Sjálfstæðisflokkurinn svarar Knúzspurningum

1. Teljið þið að fullum jöfnuði kynja sé náð á Íslandi? Ef já, hvers vegna? Ef nei, hvað vantar upp á?

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra. Ísland er nú þegar komið lengst allra þjóða í að tryggja jafnrétti kynja samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum. Á Íslandi er til dæmis mesti launajöfnuður í Evrópu samkvæmt OECD og við stöndum okkur best í jafna hlut kynjanna samkvæmt The Economist. Þegar hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja er skoðaður stöndum við öðrum Norðurlöndum framar og fleiri íslenskir feður taka fæðingarorlof en á öðrum Norðurlöndum skv. tölum Norrænu ráðherranefndarinnar. Við erum stolt af þeim árangri sem Ísland hefur náð í jafnréttismálum. En það er vissulega mikilvægt að vera ætíð á vaktinni.
2. Ef svarið við spurningu 1. er nei, teljið þið rétt að beita ráðstöfunum til að bregðast við því og þá
hverjum?
3. Teljið þið ástæðu til að taka meðferð kynferðisbrotamála innan dómskerfisins til sérstakrar skoðunar? Ef já, hvers vegna og hvernig? Ef nei, hvers vegna ekki?
Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, hefur lagt fram drög að aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins á vef dómsmálaráðuneytisins. Ólöf Nordal setti þessa vinnu af stað í innanríkisráðuneytinu á síðasta ári með samráðshópi undir forystu Maríu Rutar
Kristinsdóttur sem hefur leitt vinnuna af mikilli einurð. Aðgerðirnar sem kveðið er á um í áætluninni eru tvíþættar; annars vegar aðgerðir sem hægt er að
ráðast í strax og hins vegar aðgerðir sem eru til lengri tíma. Sjálfstæðisflokkurinn mun fylgja þessari vinnu vel eftir svo við getum saman betur barist gegn þeirri meinsemd sem kynferðisofbeldi er. Í framhaldi af útgáfu aðgerðaráætlunarinnar mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir því að hlutverk
réttargæslumanna verði betur skilgreint í lögum en þeir eru skipaðir þolendum kynferðisbrota sem þess óska, þeim að kostnaðarlausu, þegar brot sem þeir kæra koma til rannsóknar lögreglu. Mikilvægt er að réttargæslumenn haldi betur utan um hagsmuni brotaþolans á meðan á rannsókn og málarekstri stendur og að þolendur séu á öllum tímum upplýstir um stöðu málsins í kerfinu. Þá þarf líka að stytta málsmeðferðartíma kynferðisbrotamála frá því brot eru tilkynnt þar til niðurstaða fæst.
Þau þurfa að njóta forgangs í réttarvörslukerfinu.

4. Styðjið þið kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og aðrar forvirkar leiðir til að jafna hlut kynjanna?
Jafnrétti kynjanna er eitt af grunngildum Sjálfstæðisflokksins. Þegar kosið er í stjórnir og skipað í trúnaðarstöður flokksstofnana, hvort sem er í nefndir, ráð eða stjórnir, skal ávallt gætt að jöfnum hlutföllum kynjanna, eins þegar Sjálfstæðisflokkurinn býður fram fulltrúa sína við kosningar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri kvenna og karla. Til að hægt sé að byggja upp frjálst og réttlátt þjóðfélag skulu einstaklingar metnir að verðleikum sínum og þeim ekki mismunað.

5. Teljið þið rétt að leita leiða til að stemma stigu við framboði á ofbeldisklámi?
Mikilvægt er að sporna gegn hvers kyns ofbeldi og skipta forvarnir og rannsóknir þar miklu máli. Við teljum rétt að löggjöf er varðar útbreiðslu kláms sé framfylgt.

6. Nýleg könnun leiddi í ljós talsverðan mun á launum karla og kvenna, þótt yfirvinna væri ekki
höfð inni í þeim útreikningum. Hvað teljið þið útskýra þennan launamun? Finnst ykkar flokki
nauðsynlegt að bregðast við með einhverjum aðgerðum?

Í launakönnunum sem gerðar eru til að kanna launamun kynjanna er reynt að leiðrétta fyrir ýmsum þáttum, eins og vinnutíma, mannaforráð, menntun og reynsla. Þegar leiðrétt er fyrir þessum mælanlegu þáttum stendur hins vegar enn eftir um 5% tölfræðilega marktækur munur á kynjunum, körlum í vil. En þessi marktæki munur finnst aðeins í takmörkuðu umhverfi launalíkansins. Utan þess eru margir huglægir og ómælanlegir þættir sem erfitt er að fella inn í líkön af þessu tagi. Í skýrslunni Launamunur karla og kvenna sem velferðarráðuneytið lét vinna árið 2015 segir:
„Ómálefnalegan, óskýrðan launamun má skilgreina sem launamun sem eingöngu er vegna kynferðis. Um er að ræða þann mun sem eftir stendur þegar tillit hefur verið tekið til allra þeirra þátta sem áhrif hafa á launamyndun. Í reynd er í besta falli hægt að nálgast þennan mun. Launamyndun byggist oft á þáttum sem tölfræðin veitir ekki svar við. Við getum því ekki með vissu ályktað að sá óskýrði launamunur sem hér hefur verið metinn sé eingöngu vegna kynferðis.“.

7. Telur ykkar flokkur að hér á landi viðgangist kynbundið ofbeldi? Ef svarið er já, hvernig hyggist
þið bregðast við því?

Kynbundið ofbeldi er mein á samfélaginu. Það er afar mikilvægt að tala opinskátt um kynferðisbrot svo brotaþolar komi fram með reynslu sína til lögreglu eða annarra í þeirri vissu að á þá verði hlustað og allt kapp lagt á að aðstoða þá, bæði andlega og við meðferð málsins í réttarvörslukerfinu. Við
höfum náð árangri í þessum málum undanfarin ár og hefur kærum til lögreglunnar vegna kynferðisbrota til að mynda fjölgað verulega. Vonandi er það ekki vegna fjölgunar brota milli ára heldur vegna þess að hærra hlutfall brota sé tilkynnt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.