Bókaumfjöllun: Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur – 100 magnaðar konur

Höfundar: Elena Favilli, Francesca Cavallo

Þýðandi: Magnea J. Matthíasdóttir

Útgáfa: Forlagið – Mál og menning

Umfjöllun: Ása Fanney Gestsdóttir

Söguhetjur af karlkyni hafa tekið sér ríflegt pláss á síðum barnabóka hingað til, líkt og á spjöldum sögunnar almennt. Það hefur því ekki alltaf verið auðsótt fyrir stelpur að lesa um og samsama sig sterkum og áhugaverðum kvenkynspersónum. Lína Langsokkur stendur þar upp úr hafsjó af ósjálfbjarga prinsessum og hliðarhellum. Þessi vöntun á frambærilegum kvenkynsfyrirmyndum varð höfundunum Favilli og Cavallo hvati til þess að taka saman í barnabók sögur um 100 magnaðar konur í fortíð og nútíð. Bókin hefur notið mikilla vinsælda víða um heim og er nú fáanleg á íslensku í prýðisgóðri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur.

Frásagnirnar í bókinni hefjast allar á orðunum „einu sinni var…“ – en í stað prinsessusögu tekur við saga um alvöru konu sem hefur sigrast á mótlæti og unnið afrek í sínu eigin lífi. Skúrkurinn í sögunni er oftar en ekki sá sem segir að stelpur geti ekki, stelpur megi ekki og stelpur kunni ekki. En þær geta allar og kunna samt!

Hver opna er helguð einni konu með stuttum texta um lífshlaup hennar og fallegri myndskreytingu á heilli síðu ásamt hvetjandi tilvitnun. Textinn er einfaldur og auðskiljanlegur fyrir börn en er einnig áhugaverður fyrir eldri lesendur. Konurnar eru misfrægar, frá ýmsum tímaskeiðum og heimshlutum og fást við alls kyns ólíka hluti. Þær eru faróar, boxarar, njósnarar, ballettdansarar og allt mögulegt annað. Konurnar eru ekki endilega góðmennskan uppmáluð, þannig er sagt er frá því þegar Margaret Thatcher tók ókeypis mjólk frá grunnskólabörnum og skapaði sér óvinsældir. Sumar kvennanna eru enn ungar að árum, svo sem aðgerðarsinninn Malala Yousafzai, uppfinningamaðurinn Ann Makosinski og transkynja skólastelpan Coy Mathis. Bókin býður upp á úrval hvetjandi sagna um sterkar konur og fjölda hlutverka fyrir stúlkur til þess að máta sig í. Í lok bókarinnar er auð opna þar sem bókareiganda er boðið að skrifa sína eigin sögu og teikna sjálfsmynd.

Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur er sérstaklega eiguleg bók og er veglega skreytt myndum 60 myndlistarkvenna frá öllum heimshornum. Nýlega var hún valin besta þýdda barnabókin af starfsfólki bókaverslana. Óhætt er að mæla með henni fyrir stelpur á öllum aldri og hún er alls ekki bönnuð strákum heldur!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.