Cynthia Enloe kíkir á klakann

Mynd Karólínu Lárusdóttur af körlum sem skilja ekki hvaðan á þá stendur veðrið, prýðir forsíðu bókarinnar.

Knúzið fór á fyrirlestur Cynhtiu Enloe sem haldinn var í Háskóla Íslands í síðustu viku og Jafnréttisskóli SÞ stóð fyrir. Enloe er einstaklega skemmtilegur fyrirlesari og átti auðvelt með að hrífa viðstadda með sér, neistar og hlátrasköll svo að segja flugu á milli í salnum. Enloe hefur unnið að femínísku rannsóknum í áraraðir og gefið út fjölda bóka. Hún fylgdist náið með og skrifaði um Strauss-Khan-málið, en meðal annarra verka hennar má nefna bókina Bananas, Beaches and Bases, sem fjallar um tengsl alþjóðavæðingar, stríðsreksturs og femínísma, og bókina um forvitna femínistann, The Curious Feminist, Searching for Women in a New Age of Empire.

Fyrirlesturinn var af tilefni nýjustu bókar hennar The Big Push, exposing and challenging the persistence of partiarchy, sem kom út undir lok síðasta árs og seldist upp á staðnum. Bókin samanstendur af ritgerðum sem hver um sig fjallar um „sjálfbærni feðraveldisins“ og hvernig það virðist standa af sér hverja atrennu femínista á eftir annarri.
Enloe notar sjálf orðið sjálfbærni (e.‘sustainability’) því vissulega er hægt að nota það í neikvæðri merkingu. Hér vísar það til þess sem virðist sjálfsagður hlutur; að sama hvað mikil skítur kemur upp úr holræsum kerfisins virðist ekkert hagga varðhundum þess. Í umræðum sem fylgdu  í kjölfarið á fyrirlestrinum kom fram ágætt dæmi um þess háttar sjálfbærni; ung kona segir upp starfi sínu vegna áreitni yfirmanns: hún fer en hann situr áfram á sínum vel varða stól.
Af orðum Enloe má skilja að nú rétt um fimm mánuðum eftir að fyrsta #metoo-bylgjan fór af stað er fólk byrjað að slá frá sér ólíkar sögur og vitnisburði eins og „moskítóflugur“, og bakslags má gæta í umræðum beggja vegna Atlantshafsins. Hún spyr sig, og okkur, hvernig megi koma í veg fyrir að sama sagan og hefur endurtekið sig síðustu 30, nei, 50-60, 100 ár (eða eigum við kannski bara að miða við Mary Wollstonecraft) haldi áfram að endurtaka sig? Að sópað sé undir teppið og slétt úr dúknum, og húrra fyrir okkur og okkar kvenlegu málum, nú höldum við áfram og snúum okkur að þessu mannlega (hér ætti auðvitað að standa ‘þessu karllega’)!

Enloe spyr sig að því hvað það sé sem viðhaldi þessu kerfi og svarið er það sem hún kallar „abler“, „ablers of partiarchy“. Við gætum kallað þá ‘velunnara feðraveldisins’ á íslensku, það fólk sem sýnir meðvirkni með áreitni og ofbeldi sem viðgengst í samfélaginu. Hún nefndi dæmi um að gagnrýnendur femínísku byltinganna kalli eftir því að aðgreint sé á milli áreitni í formi kynbundinna (rasískra) brandara og kynferðislegs ofbeldis. Aðgreiningin er ekki vandamál að hennar mati, við aðgreinum á milli dags daglega og það hefur áhrif á hegðun okkar. Vandamálið felst í skorti á tengingum, þ.e að benda á tengingarnar á milli áreitni og ofbeldis. Af gagnrýninni að dæma virðist fólki ekki ljóst að það er tenging þarna á milli sem ýtir enn frekar undir að vandamálið er látið viðgangast. Ein af lausnunum, þ. e. ef fólki er viðbjargandi, er einfaldlega að leyfa fólki ekki að komast upp með kynferðislegu brandarana. Ekki þegja þunnu hljóði heldur spyrja í hreinskilni, hvað er svona fyndið við þetta. Ef einstaklingur á að útskýra hvað sé fyndið við að t.d taka á löpp, klípa í rass, …eða hvað sem viðkomandi lætur út úr sér, þá kemur hann, eða hún, upp um brengluð viðhorf til samskipta kynjanna og valdamisræmi, sem er það sem tengir áreitina við ofbeldið. Svo við notum moskítólíkinguna hennar Enloe, þá er ekki einungis hægt slá frá sér eina eða tvær moskítóflugur til þess að forðast bitin, við þurfum að ganga frá þeim öllum.

Enloe fékk spurningu úr sal um hvort að hún væri nú búin að láta kyndilinn ganga áfram í sínu femíníska langhlaupi. Hún svaraði því til að kyndillinn gengi ekki á milli heldur kveikti hann aðra kyndla, fleiri elda. En svo unnt sé að ráðast að rót vandans þarf meira til en nokkra elda, það þarf bál. Til þess að kveikja bálið þarf femínískan fréttaflutning eins og þann sem kom upp um gjörðir Weinsteins. Á bak við þann fréttaflutning voru þrjár blaðakonur á fullum launum í fimm mánuði, og sú sem tók ákvörðun um að ráðast í verkefnið var femínískur ritstjóri New York Times. Hið fræga fjórða vald getur velt hlassi, en svo tekið sé eftir þarf að greiða laun fyrir.
Hér er viðtal við Enloe og hér má fræðast meira um verk hennar. Enn eru nokkur eintök til af nýjustu bók hennar í Bóksölu stúdenta.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.