Mitt í allri #metoo-umræðunni

**VV**TW** – lýsingar geta triggerað þolendur

Undanfarnir mánuðir hafa heldur betur verið áhugaverðir, á svo marga vegu, með tilkomu #metoo-bylgjunnar og þeirrar oft á köflum súrrealísku umræðu sem fylgdi í kjölfar hennar, ásamt þeim mikla kærleika og samstöðu sem ég hef persónulega fundið fyrir frá kynsystrum mínum.

Það var frelsandi að geta sagt frá, já, það kom líka fyrir mig, ég veit hvað þú ert að tala um; en um leið triggerandi, því að það er erfitt að ræða það ofbeldi, yfirgang, hunsun og áreitni sem kona hefur gengið í gegnum frá barnsaldri. Í samræðurnar blönduðust skrifstofufélaginn sem varð nokkuð hnípinn yfir því að allar konurnar í lífi hans hefðu frá einhverju slíku að segja – og skrifstofufélaginn sem neitaði að skilja konseptið og hafði óseðjanlega þörf á að ræða það.
Og þar kom að því að ég hætti að lesa frásagnir og sendi aðeins frá mér hjörtu á fésinu og faðmlög og knús í raunheimum. Þó bar ég þá von í brjósti að eitthvað væri að breytast, viðhorfin í það minnsta, mörkin væru orðin það skýr að það ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna þau neitt sérstaklega, hvað þá þegar sæmilega fullorðið fólk væri annars vegar.

Nýlega fór ég í brúðkaup í fjölskyldunni. Athöfnin var yndisleg, látlaus og einlæg. Eftir athöfnina safnast fólk saman við fatahengið, heilsast og tekur þá kannski spjall á meðan úlpum er rennt upp og kápum hneppt. Þar sem ég stend þarna á tali við góða vinkonu finn ég ógnarkrumlur læsast utan um hálsinn á mér og, að mér fannst, herða að. Mig rekur í rogastans, þagna í miðri setningu, og í gegnum hugann fljúga alls konar óvelkomnar minningar, sem ég gæti satt best að segja alveg lifað góðu lífi án. Andartaki, eða heilum mannsaldri síðar, hverfa krumlurnar og andlit kollega míns birtist, manns sem ég þekki aðeins lauslega í gegnum fjölskyldubönd. Hann gefur í skyn að þetta hafi allt verið einn stór brandari og er ægilega hissa á að ég sé ekki bara hress á því með þetta. Ég umla eitthvað og læt mig hverfa.

Viðkomandi kom að máli við mig í veislunni stuttu síðar og bað mig afsökunar. Ég var enn í of miklu uppnámi til að gefa annað en óljós svör, kannski, hugsanlega einhvern tímann, í öðru lífi, í fjarlægu sólkerfi (en þó hugsanlega alls ekki). Mér fannst ég enn finna fyrir höndunum á hálsinum á mér.

Er það virkilega ennþá þannig að sumir karlmenn skilji ekki hvernig #metoo-umræðan kemur þeim persónulega við? Vantar upp á sjálfsvitund þeirra eða sjálfþekkingu, að þeir geri sér enga grein fyrir hvaða áhrif hegðun þeirra hefur á aðra? Ég skil ekki ennþá hvernig mér átti að þykja þetta fyndið.

Höfundur óskar nafnleyndar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.