Sem svín skaltu fæðast?

Höfundur: Leïla Slimani. Kristín Jónsdóttir þýddi.

 

Leïla Slimani – copyright: Libération.

Ganga utandyra. Taka metró á kvöldin. Fara í mínípils, fleginn topp og háa hæla. Dansa ein á miðju dansgólfinu. Mála mig eins mikið og mig langar. Taka leigubíl pínu drukkin. Leggjast hálfnakin í grasið. Húkka far. Taka næturstrætó. Ferðast einsömul. Fá mér drykk ein, á terrössu. Hlaupa eftir fáförnum stíg. Bíða á bekk. Daðra við karl, skipta um skoðun og halda mína leið. Hverfa í fjöldann í úthverfalestinni. Vinna á næturnar. Gefa brjóst á almannafæri. Biðja um launahækkun. Ég krefst réttarins til að vera ekki öngruð í þessum daglegu athöfnum. Réttarins til að leiða ekki einu sinni hugann að því. Ég er frjáls og enginn skal að gera athugasemdir við þaðhvernig ég hegða mér, klæði mig, geng, hvernig rassinn á mér er í laginu, stærð brjósta minna. Ég hef rétt á að vera látin í friði, að vera ein, rétt á því að hreyfa mig án þess að lifa í ótta. Ég vil ekki eingöngu mitt innra frelsi. Ég vil frelsi til að lifa utandyra, undir beru lofti, í heimi sem tilheyrir mér líka smá.

Ég er ekki lítill brothættur hlutur. Ég æski ekki verndar heldur staðfestingar á rétti mínum til öryggis og virðingar. Karlar eru ekki, langt í frá, allir svín. Hversu margir hafa ekki glatt mig undanfarnar vikur, gert mig svo hissa, svo yfirmáta glaða yfir því að þeir skilja hvað er að gerast? Þeir hafa hrifið mig með því að taka afstöðu og ákveða að vera ekki lengur þátttakendur, að segjast vilja breyta heiminum, frelsa sig, og hina líka, undan þessari hegðun. Því í grunninn, á bak við þetta svokallaða frelsi til að angra, felst óhugnanleg kenning um eðli karlmennskunnar: „sem svín skaltu fæðast“. Karlar sem ég umgengst roðna og rísa upp gegn þeim sem níða mig niður. Þeim sem rúnka sér yfir jakkann minn klukkan átta að morgni. Yfirmanninum sem gefur í skyn hvað þarf til að fá launahækkun. Kennaranum sem býður starfsþjálfun í skiptum fyrir tott. Vegfarandanum sem spyr hvort „ég ríði“ og kallar mig að lokum „tík“. Körlunum sem ég þekki verður óglatt af þessari afturhaldssömu sýn á karlmennskuna. Sonur minn verður, vonandi, frjáls maður. Ekki frjáls til að angra, heldur frjáls til að skilgreina sig á annan hátt en sem rándýr ofurselt óviðráðanlegum löngunum. Karl sem kann að heilla á þúsund dásamlega vegu sem karlar búa yfir til að heilla okkur.

Ég er ekki þolandi. En milljónir kvenna eru það. Það er staðreynd en ekki siðferðislegur dómur eða smættun á stöðu konunnar. Í mér blundar ótti allra þeirra kvenna sem ganga álútar um götur þúsunda borga heimsins. Þeirra sem eru eltar, hrelldar, nauðgað, níddar niður, komið fram við eins og þær séu óviðeigandi aðskotahlutir á almannafæri. Í mér ómar öskur þeirra sem grafa sig niður, sem skammast sín, útlægum er þeim kastað út á götu af því þær hafa verið svívirtar. Þeirra sem fela sig undir síðum svörtum kufli því líkami þeirra býður upp á að þær séu angraðar. Í Kaíró, Nýju Dehlí, Líma, Mossoul, Kinshasa, Casablanca, konum sem ganga þar um götur, hafa þær áhyggjur af ógnun við að daður og herramennska eigi undir högg að sækja? Eiga þær rétt á því að daðra, að velja, að angra?

Ég vona að dóttir mín gangi einhvern tímann um götur að næturlagi, í mínípilsi og flegnum toppi, að hún fari ein í heimsreisu, að hún taki metró á miðnætti óhrædd, án þess jafnvel að leiða hugann að því. Heimurinn sem hún mun lifa í verður ekki púrítanískur. Hann verður, ég er þess fullviss, réttlátari heimur, þar sem rými ástarinnar, fullnægjunnar, daðursleikja verða aðeins fegurri og stærri. Svo breyttur, að við getum ekki ímyndað okkur hann enn.

Franska dagblaðið Libération birti þetta opna bréf eftir rithöfundinn Leïlu Slimani þann 12. janúar 2018. Hún veitti góðfúslegt leyfi fyrir þýðingunni.

Skáldsagan Barnagæla kom út í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar síðla árs 2017. Hún hlaut hin virtu bókmenntaverðlaun Goncourt í Frakklandi 2016.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.