Myllumerki
þessar sögur sem róta öllu upp
öllu því gleymda og grafna
því sem ýtt var til hliðar ekki tekið mark á
jafnvel fyrirgefið þegar hitt var flóknara
slíta plásturinn af löngu grónum sárum
rífa róta rústa
því sem ég er
langar tungur sem lepja salt blóðið
úr gamalli kviku
langir fingur sem rífa hrúður af hjarta
langar vökustundir yfir ógæfu annarra
og þeirrar sem ég var
og þeirrar sem óx úr þeirri sem ég var
með hrúðrað hjarta og plástraða kviku
allt þetta gleymda og gróna og grafna
upprifinn reitur með horfnum krossum
kristilegrar fyrirgefningar
og uppvakningum þess sem enn er óbætt
og liggur hjá garði
allar þessar sögur
og allar við sem uxum út því sem við vorum
óbættar hjá garði
kræklóttar hríslur laufvana eikur þyrnirunnar
með blæðandi hjarta
nei!
nei!
ekki þannig heldur við sjálfar fullvaxta
mennskar konur
með hug og hjarta og allt sem okkur var gefið
og frá okkur tekið
veljum sjálfar að rífa upp sárin
öðrum til góðs
okkur til góðs
eða ekki
Magnea J. Matthíasdóttir