út. Ég var svo hrædd að ég vildi bara losna við strákinn, aðhafðist aldrei neitt vegna þessa og hélt bara áfram að forðast hann eins og heitan eldinn. Vagnstjóranum náði ég aldrei að þakka. Hefði viljað sýna honum hversu mikinn styrk hann gaf mér.

Þegar ég var fimmtán ára ætlaði ég með strák í partý. Það var ekkert partý. Við fórum heim til hans. Nóttin var á hans forsendum, ekki mínum. Ég var í buxum, ekki stuttu pilsi, ég var búin að drekka áfengi, ekki drukkin, ég var hins vegar full sektarkenndar, sjálfsásökunar og sársauka þegar ég tók strætó heim daginn eftir.

Þegar ég var um átján ára fór ég í sumarbústað með vinum mínum og þáverandi kærasta. Ég vaknaði um miðja nótt við að hönd var komin á kaf ofan í svefnpokann minn, ofan í nærbuxurnar, en var mjög drukkin og sneri mér ofan í pokanum þannig að ekki var hægt að aðhafast frekar. Þegar ég vaknaði morguninn eftir var það ekki kærastinn sem lá við hlið mér heldur vinur hans. Sem fannst ekkert sjálfsagðara en káfa á kærustu vinar hans. Hann baðst afsökunar mörgum árum síðar.

Hér eru ótalin öll óviðeigandi ummæli, óviðeigandi klapp og/eða káf.

Ég ætlaði ekki að taka þátt, ég ætlaði ekki að viðra mín óþægilegu mál, ég ætlaði ekki að segja eitthvað sem gæti komið einhverjum í uppnám.

En þegar maður les og þegar maður sér, hversu oft svona hegðun á sér stað, þá vekur það ekki bara upp sorg, reiði og allar tilfinningar sem fylgja þessum atvikum.

Það vekur mann til umhugsunar um hvers konar uppeldi og hvers konar samfélagi við viljum bjóða börnunum okkar upp á. Það þarf þjóðfélag til að ala upp barn. Verum þjóðfélagið sem þegir ekki um vandann, heldur þjóðfélagið sem talar um vandann, finnur leiðir til úrlausna og verum til fyrirmyndar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.