Kynjaþing 2018
Femínískur samráðsvettvangur fyrir framtíðina
Núna laugardaginn 3. mars er haldið Kynjaþing 2018, samráðsvettvangur samtaka sem starfa að jafnrétti og mannréttindum. Þingið er haldið í Tækniskólanum á Skólavörðuholti og hefst dagskrá klukkan 12.
Kynjaþingið er lýðræðislegur og femínískur vettvangur fyrir almenning. Dagskrá þingsins er skipulögð af félagasamtökum og grasrótarsamtökum og hugmyndin er sú að auka samræður milli okkar sem er annt um jafnrétti í heiminum og gefa almenningi tækifæri til að kynnast því helsta sem er að gerast í femíniskri umræðu.
Ókeypis aðgangur er að kynjaþingi og öll velkomin.
Fjöldamörg samtök standa fyrir viðburðum á Kynjaþingi: Aflið, Blátt áfram, Femínstafélag HÍ, Femínísk fjármál, Kvennahreyfing Viðreisnar, Kvennaráðgjöfin, Kvennasögusafn Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamband Sjálfstæðiskvenna, #metoo hópur kvenna af erlendum uppruna, Myndin af mér, Rótin, Samtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, Samtök um kvennaathvarf, Samtökin ’78, Stelpur rokka!, Stop the Traffik: ACT Iceland, Stígamót, Tabú, og WIFT á Íslandi.
Dagskráin er fjölbreytt. Á þinginu er fjallað um #metoo byltinguna frá ýmsum vinklum, sögð reynslusaga þolanda mansals, rætt um nýjustu rannsóknir í ofbeldi á Íslandi, fjallað um femínísk stjórnmál og kvennasögu, kynjuð fjármál, fatlaðar konur, kyn og hinsegin fræði, stöðu kvenna af erlendum uppruna, karla og jafnrétti, konur og fíkn, o.fl. o.fl.
Á þinginu verða einnig sýndar kvikmyndir: Myndin af mér eftir Brynhildi Björnsdóttur og Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, Munda eftir Tinnu Hrafnsdóttur og Regnbogapartý eftir Evu Sigurðardóttur sem vann Edduverðlaunin 2016. Femínískt kaffihús verður rekið í Tækniskólanum á meðan þinginu stendur þar sem þátttakendum gefst tækifæri á að spreyta sig á femínísku hannyrðapönki, og þinginu lýkur á Shirley Temple partíi fyrir þátttakendur og gesti!
Nánari dagskrá Kynjaþings er að finna á síðunni: http://kynjathing.is/dagskra.