Ég á ekki að þurfa að réttlæta mig

Umræðuefnið hér fyrir neðan er enn mikið tabú fyrir mörgum. Þó hafa margir deilt upplifun sinni nýlega og þar sem það hefur hjálpað mér mikið langar mig til að geta mögulega hjálpað öðrum.

Svona líður mér
Já, það er rétt, mig langar ekki til að verða foreldri, en það þýðir ekki að ég megi ekki skipta um skoðun eða að ég muni skipta um skoðun. Afhverju ekki? Ég spyr þau sem langar að eignast barn til baka … afhverju vilt þú það?
Mörgum finnst fáránlegt að spyrja svona … mér finnst bara að báðar spurningarnar eigi rétt á sér.

Margir halda að til sé eitthvað sem kalla má norm. Ef við horfum á áhrifamikla einstaklinga úti í heimi sjáum við að margir þeirra eru allt annað en þetta kjaftæðisnorm. Þeir fara sínar leiðir, sem henta þeim, gera annað en það sem flestir gera.
Ég tek þetta sem dæmi til að benda á að við ættum að lifa á okkar forsendum, fara okkar leið.

Dæmi
Einu sinni líkti ég barneignum við dóp. Þá var horft á mig með augum eins og ég væri bara ég veit ekki hvað. Ástæðan fyrir samlíkingunni er sú að dóp og barneignir eru eitthvað sem þú getur ekki prófað og svo hætt við. Í raun eru barneignirnar meiri skuldbinding, því maður hefur heyrt sögur af fólki sem fer í árangursríka meðferð við fíkn. Það er ekki hægt að skila barninu ef þú fílar ekki foreldrahlutverkið.

Verstu viðbrögðin sem ég hef fengið voru frá barni sem spurði mig hvort að ég hati börn. Þarna upplifði ég þennan samfélagslega heilaþvott.

– Þótt ég vilji ekki kaupa mér mótorhjól, þá þýðir það alls ekki að ég hati mótorhjól.
– Þó að mig langi ekki að mála vegginn minn grænan, þýðir það ekki að ég þoli ekki grænan lit.
Ég væri alveg til í að prófa mótorhjól, þó að mig langi ekki að eiga svoleiðis. Mér finnst grænn litur fallegur í allskonar þótt ég vilji ekki mála vegginn þannig.
Það sama á við um barneignir. Mér finnst náttúran yndisleg og skil fegurðina á vexti fósturs í móðurkviði þótt ég vilji ekki upplifa það sjálf. Engin tvö eru eins, það kennum við börnunum, en í vissum hlutum þrýstum við tilteknum viðhorfum upp á samfélagið.

Þrýstingurinn sá allra versti
Að benda pörum eða einstaklingum á að það sé kominn tími á þau eða að segja setningar á borð við „hvenær ætlið þið svo að koma með eitt kríli?“ eru alveg þær leiðinlegustu, sorglegustu og fáránlegustu sem ég hef upplifað. Lífið er ekki einhver röð af hlutum sem við eigum að gera.
Í fyrsta lagi: Þú gætir verið að spyrja einhvern sem hefur nýlega misst fóstur eða langar í barn og getur það ekki af allskonar ástæðum.
Í öðru lagi: Þetta er mjög persónulegt og kemur þér ekki við.

Ég hef alveg upplifað allskonar svona frá fólki og í mörgum tilfellum langað að forða mér til að þurfa ekki að mæta hneykslissvipnum.
Ég er ekki að banna fólki að spyrja um lífið og tilveruna. En það fer eftir tóni í spurningum og viðbrögðum við svörum.
Ég segi; Ekki spyrja ef það er eitthvað ákveðið svar sem þú vilt fá, heldur spyrðu af forvitni og vertu tilbúin(n) fyrir hvaða svar sem er.

Ekki láta aðra hafa áhrif á hver þú ert og vilt vera
Við erum ekki öll gerð fyrir sömu hlutverk í lífinu, og það á við um öll hlutverk, líka foreldrahlutverkið.
Verum skilningsrík, hættum að búast við að allir hafi sömu viðhorf og maður sjálfur og lifum lífinu að vild.

Höfundur: Karen Guðnadóttir, 25 ára

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.