Albertína Friðbjörg Elíasdóttir flutti þessa ræðu á Alþingi í gær:
Fyrir nákvæmlega níu dögum stóðum við 16 konur á sviði Samkomuhússins á Akureyri og lásum frásagnir sem hafa litið dagsins ljós í #metoo-baráttunni hér á landi, á sama tíma og fjöldi kvenna var saman kominn í Borgarleikhúsinu og á Seyðisfirði að gera slíkt hið sama. Þar sem ég stóð komst ég ekki hjá því að hugsa hversu magnað það væri að upplifa þessa byltingu, að upplifa hugrekki og styrk þessara fjölmörgu kvenna. Ég upplifði líka hálfgerðan fáránleika við að þekkja ekki eina konu sem hefur ekki sögu að segja af einhvers konar kynbundnu ofbeldi og/eða kynferðislegri áreitni. Ég er sjálf ekki undanskilin og því miður líklega engin kona hér í þingsalnum í dag.
Á síðustu vikum hafa milljónir kvenna um allan heim staðið upp og deilt sögum sínum og reynslu. Hér á Íslandi sendu 419 stjórnmálakonur frá sér yfirlýsingu þann 21. nóvember sl. þar sem þær sögðu frá því að kynbundið ofbeldi og áreitni ætti sér stað í heimi stjórnmálanna. Í kjölfarið birtust 136 frásagnir af ofbeldi og mismunun sem konurnar hafa þurft að þola. Því miður eru þessar frásagnir aðeins brotabrot af þeim fjölda frásagna sem kom fram.
Í kjölfarið hafa komið fram 11 hópar kvenna úr ólíkum starfsstéttum en allar með svipaðar sögur. Samkvæmt upplýsingum frá Jafnréttisstofu sem birtust í gær hafa hvorki meira né minna en 4.609 konur á Íslandi skrifað undir yfirlýsingar þar sem ofbeldi og áreitni er mótmælt og 616 frásagnir af slíku ofbeldi hafa birst.
Fleiri hópar eru að undirbúa sams konar aðgerðir. Það er því ljóst að það eru einstaklingar í öllum starfsstéttum sem þurfa að taka þetta til sín, einstaklingar sem þurfa að líta í eigin barm og breyta hegðan sinni gagnvart konum, þar á meðal stjórnmálamenn. Þótt hún hafi brotist þannig fram í einhverjum tilfellum fór #metoo-byltingin ekki af stað til að ráðast gegn einstökum aðilum, heldur til að gera samfélaginu grein fyrir raunverulegri stærð vandans. Það er hins vegar spurning hvort vandinn sé ekki djúpstæðari en við gerum okkur almennilega grein fyrir. Hver er raunveruleg staða kvenna í samfélagi sem sættir sig við jafn víðfeðmt kynbundið ofbeldi og kemur fram í þessum frásögnum? Hversu margar konur hafa hrökklast frá vinnustöðum sínum, verið haldið niðri og verið sagt að þegja?
Alveg eins og við sáum svo glöggt í umræðunni um uppreist æru hljótum við að spyrja: „Hversu lengi þurfti að hafa hátt til að viðbrögð næðust fram?“ Þegar upp er staðið snýst umræðan í rauninni ekki um kynferði eða karlrembu heldur, eins og fram kemur í titli umræðunnar, um misnotkun valds og kannski að einhverju leyti um hvaða ímynd við höfum teiknað upp af hinni dæmigerðu karlmennsku. En hvernig hefjum við samtalið sem við þurfum að taka um feðraveldið sem kennir drengjum að þeir hafi valdið og að það sé í lagi að áreita konur og niðurlægja þær? Því miður er þetta rótgróin ómenning, hegðun sem er engum til gagns, hvorki konum né körlum. Við þurfum að breyta viðhorfum gagnvart kynbundnu ofbeldi og áreitni. Við þurfum að breyta því saman. Þó að við séum að tala hér um mál sem snertir konur sérstaklega er þetta ekki eingöngu málefni kvenna.
Við þurfum á því að halda að karlar standi upp og láti vita að þetta sé ekki í lagi, þetta eigi ekki að líðast, þetta gangi ekki lengur.
Við sem sitjum á Alþingi Íslendinga hljótum að þurfa að taka þessa áskorun alvarlega og því spyr ég dómsmálaráðherra, um leið og ég þakka henni fyrir að verða við ósk minni um þessa umræðu:
- Er einhver endurskoðun í gangi á íslensku lagaumhverfi til að tryggja réttindi þeirra sem tilkynna kynferðislega áreitni eða ofbeldi á vinnustað?
- Er vinna hafin innan ráðuneytisins að aðgerðum til að bregðast við kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi?
- Hefur umfang vandans í íslensku samfélagi verið metið?
- Hvernig sér ráðherra fyrir sér að beita sér í almennri umræðu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi á Íslandi?