Höfundur: Aro Velmet
Við skulum byrja á staðreyndum: Samkvæmt karlmennskurannsóknum sem gerðar voru árið 2014 í Háskólanum í Tartu einkennir eistneska karlmenn umfram allt mótsögnin milli þess sem þeir segjast óska sér og þess hvernig þeir lífa lífi sínu í raun. Dæmigerðan eistneskan karlmann langar að eignast tvö til þrjú börn en hann lætur sér nægja eitt. Hann langar að verja meiri tíma með fjölskyldunni en telur sig knúinn til að vinna úti í Finnlandi til að tryggja fjárhag fjölskyldunnar. Hann telur heilsu sína góða en þjáist oft af langvarandi heilsuvandamálum, ofþyngd og þunglyndi. Hann á það til að stofna lífi sínu og heilsu í hættu með því að misnota áfengi og tóbak en sleppa því að nota varnir við skyndikynni.
Á sviði félagsvísinda í dag er gengið að því vísu að hugmyndir um karlmennskuna hafi gjörbreyst frá því sem þær voru á árum áður . Í Bandaríkjunum er mikið fjallað um velgengni Trumps og vaxandi vinsældir hreyfinganna hitt hægrið (e. alt-right) en margir útskýra þessa þróun út frá því að karlarnir sem búa í fyrrverandi iðnaðarborgum hafi misst valdastöðu sína. Í hreinskilni sagt þá finnst hefðbundnum karlmanni miklu flottara að vinna í smiðju og hamra járn eða logsjóða á bílaverkstæði en að vinna við að skófla fröllum á skyndibitastað.
Það að missa statusinn veldur kvíða telja sumir að þessi kvíði sé ástæða þess að misnotkun verkjalyfja og annarra „löglegra vímuefna“ sé orðin faraldur meðal hvítrar verkamannastéttar.

Lítil börn og stórir karlar. Klippimynd Brit Pavelson og Maarja Jullinen. Úr bókinni Þegar allir eru að heiman eftir Sasha Tshornyi.
Óttinn við að missa status sinn
Óttinn við að missa status sinn ógnar karlmennsku síðkapítalismans og þar af leiðandi má segja að Eistland hafi verið sannkallað vestrænt ríki í þónokkra áratugi. „Karlmenn frá suðrænum löndum eiga auðvelt með að ná sér í konu í Eistlandi af því að eistneskir karlmenn eru hundleiðinlegir,“ gaf fyrirsögn í dagblaðinu Eesti Ekspress nýlega til kynna. Sami ótti blandast útlendingahatri, oftast í útgáfunni „við verðum að vernda eistneskar konur fyrir innreið íslam.“ Í þessari angist endurspeglast dæmigerðar breytingar sem fram fara í postiðnaðarsamfélögum. Í því samhengi má nefna grein eftir eistneskan kvikmyndagerðarmann Andres Maimik sem birtist í karlablaði tímaritsins Müürileht. Hann heldur því fram að eiginleikar sem eru taldir vera kvenlegir, til dæmis þörfin til að annast aðra, tryggð, skyldurækni, aðlögunarhæfni, vinnusemi, það að þola rútínu, hafa gert það að verkum að nú á dögum séu konur eftirsóttara kynið þegar kemur að því að ráða millistjórnendur. Hefðbundin karlastörf eru æ oftar mönnuð konum. Þetta ferli er rétt byrjað. Þróunin er komin á það stig að það í dag eru það ekki hinir sterkustu sem lifa af heldur hinir aðlögunarhæfustu. Auk þess eru eistneskir karlmenn enn í austur-evrópskum fjötrum sem magna upp þennan ótta, það er að segja þeir hafa stöðugt á tilfinningunni að karlmenn hér á slóðum séu hæfileikaminni, frumstæðari, fátækari, tilgangslausari – eitthvert lið sem öðlast ekki gildi fyrr en það kemst í vinnu í Finnlandi. En þar eru eistneskir karlmenn samt sem áður annars flokks borgarar.
Fyrsti varnarhátturinn: Að bregðast of harðlega við með því að ásaka aðra um að bregðast of harðlega við
Til að lina þessa angist hefur eistneskur karlmaður þróað með sér fjölda varnarhátta en með þeim reynir hann sífellt að staðfesta að það beri að taka mark á honum. Fyrst má nefna varnarháttinn sem felst í ofursterkum viðbrögðum. Heimsmeistarinn í því er sennilega Jürgen Ligi fyrrverandi fjármálaráðherra Eistlands. Dæmi um það má einnig sjá í ýmsum spjallþáttum um helgar þar sem fjöldi hvassyrtra karlmanna afgreiðir röð af Brýnum Málefnum. Þeir tjá sig aðallega um utanríkismál eða réttara sagt Rússland, spillingu í stjórnmálum (koalitsiooni lehmakauplemine) og annað í þeim dúr. Um leið gera þessir menn öll önnur málefni að athlægi, sér í lagi málefni sem tengjast jafnrétti, sveigjanlegum vinnutíma, félagslegum tryggingum og öðru slíku. Þetta er manngerðin sem kallar ráðherrann sem ekki er af eistneskum uppruna „son innflytjandans“ og ásakar hann síðar meir fyrir að móðgast að tilefnislausu. Þetta er manngerðin sem skrifar langar skoðanagreinar um hvernig fulltrúar y-kynslóðarinnar hafi misst seigluna og aumingjavæða þannig allt samfélagið. Með öðrum orðum er þetta týpan sem þolir ekki að aðrir dragi skoðanir hans efa og upplifir slíkt sem árás á sig. Það var einmitt fyrir þessa manngerð sem Sigmund Freud fann upp hugtakið frávarp til að lýsa tilfinningalegu ástandi þeirra.

Lítil börn og stórir karlar. Klippimynd Brit Pavelson og Maarja Jullinen. Heimild: Úr bókinni Að uppgötva draumsóley eftir Leelo Tungal.
Annar varnarhátturinn: Sjálfumglaður drykkjumaður með sómakennd
Sumir karlmenn telja sjálfum sér og öðrum trú um að óheilsusamlegir lifnaðarhættir þeirra, lág staða eða jafnvel jaðarstaðan í samfélaginu séu jafnvel styrkleiki. Þessi nálgun er býsna athyglisverð út af fyrir sig og býður upp á þá túlkun að misnotkun áfengis og annarra vímuefna bendi ekki á félagsleg vandamál eða heilsubrest heldur er staðfesting á því að um alvöru karlmann sé að ræða sem lifir í raunveruleikanum en ekki í hinum dauðhreinsaða gljáfægða vestræna heimi. Slík afstaða birtist ljóslifandi í sögum á vefsíðunni nihilist.fm. Piret Karro greinir sögurnar í tímaritinu Vikerkaar (1. tbl. 2018 avanumber). Hún segir: „Eistneskur karlmaður í Nihilist telur sig vera eftirsóttan kappa. Hann er að vísu fátækur eða fíkill eða í fangelsi en þetta er öllum öðrum að kenna en honum sjálfum, til dæmis eistnesku samfélagi eða löggum eða ríkinu og ef einhver hefur grunsemdir um það er þeim hinum sama sagt að fara í rassgat og rófu. Karlgerðin í Nihilist hefur samt ákveðna siðferðis- eða heiðurstilfinningu. Til dæmis þegar hann selur dóp selur hann alltaf fyrirfram umsamið magn og innihald til að spilla ekki fyrir markaðinum – hann langar að láta gott af sér leiða. Hann hefur ýtarlega þekkingu á sínu sviði og þekkir til dæmis efnafræðilegt innihald dópsins og samverkun ýmissa efna. Af öðrum karlgerðum sem hafa verið áberandi í eistneskri menningu má nefna lúser, hnakka og hæglátan nakinn karlmann aleinan í skóginum. Karlgerðin í Nihilist er ólíkur þeim að því leyti að hann hefur sterkari sjálfskennd. Hann þekkir reglurnar til hins ýtrasta en honum er skítsama um þær.“
Þriðji varnarhátturinn: „Það er auðvitað rangt að beita áreitni en …“
Þriðji varnarhátturinn felst í að reyna að ná málamiðlun. Slíkir karlmenn eru sveigjanlegir á yfirborðinu. Þeir viðurkenna að hugmyndir um karlmennskuna verði að breytast með tímanum. Þeir segjast vera hlynntir skoðunum sem styðja feminisma og jafnrétti en þegar þeim eru stillt upp við vegg viðurkenna þeir að í hverjum karlmanni búi nú samt ljón sem þrái að brjótast úr búrinu. Það eru þeir sem segja oft að „það sé auðvitað rangt að beita áreitni en…“. Við skulum rifja upp karl sem tjáði sig í athugasemdakerfi netmiðlanna og hafði afar ákveðnar skoðanir um undir hvaða skilyrðum væri réttlætanlegt að fjölmiðlarnir fjalli um sögu fórnarlambs sem Taavi Róivas fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands áreitti kynferðislega. Hann kastaði fram spurningum eins og: „Var hún örugglega í kjól, ef já þá í hvernig kjól sem hugsanlega hefði verið tosað í, hversu háir voru báðir aðilarnir, hvað er hægt að aðhafast samstundis og hvað ekki“ og fleira í þeim dúr. Eða tökum sem dæmi þá sem bregðast áhyggjufullir við hverja sögu um kynferðisáreitni og koma með tilgátur um einhverja viðskiptahugmynd, pólitíska pöntun eða hefnd svekktrar konu (allir þessir möguleikar eru tölfræðilega afar ósennilegir). Minnsta hættan á að gengið sé á hlut einhvers karlmanns vegur hér þyngra en nokkuð annað. Í svona mikilli hættu telur eistneski karlmaðurinn sig vera.
Allur hinn vestræni heimur situr í sams konar klípu
Auðvitað eru til fleiri leiðir til að höndla angistina sem hrjáir karlmenn. Eitt það merkilegasta sem fram kemur í karlmennskurannsóknum á vegum Háskólans í Tartu er að eistneskir karlmenn sjálfir segjast vera fyrir s.k. „mjúku gildin“ sem rúmast ekki innan hins stífa karlmennskuramma: Þeir vilja gjarnan hafa sveigjanlegri vinnutíma, verja meiri tíma með fjölskyldunni, hafa meiri stöðugleika í fjölskyldulífi og góð samskipti við afkomendur sína. En ef þeir standa frammi fyrir valinu hafa þeir tilhneigingu til að velja hegðun sem hjálpar þeim að varðveita tilfinninguna um að vera konungur ljónanna. Eistland er engin undantekning að þessu leyti, allur hinn vestræni heimur situr í sams konar klípu. Ef til vill felst lausnin í að leyfa óhefðbundnari karlímyndir, ímyndir sem eru ekki eins krefjandi og bjóða upp á fleiri hegðunarmöguleika. Í karlablaði tímaritsins Müürileht vekur Ave Taavet athygli á því að í mörgum eistneskum menningarverkum birtist „hinn geðfelldi lúser“ sem lítur á það að hafa misst status sinn sem tækifærið á að láta reka á reiðanum: „Hann er iðjuleysingi sem ælir, skítur, sofnar með buxurnar niður fyrir rass, stelur frá sjálfum sér og öðrum, lendir í slagsmálum og kvennastússi eða hangir sísona. Þetta er skömmustulegt en það að skammast sín er nú einu sinni óhjákvæmilegur hluti af því að vera manneskja eða jafnvel mennsk fullkomnun. Þetta gæti verið enn eitt úrræðið. En eflaust eru til fleiri.
Greinin er þýdd af Lemme Linda Saukas úr eistnesku.
Geinin birtist fyrst á vefmiðlinum Feministeerium og má sjá hér.
Femíníski vefmiðillinn Feministeerium beinir sjónum að karlmönnum og karlmennsku í ýmsum myndum. Í samstarfi við Knúz er kannað hvað það þýðir að „vera karlmaður“. Hvað þarf til að hljóta einkunnina „alvöru karlmaður“? Hver eru áhrif skaðlegrar karlmennsku – sem er hegðunarmynstur sem samfélag okkar býður körlum að fylgja, en getur í lokin skaðað þá sjálfa og aðra.
Aðrar greinar í þeim flokki:
Galdramaðurin: Karlmennska að fornum sið
Myndasaga – karlmenn og karlmennska.
Norræna ráðherranefndin veitti verkefninu fjárhagslegan stuðning. Innihaldið er alfarið á ábyrgð aðstandenda verkefnisins og túlkar ekki endilega sjónarmið ráðherranefndarinnar.
This publication has been produced with the financial support from the Nordic Council of Ministers. The content of this publication is the sole responsibility of the coordinators of this project and do not necessarily reflect the views or policies of the Nordic Council of Ministers.
Bakvísun: Galdramaðurinn: Karlmennska að fornum sið | Knúz - femínískt vefrit
Bakvísun: Myndasaga – karlmenn og karlmennska | Knúz - femínískt vefrit