Erjur eða ofbeldi?

Guðrún Línberg Guðjónsdóttir skrifar:

„Enginn fullvita maður, sem kominn er til vits og ára, er svo skyni skroppinn, að honum sé ekki ljóst, hvílíku böli heimilisófriður getur valdið,“ segir í tímaritinu Fjallkonunni árið 1902. Ekki er ljóst af samhenginu hvaða skilningur er lagður í orðið heimilisófriður. Svo virðist sem heimilisofbeldi hafi verið kallað heimilisófriður, eða heimiliserjur, ef það var á annað borð nefnt. Þegar talað var um heimilisófrið eða -erjur var þó oft aðeins átt við grófar misþyrmingar á börnum á heimilum.
Samkvæmt skilgreiningu á vef Samtaka um Kvennaathvarf er ofbeldi í nánum samböndum, eða heimilisofbeldi, það ofbeldi sem fólk verður fyrir af hálfu einhvers nákomins – sem getur verið maki, fyrrverandi maki, barnsfaðir, foreldri, barn, systkini eða forráðamaður. Það sem greinir heimilisofbeldi frá öðru ofbeldi er ekki að það gerist innan veggja heimilis – það þarf nefnilega ekki að vera þannig – heldur að gerandi og þolandi tengjast nánum böndum, sem gerir ofbeldið enn sársaukafyllra en ef svo væri ekki og það að þolanda er það enn erfiðara en ella að slíta tengsl við ofbeldismanninn. Heimilisofbeldi er skilgreint sem kynbundið ofbeldi – vegna þess að konur eru mikill meirihluti þolenda. Ofbeldið getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og stafrænt – og einnig í formi ógnana, hótana, stjórnunar eða þvingana.
Fyrsta dæmið á timarit.is um orðið heimilisofbeldi er frá 1987. Séra Jón Ragnarsson kallar heimilisofbeldi hversdagslegt, í sunnudagshugvekju í Morgunblaðinu; fólk var og er beitt ofbeldi á heimilum sínum af fólki sem það á í nánu sambandi við – á hverjum degi. Orð prestsins endurspegla hugsunarhátt samfélagsins; þetta var algengt og það vissu allir, en þetta átti heima innan veggja heimilisins: var einkamál hverrar fjölskyldu. Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn fjallar í pistli í Dagblaðinu Vísi árið 1989 um hvað ofbeldi sé og tekur svona til orða: „Þegar rætt er t.d. um heimilisofbeldi er varla […] hægt að leggja alfarið að jöfnu ofbeldi og afbrot.“ Árið áður skrifar Matthildur Björnsdóttir um niðurstöður könnunar á viðhorfi fólks í Ástralíu til heimilisofbeldis – helmingur þátttakenda þekkti til ofbeldis á heimilum. Tæpum fjórðungi fannst í lagi að eiginmaður beitti konu sína ofbeldi, ef hún stæði sig ekki í stykkinu sem eiginkona. Sextán prósentum fannst eðlilegt að maður stjakaði við eða hrinti konu sinni, það væri ekki ofbeldi. 17% kvenna fannst réttlætanlegt að menn þeirra beittu þær ofbeldi ef þær væru ekki „nógu góðar“.
Því miður lifa þessi viðhorf enn góðu lífi. Þau lifa góðu lífi í sjúkum hugum ofbeldismanna, eins og við var að búast, en einnig í málfari venjulegs fólks. Að tala um fjölskylduharmleik þegar faðir drepur börnin sín eða ástríðuglæp þegar maður myrðir konu með slökkvitæki er stórhættulegt og heldur lífi í glæðum sem ættu að vera löngu dauðar. Orðavalið endurspeglar og lýsir skaðlegum hugmyndum um karlmennsku sem virðast vera rót ofbeldis gegn konum. Samkvæmt nýjustu tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar verður ein kona af hverjum þremur fyrir annað hvort líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu maka, eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu einhvers annars, einhvern tímann á ævinni. Algengast er að maki beiti ofbeldinu – ein kona af hverjum þremur, sem hefur verið í sambandi eða hjónabandi, hefur orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu maka. Af öllum konum sem myrtar eru í heiminum á ári hverju eru 38% þeirra myrtar af maka eða fyrrverandi maka.
Menn virðast drepa eiginkonur sínar, kærustur eða fyrrverandi konur af því að þeir upplifa vanmátt og niðurlægingu. Menn drepa ekki úr ást, reiði, afbrýðisemi eða særindum, heldur vegna þess að þeir telja sig eiga konurnar í lífi sínu, vilja stjórna þeim og geta ekki horfst í augu við það og þeir hafa ekki fullkomið vald yfir þeim. Með því að tala um ástríðuglæp, fjölskylduharmleik eða að ósætti sé orsök voðaverka sem þessara erum við að varpa ábyrgð, sem á augljóslega heima hjá ofbeldismanninum eingöngu, yfir á aðra í fjölskyldunni eða skjóta ákveðnu skjólshúsi yfir ofbeldismanninn þar sem tilfinningar hans, rétt áður en hann myrðir annað fólk, fá að njóta samúðar og skilnings. Heimilisofbeldi er ekki erjur eða ósætti innan fjölskyldu, yfirgengileg ást eða réttmæt reiði – heimilisofbeldi er glæpur sem í sinni alvarlegustu mynd endar með morði.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.