Galdramaðurinn: Karlmennska að fornum sið

eftir Barbi Pilvre

Mynd: Brit Pavelson og Maarja Jullinen

Fyrir skömmu dvaldi eistneskur athafnamaður, Urmas Sõõrumaa, í fjarlægu landi lokaður inni í myrkvuðu herbergi. Markmið með dvöl hans var andleg hreinsun og það að komast nær uppljómun. Hann iðkar ýmis konar andlegar og líkamlegar æfingar og er ötull við að kynna þær fyrir almenningi. Tvíefldur eftir dvölina ákvað hann að sýna mátt sinn og megin í borgarpólitík og tók þátt í kosningunum í borgarráðið í Tallinn í október 2017. Viðskiptajöfurinn, sem allt í einu er farinn að hneigjast til andlegra málefna og notar aðstoð spámiðla í umsvifum sínum á fasteignamarkaðinum, vekur að vísu mótsagnakenndar tilfinningar í Eistlandi. Oft á tíðum hefur honum fylgt velgengni og því trúa margir að allt sem hann snertir verði að gulli. Í þetta skiptið náði hann ekki tilætluðum árangri. Sennilega glitti í loðin eyru sérhagsmuna hópsins sem Sóórumaa stjórnaði og það fældi kjósendurna frá. Samt sem áður leikur enginn vafi á því að galdraiðkan hafi verulega hækkað vitundarástand Sõõrumaa og bætt líkamsskynjun hans. Þetta er eins konar auðmagn sem hann býr yfir og veitir honum fjárfestingarmöguleika á ótal sviðum. Markaðurinn býður enn upp á ónýtt tækifæri til að sameina viðskipti og galdramennsku. 

 

Galdramenn nýrra tíma hjálpa að ná tökum á lífinu

Sõõrumaa er ekki einn í andlegri leit sinni og tilraunum til að sameina viðskipti og galdramennsku. Auk hans má til dæmis nefna Ville Jehe sem er þekktur fyrir að sameina bisness og bóhemalíf og hefur átt mikilli velgengni að fagna í byggingariðnaðinum. Jehe heldur námskeið þar sem hann fjallar um mennskuna, andlegan þroska og það að breytast á meðvitaðan hátt. Sjálfur öðlaðist hann nýjan skilning á andlegum málefnum undir leiðsögn Ingvars Villido í þorpinu Lilleoru sem er ein þekktasta andlega miðstöðin í Eistlandi. Þorpið er sérlega vinsælt meðal framafólks sem nýtir tíma sinn og þekkingu í að taka þar þátt í sjálfboðastarfi undir handleiðslu galdramanna nýrra tíma. Ville Jehe er viðskiptarefur sem hefur einstakt lag á að blanda saman dulhyggju og sinni eigin reynslu og hann hagnast vel á því. Kenningar Ingvars Villido hafa hjálpað honum að finna sjálfan sig og í dag leiðbeinir hann öðru athafnafólki við að átta sig betur á lífi sínu og gjörðum. Námskeið hans kosta væna fúlgu og eru vel sótt.
Jarðvegurinn í Eistlandi er mjög móttækilegur fyrir hvers konar geimveru-, dul- og woodoovísindum og framboð í skemmtiiðnaðinum gríðarlega mikið. Alls kyns andlegt smádót, orkusteinar, hjálpartæki fyrir hugleiðslu, sjálfshjálparbækur og kraftaverkafæða seljast eins og heitar lummur. Viðskiptagaldramenn fjárfesta víða. Sjónvarpsþættirnir á borð við Selgeltnägija tuleproov (Eldraun skyggnimiðils) eru einungis toppurinn á ísjakanum. Þó að múgur og margmenni spreyti sig á þessum markaði þykjast alvöru viðskiptagaldramenn vera af allt öðru sauðahúsi. Alvöru galdramaður á að baki persónulega sögu um breytingar og velgengni og hann veit hvað hann syngur. Hann er ekki með neitt kjaftæði og lífsferill hans er örugg trygging fyrir því.

Sterk tengsl milli peninga og galdra

Mynd: Brit Pavelson og Maarja Jullinen

Í nóvember 2017 fór fram viðburður í leikhúsinu Vaba Lava (frjálst svið) í listamannahverfinu Telliskivi í Tallinn. Viðburðurinn hét Leið hins frjálsa manns og þar var fjallað um „leið alvöru karlmanns að innra frelsi“. 
Fjöldinn allur af athafnamönnum í andlegri leit og jógakennurum tróð þar upp og létu Sõõrumaa og Jehe sig ekki vanta. Auk þeirra má nefna Joonas Saks, Tiit Trofimov, Rain Tunger, Raivo Juhanson o.fl. Erindi þeirra snerust um að taka ábyrgð á sínu eigin lífi í gegnum djúpa andlega reynslu. Að sjálfsögðu var aðgangseyrir að þeim viðburði.
Þetta líkan virkar líka öfugt: Það liggur greið leið úr dulhyggjunni inn í viðskiptaheiminn. Andlegir gúrúar hafa viðskiptavit fram í fingurgóma. Ingvar Villido, forstöðumaður frægustu andlegu miðstöðvarinnar í Eistlandi, fer ekki dult með sterku tengslin milli peninga og galdra. Nýjasti fyrirlesturinn hans sem sjálfsleitin blés honum í brjóst heitir: Hvað þarf maður að gera til þess að eiga nóg af peningum. Eflaust er uppselt á fyrirlesturinn. Stjörnuspámenn, eins og til dæmis Igor Mang, eru líka mjög vinsælir.

Andlegir meistarar og lærimeyjar

Til er fésbókargrúppa Teadlik Mees (Meðvitaður karlmaður) fyrir karlmenn sem þrá að komast í snertingu við sitt dýpra eðli, hinn forna mátt sinn og meðvitaðan karlmanninn í sér. Grúppunni stjórnar Raivo Juhanson jógakennari með viðskiptabakgrunn. Á þessari síðu markaðsetja margir viðskiptamenn galdraviðburði sína. Umfjöllunarefni á þessum viðburðum einskorðast ekki við sjálfsleit karlmanna. Inn á milli eru fyrirlestrar um hina sameiginlegu leið kvenna og karla. Það gæti bent á að slíkir galdraviðburðir byggi á hugmyndinni um andlegan meistara gæddan persónutöfrum og lærimeyjum sem iðulega fylgja honum.

Galdramaðurinn sem einn af erkitýpum karlmennskunnar.

Hvernig ber að útskýra velgengni þessara galdramanna, töframanna og norna? Galdramaður, kennari, predíkari og töframaður eru samkvæmt kenningu C.G. Jung einn af erkitýpum karlmennskunnar. Þeir sem aðhyllast dulrænu sjónarmiði og ganga út frá kenningum C.G. Jung halda því fram að það sé einmitt hin fullþroskaða karlorka galdramanns sem knúi fram siðmenninguna. Einn þekktasti kennismiðurinn í dag er skáldið Robert Bly en í metsölubókinni sinni Iron John: A book About Men (1999), sem byggir á erkitýpum samkvæmt kenningu Jungs, fjallar hann um kreppu nútímakarlmanna og rannsakar uppsprettur karlmennskunnar. Bókin King, warrior, magician, lover: Rediscovering the archetypes of the Mature Masculine eftir Robert Moore og Douglas Gillette (1990) fylgir hugmyndum Robert Bly og fjallar enn ýtarlegar um erkitýpuna Galdramann.

Veikleiki erkitýpunnar Föður í menningu okkar og kreppa karlmennskunnar

Mynd: Brit Pavelson og Maarja Jullinen

Robert Bly byggir textann sinn á Grimms-ævintýrum og gengur út frá kenningum ýmissa fræðimanna eins og til dæmis Jung, Mircea Eliade, Georg Dumezil o.fl. Grundvallarhugmynd hans er að karlmenn í nútímasamfélaginu séu í vondum málum og telur hann ástæðuna fyrir því vera veika stöðu föðurhlutverksins. Strákar gangi um sjálfala eða eru fyrst og fremst aldir upp af konum en það síðara telur hann enn skaðlegra. Í fornum menningarheimum leiðbeindu eldri karlmenn þeim yngri á þroskabrautinni með því að taka sameiginlegan þátt í helgisiðum, veiðiferðum, stríði, tómstundum. Í dag getum við frekar talað um föður sem vantar. Þetta ástand telur Bly vera táknrænt og skilgreinandi fyrir nútíma vestræna menningu. Feður eru uppteknir af vinnunni eða eru einfaldlega ekki til staðar í fjölskyldunni og að mati Bly hafa slíkar aðstæður eyðileggjandi áhrif á nútímamenninguna. Þær valda þunglyndi, glæpahneigð og lélegri stjórnun. Bly heldur því fram að nútíma karlmenn séu óþroskaðir eða það sem hann kallar hálffullorðnir og þar af leiðandi ekki færir um að bera ábyrgð, hvorki á fjölskyldu sinni né starfinu sem þeir þurfa að sinna í þágu samfélagsins. Komandi kynslóðir karlmanna fá þennan veikleika í arf og þjást þá einnig af þroskaleysi. Að mati Bly reyna konur að bæta þetta ástand upp með því að taka að sér stöðu karlmanna eins og tíðkaðist í ungmennahreyfingum á sjöunda áratug síðustu aldar. Þetta hefur því miður haft í för með sér tilurð hins mjúka karlmanns sem skáldið telur varhugaverða þróun.
Sem lausn leggur Bly til að endurlífga gömlu mýturnar um karlmennskuna og andlegan þroska. Rauði þráðurinn í þeim er tímabil mikilla þolrauna og einsemdar. Þannig finna söguhetjurnar karlmennskuna í sér. Ef slíkt tímabil er ekki til í einhverjum menningarheimi samkvæmt reglum og ríkjandi ímyndum um kynhlutverkin kemur í staðinn þunglyndi og alkóhólismi.
Á tíunda aratugnum voru stofnaðar ýmsar karlhreyfingar í anda Bly þar sem leitast var við að endurheimta tengslin við uppsprettu karlmennskunnar. Haldin voru bæði bókleg og verkleg námskeið. Brautryðjandinn í Eistlandi var Ülo Vihm sálfræðingurinn sem skipulagði sérstakar æfingabúðir sem eru enn vinsælar meðal eistneskra karla, en líka kvenna, í andlegri leit. Fólk er hvatt til að stíga niður af hringekju hefðbundinnar karlmennsku sem tengist frama og velgengni. Miðdepillinn í þeirri hugmyndafræði er erkitýpan Galdramaðurinn sem getur birst sem kennari, gamall vitur karl eða eins konar tæknimeistari.

Frá hinni dulrænu visku til tæknilegrar færni

Carl Gustav Jung og Robert Bly, sem gengur út frá dulrænu sjónarmiði, fjalla um karlmennsku í kenningum sínum og sameina nútímavísindi og ævagömul fræði. Moore og Gillete fjalla um þetta fyrirbæri í bók sinni King, Warrior, Magician, Lover: Rediscovering the archetypes of the Mature Masculine og segja í stuttu máli „Ekki er allt sem sýnist.“ Þar lýsa höfundarnir Galdramanninum á eftirfarandi hátt: „Galdramaðurinn skynjar hin duldu svið tilverunnar, orka hans hjálpar okkur að öðlast dýpri skilning á tilverunni. Mátturinn sem ómeðvitaða orkan felur í sér er það mikill að það verður að beisla þessa hann og beina í ákveðinn farveg. Að öðrum kosti er of mikið álag á rafrásinni og það gæti splundrað persónuleika galdramannsins. Nútíma galdramenn hafa áhuga á eldgömlum dulrænum fræðum og töframætti. Alveg eins og fyrirrennarar sínir tileinka þeir sér tæknilega færni til geta beislað orkuna með því að magna seið og taka þátt í rítúölum. Galdramaðurinn er erkitýpan sem einkennist af djúphyggni, íhugun gerir honum kleift að draga sig út úr skarkala heimsins og ná tökum á innri tilfinningarót, tengjast djúpum sannleik og fá aðgang að orkuforðanum. Í rauninni má í sömu andrá nefna starfsheitin í skynsamlegri kantinum eins og vísindamaður, læknir, tæknimaður og í því samhengi mætti velta fyrir sér tengslunum milli vísinda og galdra“.

Hvað er það sem drífur galdraviðskiptamenn áfram?

Við skulum líta á hugmyndafræði Moore og Gillette. Ekki fer á milli mála að ein leið til að beisla lífsorkuna er að nota ýmsar aðferðir sem hafa áhrif á líkamann. Hér má nefna til dæmis jóga, nudd, sérstök mataræði, lyf og fleira. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að íhuga karlmennskuna og sækja innblásturinn til þess inn í andlegan heim. Það ekkert nema gott og blessað þegar framamenn telja peningana eina ekki duga til þess að gera einhvern hamingjusaman og þá langar að sjá dýpri tilgang með því sem þeir gera. Frá sjónarhorni kynjafræðinnar væri samt áhugavert að brjóta þetta fyrirbæri til mergjar og finna rætur þess, þ.a.e.s. hvað það er sem drífur galdraviðskiptamennina áfram, hvort það er einlæg ósk þeirra að ná persónulegum þroska, þörf á viðurkenningu eða hvort þetta snúist allt einungis um viðskiptin.

Þýðandi: Lemme Linda Saukas

 

Femíníski vefmiðillinn Feministeerium beinir sjónum að karlmönnum og karlmennsku í ýmsum myndum. Í samstarfi við Knúz er kannað hvað það þýðir að „vera karlmaður“. Hvað þarf til að hljóta einkunnina „alvöru karlmaður“? Hver eru áhrif skaðlegrar karlmennsku – sem er hegðunarmynstur sem samfélag okkar býður körlum að fylgja, en getur í lokin skaðað þá sjálfa og aðra.

Aðrar greinar í sama flokki:

Ásakanir, drykkjuskapur og málamiðlanir eða hvernig eistneskur karlmaður tekst á við angistina.

Myndasaga – karlmenn og karlmennska.

Norræna ráðherranefndin veitti verkefninu fjárhagslegan stuðning. Innihaldið er alfarið á ábyrgð aðstandenda verkefnisins og túlkar ekki endilega sjónarmið ráðherranefndarinnar.

This publication has been produced with the financial support from the Nordic Council of Ministers. The content of this publication is the sole responsibility of the coordinators of this project and do not necessarily reflect the views or policies of the Nordic Council of Ministers.

2 athugasemdir við “Galdramaðurinn: Karlmennska að fornum sið

  1. Bakvísun: Ásakanir, drykkjuskapur og málamiðlanir eða hvernig eistneskur karlmaður tekst á við angistina. | Knúz - femínískt vefrit

  2. Bakvísun: Myndasaga – karlmenn og karlmennska | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.