,,Ég er réttrúnaðarréttlætisriddari sem fór í krossferð til Hannesar Hólmsteins”

Eftirfarandi texti er skrifaður með kaldhæðnislegu ívafi:

Ég deildi textabrotum úr kennslubók sem ég var að lesa á facebook um miðjan desember. Margir spurðu hvort þetta væri rit frá miðöldum því þeim blöskraði forneskjulegt innihaldið. Svo er ekki og er þetta kennslubók sem var endurprentuð með leiðréttingum árið 2017. Kennslubók sem kennd er við Háskóla Íslands. Bókin heitir Saga stjórnmálafræðikenninga eftir Hannes Hólmstein Gissurarson sem kennir bókina í eina áfanga sinna við Háskóla Íslands.

Sumir töldu að með því að gagnrýna textana væri verið að reyna draga úr akademísku frelsi Hannesar og fólk gæti ekki ætlast til að sjá aðeins sínar eigin skoðanir í háskólanámi. Eftir endurskoðun er ég algjörlega á sama máli og veit ekki hvað ég né annað fólk var að æsa sig.

Við sjáum dæmi:


Nú vitum við öll að karlmenn hafa óstjórnanlega kynlöngun sem fylgir eðli þeirra sem felst í því að reyna sífellt að fjölga sér. Við hin verðum að vera tilbúin að leyfa karldýrinu að svala kynþorsta sínum með því að vera alltaf tilbúin að leyfa því að fara uppá okkur. Mælt er með vændi í bókinni en það er þó aðeins valkostur sem borinn er upp til að koma í veg fyrir að karlmenn beiti hinu viðurkennda örþrifaráði nauðgun eða stundi lostugt athæfi á almannafæri. Ekkert athugavert við þennan texta og því tökum við annað dæmi.

Hér gefur textahöfundur okkur leiðbeinandi orð um að draga ekki ályktanir af engu. Maður skal ekki halda að transfólk sé í mestu sjálfsvígshættunni, fari í gegnum hormónameðferð og aðgerðir til þess eins að verða hluti af „eftirsóknarverðara kyninu“. Maður ætti ekki að fá að útskrifast úr háskóla án þess að lesa þessa setningu! Ekki er hér getið til heimilda um þá staðreynd að fleiri karlar breyti sér í konur en öfugt, en auðvitað efast maður ekki um orð prófessors í æðstu menntastofnun Íslands. Ekkert athugavert við þetta.

Hér setur kennarinn fram skemmtilegt dæmi til þess að fá nemendur sína til að muna hvað nytjastefnan er mikið þrot. Orðið sadisti er dregið af de Sade markgreifa sem kemur fram í dæminu. Ekkert athugavert við þetta.

Í bókinni er hægt að lesa sér til um það hvernig kosningaréttur kvenna kom til. Það byrjaði allt með John Stuart Mill og þýðingum á bókum hans. Allir helstu sagnfræðingar hljóta að vita þetta. Mér hafði verið kennd sú vitleysa að konur hefðu barist fyrir kosningaréttinum og verið fangelsaðar, útskúfaðar og drepnar í þeirri baráttu. Nú veit ég betur. Ekkert athugavert við þetta.

Greinilegt er að ekkert athugavert var í þessari námsbók…. Það sem fór algjörlega með mig var að kennarinn sem kenndi þennan áfanga er helsti hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum frá áttunda áratugnum að hruni. Það fór algjörlega með mig sem námsmann í námi sem reifar ólíkar nálganir við rekstur opinberrar stjórnsýslu og ólíka hugmyndafræði stjórnmálaflokka. Þar sem allir kennarar eru tengdir við stjórnmálaflokka. Nei, þá var það persóna þessa einstaka kennara sem fór alveg með mig… nei, ég meina í alvöru?

Kaldhæðni endar.

Undirrituð er nemandi í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands. Síðasta haust sat ég áfanga sem ber heitið Stjórnmálaheimspeki og er kenndur af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni.

Ég hlakkaði til að sitja áfangann enda er Hannes mjög umdeildur maður og var ég spennt að sjá hvað hann hafði fram að færa. Langur bókalisti af fræðiritum Platóns, John Locke, Adam Smith o.fl. var settur fyrir í námskeiðinu en strákur sem hafði setið námskeiðið sagði að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur því að Hannes kenndi bara eina bók og það var hans eigin, Saga stjórnmálakenninga. Ég grínaðist með að maður gæti nú ekki kynnt stjórnmálafræði á Háskóladeginum nema að hafa setið áfangann hjá Hannesi.

Hannes kennir semsagt aðeins einn áfanga háskólanum og þar kennir hann sína eigin bók sem dæmin hér að ofan koma úr.

Fyrstu tímana var karlinn hress og er óumdeilanlega skemmtilegur fyrirlesari. Hann tók dæmi um hvernig mætti skýra kenningu Adams Smith með því að draga upp mynd af Róbinson Krúsó og Föstudegi skipta með sér verkum á eyðieyjunni.

Vikurnar liðu og svo koma að hlutaprófi. Eldri nemendur sögðu okkur stelpunum frá því að við ættum að nota prófnúmerið okkar á hlutaprófin því strákarnir fengju hærri einkunn. Án þess að spá meira í það skrifuðu flestar stelpurnar prófnúmerin sín í stað nafns á prófin. Hann var nú meiri karlinn hann Hannes að vera með svona. Maður hugsaði ,,hann er nú bara svona“ og spáði ekki meira í því enda nóg að gera.

Áfram leið haustið og kom að öðru hlutaprófinu. Ég hafði verið löt við að lesa bókina en heyrði útundan mér að fólk var mjög hissa á því sem í henni stóð og þá sérstaklega köflunum um Herbert Spencer og Mill. Við vorum nokkur sem skiptum lesefninu upp á milli okkar og hræddist ég innihald kaflanna svo ég tók þá ekki fyrir. Þegar ég var að æfa mig fyrir prófið stökk ég yfir nokkrar spurningar því ég gat ekki hugsað mér að lesa einu sinni hvað í þeim stóð, ýtti því frá mér án þess þó að vita nákvæmlega hvert innihaldið væri.

Áfram leið og kom að lokaprófi. Ég gat ekki sleppt þessu lengur, ég þurfti að lesa.

Kom þá í ljós að lesefnið var ekki byggt á neinum heimildum né neinu því sem ég hafði áður lært í gegnum lífið og háskólann. Það stangaðist allt á. Lesefnið var illa skrifað og leit þetta út fyrir að vera spjall höfundar við sjálfan sig.

Bókin Saga stjórnmálakenninga var aðeins gerð fyrir einn hóp námsmanna. Sá hópur hefur ekki annað kyn en karlkyn, ekki annan húðlit en hvítan, ekki öryrkjar, fatlaðir, feitir eða geðsjúkir. Námsefnið er ekki fyrir aðra en þá hvítu karlmenn sem hafa þau forréttindi að hafa getað gagnrýnt og gert lítið úr öllum öðrum frá upphafi mannkyns og komist algjörlega upp með það. Nú eru breyttir tímar og svona getur ekki viðgengist lengur. Bullið og vitleysan sem þeir halda að allir nenni að hlusta á án þess að fá neina gagnrýni því þeir séu svo merkilegir karlar. Vegna þess að þeir voru svo duglegir hafi þeir orðið prófessorar. Ekki vegna þess að þeir hafi forréttindi. Það er svo sem ekkert að því að tilheyra forréttindarhópi, en forréttindum fylgi ábyrgð.

Ég hef forréttindi. Hvít, ófötluð og grönn íslensk kona sem talar móðurmál mitt án hreims. Þótt ég t.d. finni ekki fyrir kynþáttafordómum og taki ekki eftir þeim hér á Íslandi þýðir það ekki að þeir séu ekki til staðar. Það þýðir ekki að ég hafi rétt til að gera lítið úr upplifun fólks sem verður fyrir þeim. Þú hefur engan rétt til þess að gera lítið úr mínum tilfinningum þegar ég les um það hvernig hægt sé að réttlæta nauðgun ef þú hefur aldrei upplifað það. Ekki frekar en ég hef engan rétt til þess að gera lítið úr upplifun karlmanns sem hefur lítið typpi. Eru þið að skilja?

Merkilegu hvítu karlar! Á ég að segja ykkur leyndarmál? Þetta snýst ekki um ykkur. Þetta snýst ekki um Hannes Hólmstein Gissurarson.  Þetta snýst um akademísk vinnubrögð. Að vitna í heimildir og rannsóknir og ekki draga staðreyndir út um endagörnina á sér, gera allt sem hinir háskólakennarar og prófessorar virðast ekki hafa nokkuð fyrir því að gera. Þetta snýst um okkur nemendur sem langar til þess að læra námsefnið og sem höfum borgað fyrir það. Því þegar akademískum vinnubrögðum er beitt kemur í ljós að kynþáttafordómar, kvenfyrirlitning, fitufordómar og sú trú að geðsjúkir og fatlaðir (vangefnir er orðið sem kennari ákvað að nota) séu letingjar, er byggð á vanþekkingu, heimsku og afneitun á því að heimurinn er stærri og fjölbreyttari en það sem maður nákvæmlega sér í sínu lífi.

Þetta snýst ekki um eina manneskju, þetta snýst um kúltúr. Enginn er skrímsli þótt hann taki þátt í þessum kúltúr en þessi kúltúr verður að taka enda. Þessi kúltúr er eins og inngróið hár í samfélaginu sem sýkir allt í kringum sig. Háskólinn er hluti af þessu og þurfum við að uppræta þennan kúltúr þar eins og annars staðar svo við getum haldið áfram að þróast og fólk haldi ekki aftur af sér vegna kyns síns, húðlitar, fötlunar, geðsjúkdóms eða útlits.

Því saman gerum við þetta miklu betur.

Síðast en ekki síst vil ég hvetja sjálfa mig og okkur öll til að stíga upp þegar okkur finnst að okkur vegið sem einstaklingum og upplifun okkar. Við skulum ekki draga úr upplifunum okkar eða láta þagga niður í okkur þegar við gerum það sem okkur finnst rétt að gera. Ef það gerir okkur að réttlætisriddurum þá er ég sú fyrsta sem tek það á mig. Ég mun ríða á mínum hvíta hesti og sveifla Frosta Logasyni, Jóni Steinari Gunnarssyni og Gústafi Níelssyni upp á bak með mér og við ríðum saman út í nætursólina. Ég skelli kannski í köku til að taka með fyrir Gústaf.

-Ólína Lind Sigurðardóttir, stjórnmálafræðinemi.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.