Launhelgi lyganna – hugleiðing um bók

Höfundur: María Pétursdóttir

Ég las bókina „Launhelgi lyganna“ í byrjun desember og hefur bókin dvalið með mér í margar vikur og poppar reglulega upp í hugann. Sagan er fjölskyldusaga mjög svo skemmdrar íslenskrar alþýðufjölskyldu og bernskuminningar höfundar sem flakkar þó í lokin fram í tímann. Bókin var gefin út um aldamótin eða árið 2000 og skrifaði höfundur hana undir dulnefninu Baugalín en kom svo seinna fram undir nafni í Kastljósinu á RUV sem Hellen Linda Drake.
Sagan er einstaklega vel skrifuð og lýsir ofbeldiskenndu andrúmslofti fjölskyldunnar, fátækt, bæði andlegri og veraldlegri, en þó fyrst og fremst hvaða áhrif kynferðisofbeldi og vanræksla hefur á líf barna og unglinga.
Linda er brautryðjandi þeirra kvenna sem síðar sögðu sögur sínar af kynferðisofbeldi í æsku svo sem þeirra Thelmu Ásdísardóttur, Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur og Bjargar Guðrúnar Gísladóttur. Sagan lýsir ekki bara einstöku hugrekki heldur líka óstöðvandi baráttuþreki og réttlætiskennd, því þolandinn er hér ekki að glíma við hvaða brotamann sem er. Brotamaðurinn í þessu tilfelli er lögreglumaður og lögreglumenn geta samtryggt sig eins og járnhlekkur við hlekk innan raða löggæslunnar. Getur þolandi, hvað þá þolandi á barnsaldri, átt eitthvað í þá þungu keðju?
Bókin lýsir því svo vel hvernig börnum og unglingum er annað hvort ekki trúað eða það sem verra er, á þeim tíma sem atburðirnir gerast, að þeim var trúað en feðraveldið svo kirfilega niðurnjörvað ennþá, að þrátt fyrir að þeim væri trúað, áttu þau bara að hætta að kvarta og eins og í tilfelli Lindu láta sér nægja að þiggja Toblerone og gleyma þessu. Jafnvel á Unglingaheimili ríkisins ríkti þöggun um þessi mál. Ein fyrirvinna dugði ekki og dugir ekki enn til að sjá fyrir fjölskyldu, svo geðheilsu allrar fjölskyldunnar er fórnað fyrir lifibrauðið á meðan gerandinn skaffar. Þá veltir maður fyrir sér hugtakinu „unglingavandamál“ en oft er vanlíðan unglings birtingarmynd fjölskylduvandamáls af einhverju tagi.       
Það eru margir sterkir punktar í þessari bók sem lýsa bæði því sem gert var vel, eins og dvöl Lindu á Breiðuvík þar sem henni leið hvað best á meðan heimilinu var stýrt undir verndarvæng ungra, kærleiksríkra hippa. Seinna er komið Barnahús og í raun farvegur í kerfinu til að taka á móti þolendum kynferðisbrota en að sama skapi sjáum við það sem var ekki í lagi og er jafnvel enn ekki í lagi.
Linda komst til dæmis að því að búið var að farga öllum gögnum um hana innan kerfisins þegar hún ætlaði að leita þau uppi seinna. Mál fyrntust eins og í hennar tilfelli og það kannski loksins þegar einstaklingur hafði unnið nægilega mikið í sinni brotnu sjálfsmynd til að kæra gerandann. Í dag hefur orðið stórt framfararskref hvað það varðar, en kynferðisbrot gegn börnum fyrnast ekki lengur í íslensku réttarkerfi þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd að gerendur hafi getað sótt um uppreist æru fljótlega eftir afplánun dóms og það jafnvel án vitundar þolenda.
Enn virðist vera lögð ofuráhersla á að ef barn segir frá þá skipti öllu máli að lýsingin sé afar grafísk samanber spurninguna: „Gekk hann alla leið?“ Þetta finnst mér mjög áleitin spurning og umhugsunarverð. Það þarf ekki að ganga alla leið til að brjóta sjálfsmynd barns. Auk þess er hægt að ganga alla leið á ýmsan máta. Enn þann dag í dag stöndum við frammi fyrir því að ekki er horft nægilega mikið á andlegar afleiðingar ofbeldis heldur einungis líkamlegar sem í svona tilfellum eru sjaldnast til staðar. Þá stendur orð gegn orði og veldur það unglingum jafnvel fjörtjóni.
Þá er mjög umhugsunarvert hvernig börnunum/unglingunum sem bjargað var tímabundið innan kerfisins á upptökuheimili eða í sveit, var svo kastað út í lífið í framhald vanrækslu og fátæktar þegar einhver tími var liðinn eða þau urðu sextán ára, sem var þáverandi sjálfræðisaldur. Maður veltir því fyrir sér hvort hið sama eigi sér stað í dag með unglinga sem verða 18 ára. Þessi börn eru í sérlegum áhættuhópi þess að lenda í neyslu fíkniefna eða verða geðröskunum, glæpum og fátækt að bráð.
Þá er sláandi mynd dregin upp af því hvernig ofbeldi og normalísering á ofbeldi getur gengið í erfðir kynslóð fram af kynslóð og hvað það skiptir gríðarlega miklu máli að rjúfa þann vítahring, halda utanum börnin okkar, tala við þau og raunverulega hlusta. Ekki aðeins hlusta á orðin sem þau segja heldur hlusta eftir tilfinningum þeirra. Barn á alltaf að finna til öryggis á heimili sínu, annars kemst það aldrei heilt út í heiminn.
Þessi bók er í raun kennslubókardæmi fyrir kerfið um hvernig það á og á ekki að vinna í barnavernd og er holl lesning fyrir alla sem láta sig velferð barna og unglinga varða. Hún er sár á köflum en hún er líka algjör hetjusaga og sýnir okkur hvað sannleikurinn og það að standa með börnunum okkar skiptir gríðarlega miklu máli fyrir sálarheill.

Ítarefni frá Knúzi:

Hér er krækja á viðtal við systur Helenar Lindu, Unni Millý Georgsdóttur frá 2010 úr Návígi, viðtalsþætti í umsjón Þórhalls Gunnarssonar. Unnur Millý var misnotuð af sama karli og systir hennar.

r er bókaumfjöllun Guðrúnar Jónsdóttur um Launhelgi lyganna frá árinu 2000 úr greinasafni Morgunblaðsins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.