Mér var aldrei nauðgað

Ég er ein af konunum sem  varð ekki fyrir því. Ég man samt eftir því að labba inn á fiftís McDonaldsstaðinn í miðbænum í Chicago í sextán ára afmæli systur minnar og stór hópur af unglingsstrákum sem við mættum við dyrnar þegar þeir voru að fara út og við vorum að fara inn snertu mig hver einn og einasti bæði að framan og aftan og ég kunni ekki einu sinni að nefna staðina sem þeir snertu. Ég var bara tólf ára og þeir eltu mig svo inn þar sem afmælið var haldið og stóðu ógnandi í hornunum hjá fiftísdótinu á meðan ég reyndi að eyðileggja ekki afmælið hennar systur minnar

En mér var aldrei nauðgað.

Ég man eftir kennurum í grunnskóla sem töluðu um hvernig ég leit út í stuttermabol og ég man eftir einum kennara sem sneri stelpunum gegn hver annarri, lék sér að því að finna út hvað hann kæmist upp með og ég man eftir einni stelpu sem hann komst upp með þó ég haldi að þær hafi verið margar en…

Mér var aldrei nauðgað

Ég man þegar einhver maður sýndi Alyson Hippensteel typpið á sér þegar við vorum í gaggó.

Fyrir framan uppáhaldsbúðina okkar í verslunarmiðstöðnni og hvernig mamma varð á svipinn þegar ég sagði henni frá því…

En mér var aldrei nauðgað.

Ég man eftir kennara sem sagði brandara um að spila á „skinnflautuna“ í hljómsveitinni og ég man eftir þegar maður sem hefði getað verið pabbi minn reyndi við mig í bókabúðinni eftir að hann sat við hliðina á mér á tónleikum í búðinni. Ég hélt að við værum bara að tala um tónleikana og stamaði nei þegar hann bauð mér út að borða. Hann var svona 45 ára, ég sextán.

En mér var aldrei nauðgað

Ég man eftir Paul standandi við skápana mánuðum saman að segja mér hvernig strákarnir töluðu um mig í búningsklefanum og ég hélt fyrir eyrun og endurtók „ég vil ekki heyra þetta.“

Ég man eftir að vera eina konan í tónsmíðabekknum í háskóla, þar sem allir strákarnir töluðu um fræðin án þess að hleypa mér að og hvernig þeir töluðu um tónskáld og nýja tónlist og mig langaði svo mikið að vera með í samtalinu þangað til mér var sagt: „Strákarnir í klúbbnum eru mjög hrifnir af þér, Sabrina, mjööög hrifnir,“ og  þá vissi ég að bak við þessar lokuðu dyr var verið að tala um líkama minn og ég myndi aldrei geta tekið þátt í þessum samræðum án þess að taka áhættu.

Ég man eftir að fitna eins og ég gat síðasta árið í skólanum og lita hárið á mér svart svo strákarnir myndu hætta að tala svona um mig. Í staðinn héldu þeir að ég væri bara klikk, og ég var klikk, eftir að hafa reynt árum saman að svelta mig til að ég yrði ósýnileg og þeir myndi hætta að tala um mig. Svo ég gæti kannski einhverntíma orðið hluti af sköpunarferlinu í staðinn fyrir eitthvað til að reyna við.

Ég man eftir að ganga heim seint um kvöld eftir að hafa eytt klukkutímum í hljóðverinu að reyna að læra af sjálfri mér að taka upp á margar rásir og ókunnugir menn stoppuðu bílana sína við hliðina á mér og renndu niður bílrúðunum.

Ég man að leiklistarkennarinn minn sagði mér að það að þylja Shakespeare upphátt á leiðinni heim væri frábær leið til að hræða ókunnuga menn því „enginn vill snerta brjáluðu konuna“ þannig að ég lagið á minnið lög og texta og einræður og röflaði við sjálfa mig eins og ég væri út úr heiminum svo bílarnir myndu ekki stoppa hjá mér.

Ég man hvernig ég þróaði nýja öryggisaðferð á meðan ég var að bíða eftir strætó – ef bíll stoppaði hjá mér þá myndi ég ganga hægt í áttina að honum og svo byrja að froðufella og slefa þangað til þeir renndu upp rúðunum og læstu bílhurðunum og stigu bensínið í botn.

Ég man eftir að skipta um föt heima hjá kærastanum mínum þegar ég var tuttugu og eins árs og sjá GægjuGeir starandi á mig bak við gardínur nágrannans og þegar við fórum bæði út úr húsinu á sama tíma fór hann inn í bílinn sinn og reyndi að keyra mig niður, svo reiður var hann við mig fyrir að hafa séð að hann var að kíkja á mig.

Ég man eftir því að hafa loksins fengið nóg af manni sem kallaði endalaust á eftir mér hvað honum fannst um brjóstin á mér, ég ýtti við honum og hann hrækti á mig og hitti furðu vel miðað við að hann var á hjóli.

Ég man ekki nálægt því öll skiptin sem kallað hefur verið kynferðislega til mín á förnum vegi.

Ég man eftir að vera í París og vera stöðugt áreitt líkamlega af hópum karlmanna, ýtt út í horn þar sem þeir nudduðu sér upp við mig þangað til ég öskraði eitthvað á lélegri frönsku.

Ég man eftir að ganga inn í Pere Lachaise kirkjugarðinn fyrir nokkrum árum og upplifa skyndilega ofshræðslu af því eg mundi eftir káfi þegar ég fór þangað í skólaferðalag þegar ég var sextán og ég fraus þegar ég gekk niður sama hlaðna stíginn.

Ég man eftir manni sem stal sígarettu úr munninum á mér af því hann gat það og gekk í burt hress í bragði og ég, brjáluð og rauðeygð hrinti honum þangað til hann datt og við störðum hvort á annað í forundran yfir því að ég skyldi þora.

Ég get ekki byrjað að muna eftir strákunum sem höfðu áhuga á „hæfileikum“ mínum og gerðu mér svo ljóst að þeir höfðu allt annað í huga.

Ég man eftir þegar ég gekk um hábjartan dag yfir Gowanus Canal fyrir svona átta árum og sá bíl hægja á sér í þeim tilgangi að því er ég hélt að spyrja til vegar en í staðinn horfði maðurinn upp og niður eftir mér og sagði „hvað kostar?“

Ég man fyrir nokkrum árum þegar maður á sjötugsaldri sem ég dáði vegna þess að hann hafði stjórnaði stórsveit fékk áhuga á ferlinum mínum og bauð mér svo upp á herbergi eftir að ég bauð honum í morgunmat til að ræða við hann um hvernig væri best að útsetja fyrir djassband.

Ég man þegar ég var á heimleið fyrir nokkrum klukkutímum og hipster hallaði sér fram á hjólið sitt og sagði „Ég ætti kannski að áreita þig núna?“, klukkan tvö um nótt og hann að prófa einhverskonar metaútgáfu af áreitni.

Ég sé núna þegar ég er orðin fertug hvernig líkami minn er ekki lengur eins spennandi eða hættulegur fyrir karlmenn og stráka og hvernig ég verð stöðugt ósýnilegri og hvernig það verður hlutskipti mitt það sem eftir er.

Sem er léttir

Því það þýðir að kannski verður mér ekki nauðgað héðan af

Vegna þess að fram að þessu hef ég verið heppin

Mér hefur aldrei verið nauðgað.

Sabrina Chap er tónlistarkona í New York. Hún kom til Íslands vorið 2017 og skemmti með Reykjavík Kabarett. Brynhildur Björnsdóttir þýddi pistilinn. 

Hér syngur Sabrina

Ein athugasemd við “Mér var aldrei nauðgað

  1. Pistillinn vekur réttilega athygli á þeim óþægindum sem konur hafa af svona áreitni, en í tónlistarmyndbandinu rífur konan í kynfæri karlmanns og brosir við, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Getur verið að það sé ákveðin blinda í gangi varðandi þessi mál? Að sama kona og kvartar yfir áreitni, setji svona kynferðislegan yfirgang í myndband vekur upp spurningar, svo ekki sé meira sagt. Frábært að umræðan hefur opnast, en velti fyrir mér hvort samfélagið greini síður slík brot gagnvart karlmönnum … að það sé bara góðlátlegt grín að grípa í kynfæri karlmanns, á sama tíma og það væri álitið mjög alvarleg kynferðisbrot að gera slíkt hið sama við konu? Velti þessu fyrir mér, enda nauðsynlegt að hafa um þessi mál opna umræðu…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.