Veldur #metoo þér vanlíðan?

Adda Ingólfs Heiðrúnardóttir skrifar:

Er #metoo að valda þér vanlíðan? Það er allt í lagi, við eigum öll erfitt núna.

Mig langar að deila með ykkur hugleiðingum um sálræn áhrif #metoo hreyfingarinnar.

Ég fór til sálfræðings í gær og hún sagði mér að önnur hver manneskja sem kemur inn um dyrnar hjá henni þessa dagana sé „triggeruð“ í kjölfar allrar umræðunnar um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Að vera triggeruð þýðir að eitthvað sem þú heyrir eða sérð ýtir við tilfinningum, minningum og taugatengingum hjá þér, vegna áfalla og upplifana sem þú hefur orðið fyrir í fortíðinni. Það þýðir ekki að þú þurfir sjálf/ur að hafa orðið fyrir ofbeldi eða áreitni, heldur er oft nóg að hafa orðið vitni að ofbeldi, eða að heyra sögur frá vinkonum, vinum eða ókunnugum. Einnig er nýlega farið að halda því fram að það geti verið nóg að hafa alist upp við óheilbrigt fjölskyldumynstur (Developmental Trauma).

Ég hef fundið fyrir miklum og flóknum áhrifum af metoo hreyfingunni (byltingunni!) undanfarnar vikur og mánuði, bæði hjá sjálfri mér og mörgum vinum. Mín líðan hefur versnað mikið og sjálfsmyndin fengið á sig högg, ég sem hélt í sakleysi mínu að sjálfsmynd mín væri á ágætis róli og tengdist þessu ekki nema þá bara jákvætt; frábært að loksins er hlustað á konur!! En þetta er flóknara en svo.
Mig grunar að þessi opnun sé erfið fyrir okkur öll, en oft á mjög ólíkan hátt.

Fyrir sum er það vegna þess að þau búa yfir sögum og reynslu sem þau vilja deila en sem „passar ekki“ inn í me too kassann, en þessi kassi er með mjög skýrar kynjalínur; karlar vs. konur. Miklu skýrari heldur en raunveruleikinn býður uppá.

Fyrir sum er það vegna þess að þau hafa bæði verið áreitt og hafa áreitt aðra og finnst þau ekki „mega“ vera með vegna þess.

Fyrir sum er það vegna þess að þau ætluðu aldrei að opna lokið á pottinum þar sem reynsla af áreitni er geymd, en sögur hinna kölluðu það fram samt sem áður. Þetta á oft sérstaklega við um kynslóðina á undan mér. Undarlegar tilfinningar, líkamlegir verkir, þreyta, skapofsaköst eru allt í einu að koma fram, að því er virðist óútskýrð.

Fyrir sum er þátttaka í kvennarýmum eins og í faghópunum á Facebook, erfið, því tengsl milli kvenna eru ekkert endilega alltaf einfaldari en milli karla og kvenna og þar á sér stað ofbeldi og kúgun líka. “Á ég að fara að deila reynslu með konunni sem lagði mig í einelti á vinnustað?” gæti einhver hugsað.

Fyrir sum er það alls ekki sjálfsagt að deila sínum erfiðustu augnablikum með öllu samfélaginu, vitandi að það er aldrei hægt að vita hvort og hversu lengi fólk og stofnanir standa með þolendum. Hvers vegna er ábyrgðin alltaf á þolendum að keyra svona samfélagsbreytingar, hvers vegna þurfum við að velta þessu þunga hlassi og borga fyrir það enn og aftur með eigin líkamlegri heilsu?

Fyrir sum er reynsla af kynferðislegri áreitni aðallega í formi þess að fólk hefur hafnað þeim kynferðislega frekar en leitað á þau, eða gert lítið úr þeim sem kynverum á allan mögulegan máta, þar sem þau passa ekki inn í viðurkennd form “kvenleika”. Önnur tegund af skömm getur fylgt svoleiðis reynslu og erfitt getur verið fyrir þessa þolendur að finna samtakamáttinn með konum sem virðast á einhvern hátt búa yfir þessum ríkjandi kvenleika. Eins fáránlegt og það hljómar. Því feðraveldið hefur kennt okkur öllum að þrá að vera það sem (sumir) karlar (og þau sem taka sér vald karlmennskunnar) eigna sér með ofbeldi.

Síðustu vikur hef ég farið í gegnum að endurupplifa unglingsárin þar sem ég hreinlega þráði (hélt ég þráði) áreitnina sem bekkjarsystur mínar “fengu” (urðu fyrir). Strákunum þótti ég vera “flatbrjósta” og kynlaus svo það má segja að ég hafi “sloppið” frekar vel. En það var ekki mín upplifun. Ég var útundan. Ekki ein af “stelpunum”. Allt samfélagið og menningin (bíómyndir, lagatextar, ævintýri, o.s.frv.) kenndu mér að aðdáun og áhugi karlmanna væri eftirsóknarverð, næstum því hvernig sem hún birtist.

“Við erum öll með hlutverk í feðraveldinu” sagði vinkona mín Björg Sveinbjörnsdóttir um daginn í spjalli um málið. Og það er einmitt málið. Samtakamáttur kvenna er flæktur af þessum ólíku hlutverkum sem við höfum. Sumar konur og fólk sem skilgreinir sig utan við tvíhyggju kyns stendur utan við þennan samtakamátt kvenna, þó að það ætti og þyrfti að eiga hlutdeild í honum.

Og svo margt margt fleira.

Já, vegir feðraveldisins eru – ég ætla ekki að segja órannsakanlegir – en þeir hafa fyrir mig verið eins og einhverskonar völundarhús sjálfshaturs, falskrar viðurkenningar, aðskilnaðar, einangrunar, samkeppni, að ógleymdum tilraunum til að beita einhverskonar valdi og yfirburðum.

Í ljósi alls þessa þá má það teljast kraftaverk að þessir #metoo hópar á Facebook hafi yfirhöfuð verið stofnaðir, að konur hafi treyst hvor annari fyrir sögunum sínum, og að fjölmiðlar hafi staðið með þeim.

Um leið og mig langar til að þakka okkur öllum fyrir að tjáninguna, hlustunina og fyrir að skoða okkur sjálf í kjölfar umræðunnar, þá langar mig að mæla með því að við klöppum okkur á bakið og hlúum vel að sjálfum okkur og hvort öðru. Og munum að það eru ekki bara konur sem verða fyrir áhrifum af #metoo umræðunni, þetta er líka erfitt fyrir alla hina.

Stundum getur aðhlynningin falist í því að hætta að fylgjast með umræðunni og skamma sig ekki fyrir það. Eða að taka metoo-pásu á aðventunni, einbeita sér að því að leita uppi jákvæða hluti í fréttum eða daglegu lífi. Að eyða extra miklum tíma með dýrum eða gefa börnunum okkar meiri athygli og kærleika en við höfum verið fær um undanfarnar vikur. Að taka heilan laugardag frá fyrir göngutúr í náttúrunni og sleppa aðventuboðinu með frændanum sem þú veist ekki hvernig þú átt að tala við eftir að allt kom upp á yfirborðið. Nú eða að sækja loksins um heilsuhælið eða slökunarnámskeið sem þú hefur alltaf ætlað að fara á.

Og síðast en ekki síst, ef sögurnar eru að vekja hjá þér erfiðar tilfinningar, líkamlega verki, grát, mikla drauma, spennu, reiði, sjálfsvorkun, framtaksleysi eða kvíða – þá mæli ég með að leita þér hjálpar, hjá sálfræðingum eða vinum, að lesa batasögur og upplýsingar um áfallastreituröskun á netinu (Áfallastreituröskun flokkast yfirleitt sem tegund af kvíða, fullt af góðum sögum á Kvíði.is), gera eina góða samkenndarhugleiðslu eða taka nokkra veikindadaga í vinnunni til að fara í gegnum þetta.

Sjálf er ég farin að hlusta á Harry Potter bækurnar á hljóðbók í staðinn fyrir fréttirnar þegar ég elda, er hætt að lesa reynslusögur, er farin að skipuleggja kósí aðventuhittinga, fara í hádegisjóga á hverjum degi, fara í langt sund og gufubað og hlúa að líkamanum, skipuleggja tíma með litlum börnum og hlusta á notalega tónlist.

Gangi okkur öllum vel!

P.S. hvað gerið þið til að róa ykkur og slaka á í #metoo byltingunni?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.