Rauði jakkinn og varúðarráðstafanir gegn áreitni

Halla Gunnarsdóttir skrifar:

Upp úr tvítugu fluttist ég í miðbæinn og tók upp bíllausan lífsstíl. Ég fór því talsvert gangandi um bæinn. Stundum að kvöldlagi, einkum um helgar, fann ég fyrir óöryggi sem ábyggilega allar konur þekkja. Ég hugsaði mikið um þetta og tók ákvörðun um að þetta óöryggi mætti ekki verða til þess að breyta leiðum mínum. Ég þekkti tölfræðina: það er hættulegra að vera kona heima hjá sér en göngu um bæinn að kvöldlagi. Ég ætlaði ekki að gefa eftir almannarýmið út af einhverjum undirliggjandi ótta við að eitthvað sem gæti gerst. Því allt getur gerst hvort eð er. Og ef óttinn sigrar, þá sigrar ofbeldið.

Svo einhvern tímann keypti ég mér hárauðan jakka. Og allt í einu fannst mér ég berskjaldaðri þegar ég gekk upp Laugaveginn eftir miðnætti. Ég botnaði ekkert í því, en hugsaði ekki nánar út í það, dró bara húfuna ofan í augu og labbaði hraðar. Og notaði jakkann reyndar sjaldnar. Ég var ákveðin í að breyta ekki um leið. En ómeðvitað breytti ég oft um hegðun.

Karlar sem þröngva sér inn í rými kvenna

Það var ekki fyrr en ég kynntist rannsóknum Fionu Veru Gray, nýdoktors við Durham háskóla í Bretlandi, að ég fór að skilja hversu mikla orku ég hafði notað í allar þessar pælingar: um hvernig væri best að klæða sig, hvorum megin við Laugaveginn væri betra að labba, að hafa símann alltaf til taks til að geta horft á hann frekar en að mynda augnsamband við karla sem ég mætti. Og svo framvegis. Og svo framvegis.

Síðastliðin fimm ár hefur Fiona tekið viðtöl við tugi kvenna í Englandi um upplifun þeirra af kynferðislegri áreitni í almannarýminu og um „varúðarráðstafanirnar“ sem konur grípa til í von um að forðast áreitni. Fiona notast við hugtakið „men’s intrusion“ í almannarýminu til að ná betur utan um það hverni karlar þröngva sér inn í rými kvenna. Áreitnin getur verið munnleg, (t.d. „brostu vinan“, „flott brjóst“, „mmm“) eða líkamleg (t.d. snerting eða flass).

Í felum bak við sólgleraugu

Niðurstöður rannsóknarinnar eru sláandi. Allar höfðu konurnar stórlega vanmetið þann tíma og orku sem þær notuðu í varúðarráðstafanir, sem Liz Kelly prófessor hefur vísað til sem „safety work“. Konurnar tóku meðvitaðar ákvarðanir um hvar væri best að sitja í strætó, fóru út stoppistöð á undan eða eftir, voru alltaf með slæðu með sér til að geta falið meira af líkama sínum og notuðu sólgleraugu og heyrnatól til að „fela sig”. Já og forðuðust að vera í rauðu, það væri of áberandi. Ég var sum sé ekki ein um að óttast rauða litinn.

Og það er það sem #metoo bylgjan – og aðrar femínískar byltingar sem hafa átt sér stað hér á landi og víðar – hefur afhjúpað: konur eru ekki einar í neinu af þessu. Því kynferðisleg áreitni er aldrei einstakt tilvik. Hún er samhengi.

Kynferðisleg áreitni – á götum úti, á vinnustað, í skóla, á heimili eða hvar sem er – minnir konur á þann stað sem þeim er ætlaður í feðraveldissamfélagi. Hún er í beinu samhengi við ofbeldi gegn konum, þar sem áreitnin undirstrikar að allt getur gerst. Og þú veist aldrei hvenær eða hvernig.

#metoo og hinar bylgjunar

Í stórgóðri grein Lauru Bates er því lýst hvernig þolendur Harvey’s Weinstein reyndu afar ólíkar leiðir til bregðast við áreitninni: sumar þögðu, aðrar sögðu frá, sumar börðust á móti honum, aðrar gáfu eftir. En alveg sama hvaða leiðir þolendurnir völdu, þær unnu aldrei. Þær sátu uppi með skömmina og oft skert tækifæri í heimi kvikmyndanna.

Það eru engin rétt viðbrögð við ofbeldi eða leiðir til passa sig, eins og femínistar hafa hamrað á. En samt er sennilega erfitt að finna konu sem ekki hefur eytt ómældum tíma í að hugsa upp leiðir til að forða sér, leiðir til að spyrna á móti, leiðir til að bregðast við áreitni.

Fyrir hvert myllumerki #metoo er saga af áreitni eða ofbeldi, en líka saga af orku og tíma sem fer í að reyna að lifa með þessari stöðugu ógn af ofbeldi. Stöðugar samningaviðræður eiga sér stað innra með okkur og smám saman breytum við hegðun okkar, jafnvel þótt við séum ákveðnar í að láta það ekki gerast. Því þannig virkar ofbeldið, hvort sem við höfum upplifað ofbeldi sjálfar eða ekki.

Er þetta ekki fulldramatískt?

Svo leitar á okkur önnur aðkallandi spurning: er ég ekki fulldramatísk? Er nokkur hætta á ferðum?

En það er ekki neitt svar. Því eins og Fiona hefur bent á þá er ekki til neitt sem heitir „hæfilegar varúðarráðstafanir“. Það er ekkert rétt hlutfall af ótta, þótt sú krafa sé stanslaust gerð á konur að þær vegi og meti allar aðstæður svo réttilega að þær geti forðast ofbeldi, en jafnframt að þær séu ekki of hræddar, ekki of stressaðar. Það er engin leið að finna hinn gullna meðalveg. Hann er ekki til. Varúðarráðstafanirnar eru mjög eðlilegt viðbragð við afar óeðlilegum veruleika.

Nú þegar konur heimsins tjá sig um kynferðislega áreitni og ofbeldi, er áhugavert að beina sjónum líka að áhrifum ógnarinnar af ofbeldi á daglega hegðun okkar. Með því að búa til rými til að deila reynslu okkar af „varúðarráðstöfunum“ vörpum við ljósi á hversu mikið frelsi kvenna er skert í daglegu lífi – hversu oft við gefum eftir frelsi okkar til að finnast við aðeins öruggari. Þegar við sjáum að við erum ekki einar um að grípa til allra þessara varúðarráðstafana, þá getum við, í sameiningu, smám saman, tekið frelsið til baka, tekið rýmið til baka.

Rauði jakkinn minn endaði í fatagámi Rauða krossins eftir alltof litla notkun í of mörg ár. Ef ég ætti hann enn myndi ég grafa hann upp til áminningar um að ég sigrast aldrei ein á ógninni af ofbeldi og áreitni. En við getum það saman. #metoo

Halla Gunnarsdóttir

Ein athugasemd við “Rauði jakkinn og varúðarráðstafanir gegn áreitni

  1. Bakvísun: Topp 5 ráð fyrir karla sem eru á móti kynferðisofbeldi og vilja sýna það í verki – Lagalega lífstílsbloggið – The Legal/Lifstyle Blog

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.