„Gakktu fyrir framan mig, svo ég geti séð þig dilla rassinum“

Halla Tryggvadóttir segir frá:

Forsagan:

Fyrir bráðum 6 árum síðan skrifaði ég grein á Vefritið um kynferðislega áreitni á Landspítalanum. Greinin vakti töluverða athygli og var meðal efnis fréttatímanna þá vikuna. Viðbrögðin létu að sjálfsögðu ekki á sér standa. Það var til dæmis skrifuð grein um hvað ég væri fáránleg og í hundraðavís af kommentum var ýmist sagt að útlits míns vegna gæti ég ekki ætlast til annars en slíkrar áreitni eða að ég þyrfti augljóslega bara að láta ríða mér. Innan spítalans heyrði ég fleiri en eina og fleiri en tvær sögur af því að það væri talað um á kaffistofunum hvað ég væri athyglissjúk, ég kynni ekki að þegja og að ég væri óþolandi. Karlkyns læknum, samstarfsfólki mínu á hverjum degi, fannst voða fyndið að segjast ekki þora að segja neitt við mig af ótta við að ég færi með það í fréttirnar.

Ég var búin að gleyma að ég hefði skrifað þessa grein og mundi ekki eftir henni fyrr en ég fór að reyna að komast að því afhverju ég fékk kvíðahnút í magann við að lesa allar þessar frásagnir kvenna.

En svo mundi ég. Svo mundi ég hvað ég tók þetta allt nærri mér. Hvernig mig aldrei grunaði að þessi grein myndi gera aðra hjúkrunarfræðinga reiða við mig. Hvað ég var beygð eftir þetta.

Ég held reyndar að þetta hafi verið í síðasta skipti sem ég lét í mér heyra. Nokkrum mánuðum seinna flutti ég frá Íslandi, að hluta til vegna þess að mér leið eins og ég hefði verið sett í skammarkrókinn og það væri ekki annað í stöðunni en að byrja upp á nýtt, á nýjum stað.

Ég er svo glöð og mér er svo létt að tímarnir séu breyttir. Að það sé jarðvegur fyrir þessa umræðu og þannig löngu tímabærar breytingar. Að konur upplifi valdeflingu við að segja sögurnar sínar en ekki niðurlægingu.
Kvennasamstaða er svo mögnuð og svo sterk!

Hérna fyrir neðan er greinin. Mér finnst hún vera góð og í fyrsta skipti finn ég fyrir stolti yfir að hafa skrifað hana.

Áfram stelpur!
#iskuggavaldsins #tjaldiðfellur

„Gakktu fyrir framan mig, svo ég geti séð þig dilla rassinum“

Þrátt fyrir stuttan starfsaldur innan heilbrigðiskerfisins er ég löngu hætt að geta talið hversu oft ég hef verið klipin, strokin eða kynferðislegar athugasemdir hafa fallið þegar ég vinn vinnuna mína. Þess vegna kom mér mjög á óvart þegar ég sá niðurstöður starfsumhverfiskönnunar sem gerð var á Landspítala árið 2010. Þar kom í ljós að aðeins um 5% hjúkrunarfræðinga töldu að á áðurliðnum 12 mánuðum hefðu þeir orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu sjúklinga eða aðstandenda.
​Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi tala ótrúlega lág og ég vildi óska að mér þætti það hversu lág hún er vera gleðiefni. Hún er nefnilega alls ekki í samræmi við mína reynslu og upplifun mína af reynslu samstarfskvenna minna. Heiti þessarar greinar er tilvitnun í sjúkling, sjúkling sem ég hafði nýlega gefið verkjalyf og ógleðistillandi lyf, sjúkling sem ég hafði skipulagt og framkvæmt hjúkrunarmeðferð á til þess að hann kæmist aftur til heilsu eftir stóra aðgerð.
​Mér finnst þessi tala benda til þess að innan hjúkrunarfræðinnar sé það hér um bil samþykkt að láta kynferðislegar athugasemdir sem vind um eyru þjóta, láta eins og strokur og káf eigi sér ekki stað. Eða láta í það minnsta nægja að hrista höfuðið yfir því inni á vaktherbergi. Mér virðist mörk þeirrar hegðunar sem yfirleitt er samþykkt vera ansi langt frá því sem eðlilegt getur talist.

„Ertu að láta þessar kellingar hlusta þig? Þú átt nú bara að láta þær nudda þig!“
​… sagði karlkyns sérfræðilæknir við sjúkling þegar hjúkrunarfræðingur sinnti starfi sínu, sem meðal annars felst í því að gera heildrænt mat á mismunandi líffærakerfum líkamans og bregðast við breytingum sem verða á þeim. Dæmin um kvenfyrirlitingu, sem oft hafa einnig kynferðislega skírskotun, eru alltof mörg.
​Kvenfyrirlitning birtist ekki bara í beinlínis niðrandi og ógeðfeldum athugasemdum við konur, líkamlegri áreitni og jafnvel ofbeldi. Hún birtist einnig í almennu virðingarleysi, almennri orðræðu sem endurspeglar kerfisbundna undirokun kvenna, undirokun sem birtist á mjög áþreifanlegan hátt í launamun kynjanna.
​Það þarf ekki að undra að innan heilbrigðiskerfisins lifi kvenfyrirlitning góðu lífi. Þar eru stórir vinnustaðir þar sem starfar þverskurður af lögum samfélagsins og goggunarröðin á sér djúpar rætur og má vera öllum ljós. Einnig eru margar fagstéttir karla- og kvennastéttir, þó að vissulega sé það á undanhaldi.
​Þegar ég fussaði og sveiaði yfir þessari athugasemd læknisins sagði samnemandi minn við mig að það væri alveg ótrúlegt hvað ég, femínistinn, lenti oft í því að verða vitni að atvikum sem þessum. Ég er hins vegar sannfærð um að það sé misskilingur að ég verði oftar en aðrir vitni að svona atburðum. Munurinn er sá að ég tek eftir þessu, vegna þess að ég er með augu og eyru opin.

Orðræða og völd
​Það er þægilegra að taka ekki eftir kvenfyrirlitningunni. Það er þægilegra að horfast ekki í augu við þá vanvirðingu sem felst í því þegar miðaldra karlmenn kalla á mann með orðunum „heyrð’eskan“ en að bregðast við henni með einhverjum hætti. Þess vegna telur maður sjálfum sér trú um að þetta sé nú eiginlega bara krúttlegt. Og auðvitað meinar enginn neitt illt með þessum orðum. En þau hafa samt áhrif.
​Við verðum að gera okkur grein fyrir hvaða áhrif orðræða sem þessi hefur. Orðræða sem er manni ósýnileg þangað til maður fer að rýna í hana. Orðræða sem bæði er afsprengi valdaójafnvægis og stuðlar að viðgangi þess. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vera vakandi fyrir henni og bregðast við. Öðruvísi verður ekki undið ofan af ójafnvæginu sem hamlar því að raunverulegt jafnrétti náist.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.