Fyrir luktum dyrum #metoo

#metoo fjölskyldutengsl er hópur á Facebook sem er vettvangur kvenna sem hafa orðið
fyrir ofbeldi af hálfu einhvers nákomins. Í hópnum eru konur sem hafa verið beittar
kynferðislegu ofbeldi, margar sem börn og af hálfu nákominna ættingja og konur sem
hafa verið beittar ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka.

Yfirlýsing:
Konur sem stigið hafa fram undir myllumerkinu #metoo hafa svipt hulunni af því að
kynferðisleg áreitni, ofbeldi og misbeiting valds hefur viðgengist á vinnustöðum. Slíkt
fær ekki lengur að þrífast í þögn því allt fólk á að njóta virðingar, jafnréttis og geta verið
öruggt í vinnunni. Okkur þykir einnig rík ástæða til að minna á að konur verða oftast
fyrir ofbeldi heima hjá sér. Ofbeldi innan fjölskyldu og í nánu sambandi er
samfélagsmein sem við verðum í sameiningu að ráðast að og uppræta. Ein kona af
hverjum þremur, hið minnsta, verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi einhvern
tímann á ævinni, margar af hendi maka eða nákomins ættingja og margar sem börn.
Þetta er með öllu ólíðandi.
Afleiðingar ofbeldis eru alvarlegar fyrir lífsgæði og heilsu þolenda og aðstandenda þeirra
og geta jafnvel leitt til dauða. Við viljum að ráðist verði í aðgerðir um allt land með það
að markmiði að koma í veg fyrir ofbeldi. Við óskum eftir því að okkur sé trúað þegar við
segjum frá auk þess sem við óskum eftir stuðningi samfélagsins við að skerpa á eða ná
fram eftirfarandi:
1. Að réttargæslukerfið sé í stakk búið til að taka á ofbeldi í nánum samböndum og innan
fjölskyldna.
2. Að talað sé opinskátt um ofbeldi í samfélaginu og að allar stéttir sem starfa með fólki
fái fræðslu um ofbeldi, áhrif þess og hvernig standa má með þolendum ofbeldis.
3. Að dómsvaldið, sýslumaður og sýslumannsfulltrúar, sáttafulltrúar, sérfræðingar í
málefnum barna og aðrir sem koma að ákvörðunum um forsjá og umgengni fylgi þeim
áherslum sem sammælst hefur verið um í lögum.
4. Að einstaklingsbundinn langtímastuðningur við þolendur um allt land sé tryggður.
5. Að fjölskyldum þolenda bjóðist langtímastuðningur.
6. Að tekið sé á gerendum með viðeigandi hætti.Frásagnir:
1.
Ég er að tannbursta mig eftir morgunmatinn. Á vaskinum er pakki af dömubindum því
ég var að byrja á blæðingum. Barnsfaðirinn kemur inn og sér pakkann, kreppir hnefann
og hrópar pirraður „dísús, ertu byrjuð á blæðingum“ og fer fram í fýlu og yrðir varla á
mig þann daginn.
Ég er í sturtu. Skyndilega er gripið utan um mig og kalt sturtuhengið vefst utan um mig
og hann stingur hendinni í klofið á mér og spyr hvort ég sé blaut. Gerðist reglulega. Fór
yfirleitt í örstuttar sturtur því ég gat ekki læst að mér og helst bara þegar ég var ein
heima.
Ég sit í stól hjá kvensjúkdómalækni því barnsfaðir minn sagði mér að það væri eitthvað
að mér og ég þyrfti að fara til læknis og láta athuga þessa kyndeyfð hjá mér. Ég spyr
lækninn hvað sé að mér, ég finni alltaf til við samfarir og hafi nánast enga kynhvöt. Hann
fann ekkert að mér.
Ég er með ungabarn á brjósti. Ég er búin að vera mikið lasin í langan tíma og börnin líka.
Barnsfaðir minn er orðinn þreyttur á ástandinu og neitar að bíða lengur. Hann hjakkast á
mér á meðan barnið sefur vært við hliðina á mér. Hann er reiður og gagnrýnir mig fyrir
að vera áhugalaus og gera ekkert á móti, tekur ekki annað í mál en að ég njóti jafn mikið
og hann og það kemur ekki annað til mála en að ég fái fullnægingu eins og hann, hann er
sko ekki þannig maður að skilja konur eftir ófullnægðar. Ég veit betur en að gera mál úr
þessu eftir nauð og suð og fýluköst kvöldsins, það er auðveldara að láta bara undan og
gera það sem hann vill. Þetta var ekki í fyrsta skiptið og ekki síðasta skiptið en eftir að
þetta gerðist fyrst leið mér enn verr en vanalega og fannst ég enn viðbjóðslegri en
vanalega.
2.
Mótmæli mín eru orðin hljóðlaus, ég ætla bara ekki að geðjast honum með því að gera
það sem ég veit að hann vill að ég geri. „Kommon,“ suðar hann og ýtir höfðinu á mér í átt
að sér. „Ekki láta svona, ertu að reyna að láta mig fá samviskubit.“ „Kláraðu bara, ég er of
þreytt,“ svara ég. Hann verður mjög ósáttur og segir að ég verði að koma líka, annars láti
ég honum líða eins og hann sé að neyða mig. Ég læt undan eins og venjulega og veit að ég
get engum nema sjálfri mér um kennt. Af hverju vill ég ekki sofa hjá makanum mínum?
Hvað er eiginlega að mér? Hvernig get ég verið svona vond við hann, ég sem elska hann
svo mikið. Og ef hann er að gera eitthvað sem ég vill ekki, af hverju enda ég þá alltaf með
að taka þátt?
Hann er ofan á mér, heldur mér fastri í ákveðinni stellingu svo ég get ekki hreyft mig. Því
það finnst honum best. „Þakkaðu bara fyrir að ég hef allavega ennþá lyst á að sofa hjá
þér,“ sagði hann eftir að hafa rætt við mig um líkamsþyngd mína, lágt sjálfsálit og lélega
kynhvöt.
Heyri hann andvarpa reiðilega inni á baði þar sem ég ligg uppi í rúmi að lesa. Stikar inn í
svefnherbergi og segir ásakandi „ertu aftur byrjuð á blæðingum!?“, tekur koddann sinn,
tölvuna og fer aftur inn á bað og nær í klósettrúllu og hreytir í mig að hann ætli að sofa í
sófanum.
Pirraður. „Ertu aftur með fokking þvagfærasýkingu?!“ Held hann hafi ekki verið að tjá
áhyggjur af minni heilsu með þessari athugasemd.
Ég bið hann að henda hörðnuðum klósettpappírsvöndlum í ruslið eftir sig svo börnin séu
ekki að finna þetta hér og þar. Hann verður reiður við mig og segir að ég geti bara séð
um að týna þetta upp sjálf því það sé mér að kenna að hann þurfi að gera þetta.
3.
Á meðan sambandinu stóð safnaði ég þrisvar upp nægum kjarki til þess að ræða við
barnsföðurinn um það að hann þvingi fram kynlíf. Í síðasta skiptið spurði ég hann
varfærnislega hvort það hefði virkilega engin áhrif á löngun hans að vita að hann væri að
gera þetta gegn mínum vilja. „Jú, það er alveg óþolandi, hvernig heldurðu að þetta sé
eiginlega fyrir mig!? Það er sko pottþétt enginn annar í vinahópnum sem þarf að neyða
makann sinn til þess að sofa hjá sér.“
4.
– Ég hef verið vakin með því að hann sturtaði yfir mig vatni. Honum líkaði það illa að ég
hefði talað við ákveðinn aðila á Facebook. Hann hringdi í aðilann líka. Mér var bannað að
tala við hann aftur. Svo var ég læst frammi á stigagangi, ég var bara í nærbuxum.
– Mér var skellt í gólfið og ég var tekin hálstaki og tekið að sortna fyrir augunum þegar
hann loks slakaði á takinu. Ég hellti niður bjórnum mínum sem hann ætlaði að drekka.
– Ég mátti ekki læsa að mér þegar eg fór í sturtu eða bað. Hann vildi koma inn og horfa ef
hann vildi, oftar en ekki vildi hann endilega fullnægja mér með sturtuhausnum. Hann
suðaði, bað og kallaði mig kynkalda. Ég gafst upp. Hann bara fékk sínu framgengt.
– Ég átti líka að horfa á hann í baði. Það gat tekið 2 tíma. Ég var hætt að baða mig ef hann
var heima.
– Ég átti að sofa nakin og „vera tilbúin“ ef hann vildi losa.
– Ef að ég svaraði ekki i símann, þá var hringt non stop þar til ég svaraði. Eða hringt í
vinnusímann til að athuga afhverju ég væri ekki að svara í farsímann. Hann nefnilega var
svo hræddur um að ég hefði lent í slysi ef ég svaraði ekki.
– Hann tróð hlutum upp í leggöngin á mér og skoðaði og tók myndir. Hann hafði líka við
mig samfarir meðan hlutirnir voru þar líka. Hann á myndirnar ennþá.
– Hann kom hlaupandi aftan að mér úti og henti mér á steypta stétt. Ég úlnliðsbrotnaði.
– Eitt sinn þegar ég fór frá honum eyðilagði hann allar snyrtivörur sem ég átti, skemmdi
tölvuna mína líka.
– Hann fór með mig í bíltúra til að „ræða við mig“. Þá var þulið upp fyrir mér hvað
ég væri erfið, þrjósk og að hann væri að gera allt til að hjálpa mér. Ég var bara
ósamvinnuþýð. – Ég var kynköld af því ég vildi ekki kynlíf með honum. Hann hélt ræður
yfir mér, fór í fýlu og suðaði og svívirti mig. Ég gaf undan. Hann kvartaði svo undan því
hvað ég væri lélegur dráttur.
– Ég var dugleg ef ég tottaði hann.
– Ég var líka draslmamma.
– Hann vildi oftast fá það yfir brjóstin eða andlitið.
– Hann talaði við mig um það hvað hann væri mikið til i að „setja í“ hina og þessa konu
sem fór fram hjá okkur. Oft bara unglingsstelpur.
5.
Fyrsta skiptið, 2011. Við komum seint heim eftir árshátíð, hann slær mig utanundir,
heldur á mér, hendir mér útúr íbúðinni og læsir, ég nakin. Síðasta skiptið, 2017. Hann
kemur fullur heim kl. 8 um morgun. Ég spyr hann hvar hann hafi verið. Sé hvernig skapi
hann er í. Fer inní annað svefnherbergi, læsi hurðinni, grúfi mig niður í sængina, barnið
okkar sefur þar. Hann öskrar, æðir inn (lásinn virkar ekki), ræðst á mig, lemur mig,
öskrar á mig, ég er heimsk og löt, ég hrökklast niður á gólf. Hann segir að ég muni þurfa
að hringja á lögregluna, hann ætlar að kýla mig svo fast. Hann skipar mér að fara niður á
hnén og grátbiðja hann um fyrirgefningu. Hann sækir hníf og hótar að drepa sig útaf mér.
Barnið okkar 3 ára segir: Nei pabbi, ekki vera vondur við mömmu. #aldreiaftur
6.
Ég var beitt kynferðislegu ofbeldi af fyrrum maka og það hefur verið eitthvað sem hefur
setið í mér lengi. Nú eru komin 10 ár síðan að við skildum og enn situr þetta á mér eins
og mara. Málið er að til að byrja með átti ég sjálf erfitt með að skilgreina það sem gerðist
sem nauðgun því þetta var maki minn, ég hafði til að byrja með gefið honum ákveðið
leyfi að snerta mig og mér fannst tilhugsunin um að maki nauðgi óskiljanleg, enda ætti
hún að vera það!
En í dag veit ég að það sem gerðist var nauðgun. Málinu er þannig háttað að fyrir sirka
18 árum síðan byrjuðum við saman og á sama tíma var ég að berjast við lífshættulegt
þunglyndi sem ég leitaði mér hjálpar við og það leiddi til þess að mér voru gefin hin
ýmsu lyf, þar á meðal svefnlyfið rohypnol, einnig þekkt sem nauðgunarlyf. Þetta
“nauðgunarlyf” tók ég sjálfviljug inn á kvöldin og ég var sem rotuð og það var þá sem að
maki minn nýtti sér ástand mitt og nauðgaði mér. Ég vaknaði daginn eftir með brund á
milli lappanna, það var eina vísbendingin því annars mundi ég ekkert. Þetta gerðist oft,
of oft til að ég geti talið skiptin og það versta af öllu var að ég ræddi þetta við hann,
reyndar þá grátbað ég hann um að láta mig vera meðan að ég svæfi, þetta væri ekki með
samþykki en það dugði ekki til. Ég var ekki óhult á eigin heimili, í eigin rúmi, aldrei. Og
það versta er að mögulega nauðgaði hann mér oftar en faldi ummerkin það er engin leið
fyrir mig að vita það.
En í tíu ár hef ég nánast þagað yfir þessu, það eru mjög fáir sem vita þetta en ég finn fyrir
löngun til þess að tala um þetta og yfirstíga þessar tilfinningar því skömmin er gríðarleg
en ásökunin hefur verið skelfileg að yfirstíga, ég kenndi sjálfri mér um þetta í mörg ár
þar sem ég sjálfviljug tók inn lyf sem lögðu grunninn að nauðguninni sjálfri.
En það er aldrei of seint að vinna í sjálfum sér og það er ég að gera í dag, ég fer reglulega
í viðtöl í Stígamótum og svo er ég hingað komin. Lifi byltingin og höfum hátt!
7.
Ég man það vel þegar hann lamdi mig fyrst. Við vorum nýbúin að eignast okkar fyrsta
barn saman og ég mátti fara út. Ég var orðin þreytt á því að hann væri að hringja í mig á
10 mínútna fresti þannig að ég slökkti á símanum. Hann hringdi í vinkonu mína og hún
slökkti líka á símanum sínum. Ég átti að koma heim klukkan tíu, hafði farið út klukkan
átta. Ég kom heim klukkan 12, glöð og sæl eftir að hafa átt ánægjulegt kvöld með
vinkonu minni. Það sauð á honum.
Hann elti mig út um alla íbúð og urraði á mig, króaði mig af úti í horni og ég ýtti honum
frá mér. Þá snappaði hann og lamdi mig í gólfið og hélt áfram að hamast á andlitinu á
mér. Ég endaði með tvö glóðaraugu það kvöld. Ég faldi það vel því ég var svo ástfangin.
Þetta var samt ekki byrjunin á ofbeldinu, ofbeldið var komið laumulega inn í
rólegheitum.
Svona gekk þetta í nokkuð mörg ár, en ég sagði stopp þegar hann lamdi mig þegar ég var
ófrísk af seinna barninu, ég passaði mig á að svara honum þegar ég var með vinkonunum
svo hann vissi nú nákvæmlega hvar ég væri. Hann réðist oft á mig, var fjarlægður af
heimilinu með lögregluvaldi mörgum sinnum, braust inn til mín meðan ég var sofandi og
réðist á mig, hann þurfti alltaf að segja mér eitthvað. Hann elti mig um allt í mörg ár eftir
að við hættum saman, hann var fyrir utan gluggann hjá mér, bíllinn hans var alltaf
einhvers staðar á eftir mér, hann reyndi að keyra mig niður 2 sinnum,annað skiptið með
dauðskelkað barnið í aftursætinu. Hann læsti svo hurðunum svo ég gæti ekki tekið hann
og keyrði í burtu og ég gleymi aldrei skelfingarsvipnum á barninu þegar hann rétti
hendurnar í áttina til mín og vildi koma. hann réðist á menn sem ég vogaði mér að hitta,
hann keyrði á eftir mér á leiðinni í Kvennaathvarfið og var handtekinn þar fyrir utan,
honum var sleppt og hann kom aftur um leið og honum var sleppt og var þá fjarlægður
aftur. Hann braut tvær hurðir, ég hef þurft að láta sauma á mig 6 spor, hann nauðgaði
mér ítrekað, braut nokkra síma á hausnum á mér og ég hélt mér og börnunum í gíslingu
á heimilinu.
Hann stjórnaði líka börnunum með harðri hendi, hann var með óskiljanlegar strangar
reglur eftir eigin hentisemi, hann fellti þau ef þau voru að ærslast og hlaupa í kringum
hann, hann tók svo harkalega í þau að þau mörðust og öskraði svo hátt og lamdi mig fyrir
framan þau og með þau í fanginu.
Hann gat ekki verið með börnin heima hjá sér þegar þau voru lítil, því það var svo lítið
pláss eða hann upptekinn og það væri best að passa þau bara heima hjá mér. Hann nýtti
þá tækifærið til að lauma keylogger í tölvuna mína ítrekað. Hann sendi mér hátt í
hundrað sms á dag, óteljandi e-mail og handskrifuð bréf ef ég var ekki að svara honum á
hinum. Hann vissi alltaf hvar ég var og með hverjum og hann birtist á ótrúlegustu
stöðum. Hann braust inn til manns sem ég var að hitta og réðist á hann og reyndi að
draga mig þaðan út. Hann hafði náð því fyrr um sumarið, því þá var svalahurðin ólæst. Í
seinna skiptið réðist maðurinn á hann til baka.
Ég mátti sem sagt ekki hitta neina menn eftir að ég hætti með honum og hann henti í mig
börnunum ef hann hafði einhvern grun um að ég væri að fara að hitta einhvern. Hann
skildi börnin líka eftir sofandi heima hjá sér og keyrði til mín til þess að njósna um mig.
Ég hringdi í lögregluna og barnavernd og alla og enginn gat gert neitt, lögreglan sagði
mér að kæra og halda áfram að hringja þegar hann kæmi. Það er samt ótrúleg
niðurlæging líka að hafa lögregluna brunandi með bláu ljósin daglega inn í götuna mína
og leggja fyrir framan húsið mitt, þannig að ég hringdi ekki alltaf. Eg fékk mér
öryggiskerfi og félagsþjónustan benti mér á að vera með neyðarhnapp. Ég fékk
nálgunarbann á hann og hann hélt samt áfram. Hann passaði sig samt bara á að vera
farinn áður en lögreglan kom.
Niðurlægingin sem fylgir því að hafa einhvern á glugganum eða öskrandi fyrir utan er
ógeðsleg. Nágrannar voru ítrekað að hringja í mig og láta mig vita, eða hringja í
lögregluna. Ég hrökklaðist út af fyrra heimilinu vegna hans.
Svo breyttist taktíkin hans þegar hann var kominn með nýja konu. Hún mátti auðvitað
ekki hitta mig því hann var að mála upp mynd af mér fyrir hana. Þau fóru í forræðisdeilu
við mig og töpuðu, þá flutti ég út á land og þá sá ég endalausar greinar um að ég væri að
tálma. Hann og mamma hans skrifuðu út í eitt. Þau skrifuðu vinnuveitendum mínum,
siguðu barnavernd á mig ítrekað. Mamma hans veit alveg hvaða mann hann hefur að
geyma. Hann nauðgaði stelpu í bæjarfélaginu áður en við hittumst. Ég bað mömmu hans
meira að segja um hjálp á sínum tíma þegar hann lét mig ekki í friði og hún sagði mér að
flytja bara í burtu. Svo þegar ég geri það þá byrjar hún að skrifa greinar um tálmanir. Ég
skrifaði ritstjórn Kvennablaðsins á sínum tíma að þetta stæðist ekki skoðun en fékk
engin svör og greinarnar standa þarna enn. Hann með glottið sitt og mamma hans og
lygarnar og siðblindan.
Ég var ekki einu sinni að tálma umgengni. Hann mátti alveg tala við börnin og fá þau í
heimsókn eins og hann vildi en hann hringdi aldrei. Hann hringir ekki einu sinni á
afmælisdögum þeirra ef ég er með þau. Og hann ætlast til þess að ég verði ekki í
sambandi við börnin þegar hann er með þau í umgengni. Ss aðra hvora viku má ég ekki
vera mamma barnanna minna og nú vill hann meira. Hann vill að ég fái þau bara aðra
hvora helgi því hann er að flytja út á land og krefst þess að hann fái fullt forræði og allt
ofbeldið var bara lygi. Og allir bakka hann upp í kringum hann. Hann er ekki
ofbeldismaður, ég er bara geðveik.
Ég greindist með vefjagigt og áfallastreituröskun eftir þetta og hann er enn að beita mig
ofbeldi í gegnum börnin, með dómstólum. Ég er ekki fullkomin, en ég er góð mamma og
ég elska börnin mín og geri allt fyrir þau. Ég á þetta ekki skilið.
Ég er bara að stikla á stóru hérna, enda er þetta það erfiðasta sem ég geri, því þetta er
ekki búið. Mér svíður enn í sárin. Það eru komin 10 ár af þessu og ég er að bugast á
köflum, sem er kannski ekki skrýtið.
Ég man þegar ég horfði upp á heimilisofbeldi fyrir ca 20 árum síðan. Ég hjálpaði þessarri
vinkonu minni ítrekað að komast á spítala og leita sér aðstoðar. Ég gat ekki skilið
hvernig hún endaði alltaf með honum aftur og aftur og ég hugsaði með mér að ég væri
sko alls ekki svona karakter að lenda í þessu, ég hugsaði með mér að ég myndi bara
ganga út ef einhver myndi berja mig í fyrsta skipti. En þetta er svo flókið þegar ástin og
börnin eru komin inn í málið að þetta er einhversskonar dýflissa. Mindfokkið er búið að
gróa inn áður en hann sýnir sitt rétta andlit að fullu að maður kemst ekki út.
Maður trúir því að hann muni aldrei gera þetta aftur, að allar afsökunarbeiðnirnar,
skartgripirnir, fínu veitingastaðirnir, blómin og fallegu skrifuðu orðin séu sönn og hann
muni aldrei gera þetta aftur og hann muni aldrei vera vondur við börnin heldur, svo
hótanirnar um að birta einkavideoin og myndirnar sem við höfðum tekið saman. Alltaf
hann yfirvofandi.
Ég er enn að kíkja út um gluggann sem hann lá oftast á, mér bregður alltaf þegar ég sé
hann eða bílinn hans, ég er alltaf hrædd þegar ég geng á gangstétt með bílana fyrir aftan
mig að hann gæti verið kominn þangað til að keyra mig niður. Ég veit ekki hvað þarf að
gerast til að þetta grói, ég er flakandi opið sár og búin að vera það í mörg ár. Búin að leita
mér hjálpar í yoga og hugleiðslu, en niðurbrotið er einhvernveginn inngróið og þarf að
fara úr munstrinu.
Ég er sterk og sjálfstæð kona og á allt gott skilið og sérstaklega börnin mín. Þau eiga ekki
skilið að þurfa að alast upp hjá honum. Öll fjölskyldan hans öskrar, börnin þurfa að sofna
með tónlist í eyrunum til að heyra ekki í þeim rífast á kvöldin. Stelpan mín litla skrifar
mjög lýsandi sögur um ofbeldið sem er í gangi þeirra á milli. En nýja konan, hún skaffar
allt, húsnæði, bíl og peningana meðan hann hangir heima og gerir lítið annað en að
hanga í tölvuleikjum og skrifa níðsgreinar um mig og aumingja hann sem á svo bágt í
forræðisdeilunni. Þetta gerði hann líka við mig. Vann ekkert eftir að fyrra barnið fæddist
og lifði á mér og lagði ekkert til og vildi svo fá greitt fyrir að passa börnin.
Ég skil alveg hennar sjónarhorn. Hún er örugglega jafn sjúklega ástfangin og föst í
þessum vef eins og ég og vill allt gera til þess að ná börnunum af þessarri hræðilegu
mynd sem hann hefur málað upp af mér. Hún þekkir mig ekki neitt. Hún er í hans liði
núna.
Vonandi fær hún styrk til þess að fara frá honum. Það þarf rosalegt átak til.
Eins erfitt og mér finnst að horfa á allar þessar frásagnir ykkar þá finnst mér þær samt
svo styrkjandi á sama tíma. Þessir menn eru nánast allir eins innréttaðir og beita sömu
aðferðum og það er hjálplegt að draga saman atriðin. Við stöndum saman í þessu. Takk
fyrir ykkur.
8.
Ég var 22 ára þegar ég byrjaði með barnsföður mínum. Ég var heilluð af útliti hans og
hversu fyndinn hann var. Hann var ótrúlega góður við mig til að byrja með. Svo fór hann
að einangra mig frá vinum mínum. Varð eign hans. 24 ára verð ég ólétt, þegar ég var
komin 8 mánuði á leið kem ég að honum vera nota stefnumótaforrit. Afsökun hans að
hann vilji ekki sofa hjá mér svona útlítandi ég væri orðin svo feit, ég hálf tryllist og ætla
til foreldra minna og þá segir hann: Ef þú ferð héðan út þá mun ég sparka fast í magann á
þer. Ég fyrirgef og eftir það byrjar hann að beita mig grófu andlegu ofbeldi. Lætur mig
vita að hann muni nauðga mér ef ég stundi ekki kynlíf… sem hann gerði… setur klaka í
leggöngin á mér! „stríða mér“ – setur örvandi fíkniefni í drykkinn minn því það var svo
gaman að stunda kynlíf með mér þá! Tvisvar sinnum sem ég veit af. (Hef aldrei í lífinu
prófað fíkniefni nema þegar maðurinn minn byrlaði mér þeim).
Barnið kemur í heiminn, 3 vikna og maðurinn slær mig í fyrsta sinn i andlitið… hann
heldur mér gíslingu í bíl… Hann fer í meðferð og árið gengur ágætlega… hann vill eignast
fleiri börn, þegar ég verð ólétt af seinna barninu okkar segir hann við mig: núna er ég
glaður því núna muntu aldrei fara frá mér. Á fæðingardeildinni enda ég í keisara og hann
biður mig um að biðja um morfíntöflur sem ég þurfti ekki á að halda en hann vildi… ég
neita og hann yfirgefur mig og nýfædda barnið okkar… þetta var minn endapunktur, ég
reyndi eins og ég gat til að hætta med honum eftir þetta… sem gekk ekki áfallalaust…
Þurfti óteljandi skipti að fara með börnin mín til foreldra minna því eg var svo hrædd við
manninn… haldið mér vakandi heilu næturnar því hann var að hræða mig með hnífa í
eldhúsinu, koma ógnandi og að vekja mig… hóta drepa mig…
Hann hafði niðurlægt mig og reynt að eyðileggja sjálfsvirðingu mína… Hann gerði mig
háða ofbeldinu…hann sagðist verða svona reiður því hann elskaði mig svo mikið og þess
vegna væri hann svona afbrýðisamur…
Ég hafði í mörg ár reynt að hætta með honum en það var ekki hægt. Ég hef ekki töluna
hversu oft ég þurfti að kalla til lögreglu, fengið víkingasveitina líka… hann braust inn til
mín eða notaði börnin gegn mér, svo ég þorði ekki að hreyfa mig…..
Einn daginn gat ég ekki meira! Eftir að hafa haft það sem áramótaheit í nokkur ár að
losna við ofbeldismanninn tókst það með aðstoð lögreglu og dómstóla! Nálgunarbann…
Kvennaathvarfið gaf mér frábæra bók sem ég hef lesið í hvert sinn sem eg hugsa um
„góðu“ tímana og langað til baka! Því eins klikkað og það er hefur mig langað til baka,
sérstaklega þegar koma upp góðar minningar.
Ég er buin að vera laus við hann í 2 ár og hefur lífið verið upp a við síðan…
Á loksins síma sem er óbrotinn, húsgögnin mín eru heil… ég get farið rólegri að sofa… ég
og börnin eigum loksins líf og meira segja alveg frábært líf!
9.
Þegar við komum heim af fæðingardeildinni leyfði ég honum að ríða mér í rassinn, á
meðan ungabarnið okkar sem var ekki sólarhringsgamalt lá sofandi í vöggu við hliðina á
okkur. Hann varð að fá að vera áfram miðpunktur athyglinnar og ég var svo skíthrædd
um að hann myndi skamma mig, niðurlægja eða bara hreinlega hverfa úr lífi mínu að ég
hleypti honum upp á mig. Á meðan meðgöngunni stóð talaði hann í tíma og ótíma um
hvað hann hefði miklar áhyggjur af því að fullkomna píkan mín myndi eyðileggjast við að
fæða barnið okkar. Hann varð reiður, fúll og pirraður þegar hann fékk ekki kynlífið sitt.
Þegar við vorum að byrja saman hélt hann ítrekað fram hjá mér eins og til að festa þá
hugsun í sessi að ég væri ómerkileg, auð-útskiptanleg og ætti að vera þakklát og glöð að
svona fallegur og eftirsóttur maður skyldi vilja vera með stelpukjána eins og mér.
Þessi sena er bara brot af öllu því ömurlega sem gekk á í sambandinu okkar, en er samt
móment sem ég hef átt hvað erfiðast með að vinna úr. Það er áratugur síðan við slitum
samvistum en ég hef ekki ennþá treyst mér eða öðrum körlum til að eiga í ástar- eða
tilfinningasambandi.
10.
Við byrjuðum saman þegar við vorum 16 ára. Vorum mjög ástfangin og ekki svo ólík.
Andlega ofbeldið byrjaði ekki strax, í staðinn var látið eins og ég væri ekki til þegar
eitthvað erfitt gekk á, en þetta entist líka út öll sambandsárin.
Svo byrjaði hann að leita uppi rifrildi við mig, ef hann þurfti að þrífa þá varð hann
pirraður og sýndi það vel.
Ég varð fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi í æsku og hann vissi af því.
Í fyrsta skiptið, þar sem þetta byrjaði var að hann var reiður og pirraður eftir að ég hafði
hreinsað alla íbúðina en gat ekki þrifið sturtuna (hann gerði ekkert til að hjálpa mér)…
hann varð pirraður við að þurfa þrífa sturtuna svo hann barði í glerið og var brjálaður í
skapi, hegðun sem ég hafði aldrei séð áður hjá honum, svo að ég brotnaði niður.
Í þetta sinn sagði hann fyrirgefðu.
Það komu nokkur tilfelli eftir þetta sem sat ekki jafn mikið í mér. En svo byrjuðu köst þar
sem hann niðurlægði mig fyrir framan fjölskyldu hans, sagði t.d. að ég gæti aldrei gert
neitt rétt og að ég væri ömurleg i eldamennsku og fleira.
Síðar meir var bara eðlilegt að hann væri að skjóta á mig „bröndurum“ sem voru flest
allir á minn kostnað. Það skipti engu máli þó að ég bað hann um að hætta þessu.
Ég var bara of viðkvæm fyrir þessu í hans augum og ég átti bara að taka þessu. Og þetta
gerði hann yfir öll sambandsárin
Til að koma því fram þá er ég mjög samviskusöm og fæ fljótt sektarkennd eftir alla mína
fortíð.
Fyrst þegar hann leitaði upp rifrildi, þá var hann fljótur að kenna mér um það að hafa
byrjað lætin, en hann var einstaklega duglegur í að hræða mig. Og þegar við rifumst sem
í byrjun gat verið í marga tíma því ég gat ekki svarað fyrir mig og var bara þögul meðan
hann sagði ógeðslega ljóta hluti við mig (ætla ekki að telja það upp hér) sem særðu mig
rosalega og brutu mig gjörsamlega niður. Svo tók hann upp á því að berja í veggi og
skapa þannig að hann var með sár eftir það og lét mér líða eins og ég væri
sökudólgurinn. Því jú, ég átti sko að hafa byrjað rifrildin. Í lokin eftir að ég baðst
fyrirgefningar þá sagði hann mér alltaf að hann hafi bara sagt alla þessa ljótu hluti til að
ég myndi gráta og sýna viðbrögð.
Alltaf eftir svona atvik þá „verðlaunaði“ hann mig með því að fara i bakaríið og borða
gott þar.
Enn þann dag í dag er ég að berjast við ofþyngd og matarvandamál.
Svona gekk þetta í mörg ár.
En ALLTAF þegar aðrir úr minni fjölskyldu voru viðstaddir þá trítaði hann mig eins og
prinsessu, það datt engum í hug hver hann virkilega var og hans fjölskylda sagði aldrei
neitt.
Svo verður þetta verra og margt meira af þessu helviti á sér stað og ég orðin einangruð
og mátti ekki tala við hvern sem er, og ég byrja að fá slæm kvíðaköst og vefjagigt. Ég vissi
ekki hversu mikið meira ég gæti af lífinu. Hann sá og vissi margoft af mér gráta í
koddann minn, vera að gráta inná baði, en hann sýndi aldrei nein viðbrögð.
Það kemur loksins sá tími sem ég fer að leita mér hjálpar, ekki útaf honum samt, því
þetta samband var bara eðlilegt fyrir mér, svona var þetta bara.
Það kemur fram að ég er með alvarlegt þunglyndi og kvíðaröskun og ég er sett strax í
ferli til að vinna á þessu og á lyf.
Ég man ennþá þegar ég kom heim og sagði honum frá þessu, hann varð svo reiður. Ég
hafði ekkert að gera þangað. Það er ekki fyrr en ég lýg að honum að geðlæknirinn minn
sé ánægður með hann. Þá var þetta allt í lagi.
Það kom fyrir svo að í einum af mörgum rifrildum okkar að ég fór út. Það var akkúrat
það sem ég þurfti, ég hafði ekki orkuna í sólarhringsrifrildi, en þegar ég kom heim þá var
hann svo reiður og hafði víst lamið í vegginn því hann var með sár á hnúunum. Ég fékk
aldrei aftur að fara út þegar við rifumst, ég átti bara að þola niðurlæginguna og höggin í
skápa eða veggi.
Í lok sambandsins var hann farinn að reyna við aðra stelpu án þess að ég vissi.
Hann sleit sambandinu en ég grátbað hann um að hafa þetta sem pásu frekar, hann
samþykkti það gegn því að hann mátti gera hvað sem er. Ég var búin að vera svo
ósjálfstæð og háð honum í fjölda ára að ég samþykkti.
Ég flutti til foreldra minna og svo frétti ég af plönum hans. Hann ætlaði að nýta sumarið í
að sofa hjá stelpum og byrja svo með mér aftur. Og viti menn, ég loksins vaknaði!
Ég sagði að þetta væri alveg búið á milli okkar, en hann varð ekki sáttur og reyndi hvað
hann gat til að hafa samband við mig. Ég skipti um símanúmer og forðaðist staðina sem
ég gæti mögulega rekist á hann.
Nú eru 3 ár síðan og ég er nýbyrjuð að vinna úr þessu og ég er svo reið út í sjálfa mig
fyrir að hafa ekki farið. En það er svo MARGT sem kemur ekki fram í þessari frásögn því
hún er alltof löng núna.
11.
Ég get ekki deilt sögu undir nafni því ég óttast um öryggi mitt og mannorð því geranda
mínum tengjast margir áhrifavaldar í samfélaginu. Gerandi minn er fyrrverandi kærasti
sem ég bjó sundur og saman með í mörg ár og á barn með sem er núna 20 ára. Það má
segja að barnið hafi um leið hjálpað mér að taka skrefið frá honum og bundið mig í
samskipti við hann alla tíð. Ég get ekki sett fjólubláa mynd eða sagt neitt því allt í einu
man ég svo margt sem ég var búin að loka á inn í mér og ætlaði mér aldrei að muna aftur.
Tilfinningin þegar öryggi þínu er ógnað, ég læsi mig inni í svefnherbergi eða klósetti og
bíð þar til hann annað hvort sofnar áfengisdauða eða fer út er allt í einu nálægt mér
aftur. Ég man brotnar tölvur, síma, glugga, allt út um allt og allt sem ég lét yfir mig ganga
og hylmdi yfir með fötum og orðum. Um daginn hitti ég vinkonu sem ég átti á þessum
tíma, yndileg kona sem allt í einu fór að tala um hluti sem ég hafði lokað á og það var mér
smá áfall að átta mig á því þar sem ég á ekki í erfiðleikum með að tala um ofbeldi ég veit
að þetta er veruleiki svo ótrúlega margra og að við berum enga sök á. Ég tek ekki ábyrgð
á hvernig hann náði að festa mig í vef og beita mig ofbeldi en að stíga til baka í huganum í
þennan stöðuga ótta og varnarleysi er brjálæðislega erfitt og ég er búin að vera hálf
lömuð síðustu daga, ég næ mér aftur en akkúrat núna er ég stödd í okkar sameiginlega
sársauka en hann ætla ég að nota sem kraft í aðgerðir. Takk allar elsku elsku konur fyrir
samstöðuna, þetta er erfitt en þetta er líka valdeflandi fyrir okkur og við munum ná
árangri, ég bara finn það.
12.
Ég var barn og hann var fullorðinn, 7 árum eldri. En það var ekki fyrr en ég var orðin
hálf-fullorðin sem ég áttaði mig á ofbeldinu sem hann hafði beitt mig.
Það var ekki fyrr en í sjálfsvinnu minni með sálfræðingi og uppgjör í öðrum
ofbeldismálum og áföllum sem ég hafði orðið fyrir sem það rann upp fyrir mér. Hans
gjörðir gagnvart mér voru upphaf þess að áfallastreituröskun og kvíði hrjáðu mig lengi
vel, þunglyndi á köflum og ofsakvíðaköst til viðbótar.
Meira en tíu ár eru liðin síðan hann braut á mér fyrst en það stóð yfir í í fleiri ár. Það var
ekki eins mikið í seinni tíð þegar ég átti kærasta (sem var stærri og sterkari en hann), en
um leið og við hættum saman eftir 5 ára sambúð þá gaf sá fyrri aftur í og ætlaði að
viðhafa hlutina eins og áður hafði verið.
Ég sprakk. Ég gat ekki meira. Ég lokaði á öll samskipti… og þið spyrjið eflaust „afhverju
varstu í samskiptum við hann yfir höfuð?“
Hann var og er giftur systur minni og á með henni þrjú gullfalleg og fullkomin börn. Ég
ætlaði mér aldrei að rugga bátnum en ég gat bara ekki meira og með hjálp sálfræðingsins
míns sagði ég frá. Mömmu, pabba og konunni hans. Þau hjálpuðu mér að finna styrk og
segja systur minni svo hún veit. En samt þurfti ég að gera það upp við mig seinustu jól,
rúmum fjórum árum eftir að ég sagði frá, hvort ég vildi verja þeim með allri
fjölskyldunni heima hjá systur minni og fjölskyldu eða vera ein.
Ég sat andspænis manninum, sem braut ítrekað á mér þegar ég var barn, á
aðfangadagskvöld. -gleðileg jólSektarkenndin
og sakleysið:
Ég vissi að það sem hann gerði var rangt OG ég vissi að hann vissi það líka. Meira segja
svo vel að hann bauð mér greiðslu oftar en einu sinni bara svo ég segði ekki frá. Ég,
barnið rak hann einu sinni út úr herberginu mínu þar sem hann gerði sig líklegann til að
brjóta á mér aftur en hann fór yfir einhverja línu og ég fann einhvern styrk. Sagði honum
að hypja sig og spurði hvað systir mín myndi segja ef hún myndi sjá okkur svona? (JÁ, ÉG
BARNIÐ talaði um okkur eins og ég væri þátttakandi, sem ég var ekki, og mér leið eins og
„hinni konunni“ sem ég var heldur betur ekki) þá var mér aftur boðin greiðsla. Ég sagðist
enga peninga vilja – ég myndi ekki segja frá bara ef hann myndi hætta þessu – og hann fór
úr herberginu. Í þetta sinn virkaði það og ég fagnaði sigri innra með mér.
Í næsta fjölskyldumatarboði var eins og ekkert hefði í skorist, hann nuddaði fótunum á
sér upp við mína undir matarborðinu þegar enginn sá til fylgdist grant með mér og
viðbrögðum mínum. Hann sá sér alltaf leið nær mér ef ég reyndi að færa fæturna frá
honum. Þannig var andlega kúgunin við matarborðið – Ekkert mál að kippa fótunum að
sér svo hver ætti að trúa mér ef ég segði frá? Þessi stöðuga áminning um brot hans
gagnvart mér og tangarhaldið sem hann hafði á mér á þessum tíma vegna
„leyndarmálsins okkar“ var einkennandi fyrir fjölskyldustundirnar mínar.
Ég var verulega verkjuð sem krakki enda vangreind (með tvenns konar gigt o.fl.). Í
fyrrnefndum matarboðum fékk ég iðulega axlanudd, eftir mat, sem endaði alltaf á því að
hann káfaði á mér innanklæða eins og honum sýndist – svo lengi sem aðrir sáu. ekki til.
Sektarkenndin kom strax – við fyrsta nuddið sem endaði á kynferðislegu áreiti þessa
fullorðna manns á barninu mér fraus ég – mér fannst ég „samsek“. Ég vildi nuddið, ég var
verkjuð, ég þurfti aðstoð, hann hefði ekkert verið að koma við mig ef ég hefði bara sagt
nei takk, ég spurði ekki hvað hann væri að gera, kallaði ekki á hjálp, stóð ekki upp og fór
eða sagði honum að hætta.. osfrv. Verkjaða ég sat bara undir því að ef ég ætlaði að fá
axlanudd til að líða betur þurfti ég að bíta á jaxlinn og þola þetta líka. Hugsanir eins og
„hann hefur nú gert þetta áður, þetta er ekkert nýtt sem hann er að koma við, hann
hlýtur að vera bara að nudda auma vöðva hérna eða þarna.. o.s.frv.“
Ég tók ábyrgð á því sem hann gerði mér og ég fékk að líða fyrir það en ábyrgðin er ekki
mín. Ég hef kastað henni þangað sem hún á heima – allavega sökinni – kannski ekki
ábyrgðinni þar sem ég hef verið ansi dugleg við „að rugga ekki bátnum…“
Það sem gerist í kjölfar áfalla, þ.e. hvernig við ákveðum að vinna úr þeim ef við verðum
ekki þeim mun veikari – það er á okkar ábyrgð – að segja nei takk við ábyrgð geranda og
taka meðvitaða ákvörðun um að leyfa áfallinu og gerandanum ekki að heltaka líf okkar.
Það getum við gert sem fullorðið fólk og það hef ég gert við seinni tíðar áföllum, m.a.
árásum. Þannig hef ég tekið ábyrgð á eigin líðan og látið það vera að taka sök gerandans
inn á mig.
Þegar mágur minn byrjaði að brjóta á mér var ég barn. Þá hafði barnið ég hvorki reynslu
né þekkingu til þess að taka slíka ábyrgð. Hvað þá heldur að greina hvort brotin væru
einhvern veginn á mína ábyrgð (eða öllu heldur ekki) í þessum aðstæðum.
úff allt of langt en samt ekki nærri því allt…
Hef svo miklu meiru við að bæta en finn allt í einu bæði léttir fyrir því að fá að skrifa
þetta, sorg yfir stöðunni sem er enn beygluð í dag og einhvers konar ótta við að ýta á
„post“ en samt … Æ þið sem hafið nú þegar komið einhverju frá ykkur – ég held þið vitið
hvernig mér líður
13.
Í mínum fyrri samböndum hef ég bæði búið við andlegt og líkamlegt ofbeldi. Ég bjó með
mönnum sem töldu mér trú um að þetta væri bara eðlilegt, að ég ætti á einhvern hátt
skilið að vera niðurlægð, kölluð öllum illum nöfnum, hótað, hrækt á, hrint, tuskuð til,
dregin á hárinu, sýnt valdið, stjórnað, snúin niður, slegin, kýld, kyrkt… því ég væri svo
erfið, óstýrlát, dramatísk, frek, feit, ljót, heimsk, asnaleg, drasl, tussa, hóra… Skilaboðin
voru þau að ég ætti að sitja og/eða standa eins og þeim hentaði, þegar þeim hentaði, ekki
mótmæla eða hafa sjálfstæða skoðun og að mér væri hollast að hlýða, annars…
Ég er margoft búin að reyna að setja alla söguna niður á blað, en það er sárt og erfitt að
rifja upp eitthvað sem maður var löngu búinn að troða ofan í skúffu og einnig er ég
hrædd við að rugga bátnum. Ég ætla því ekki að fara í gegnum alla söguna hér en síðasta
og alvarlegasta skiptið gerðist fyrir tæpum þremur árum þegar ég flúði heimili mitt um
miðja nótt eftir að þáverandi sambýlismaður minn gekk það illa í skrokk á mér að ég gat
ekki falið ofbeldið lengur. Það var ekki í fyrsta skipti sem hann gerði það, en þetta var
það síðasta. Ég endaði nóttina uppi á slysó, marin og blá um allan líkamann, með brotna
tönn og blóðhlaupin augu eftir að hann lamdi höfðinu á mér utan í skáp, kyrkti mig og
reyndi að henda mér niður stiga. Ég man að ég öskraði á hjálp af lífs- og sálarkröfum en
hann sagði bara: „Hver heldurðu að heyri eiginlega í þér? Það getur enginn bjargað þér.”
Ég komst þó undan og kærði hann en málið var fellt niður. Þegar niðurfellingarbréfið
kom fannst mér eins og lögreglan væri að staðfesta að ég hefði bara átt þetta skilið.
Ég.hefði.bara.átt.að.hlýða.
Eftir ansi marga sálfræðitíma og áfallameðferð veit ég loksins betur. Ég átti þetta ekkert
skilið. Ég þurfti andskotans ekkert að hlýða honum. Ég átti bara að koma mér í burtu,
hlaupa eins hratt og fætur toguðu út úr þessari martröð. Sem ég á endanum gerði.
Takk allar fyrir deila ykkar sögum – saman getum við vonandi haft áhrif og breytt
þessari ömurlegu menningu, þannig að komandi kynslóðir okkar þurfi ekki að upplifa
það sama.
14.
Ég varð ólétt sem hefði verið okkar þriðja barn. Hann fór í fýlu og sagði mér að fara í
fóstureyðingu. Ég sagði nei og hann hótaði að skilja við mig. Tveim dögum seinna missti
ég fóstrið. Honum létti. Það blæddi mikið og ég varð mjög veik og fékk sýkingu í legið.
Hann röflaði og tuðaði yfir kostnaðinum og hafði eiginlega ekki tíma til að fara með mig
til læknis. Þegar ég var sem veikust með mikinn hita og mikla verki og lá ég í hnipri í
sófanum í móki. Hann kom og settist hjá mér í sófann. Strauk mér undurblítt á vangann
og kyssti mig á kinnina. Hann færði sig að eyranu mínu og hvíslaði – Hvað er í matinn?
Ég fékk snemma þær leiðbeiningar að kona hafni ekki karli sínum um kynlíf. Ef ég reyndi
það var ég ekki skömmuð eða beitt líkamlegu ofbeldi. Ég var hunsuð. Allt upp í nokkrar
vikur. Það var ekkert sagt nema allra nauðsynlegasta og þá helst í formi spurninga eða
skipana og eins stuttort og hægt var. Þessar vikur voru mjög langar. Einu sinni vildi hann
kynlíf inni á klósetti á skemmtistað sem ég vildi ekki og stakk upp á að fara bara frekar
heim. Ég vildi pissa áður en við færu. Þegar kinnarnar snertu setuna heyrði ég hann
segja fyrir utan þegar eitthver ætlaði að banka á hurðina mína að ég væri örugglega dauð
þarna inni. Væri búin að vera svo lengi og væri alltaf svo full. Hann áttaði sig ekki á að
það var þögn inni á klósettinu og ég heyrði allt sem fram fór frammi því hann þurfti að
tala hátt til að viðmælandinn hans heyrði.
Kona biður karl sinn ekki um kynlíf. Það er automatískt nei. Nema hann biðji hana að
biðja um kynlíf. Þá hugsar hann málið.
Honum fannst spennandi að stunda kynlíf í návígi við aðra. Hann vildi kynlíf í heitum
potti í sumarbústað á meðan vinir okkar voru inni í bústaðnum. Ég fékk ekki að fara úr
pottinum fyrr en hann væri búinn að fá sitt. Honum fannst spennandi að nota
aðstoðarhluti eins og víbradora. Helst ef einhver var í garðinum fyrir utan
svefnherbergisgluggann okkar. Ég mátti ekki ekki neita eða loka glugganum. Ef enginn
var að hlusta hélt hann fyrir munninn á mér því ég mátti ekki gefa frá mér hljóð í kynlífi,
hann nennti ekki að hlusta á það. Ef einhver var nálægt varð ég láta í mér heyra. Það var
töff.
Hann þreif ekki heimilið, það var mitt verk. Alltaf. Ef ég þreif ekki nógu vel var mér
refsað. Helst með þögn eða eitthverju öðru. Það tók mig mörg ár að uppgötva það
almennilega því mér var ekki endilega tilkynnt að að væri verið að refsa mér. Ég kannski
heyrði hann baktala mig eða allt í einu talaði hann ekki við mig. Einu sinni keypti hann
tölvu. Tveim mánuðum síðar frétti ég óvart af tölvunni sem var falin upp í skáp. Ég
spurði af hverju og svarið var að ég hafi ekki þrifið íbúðina nógu vel og þangað til að ég
gerði það væri tölvan ekki í boði fyrir mig né börnin. Bara hann.
Hann hringdi allt upp í sex til átta sinnum í mig þegar ég var í saumaklúbb og á öllum
vinnustöðum sem ég vann á var ég tekin á teppið hjá yfirmanni til að segja mér að biðja
manninn minn að hætta að hringja. Ef ég svaraði ekki síma þá annað hvort kom hann eða
ég fékk yfirheyrslu þegar ég kom heim og svo nokkurra daga upp í vikna þögn. Hann fór
mjög reglulega í símann minn og athugaði samskiptin. Ég setti einu sinni nafn
kvensjúkadómalæknisins míns (sem er karlmaður) í símann. Hann bannaði mér að fara
út úr húsinu fyrr en ég segði honum hver ætti þetta nafn og sannaði að sá væri læknirinn
minn.
Ég fór í fjarnám í skóla, var í vinnu og keypti mér námskeið í ræktinni. Mér þótti erfitt að
vakna fyrir sex fara í ræktina, koma heim vekja börnin því það var ekki í hans
verkahring. Koma öllum í skóla og leikskóla og mér í vinnu. Sækja alla eftir vinnu og láta
læra, læra sjálf, elda mat og æji þið vitið allt það. Auðvitað þurfti ég líka að þrífa. Ég
röflaði að mig vantaði aðstoð frá honum og hann og mamma hans bentu mér á að ég
hefði komið mér í þessi vandræði með að skrá mig í ræktina og skóla. Mín súpa að sitja í.
Þegar við skildum kom ókunnug kona upp að mér og sagði mér að hún hafi þekkt
manninn minn í um tvö ár og aldrei hefði hún heyrt hann segja fallegt orð um mig. Hún
hafði aldrei heyrt mann tala jafn viðbjóðslega um konuna sína og hann gerði. Hún sagðist
ekki trúa því sem hann sagði um mig og gat ekki haldið lengur í sér fyrst við værum
skilin og bað mig að taka aldrei við honum aftur. Ég trúi henni og þakkaði fyrir
upplýsingarnar.
Það er yfir áratugur síðan við skildum og ég þori ekki enn segja frá undir nafni. Takk þið
sem hafið gert það, ég dáist að ykkur á hverjum degi. Takk fyrir að gefa mér hugrekki til
þó að segja frá þó það sé nafnlaust. Takk #metoo.
15.
Ég hef aldrei tjáð mig opinberlega um mín mál. Og þess vegna geri ég það nafnlaust. Ég
veit ekki alveg hvernig ég á að byrja þetta en eftir að hafa rætt þetta við sálfræðing
komst ég að því að þetta flokkast sem kynferðisofbeldi.
Fyrstu minningarnar af mínu ofbeldi eru þær að ég vakna snemma að morgni til heima
hjá ömmu og afa með pabba minn við hliðina á mér á bakinu og klofvega yfir andlitinu á
honum er kona sem ég hef aldrei séð áður. Þau voru bæði nakin. En ég vaknaði við það
að hún reif af mér sængina. Ég varð fyrir ofsahræðslu og fraus. Ég sneri mér út í horn og
reyndi að halda fyrir eyrun. Þarna er ég 5-6 ára. Og samkvæmt sálfræðingi þá er þetta
mjög sjúk hegðun af pabba mínum því þetta er ekki eitthvað sem ég á að vera að upplifa.
Þær áttu eftir að verða margar konurnar sem ég hlustaði á og sá veinandi með pabba
mínum. Það skipti ekki máli þó ég væri í sama herbergi eða sama rúmi. Og ég man ennþá
hvað þær sögðu á meðan kynlífinu stóð.
Önnur minning er af manni sem ég var alin upp með að væri afi minn. Hann þurfti
endilega að kitla mig aðeins og kanna hvað væri nú í nærbuxunum mínum en það gerðist
samt bara einu sinni. Ég var 8 ára.
Ég hef verið í nokkrum samböndum á fullorðinsárum og flestir af þeim hafa verið
ofbeldismenn. Ég hef verið lamin, mér hefur verið nauðgað, mér hefur verið haldið í
gíslingu þar sem maðurinn skallaði mig ítrekað í andlitið, reif í hárið á mér og hótaði mér
nauðgun bæði í leggöng og rass. Við vorum búin að vera gift í 2 mánuði og ég var að
halda uppá afmælið mitt. Hann varð afbrýðisamur út í stelpu sem honum fannst hafa
verið að reyna við mig og snappaði þegar við komum heim. Hann er búinn að beita mig
þvílíku andlegu ofbeldi og svolitlu líkamlegu ofbeldi síðan.
Ég glími við áfallastreituröskun, þunglyndi og ofsakvíða. En er ekki á neinum lyfjum. Og
það nýjasta er að átröskun sem ég glímdi við sem unglingur hefur aftur tekið sig upp. Ég
skildi við ofbeldismanninn síðasta haust. Eftir 6 ára samband og hann er enn að reyna að
stjórna mér með andlegu ofbeldi hótunum og kúgun.
Ég vil þakka ykkur fyrir hugrekkið kæru konur þið eruð allar hetjur.
16.
Mér var nauðgað af fyrstu ástinni minni 15 ára og ég upplifði kynlíf sem eitthvað skítugt
og sóðalegt.
Giftist svo öðrum manni um tvítugt og eignaðist með honum börn. Hann beitti mig miklu
andlegu ofbeldi. Niðurlægði mig t.d mikið fyrir framan aðra, laug upp á mig, talaði illa um
mig, drakk mikið, daðraði við allar aðrar konur en mig, hélt fram hjá mér og kallaði mig
geðveika. Ég var orðin það mikið niðurbrotin eftir hann að ég var ítrekað lögð inn á
geðdeild og greind með alls konar annað en áfallastreitu sem þetta klárlega var. Ég sá
ekki þetta ofbeldi fyrr en við skildum eftir 10 ára stormasamt samband.
Gerði mér ekki grein fyrir að það hefði líka verið kynferðislegt ofbeldi fyrr en ég fór að
lesa sögur þessa duglegu og sterku kvenna.
Ég man ekki allt en hann suðaði endalaust um kynlíf og neyddi mig til að gera hluti sem
ég hafði engan áhuga á. Ég vaknaði ítrekað við það að hann var kominn inn í mig og þar
sem ég var bæði á sterkum geðlyfjum og svefnlyfjum hafði ég litla rænu til að gera
nokkuð þannig að ég lá bara hreyfingarlaus og dofin á meðan hann hjakkaðist á mér.
Man að ég var líka farin að forðast það að fara í sturtu á kvöldið því hann tók því sem boð
um kynlíf.
Ég veit að mín saga er kannski lítilfjörleg miðað við sumar aðrar en þetta eyðilagði líf
mitt.
Takk allar frábæru konur fyrir allt sem þið eruð að gera. Stend 100% með ykkur öllum.
17.
Hér kemur sagan mín. Ég er samt ekki enn sannfærð um að þetta hafi verið ofbeldi, er á
fyrstu metrunum í að átta mig á því og fá hjálp til að ná bata. Efinn um sjálfa mig var
orðinn svo mikill, og ég reyndi stöðugt að finna út hvað ég gæti gert til að bæta mig og
bjarga honum. Ég hélt að þetta væri vegna áfengisvandamáls hans en hef séð núna að
ofbeldi er annað vandamál sem verður aldrei afsakað með áfengisvanda. Ég komst
loksins út úr þessu árið 2017 eftir 10 ára sambúð.
Steinrunnin, búin á því, þreytt, brotin, tóm. Held ég áfram og reyni að halda fjölskyldunni
gangandi, heimilið alltaf í toppstandi, hollur matur, held mér í formi, massa vinnuna, allt
er fullkomið. Við erum bæði vel menntaðir fræðingar í fínum stöðum. Orðið „AUMINGI“
virðist þó sem tattúverað á bakið á mér, og „HÓRA“ skrifað á ennið á mér, svo oft hef ég
fengið að heyra þessi orð. Hann kallar mig helvítis tussu og kastar mér til fyrir framan
börnin, tekur mig upp á handleggjunum á meðan þau öskra af hræðslu. „Þið eigið alveg
rétt á því að vita hvernig mamma ykkar er, hún er algjör aumingi.“ „Við skulum kaupa
hundakörfu handa mömmu ykkar.“ Skíthrædd eins og api uppi í tré sem þorir ekki niður
reyni ég að vera sterk fyrir börnin og út á við eru allir hressir.
Fyrsta skiptið. Ég varð ófrísk fljótlega eftir að við byrjuðum að vera saman. Barnið var 2
mánaða og ég var að gefa fyrstu morgungjöfina klukkan sex að morgni þegar vinur hans
bar hann dauðan heim. Daginn eftir beindist öll reiðin að mér, hvað í fjandanum ég hefði
verið að gera á brjóstunum fyrir framan vin hans. Skapofsi hans verður mér endanlega
ljós. Hann sér ekkert að hegðun sinni og sökin er mín.
Þegar barnið var 9 mánaða fór það í sína fyrstu næturpössun. Við foreldrarnir fórum í
partý hjá besta vini hans og hann drepst áfengisdauða. Ég fer heim enda búin að fá nóg af
því að reyna að koma 100 kílóa manni sjálf heim. Hann kemur brjálaður heim. Að ég
skyldi bregðast honum og skilja hann eftir. Að ég skyldi ekki standa með mínum manni.
Ég var komin ofan í bað og hann kýlir upp hurðina inn á bað, brýtur dyrakarminn,
skipaði mér upp úr baðinu og inn í stofu, svo inn í herbergi og aftur inn í stofu. Hann er
ógnandi og hrópar að mér óyrðum. Hann hrindir mér í gólfið. Ég verð svo hrædd og flý
heimilið á náttfötunum og heim til mömmu þar sem barnið okkar var í pössun.
Mörg svona tilvik eiga sér stað. Hægt og bítandi en örugglega brýtur hann mig niður.
Alltaf er sökin mín, það er ég sem er hóran, tussan og auminginn sem tekur allt úr
samhengi. Aldrei biðst hann afsökunar, aldrei sér hann hvar vandinn liggur. Þegar ég bið
hann um að kalla mig ekki þessum nöfnum þá er ég að drulla yfir hann – beita hann
andlegu ofbeldi. Ég set honum afarkosti, hann setur sér mörk sem hann brýtur og
samningaviðræður leiða til þess að ég fæ von. Tækifærin til að bæta sig fær hann á
færibandi. En þetta verður sagan endalausa sem snýst í hringi. Hausinn á mér snýst í
hringi. Allar helgar, hátíðir, samkomur, ferðalög og frí eru undirlögð af drykkju hans og
ofbeldi hans í minn garð. Ættingjar, vinir og vinnufélagar – öllum er drykkjuvandi hans
ljós en ofbeldið náði ég að fela. Í þeirri von að þetta myndi lagast, hann myndi átta sig,
þroskast, að börnin okkar þyrftu ekki að vera skilnaðarbörn.
Svo byrja ég að veikjast. Ég lamast í andlitinu. Ég fæ sýkingu í bæði nýrum, nýrnasteina í
bæði nýrun, en pakka samt ein allri búslóðinni okkar, hann segir mér að herða mig. Við
erum að flytja í draumaframtíðarhúsið sem átti að laga allt, hann þurfti bara að hafa
verkefni til að einbeita sér að eftir að hann hætti að drekka til að finna lífsneistann. En
hann byrjar aftur að drekka áður en við flytjum inn. Hann spyr mig svo hvort ég sé búin
að ákveða hvaða sjúkdóm ég ætli að fá næst. „Þú ert alltaf veik, þvílíkur aumingi, þú
ræður ekki við neitt.“ Umhyggja og samkennd er löngu farin. Hann drekkur sig til
áfengisdauða báða dagana allar helgar einn frammi í sófanum. Ég og börnin förum að
sofa. Hann truflar ítrekað svefninn okkar þegar hann nær að drífa inn á hjónarúmið og
deyja þar áfengisdauða, þvert yfir okkur öll. Þátttaka hans í heimilislífinu, uppeldi og
umönnun barnanna er engin, alltaf gengur vinnan hans fyrir öllu og svo áfengið sem var
það eina sem gaf lífi hans ljós. Það var einfaldlega ekki fjárhagslega skynsamlegt að hann
tæki þátt í uppeldi barnanna og heimilisstörfum eða tæki tillit til þess að ég væri líka í
100% vinnu. Stjórnleysi hans og skapofsi stýra fjölskyldulífinu með ótta. Stjórnsemin er
sjúkleg.
Hann tekur peningana mína af mér. Setur þá á sinn reikning. Gegn vilja mínum, en
einhvern veginn nær hann öllu fram. Hann ætlar að ávaxta þá. Treystir mér þó ekki til að
vita fjárhagsstöðuna hans megin. Stærsti hluti útgjalda heimilisins er á mínu nafni, en
hann skammar mig fyrir að ná ekki endum saman um hver mánaðarmót þegar ég þrábið
hann að leggja inn á mig.
En alltaf skal riðið, þegiðu – þarf ekki bara að ríða þér. „Ef ég fæ ekki að ríða, er ekkert
lengur að berjast fyrir“, „það nennir enginn heilvita maður að vera með konu sem nennir
ekki að ríða.“ „Ég mun finna út hver ráðlagði þér að hætta að ríða og ég mun bara drepa
viðkomandi. Ef það er þetta sálfræðingsógeð sem þú ert að hitta þá mun ég bara lemja
hann.“ Ekki dettur honum í hug að ég hafi sjálfstæðar skoðanir. Ég get ekki meir. Ég læt
undan honum því það er auðveldara en að standa í því að hafa hann frussandi reiðan.
Hann kemur aldrei upp í rúm nema til að fá kynlíf, nándin er engin, ég er alltaf ein.
Andlega ofbeldið er orðið að daglegu brauði, ég virðist ekki eiga neitt gott skilið og allt
sem ég geri er rangt og allt er mér að kenna, alltaf er það ég sem ræð ekki við neitt og er
aumingi. Alltaf er það hegðun mín sem er óeðlileg og ekki hægt að tala við mig. Það er ég
sem búin að vera svo óþolandi leiðinleg. Tilætlunarsemin er algjör, að ég skyldi ekki vera
búin að þvo skyrturnar hans og hlaða símann hans. Virðingarleysið er algjört, vinnan
mín og heilsan mín eiga varla von. Ógnandi og hótandi, sparkandi í húsgögn, gengur
hann utan í mig, kippir í hárið á mér, ýtir í öxlina á mér, tekur mig upp á handleggjunum,
kastar mér á rúmið. Í öll þessi ár hef ég reynt að benda honum á að hann eigi við
áfengisvandamál að stríða og að hann megi ekki koma svona fram við mig og sérstaklega
ekki við börnin og fyrir framan þau. Ég fæ vini hans og fjölskyldumeðlimi til að reyna að
ræða við hann. Ég er alltaf að reyna að bjarga litlu fjölskyldunni minni. En aldrei hlustar
hann, sannfæringarkraftur hans snýr fjöllum á hvolf. Djöfull sem hann er orðinn þreyttur
á þessari neikvæðni, væli og tuði í mér, og „ALLIR aðrir líka“, „meira að segja vinkonur
þínar eru orðnar drulluþreyttar á þér“. Alltaf er það ég sem er fársjúkur geðsjúklingur.
Síðasta skiptið. Við förum í sumarfrí. Hann kaupir mikið magn af áfengi en að auki finn
ég falið áfengi í bakpokanum hans. Ég geng á hann með það. Hann neitar því enda
áfengið horfið. Þá spyr hann mig hvort ég vilji skilja. „Ég ætla bara að segja þér að ef þú
vilt skilja þá mun ég drepa þig, ég mun ganga frá þér þangað til ekkert er eftir af þér, ég
mun gera líf þitt að helvíti, þú ert dauð fyrir mér..“, „ég ætla ekki að gera þér það til geðs
að útskýra það fyrir þér hvað ég á við – það mun bara koma í ljós. Þú veist bara að ég er
mjög hefnigjarn maður.“ Hann rassskellir yngra barnið á beran bossann, barnið
hágrætur, pabbinn öskrar að ég sé búin að klúðra uppeldinu. Hann gengur um allt með
horn djöfulsins á hausnum. Ég geng upp stiga með vatnsglas í hendinni þegar hann togar
mig aftur fyrir mig. Ég hrasa og vatnið sturtast yfir hann, „hvað í fjandanum ertu að gera
kona að skvetta yfir mig vatni.“ Stuttu síðar sendir hann börnin út að leika og segir að við
skyldum taka einn stuttann. Ég sagði nei, ég væri engan veginn stemmd í það eftir þessar
hótanir hans. En hann leiðir mig inn á bað og náði fram vilja sínum. Dofin og frosin og
mállaus vissi ég að þarna var komið nóg.
Ég komst burt með aðstoð fjölskyldu minnar og vina. Í gegnum þetta allt hefur hann þó
ekki enn séð hvar vandinn liggur og ofbeldið heldur áfram. Fjárhagslega og andlega föst í
hans heljar greipum. En á endanum mun ég standa upprétt, ég finn kraftinn koma. Ég
veit að ég á betra skilið. #aldreiaftur #metoo
18.
Fyrst varstu mér svo góður. Ég man þá daga eins og í rósrauðum draumi. Allir
undurfallegu hlutirnir sem þú sagðir, allar lýsingarnar á fullkomnu ástinni sem við
deildum. Þú talaðir um augun mín, hve falleg þau væru. Ekki bara um brúna litinn heldur
um það hvernig ég horfði. Ég væri svo góð manneskja að það skini í gegnum þau hvernig
ég horfði.
Það tók þig ekki nema örfáa mánuði að afhjúpa þitt rétta eðli. Allt það fallega sem þú
sagðir í byrjun snerirðu gegn mér. Ég var ekki lengur góð manneskja sem vildi öllum vel,
heldur heimskur aumingi. Heimskur aumingi sem léti aðra trampa yfir mig á skítugum
skónum. Þú vorkenndir mér fyrir að eiga svona ömurlega vini og fjölskyldu, sem öll vildu
mér illt. Þú reyndir þitt besta við að slíta tengsl mín við þau. Þér tókst það ekki. Ég slapp.
Þetta byrjaði svo hægt. Þú fékkst brjálæðisköstin þín reglulega, oftar með tímanum. Ég
man hvað ég reyndi af öllum mætti að halda þeim í skefjum. Segja réttu hlutina, gera þá
réttu. En það dugði ekki til. Ég var aumingi með þóknunarfíkn, sagðir þú. Ef ég bara hefði
vitað þá að mín fíkn beindist að þér. Ég þráði góðu hliðarnar þínar eins og sprautufíkill
sprautufylli sína. Ó, ég þráði fyrstu dagana okkar, meira en ég þá gerði mér grein fyrir.
En það var farið. Það var aldrei til. Það sem þú þóttist vera, var aldrei til.
Þú gafst mér samt alltaf smábita af því sem áður var. Ég held að þess vegna hafi ég haldið
í vonina. Haldið áfram að reyna. Þú dróst mig yfir alla íbúðina, hrintir mér í sófann og
öskraðir á mig af hverju ég gerði aldrei gert neitt rétt í lífi mínu. En svo iðraðistu og
veittir mér ástúð. Þú braust lyklaborðið á veggnum yfir hausnum á mér, afmyndaður af
reiði, og ég man eftir tökkunum rignandi yfir mig. En þú hélst utan um mig alla þá nótt.
Þú sannfærðir mig um að ég væri einskis virði en þú sagðist elska mig og ekki geta lifað
án mín, það sama kvöld.
Það tók mig svo langan tíma að sætta mig við staðreyndirnar. Þú ert skrímsli sem
eyðileggur allt sem á vegi þínum verður. Þú bætir upp fyrir eigið sálarleysi með því að
sjúga hana úr öðrum. En ég slapp. Ég er ennþá ég.
Ég mun aldrei gleyma dauðaþránni sem heltók mig lengi vel, ég hafði séð það illa og ég
treysti mér ekki til að lifa í heimi sem innihélt slíkt. Slíka ómennsku. En ég slapp.
Ástæðan fyrir því hve svört og tóm augun þín urðu alltaf þegar þú brjálaðist er sú að þú
ert svartur og tómur að innan. En ég lifi áfram. Ég ætla mér stóra hluti í mínu lífi, loksins
laus úr viðjum þínum. Ég sé í gegnum þig og mun varast þig og þína líka hér eftir. Ég
hætti að vera hrædd við myrkrið. Ég lærði að myrkrið lifir í okkur mönnunum. En ég lífi
áfram, hér eftir í ljósinu. Ég mun lifa áfram og standa upp gegn mönnum eins og þér. Ég
mun lifa áfram og standa með konum eins og mér. Ég er frjáls.
19.
Orðalisti ofbeldismannsins:
• Þú ert ógeðsleg tussa
• Helvítis hóran þín
• Þú ert ógeðsleg
• Þú ert geðsjúklingur
• Mig langar bara að drepa mig, þú ert búin að eyðileggja allt fyrir mér
• Skilnaður okkar verður þér algjört helvíti, ég skal sjá til þess
• Passaðu þig bara
• Ég hata þig
• Þú hefur aldrei gert neitt rétt
• Þú ert bara svo leiðinleg
• Þú hefur aldrei getað staðið upprétt út úr neinu, ég er sá eini sem stendur
uppréttur
• Hvaða heilvita fullorðna manneskja er veik í 10 daga
• Þú ræður aldrei við neitt
• Þú ert algjör aumingji
• Þið eigið alveg rétt á að vita hvernig mamma ykkar, hún er algjör aumingji
• Mamma ykkar er svo leiðinleg þannig að hún má ekki koma með í sund
• Nú skaltu hypja þig
• Nú skaltu pakka í tösku og fara til mömmu þinnar
• Þú munt aldrei fá að sjá börnin
• Þú gefst alltaf upp
• Þú ræður ekki einu sinni við að vinna
• Þú ert alltaf veik og alltaf þreytt
• Fársjúk
• Þunglyndur kvíðasjúklingur
• Þú munt ekki geta unnið í framtíðinni, þú verður öryrki innan örfárra ára
• Það nennir enginn heilvita maður að vera með konu sem nennir ekki að ríða
• Ég ætla að finna út hver í fjandanum ráðlagði þér að hætta að ríða mér og ég mun
drepa viðkomandi, og ef það er þetta sálfræðingsógeð sem þú ert að hitta þá mun ég bara
lemja hann.
• Eina ástæðan fyrir því að þú nennir ekki að ríða hlýtur bara að vera að þú sért
með kynsjúkdóm
• Hagaðu þér
• Grjóthaltu þér, þú ert nógu óþolandi fyrir að þú skulir þurfa að vera að syngja
• Flott hjá þér að fá sveppasýkingu núna og eyðileggja fríið
• Ef þú vilt skilja þá mun ég drepa þig, ég mun ganga frá þér þangað til ekkert er
eftir af þér
• Ég ætla ekki að gera þér það til geðs að segja þér það, það mun bara koma í ljós.
Þú veist bara að ég er mjög hefnigjarn maður, þannig er ég bara.
• Ef ég fæ ekki að ríða er ekkert lengur til að berjast fyrir
• Það eru allir orðnir þreyttir á þér og þínum ásökunum og þráhyggju varðandi
áfengi, meira að segja vinkonur þínar eru orðnar drulluþreyttar á þér
• Það er ekki hægt að tala við þig, mætti halda að þú værir þroskaheft
• Það munu allir hata þig eftir þetta því allar þínar aðgerðir eru svívirðilegar
20.
Við náskyld. Hann nauðgaði mér fyrst þegar ég var 14 ára ásamt vini sínum. Eftir þetta
fyrsta skipti hafði hann öll heimsins tök á mér. Hann nauðgaði mér oft… svo oft að ég veit
ekki töluna á öllum skiptunum. Hann og vinur hans nauðguðu mér þegar ég var gengin 9.
mánuði á leið með barnið mitt. Þá bjó ég með barnsföður mínum, ég kom heim alveg
niðurbrotin, verkjuð að innan og utan. Barnsfaðir minn tók nærbuxurnar mínar og setti
þær í poka og ætlaði beinustu leið niður á lögreglustöð. Ég sat fyrir framan
útidyrahurðina og grát bað hann um að fara ekki… Það var nefnilega búið að stimpla það
inní höfuðið á mér að ef ég segði frá þá myndi ég rústa allri fjölskyldunni okkar. Og ekki
vildi ég það nú! Sagan er enn lengri enn þetta… flóknari… mun fleiri atvik. En ég treysti
mér ekki í að skrifa meira eins og er.
21.
Það tók mig 20 ár að gera mér grein fyrir hversu alvarlegu ofbeldi ég bjó við þegar ég var
í sambandi með æskuástinni minni og ég er ennþá að átta mig á og rifja upp atriði sem ég
sé núna að eru ekki eins og þau ættu að hafa verið. Sambandið byrjaði þegar ég var 15
ára og ég var heppnasta stelpan því hann allar hinar voru líka skotnar í honum en hann
vildi bara mig.
Ég sé núna að sú staðreynd að við stunduðum kynlíf á hverjum degi, vilt og gallið, alls
staðar algjörlega óháð hvort mig langaði, í hvernig ástandi ég var, veik, drukkin, grátandi
eða jafnvel sofandi var ekki vegna þess að ég var svo ótrúlega sexý og hann svo
ástfanginn, (crazy in love) og gat ekki látið mig í friði. Það var ekki heldur af því við
áttum svo æðislegt samband sem allir vinir hans öfunduðu hann svo af þegar hann
gortaði sig af því mér til mikillar skammar. Það var vegna þess að ég var algjörlega hans,
hafði engan vilja, ekkert mótstöðuafl. Bara var þarna til að svala hans þörfum. Og þegar
hann grét eftir að hafa meitt mig og gaf mér gjafir því hann sá svo eftir því hvernig hann
hagaði sér, var ekki vegna þess að hann elskaði mig svo mikið og að okkar ást var svo
einstök og ástríðufull, eins og í bíómyndum og ástarsögum.
„Ég elska þig bara svo mikið, þú gerir mig truflaðann af ást,“ grét hann, „án þín er ég
ekkert“ “ef þú hefðir ekki….” Og svo „elskuðumst“ við heitar en nokkurn tímann þannig
ég meiddi mig alls staðar því þannig hélt ég að alvöru ást væri „Love hurts…“ Kynlífið var
aðeins fyrir hann og ég man að ég reyndi að ferðast eins langt í burtu í huganum á meðan
því stóð. Það var mín gjöf til hans.
Ég man eftir fyrstu samviskugjöfinni sem hann gaf mér, hvítir buffalóskór (ógeðslega
flottir og dýrir). Þá fékk ég eftir að hafa minnst á fyrri kærasta, algjörlega ómeðvitað. Og
vegna þess hversu heitt hann elskaði mig og hversu ótillitssöm ég var rauk hann út eftir
að hafa brotið, kastað og skemmt hluti í litlu íbúðinni okkar. Hann bara lét hann sig
hverfa og birtist ekki aftur fyrr en klukkan 3 daginn eftir með blóm og hvíta buffalóskó
(fyrstu áminninguna mína um slæma hegðun). Skórnir sem sögðu „þetta var þér að
kenna, hagaður þér betur annars veistu hvað getur gerst,“ í hvert sinn sem ég steig niður.
Ég vissi alltaf að hann hefði beitt mig andlegu ofbeldi en ég hafði aldrei gert mér grein
fyrir hversu alvarlegu ofbeldi ég bjó við.
Fyrir u.þ.b. 5 árum fór ég með góðravina hóp á köfunarnámskeið erlendis. Þegar ég setti
á mig grímuna, fékk ég vægt taugaáfall og ég mundi að þegar við stunduðum kynlíf og
átti hann til með að setja koddann yfir andlitið á mér svo ég gæti ekki andað eða hélt
bolnum sem ég var í yfir vitin á mér þannig ég barðist um í hræðslukast um að þetta yrði
mín síðustu andartök. Ég mundi líka þau skipti sem hann hafði lokað mig inn í litlum
kústaskáp þegar ég hafði hagað mér óæskilega, hversu sjúklega ég var hrædd í þessu litla
rými.
Óæskileg hegðun var t.d. að ég horfði í augun á karlkyns vegfaranda, klæddi mig of
þröngt flegið eða í ákveðna liti sem voru of æsandi að hans mati, minntist á atvik úr
fortíð eða leit út fyrir að vera of hrifin af karlkynsleikara í bíómyndum sem við horfðum
saman á. Þegar þarna var komið, hafði ég hrökklast úr skóla og vinnu og fór ekkert úr
húsi nema einstaka sinnum, ég eiginlega mátti það ekki. Þegar hann kom úr vinnu fór
fram yfirheyrsla þar sem ég teiknaði samviskusamlega upp allar þær leiðir sem ég hafði
farið yfir daginn, listaði upp hvern ég hafði hitt, hvað ég hafði sagt og svo var farið yfir
símanúmeralistann. Ég hitti sem betur fer aldrei neinn og það hringdi aldrei neinn, því
ég var löngu hætt að tala við fjölskyldu og vini. Hafði ýtt þeim í burtu í vörn og
meðvirkni.
Hingað til var ég samt samfærð um hann hafi aldrei lagt hendur á mig, ekki beint
allavega. Svo var það á síðasta ári þegar ég fór til læknis og hún spyr hvernig nefið á mér
hafi brotnað. Ég var svo hissa, þegar ég rifjaði upp hvernig það hafði gerst. Hvernig gat
ég bara gleymt. Ég man auðvitað eftir að hafa ekki farið út í langan tíma þegar ég var blá
og marin oftar en ekki og hvernig ég reyndi að hylja marbletti sem lentu á andliti eða
hálsi en ég vissi ekki að það hefði verið brotið enda hefði ég aldrei leitað til læknis á þeim
tíma.
Ég man óljóst eftir atvikinu sem hann „rakst“ svona illa í mig og en betur hversu reiður
hann var að ég hefði látið hann gera þetta. Þetta var slys vegna þess að ég var svo mikill
klaufi, alltaf fyrir. Hann var reiður í marga daga á eftir fyrir að láta hann gera þetta og ég
fékk meir að segja ekki neina gjöf því þetta var mér að kenna.
Í framhaldi rifjaði ég upp ítrekuð atvik þar sem mér var haldið taki upp við vegg og hent
til og frá þannig það sá á mér. Hvernig hann hafði dregið mig eftir gólfinu og meitt mig
ítrekað en einhvern vegin þá var þetta grafið og mér að kenna.
Ég er komin yfir fertugt í dag og á börn á sama aldri og við vorum þarna. Ég sé hlutina
öðruvísi og ég veit að það var ekkert sem ég gat gert til að haga mér betur. Hans viðmið
voru sjúk og hann var aldrei ástfangin af mér heldur valdinu sem hann hafði yfir mér.
Hann er þekktur á Íslandi, vel metinn maður og kemur vel fyrir með húfu sem stendur
fokk ofbeldi. Þetta er eins langt og ég fer með þessa sögu, hingað, nafnlaust á #metoo vef,
því ég er enn hrædd við skömmina, að særa þá sem mér þykir mest vænt um, að koma
hans lífi í uppnám, að fá fólk upp á móti mér, vera hötuð af vinum, fjölskyldu og fólki sem
myndi aldrei trúa slíku upp á hann.
Ég er rosalega þakklát fyrir þessa byltingu, því ég sé betur og skil betur. Fyrir allar þær
ungu stelpur og konur sem koma fram með mynd og nafni í miðlum. Þær eru mínar
hetjur. -Takk
22.
Vegna #metoo byltingarinnar og aukinnar umfjöllunar um kynbundið ofbeldi gafst mér
kjarkur til að skrifa fàein orð, þegar ég byrjaði að koma þessu niður á blað hugsaði ég
með mér að þetta væri bara fyrir sjálfa mig, koma þessu frá mér og mögulega myndi það
vera einskonar léttir, ekki datt mér í hug að ég myndi deila þessu með neinum. En hér
kemur það.
Þeir sem þekkja mig vel vita að ég hef aldeilis þurft að hafa fyrir lífinu. 17 ára missti ég
klettinn minn í lífinu þegar besti vinur og stóri bróðir féll fyrir eigin hendi. Tvö ár á eftir
eru mér í móðu vegna sorgar og doða en ég reyndi hvað ég gat að lifa eðlilegu lífi eins og
aðrir en að fara frá því að vera prinsessan undir verndarvæng stóra bróður í að vera
sjálfstæð sterk ung kona tók á. Ég neitaði að láta nokkuð buga mig og lofa sorginni að
hertaka lífið. Fór á hnefanum í gegnum framhaldsskóla eftir bróður missinn og aftur à
sama hnefa gegnum seinna nàmið meðan ég hristi af mér samband sem breytti mér til
lífstíðar.
Þannig er màl með vexti að ég hef alltaf verið að reyna með jákvæðni að vopni að koma
mér í gegnum þessa sorg, hélt áfram að lifa og lærði að vera þakklát fyrir að hafa fengið
að þekkja bróður minn í stað þess að dvelja í sorginni, ég var breytt manneskja en ég
reyndi að finna lífsgleði á ný, styrk og sjálfstæði. Ég Flutti að heiman á 19. aldursári og
rúmlega tvítug varð ég heilluð upp úr skónum af ungum manni, aðeins einu àri eldri en
ég. Hann var fràbær, fyndinn, skemmtilegur og vinsæll. Hann var æðislega skotinn í mér
og ég í honum. Við urðum par og byrjuðum að búa saman fljótlega eftir að við
kynntumst.
Í fyrstu var sambúðin draumur í dós og ég var einstaklega hamingjusöm en fljótlega
byrjaði að halla à þeim stoðum, þó ekki nema millimetra í senn. Andlega ofbeldið hófst
mjög lúmskt, hann var afbrýðisamur og unni mér því ekki að eiga karlkyns vini. Í fyrstu
fannst mér það ljúft og einungis sanna àst hans à mér en afbrýðisemin jókst og henni
fylgdu boð og bönn, vantraust og àsakanir í minn garð.
Ég hafði ekkert annað en góðvild til hans og hafði ekki hugsað mér að svíkja hann à
neinn hàtt og àtti því ekki von à því að hann myndi svíkja mig og ekki hvarflaði að mér að
hann myndi segja mér ósatt. Í mínum saklausa heimi voru öll dýrin í skóginum vinir, allir
góðir hvort við annað og fólk hjàlpaðist að. Jà ég var það jàkvæð, lífsglöð og „barnaleg“
að hafa traust og trú á fólki.
Þràtt fyrir alla hlýjuna sem ég gaf honum taldi hann mér àvallt trú um það, með
sannfæringarkrafti sínum, að ég væri að koma illa fram við sig og samviskubitið yfir öllu
sem „ég var að gera honum“ jókst með hverjum deginum. Hann sannfærði mig um að ég
væri vond við hann, mér væri ekki treystandi og ég væri meingölluð og því heppin að fà
að vera kærastan hans. Svo hótaði hann að hætta með mér og bar við sig sögur sem hann
hefði „heyrt um mig úti í bæ“ sögur sem àttu sér enga stoð í raunveruleikanum svo ég
var staðráðin í að sanna að þessar sögur væru ekki sannar og um leið ást mína á honum,
ég skildi sko ekki sætta mig við svona rógburð og sá sem segði mig ekki traustsins verða
skyldi ekki eiga vinninginn Ég fékk aldrei að vita hví og hverjum dytti í hug að ljúga
svona uppà mig og furðaði mig mikið á því hvernig ég eignaðist þennan fjandvin, en
sögurnar voru þà í raun hans eigin skàldskapur til að hafa yfirhöndina í sambandinu.
Orð þau sem hann notaði à mig reyndust vera àlög því þetta virkaði. Ég var farin að trúa
því að ég væri gallagripur, ég furðaði mig à því hvar ég tók vitlausa beygju og hvenær ég
hafi orðið svona en þetta hlyti að vera rétt hjà honum því hver færi vísvitandi að ljúga?
Ég trúði því að ég kynni ekki að koma vel fram við hann og vera þakklàt og ég vandaði
mig mikið að vera besta og blíðasta útgàfan af sjàlfri mér.
Eftir u.þ.b. àr af hægu en markvissu andlegu niðurbroti kom svo líkamlega ofbeldið. Það
kom jafn hægt og það andlega, einn kinnhestur hér og hrind þar sem að sjàlfsögðu var
„mér að kenna“.
Þegar þar er komið við sögu var ég orðin dofin og ónæm fyrir þessu. Hélt àfram að fara í
gegnum dagana eins og vélmenni, var döpur og ekki í tengingu við sjàlfa mig.
Ég var eiginlega bara partur af persónu. Hann var hægt og rólega búinn að gera mig hàða
sér. Þessi sjàlfstæða unga stúlka með framtíðina fyrir sér var orðin upp à hann komin
með allt. Svo leið og beið, lífið var einhvernvegin hvorki fugl né fiskur og þràtt fyrir
hrindingar og hrist rankaði ég ekki við mér. Var týnd inní sjàlfri mér og líklegast með
einhverskonar deyfisprautu í sàlinni. Með tímanum vaknaði ég til lífs og var innst inni
búin að àtta mig à því að hann væri veikur og líklegast skólabókardæmi um
ofbeldismann, en það tók mig tíma að hrista mig úr mókinu og ég var ekki með à hreinu
hver væri besta leiðin út.
Ég leitaði að krafti í sjàlfri mér, reyndi sem ég gat að henda meðvirkninni og var duglegri
að hitta vinkonur og fjölskyldu. Stundum tók ég göngutúra à kvöldin þegar hann var ekki
heima til að hugsa og velta fyrir mér möguleikum til að losa mig úr prísundinni àn þess
að koma mér í hættu.
En ég var of sein. Aukið sjàlfstæði mitt og lífskraftur ógnaði honum, hann fékk
staðfestingu à að ég gæti í raun farið frà honum og fann fyrir minnkandi àhuga mínum à
sér.
Þà rann upp afmælisdagurinn minn 15. október 2005. Ég var alltaf vinsæl og vinamörg
og þó hann hafi reynt sitt besta að loka mig af og halda mér fyrir sig þà hringdi síminn
mikið þennan dag, þetta var fyrir tíma facebook svo sms-in streymdu inn og fólkið mitt
vildi hitta mig. Það gerði hann bàlreiðan og því fleiri tilraunir sem ég gerði til að fà hann
til gleðjast með mér à afmælinu því fúlari varð hann.
Ég lét hann samt ekki skemma daginn, ég bauð vinkonunum heim í mat og drykk og
ætlaði að gera gott úr kvöldinu. Ég àtti nú einusinni afmæli. En hann tók þà næsta leik og
bauð félögum að koma heim og spila tölvuleiki í stofunni. Ég bauð þà velkomna í afmælið
mitt, brosti og bauð þeim mat og drykk. Þetta féll ekki vel í kramið hjà honum og àkvað
hann að hækka sem hann gat í fótboltaleiknum, gagnrýna mig og vinkonurnar sem mest
og vera með þann almesta dólg sem hann àtti til.
Við stelpurnar létum leiðindin ekki à okkur fà og fórum bara snemma à uppàhalds
skemmtistaðinn okkar að dansa. Fljótlega byrjuðu skilaboðin frà honum að koma.
Skilaboðin sem ég var farin að læra að làta framhjà mér fara. Ljót og niðrandi orð,
svívirðingar og àsakanir, ég var endanlega komin með nóg af þeim og þegar heim var
komið tjàði ég honum að hann væri lítið stràkgrey sem gæti ekki einusinni lofað kærustu
sinni að njóta afmælisdagsins. En það hefði ég heldur làtið ósagt. Hefði àtt að halda
àfram að brosa, hefði àtt að halda kjafti og vera sæt… Eða hvað?
Allavega byrjaði hann à að berja à mér, kasta mér til, hrinda mér og rífa mig til baka à
fötunum mínum svo þau rifnuðu. Ég tók gítarinn hans og bar hann fyrir mig í von um að
hann myndi hætta en àn àrangurs, gítarinn hlaut sömu meðferð og ég. Eitt skiptið sem
hann hrinti mér lenti ég à fjórum fótum svo hann setti löppina ofan à bakið à mér og
sparkaði mér í gólfið af svo miklu afli að ég fann að eitthvað gaf sig innvortis. Eftir þetta
stóð ég ekki upp, hann hélt þó àfram að kasta mér um heimilið okkar, draga mig à hàrinu
og skella mér utan í allt sem hann gat. Næsta sem ég bar fyrir mig var kústur, hann reif
hann af mér, braut hann à læri sér og skar mig í andlitið með brotna endanum þar sem
ég sat hreyfingarlaus í kuðli upp við vegg og gaf ekki frà mér stakasta hljóð. Ég vissi að
það þýddi ekkert að gera eða segja enda var ég ófær um að svo mikið sem standa upp
vegna meiðsla. Eina sem ég gat gert var að vona að þessu færi að linna. En hann var rétt
að byrja.
Eftir að fà að hendast um íbúðina og lenda à öllum mögulegum innanstokks munum þà
tók hann mig hàlstaki og herti vel að þar sem hann sat ofan à mér à gólfinu svo hendur
mínar væru fastar. Hann hélt það lengi og herti svo fast að ég var sannfærð um að nú
væri ég að deyja. Ég hugsaði til fjölskyldunnar minnar, ömmu, afa, foreldra, systkina. Ég
hugsaði um að ég fengi ekki að sjà þau aftur, ég hugsaði um hversu ósanngjarnt þetta
væri, að góð og hjartahlý stúlka eins og ég hlyti þessi örlög og að elsku mamma mín
myndi missa annað barnið sitt. Ég hugsaði til stóra bróður, nú væri ég að fara til hans.
En mér var sleppt. Ég var nokkra stund að ranka við mér og nà andanum aftur. Þegar ég
opnaði augun stóð hann yfir mér, horfði í augun à mér og sagði skýrt og yfirvegað “ Ég
ætla að hringja à lögregluna” í stutta stund hugsaði ég “guði sé lof” en svo bætti hann við
“Ég ætla að segja þeim að þú sért klikkuð, að þú sért að ràðast à mig með hníf. Og veistu
hvað ég ætla að gera svo? Svo ætla ég að drepa þig! Ég get þà sagt löggunni að ég hafi
drepið þig í sjàlfsvörn“
Svo fór hann og sótti símann, ég heyrði hann fara inn í eldhús og taka leikritið í símann
við lögregluna. Gramsa í því sem mér heyrðist vera hnífasafnið hans og ég velti fyrir mér
hvort hann kæmi til baka með butterfly eða army hníf, kannski steikarhníf eða jafnvel
vasahníf. En þó ég gæti ekki staðið upp þà gat ég ekki legið þarna og beðið. Ég nàði með
herkjum að velta mér à magann og rétt hafði það að draga mig fram à stigagang þar sem
ég hamaðist à hurð nàgrannans sem vaknaði og hringdi à sjúkrabíl.
Stuttu seinna kom víkingasveitin sem hélt hún væri að fara að yfirbuga vopnaða unga
stúlku og à hæla hennar kom sjúkrabíllinn. Ég var flutt à bràðamóttökuna, í fyrstu là ég à
gjörgæslu með sótthita og með morfín, næringu og sýklalyf beint í æð à meðan ég gekkst
undir rannsóknir en ekkert lækkaði hitinn þràtt fyrir risa skammt af sýklalyfjum. Ég gat
einfaldlega ekki hreyft mig, var mjög kvalin og ældi blóði. Næst var ég flutt à
landspítalann þar sem sérfræðingur lét mig drekka linsuvökva til að einfaldara væri að
skanna líffærin. Hann àttaði sig fljótt à að ég væri í raun nær dauða en lífi vegna gats sem
hefði komið à smágirni fyrir neðan litla maga. Ég var komin með lífhimnubólgu og það
þurfti að hafa hraðar hendur til að bjarga lífi mínu.
Í framhaldinu gekkst ég undir neyðaraðgerð. Var skorin upp og þurfti svo að liggja à
spítala í tvær vikur. Eina næringin og vökvinn sem ég fékk à þeim tíma var í gegnum
slöngu í æð. Þannig fékk ég einnig verkjalyf, sýklalyf og ógleðilyf því ég ældi galli allan
daginn og það kvaldi mig svo mikið. Svo voru það stífkrampa sprauturnar nokkrum
sinnum à dag og fleiri sprautur sem ég vissi stundum ekki til hvers væru. Aldrei à ævinni
hef ég verið eins ofboðslega veik og lengi à eftir var ég gjörsamlega kraftlaus beinagrind
og þurfti að einbeita mér að því að nà aftur heilsu og matarlyst.
Ég var eins og sært dýr sem þurfti tíma til að hlúa að sàrum sínum og var ekki tilbúin að
taka slag við óargardýrið.
En löggan þurfti að kæra því þannig virkar það nú að ef fólk fær lífshættulega àverka
eftir líkamsàràs þà verður lögreglan að taka kæruna í sínar hendur. Mér bauðst að taka
þàtt, en ég var ekki tilbúin og þetta màtti ekki bíða.
Svo kærumàlið fór í gang. Mér var skipaður lögfræðingur sem varla ræddi við mig en
ofbeldismaðurinn fékk að velja sér verjanda og valdi sér þann besta sem hann vissi um.
Þetta tímabil er mér í minningunni hàlfgerð þoka. Ég reyndi að einbeita mér að bata en
fèkk bara að gjöra svo vel að mæta og skila vitnisburði. Ég vildi sem minnst segja og
hafði ekki þor né kraft í að mótmæla afsökunum hans fyrir framan dómara og hugsaði
bara afhverju það væri ekki hægt að gera þetta seinna og à sama tíma trúði ég varla að
þetta hefði í raun og veru gerst.
Ég vildi einfaldlega ekki vera þarna. Vildi fara í hellinn minn og sleikja sàr og losna úr
þessu helvíti à jörð sem fyrst.
En ég fékk enga hjàlp, ég stóð à eigin fótum í þessu. Vinir og fjölskyldumeðlimir fengu
ekki að heyra alla söguna um hvað hefði í raun gerst og ekki lögreglan heldur því ég var
dofin og talaði ekki við neinn. Á spítalanum kom lögreglumaður þegar ég kom úr
aðgerðinni og tók skýrslu, ég var sàrlasin og mikið lyfjuð svo ég man ekki vel eftir því.
Enginn sàlfræðingur kom, enginn ràðgjafi, engin àfallahjàlp.
Ringluð og dofin fór ég sem vélmenni í gegnum þennan tíma og svo fór að morðingi minn
fékk 4 àra skilorðsbundinn dóm.
Nú eru komin nokkur àr frà þessum örlagaríka afmælisdegi mínum og enn hef èg ekki
getað fundið það í mér að fyrirgefa. Ég er með stórt ör sem minnir mig à þetta à hverjum
degi en Þràtt fyrir það er ég dugleg og sterk kona í dag, hef unun af því að vinna, stunda
líkamsrækt, yoga og sund. Er hraust og þarf ansi mikið til að ég kveinki mér en ég upplifi
líka litlu dofnu stúlkuna af og til þegar erfiðir kaflar lífsins banka upp à og ég verð bara
að làta mér þykja vænt um hana og lofa henni að hvíla sig og sleikja sàr í friði.
Til þín sem þetta lest sem býr við ofbeldi vil ég koma til skila að horfa innà við, rifja upp
hvernig þú varst sem barn, rifja upp með sjálfri þér og fjölskyldunni þinni hvernig þú
varst áður en samfélagið mótaði þig. Veltu fyrir þér hvort þú sért manneskjan sem þú
hefur alltaf þekkt. Stoppaðu og skoðaðu blómin. Njóttu þess að finna vindinn í andlitinu
og regnið à skinninu. Finndu hvers þú nýtur í lífinu og vertu ekki bara til, lifðu.
Hver þarf að finna sína leið úr àlögunum en mundu að það er hjàlp handan við hornið.
Finndu hjà þér löngunina til að þyggja hjàlpina.
#metoo #aldreiaftur #égerhér
23.
Ég er með stór, flott, sexí brjóst. Þau hafa sigrað lögmál þyngdaraflsins, haldið fyllingu
sinni og unglegri lögun í gegnum súrt og sætt þó ég sé korter í miðaldra. Náttúran
splæsti á mig milljón dollara pakka sem hvaða fegrunarlæknir sem er gæti klökknað af
stolti yfir, væru þau upprunnin úr verksmiðju og samsett á skurðarborði. Þau eru
undraverk í fagurfræðilegum skilningi þó ég segi sjálf frá.
En… ég hata þau. HATA.
Þessir tveir hnullungar sem sitja sem fastast á líkama mínum eru uppspretta þjáningar,
áfalla, niðurlægingar, skammar og sársauka. Þau eru minn versti óvinur, sannkallaðir
svikarar og ólukkutröll. Vandræðagripir. Hlutir. Það er það sem þau eru.
Ég var óvenju ung þegar þau byrjuðu að spretta fram og löngu fyrir fermingu tók maður
nokkur upp á því að taka stöðuna á þeim með handafli. Hann sinnti þeirri skyldu af
miklum metnaði, undir fölsku yfirskyni en barnið ég vissi hvað var að frétta. Ég vissi líka
að eitthvað skammarlegt væri að eiga sér stað og þar sem ég var dömulega uppalin hafði
ég vit á að grjóthalda kjafti.
Áður en langt um leið gekk annar maður í klúbbinn. Stjúpfaðir minn. Hann tók að sér það
verkefni að hlutgera og kynvæða ungan líkama minn. Kleip mig og kreisti, lagði mat á
vöxt minn og útskýrði fyrir mér hvaða mat hann legði á brjóst mín. Eitthvað sem hvert
stúlkubarn þarf nauðsynlega að vita. Á hverjum degi meiddi hann mig með krumlunum,
stundum með sérlegum leikhljóðum þegar hann greip í annað brjóstið eða bæði og
krumlaði þau vel og vandlega. Hann sagði klámfengna brandara, spurði klámfenginna
spurninga og sagði mér klámfengnar sögur af sjálfum sér og öðrum. Þegar hann vantaði
umræðuefni skáldaði hann klámfengnar sögur um mig. Þegar ég mótmælti gekk hann
harðar fram. Þegar ég grét hló hann. Þegar ég forðaðist hann skammaði hann mig og
þegar ég var hrædd ógnaði hann mér.
Þannig að ég lærði snemma að brjóstin væru ekki með mér í liði. Þau löðuðu vonda
menn með vondan ásetning að mér og þeir meiddu mig. Þeir höfðu engan áhuga á mér,
þeir vildu bara káfa og krumlast á afmörkuðum hlutum líkama míns. Andlegt ástand mitt
varðaði þá engu. Ég fór að hata bæði mennina og brjóstin. Í varnarskyni gerði ég allt sem
ég gat til að verða ekki vör við ólukkutröllin tvö í dagsins önn. Ég pakkaði þeim inn eftir
bestu getu, forðaðist að veita þeim athygli og beitti öllum ráðum til að þurfa ekki að finna
fyrir þyngd þeirra eða hreyfingu.
Svo fór ég út í lífið með brjóstin niðurpökkuð í farteskinu en þrátt fyrir allar mínar bestu
tilraunir héldu menn áfram að dragast að þeim. Í hvert skipti sem einhver hrósaði þeim
varð mér óglatt. Ef ég varð þess áskynja að áhugi þeirra væri meiri á þeim en mér hörfaði
ég. Þegar einhver sagði eitthvað klámfengið um þau fékk ég iðulega leifturminningar og
endurtekið áfall. Enn í dag fær enginn að snerta þau eða leika sér með þau eins og mér
skilst að fólk geri af ánægju og holdsins lystisemdum. Allir tilburðir í slíka átt eru
fljótlegasta og öruggasta leiðin til að slökkva á öllum mínum löngunum og því legg ég
mig fram um að pakka þeim niður, úr augsýn, hvert sem tilefnið er.
Barnið mitt fékk brjóstamjólk um skeið en líklega streymdi meiri vökvi úr augnkrókum
mínum en úr brjóstunum á þeim tíma. Ekki vegna mjólkurskorts, þvert á móti. Heldur
vegna notagildisins, sem tilfinningar mínar gátu engan veginn parað saman við
óvinahlutverkið kunnuglega. Brjóstagjafatímabilið var stutt og þjáð eins og skilja má,
sérstaklega stytt í tilefni þess hve áfergjulega stjúpfaðirinn starði á mig einhverju sinni
þegar hann varð vitni að gjöf.
Eitt sinn hafði ég náð nægilegum bata og tekið þau hóflega í sátt svo ég fór að ganga í
flegnum klæðnaði við hátíðleg tilefni. Þær tilraunir enduðu með ósköpum. Í eitt skiptið
þurfti bókstaflega heilan hóp af sterku og fljóthugsandi fólki til að forða mér frá þriggja
manna hópi í miðbænum sem hafði ákveðið að slá eign sinni á þau…og mig. Í annað
skipti sagði einn stoltur frá því að hann hefði ekki heyrt orð af samræðum okkar síðustu
tvo tímana sökum útsýnisins. Þau hafa ekki litið dagsins ljós síðan þessir tveir atburðir
áttu sér stað með stuttu millibili.
Í dag stunda ég því þvingaðan burð tveggja hluta, gegn vilja mínum. Ég klökkna stundum
úr örvæntingu þegar ég neyðist til að afklæðast og hitta þessa óvini mína umbúðalaust
og þegar brjóstahaldarans nýtur ekki við klemmi ég þau föst við bringuna með handafli
svo þau haggist ekki. Brjóstahaldarakaup eru bugandi upplifun og mesta áskorun
daglegs lífs er að troðast í nógu stífan og þröngan íþróttatopp fyrir æfingu án þess að
fara að grenja í búningsklefanum.
Það hvernig nákomnir og ókunnugir karlar hafa slegið eign sinni og yfirráðum yfir
líkama minn er partur af nauðgunarmenningu. Ég hef verið svipt frelsi, yfirráðum og
notum yfir eigin líkama vegna þeirra. Jafnvel eftir að ógeðslegu tilburðirnir þeirra eða
ömurlegu athugasemdirnar eru löngu gleymdar í hugum þeirra burðast ég um í áfalli og í
fullkominni aftengingu við fallegasta hluta líkama míns. Ég hata stóran hluta þess sem
gerir mig kvenlega í lögun jafnvel þó sjálf mitt samsvari fullkomlega eigin kyni. Ég hef
þurft að gefa elskhugum mínum ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig þeir skuli bera
sig að svo ég tjúllaðist ekki úr áfallaröskun við blíðuhót þeirra.
Ég gerði samt aldrei neitt rangt. Ég fæddist ekki með þessar tilfinningar. Ég hefði svo
auðveldlega getað notið mín í eigin skinni en eigingjarnir, frekir, siðlausir karlar
skemmdu varanlega samband við mitt við sjálfa mig. Vegna þess að nauðgunarmenning
er til og svona lagað er ennþá umborið.
24.
Sagan mín byrjar eiginlega áður en ég fæddist. Föðurafi minn var virtur fræðimaður á
Íslandi. Hann var líka kvenhatari og barnaníðingur. Hann átti nokkur börn og vitað er að
hann misnotaði allar dætur sínar kynferðislega. Hins vegar veit ég ekki hvort eða hvað
hann gerði við pabba minn.
Þegar ég var um það bil 4 ára og yngri systir mín var eins árs lést föðurafi minn. Í
kjölfarið fékk ein af föðursystrum mínum kjark til að segja frá því sem hafði gerst. Þegar
móðir mín heyrði frásögn hennar ákvað hún að spyrja mig, sem hafði í örfá skipti verið
ein með afa mínum, hvort hann hefði einhvern tímann gert mér eitthvað. Ég neitaði því,
en þá nýtti ég tækifærið og sagði mömmu minni frá því sem pabbi hafði verið að gera
mér. Hann hafði verið að misnota mig kynferðislega. Lýsingarnar voru á þann veg að
mamma gat ekki annað en tekið mig, 5 ára barnið, trúanlega. Þegar mamma var komin
yfir mesta sjokkið og búin að átta sig á því að það var ekkert annað í stöðunni, sótti hún
um skilnað við pabba. Pabbi viðurkenndi þetta aldrei. Mamma íhugaði að kæra þetta til
lögreglu en var ráðlagt af lögfræðingi að gera það ekki því við yrðum stimplaðar af
samfélaginu ef hún gerði það.
Það sem hins vegar gerðist eftir þetta er eiginlega það sem situr mest í mér og systur
minni. Hvernig kerfið tók á þessu. Foreldrar mínir skildu á 10. áratugnum, svo það er
ekki svo langt síðan, en samt svo margt breytt. Pabbi er ótrúlega sjúkur maður sem lék
sér að því að kæra mömmu fyrir skerta umgengni við okkur, þrátt fyrir að hún væri alltaf
að sinna umgengnissamkomulagi hverju sinni. Málaferlin stóðu yfir í mörg ár því þegar
málinu var lokað hélt hann alltaf áfram, skrifaði ný bréf, kvartaði og kærði aftur.
Umgengnissamkomulagið var þannig að við þurftum að hitta hann yfirleitt 1-2 sinnum í
viku að minnsta kosti, en þó þurftum við ekki að gista hjá honum. Mamma reyndi að
passa að við værum aldrei einar heima hjá honum en það var algjörlega undir henni
komið að passa upp á það, þrátt fyrir að barnavernd vissi upp á hár hvað hann var
ásakaður um. Það var mjög lengi opið umgengnismál hjá sýslumanni og barnavernd um
okkur. Ég á endalaust margar minningar um að vera yfirheyrð um samskipti mín við
pabba minn hjá alls konar fagfólki hjá barnavernd. Til eru pappírar hjá Barnavernd þar
sem stendur skýrum stöfum að við systur vorum að segja frá kynferðisofbeldi af hans
hálfu, meira að segja eftir skilnaðinn og í heimsóknum hjá honum, þar sem hann var til
dæmis svo grófur að gera sér ferð á salernið með systur mína til að misnota hana. Aldrei
datt neinum af þessum fagaðilum sem unnu fyrir barnavernd í hug að gera
barnaverndarmál úr þessu, hvað þá að tilkynna þetta til lögreglu. Nei, þetta var alltaf
bara umgengnismál. Það sem skipti mestu máli var að fara yfir þær ásakanir sem pabbi
setti fram, að hann væri ekki að fá þá umgengni við okkur sem hann átti að fá. Faðir
minn er nefnilega með fína háskólagráðu frá virtum háskóla í Bandaríkjunum og starfaði
til margra áratuga í ráðuneyti á Íslandi. Það var eins og allir væru að hneigja sig og
beygja til að verða við hans óskum. Og það gat auðvitað ekki verið að svona fínn maður
væri sekur um svona glæpi. Við fundum sterkt fyrir því að vera ekki trúað. Öll þessi
óteljandi viðtöl þar sem ég var látin segja frá ofbeldinu létu mér líða eins og það væri
stöðugt verið að draga frásögn mína í efa og minningarnar voru orðnar að slíkum
hrærigraut að ég vissi varla lengur hvort þessi upplifun mín væri raunveruleiki eða ekki.
Fagfólkið lét mig byrja að efast um mína eigin reynslu.
Það er nefnilega eins og fólki finnist auðveldara að trúa því að konur eða börn séu að
ljúga til um kynferðisofbeldi, eða að þetta sé allt bara einhver misskilningur, heldur en
að menn, sem líta út fyrir að vera greindir og virtir, geti gert svona lagað. Dæmi um þetta
er þegar mamma fékk fund með ráðherra á þeim tíma, og við komum með henni.
Mamma grátbað viðkomandi ráðherra á þessum fundi, um að hjálpa sér í þessu máli.
Mamma bað ráðherrann svo um að hlusta á okkar frásögn, en ráðherrann vildi það ekki
og bað okkur um að bíða frammi á meðan ráðherrann talaði við mömmu. Þegar
fundinum lauk kom ráðherrann fram og talaði við okkur systur, hlustaði ekki á okkur,
heldur sagði við okkur að það væri ekki okkur að kenna að foreldrar okkar væru ósátt
við hvort annað og gaf svo í skyn að mamma væri að heilaþvo okkur. Það þarf varla að
taka það fram að þessi ráðherra hjálpaði okkur ekki.
Mörgum árum seinna sóttum við um að fá afrit af öllum gögnum um okkur hjá
barnavernd og sýslumanni og fengum við afhentan þungan bunka. Að vísu þurftum við
að borga 60 þúsund krónur fyrir gögnin frá sýslumanni því hvert ljósrit kostar háa
upphæð. Þar fengum við staðfest það sem okkur hafði alltaf grunað, að fagfólkið hafði
myndað sér þá skoðun að mamma hefði heilaþvegið okkur. Sem dæmi kom fram í einni
nótunni frá starfsmanni sem tók systur mína í viðtal, að systir mín greindi frá
kynferðisofbeldi í heimsókn hjá pabba, en starfsmaðurinn tók það síðan fram í lokin að
henni fyndist frásögnin ótrúverðug. Systir mín var 5 ára.
Umgengni við pabba lauk eiginlega ekki fyrr en ég var orðin 12 ára en þá var okkur sagt
að 12 ára aldurinn væri viðmiðið um það hvenær maður mátti velja hvort maður færi í
heimsókn til foreldris. Ég hef haft takmörkuð eða engin samskipti við hann síðan og
sakna þess ekki.
Fjölskyldan var og er hins vegar mjög mörkuð af þessu og skaðinn sem þetta olli er
eiginlega ólýsanlegur. Ég sagði vinkonum mínum ekki frá þessu fyrr en ég var unglingur,
skömmin og sorgin yfir þessu var svo mikil. Vanlíðanin sem börn bera, sem hafa orðið
fyrir kynferðisofbeldi af hálfu foreldris, er eitthvað sem enginn getur raunverulega skilið
sem ekki hefur lent í því.
Ég hef sem betur fer ekki misst allt traust á fagfólki og hef unnið mikið í mínum málum
með sálfræðingum. Ég hef trú á því að fagfólk sé upp til hópa að reyna að gera sitt besta
og sem betur fer hefur margt breyst til hins betra. Hins vegar er mín saga vitnisburður
um þöggun, nauðgunarmenningu og hvernig kynferðisofbeldi þrífst í samfélagi þar sem
karlar geta misnotað vald sitt og komist upp með það.
25.
Eftir því sem árin líða þá birtast fleiri minningar. Nýjasta minningin mín er samt sú elsta.
Ég skildi aldrei af hverju ég væri svona skrýtin, ég er farin að skilja það betur núna.
Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ofbeldið byrjaði á æskuheimilinu mínu. Ég man
bara að ég var barn og þetta var um eða fyrir 10 ára aldur. Ég bjó þar ásamt mömmu og
bróður. Gerandinn var bróðir minn sem er 5 árum eldri en ég og ofbeldið einkenndist af
hótunum um alvarlegt ofbeldi ef ég gerði eða segði eitthvað og stundum var hótununum
fylgt eftir með barsmíðum. Stundum fylgdu engar hótanir heldur var vaðið beint í mig án
orða. Hann passaði að lemja mig alltaf á stöðum sem voru almennt huldir fötum, axlirnar
mínar fengu sérstaka útreið. Ég man það vel þar sem mér var oft illt í öxlunum á þessum
tíma og langt fram í unglingsárin. Ég gleymi því aldrei hvert ég flúði alltaf þegar
hótanirnar byrjuðu. Í þriggja sæta brúna sófann inní stofu með pálmatrjáa-munstrinu. Ég
settist yst í sófann, næst herberginu mínu, grúfði höfuð á milli fótanna og hélt svo
höndum utan um fæturna.Þar fengu hótanirnar að dynja yfir mig: “Ef þú segir mömmu
þá mun ég lemja þig svo illa að meira að segja mamma mun ekki þekkja þig í sjón” og
fleiri útlistingar á því hversu illa ég myndi líta út í framan ef hann myndi framfylgja
hótununum. Fleiri setningar sitja enn í mér frá sama bróður, sem dæmi: “Mér er svo
alveg sama um hana (mig) að þótt henni yrði nauðgað þá væri mér skítsama”.
Þessar upplifanir eru líklegast grunnurinn að flestum þeim áföllum sem á eftir komu. Ég
lenti í nauðgun 14 ára gömul, nauðgarinn bar sama nafn og bróðir minn og þeir voru
fæddir sama ár. Hvorugt vissi ég fyrr en eftir að ég hafði kært. Ég fór í sambúð með
ofbeldismanni í rúm 6 ár. Ég vissi auðvitað ekki að hann væri ofbeldismaður fyrr en eftir
að ég varð ólétt. Barnið mitt var það yngsta til að dvelja í Kvennaathvarfinu árið sem það
fæddist.
Það sem á eftir hefur fylgt: Sjálfsvígstilraunir. Sjálfshatur. Geðveiki. Óvinnufærni.
Þegar ég skoða myndir af mér sem lítil stelpa þá var ég brosmild, glöð og sífellt knúsandi
alla. Í dag er ég andstæðan, lokuð, köld og hleypi engum að mér.
Ég átti þetta ekki skilið og afleiðingarnar eru óvinnufærni.
26.
Allur veruleiki minn breyttist á óskiljanlegan hátt þegar ég var sjö ára. Ég var ekki lengur
velkomin í lífi mömmu og nýi kærastinn hennar var sú manngerð sem naut þess að hafa
stjórn á fólkinu á heimilinu með tilfinningalegum hryðjuverkum. Viðvarandi andlegt
ofbeldi varð hluti af uppeldi mínu. Áreiti, ofsóknir, niðurrif, höfnun og stanslaust
tilfinningafokk. Ef ég kvartaði eða reyndi að strjúka til pabba eða bara sagði hvernig mér
leið, var mér refsað með ásökun og plantað í mig sektarkennd gagnvart mömmu. Þegar
skóli og kennarar urðu varir við vanlíðan og breytingar á hegðun minni var ég send til
skólastjórans sem spurði mig einfaldlega hvað væri eiginlega að mér. Ég gat ekki svarað.
Við áttum heima í litlum bæ. Við fimmtán ára aldur þegar ég fór að heiman var ég orðin
tryllt úr tilfinningalegum sársauka, reiði og sjálfsniðurrifi. Ég geri mig ekki ábyrga fyrir
því að hafa verið beitt ofbeldi af þeim manni sem ég valdi að vera með mörgum árum
seinna. Ég trúi því samt að niðurbrotið í æsku hafi haft áhrif á hvernig ég brást við
ofbeldinu þegar það byrjaði. Ég lamaðist af vanmætti inni í sambandinu. Hann sagði
alltaf að ég væri ástæðan fyrir því sem hann gerði og ég hafði ekkert tilfinningalegt
mótvægi við þá ranghugmynd hans sem ég upplifði að samfélagið staðfesti ef ég reyndi
að segja frá. Í dag hangir batavon mín á því að ég útskýri ekki tilefni eða ástæður ofbeldis
á mér eða öðrum. Batavon mín fer saman við þá hugsun að ofbeldi er alltaf tilhæfulaust.
Líka þegar það er í nánu sambandi. En ég þarf að minna mig á það, aftur og aftur. Þess
vegna vil ég segja frá nokkru af því sem gerðist. Barnið hans var hjá okkur sinni fyrstu
helgarheimsókn. Hann reiðist einhverra hluta vegna og kýlir mig í andlitið þar sem ég
stóð upp við bekk og hélt á barninu í fanginu. Hann hefði getað hæft barnið. Ég lét sækja
barnið strax. Þetta var í eina skiptið sem hann sló mig í andlitið en oftast barði hann mig
í handleggina þar til þeir bólgnuðu svartir og bláir upp, reif í hárið á mér eða sló mér í
veggi eða gólf. Í einhverju skapofsakastinu braut hann rúðu í anddyri sameignar í húsinu
sem við bjuggum í. Ég sá ekki til þess en hann sagði eftirá að hurðin hefði skellst vegna
vindhviðu og þess vegna hefði rúðan brotnað. Ég efaðist um það af því hann hafði áður
brotið rúðugler í hurðum inni í íbúðinni í reiðikasti. Vitni í næsta stigagangi kom að mér
og sagðist hafa séð hann brjóta rúðuna. Ég þurfti að sjálfsögðu að borga fyrir viðgerðina.
Ég þurfti líka að bæta fyrir alla símana, sjónvarp og tölvuna sem hann gereyðilagði. Ég
sagði oftast ekki satt frá því hvernig hlutirnir hefðu eyðilagst. Ég skammaðist mín bara
og borgaði eða keypti nýtt ef ég hafði efni á því. Frá upphafi sambands okkar var kynlíf á
hans forsendum. Hvað við gerðum og hvenær. Ég vaknaði stundum við það á nóttunni að
hann var byrjaður eða næstum búin. Seint í okkar sambandi var ég ólétt af barni okkar,
þegar hann kemur heim til mín að nóttu eftir að hafa verið að drekka. Á þeim tíma bjó
hann ekki á heimilinu en kom og fór nokkuð eins og honum þóknaðist. Ég var sofandi en
hann vakti mig. Hann skipar mér að afklæðast og fara á fjóra fætur. Ég mótmælti ekki og
sýndi engan mótþróa, hann nauðgaði mér í endaþarm. Hann hafði flutt aftur inn á
heimilið með fögur fyrirheit en hafði samt fengið þá hugmynd að flytjast erlendis. Ég var
undir miklu álagi á þessum tíma og nefndi það við hann að ég væri ekki viss um að það
væri góð hugmynd að hann færi erlendis svona skömmu eftir að barnið fæddist. Hann
snögg reiddist og spurði hvort ég væri að efast um karlmennsku hans svo ég hljóp inn á
baðherbergi og læsti að mér. Það var orðið vanalegt varnarviðbragð hjá mér en hann
þoldi það ekki að ég læsti og barði á hurðina og öskraði að ég ætti að koma út á
stundinni. Barnið vaknaði í öðru herbergi og fór að gráta svo að ég opnaði og tróð mér
framhjá honum inn í herbergi til barnsins. Hann elti mig inn í herbergið, tók barnið af
mér og lagði það í barnarúmið og þvingaði mig niður á hjónarúmið og hélt mér þannig að
ég gat ekki hreyft mig. Ég hélt í smá stund að hann ætlaði að nauðga mér en hann dró
mig út úr herberginu og lokaði barnið þar inni. Þvingaði mig niður á gólf og hélt fyrir
vitin á mér þannig að ég átti erfitt með að anda. Það eina sem ég gat hugsað var að
komast til barnsins sem grét. Ég veit ekki hvað þessi árás stóð lengi af því tíminn stóð í
stað og teygðist og skrapp saman til skiptis. Ég heyrði eitthvað bresta inni í mér sem ég
veit ekki ennþá hvað var. Ég var alveg hætt að hugsa þegar hann sleppti mér og ég hljóp
inn til barnsins og tók það í fangið. Þegar barnið var sofnað reyndi ég að segja manninum
að ég vildi fara. Ég vildi bara tala við fjölskyldu mína. Þá fór hann inn í eldhús og náði í
beittan hníf og sagðist drepa mig ef ég talaði við einhvern. Vikuna eftir lék ég leikrit,
gerði allt til að hann kæmist erlendis. Hann fór. Eftir þetta kom hann einusinni inn á
heimili mitt undir fögrum fyrirheitum. Hann var fluttur af lögreglunni út af heimilinu í
síðasta skipti eftir stutta dvöl þegar barnið okkar var eins árs. Hann birtist í lífi okkar
aftur nokkrum árum síðar. Í dag notar hann barnið og rétt sinn til að umgangast barnið
til að fá sínu framgengt með öllum ráðum. Ég hef greint frá ofbeldissögu mannsins bæði
gagnvart mér og börnum hjá sýslumanni og óskað þess að tekið verði tillit til áfallasögu
barnsins í samskiptum við föður. Yfirvaldið hefur beinlínis úrskurðað og sagt að ég hagi
mér fáránlega og það sé mér að kenna að barninu mínu líður illa, að ég eigi vera
samvinnufús með kröfum föður um barnið. Þetta er alger martröð. Martröð æsku
minnar. Ég er ekki tekin trúanlega. Ég hef ekki vald í dag til að vernda barnið mitt og
heimili fyrir ofbeldi en við sitjum uppi með afleiðingarnar. Kvíða, tilfinningavanda,
áfallastreitu, brotið traust, ótta, samskiptavanda og tapaða trú á lífið. Biðina eftir næstu
árás með hjálp yfirvalda. Ég setti ofbeldinu mörk og neita að taka ábyrgð á hegðun
mannsins en yfirvöld og samfélagið heimila að það viðgangist á grunni þess að kalla það
umgengnisdeilu. Sem móðir og kona í okkar samfélagi á ég að uppfylla skyldur mínar
gagnvart föður umfram það að verja sjálfa mig og fjölskyldu mína fyrir ofbeldi.
27.
Vangaveltur
Má maður segja einhverjum árum eftir á að eitthvað hafi verið kynferðisofbeldi ef maður
sagði það aldrei upphátt á meðan því stóð? Er maður ekki bara eitthvað klikk ef maður
situr og les blaðið 10 árum eftir að eitthvað gerðist og einhver umfjöllun stingur mann
allt í einu eins og þúsund hnífar? Ef ég upplifði ekki eitthvað sem ofbeldi fyrir 10 árum er
þá eitthvað hægt að segja það í dag að þetta hafi verið ofbeldi?
Ég er búin að leggja svo hart að mér við að leggja þetta allt saman að baki. Hugsa ekki um
þetta, einblína fram á veginn, fjarlægja mig frá aðstæðum sem kalla þetta fram, leyfa mér
ekki að velta mér upp úr tilfinningum og hlutum. Ég er búin að útiloka manninn og allt
sem honum tengist úr mínu lífi að eins miklu leiti og ég mögulega get. Ég spái aldrei í
þennan mann eða hvað hann er að gera nema það sem ég neyðist til barnanna vegna.
Hugsa lítið sem ekkert um hluti sem tilheyra fortíðinni og forðast það beinlínis með
öllum tiltækum ráðum. En samt er bara eins og það sé bara eitthvað svarthol inni í mér
sem sýgur í sig allar góðu tilfinningarnar og alla orkuna mína. Mér líður alltaf illa. alltaf.
Mér líður alltaf eins og ég geti ekki eina mínútu í viðbót. En samt geri ég það auðvitað, ég
held alltaf áfram og leyfi mér aldrei að velta mér eitthvað upp úr þessari vanlíðan. Ég
hunsa hana, hvað sem það kostar. Ég er í fullu starfi við að hunsa og gleyma. Ég slaka
aldrei fullkomlega á. Mig langar það heldur ekki því um leið og það er dauð stund þá
steypast hugsanir yfir mig sem ég vil ekkert hugsa. Hugsanir sem mér finnst ég ekki hafa
rétt á að hugsa því það var ég sem leyfði þessu að gerast.
Mér hefur líka einhvern veginn alltaf fundist eins og þetta hafi ekkert verið svo slæmt.
Þetta voru bara einhver einstaka tilfelli og að sennilega hafi þetta ekkert verið svona eins
og ég man þetta, að þetta hafi bara allt saman verið frekar eðlilegt og að ég sé bara að
gera eitthvað mikið úr einhverju sem var ekki neitt, því ég er náttúrulega svo biluð og
ekkert að marka mína dómgreind og upplifun (hann sagði mér reglulega að ég væri með
hina og þessa geðsjúkdóma). En þegar ég les t.d. dagbækur frá þessum tíma eða rifja upp
atvik sem trufluðu mig og mér þóttu óþægileg, þá sé ég alveg að þetta var bara stöðugt.
Ég var alltaf í varnarviðbragði. Ég er það ennþá. Alltaf að bíða eftir næstu uppákomu.
Næsta höggi í brotthætta skel. En samt einhvern veginn get ég ekki látið heilann minn
trúa því að þetta hafi verið svona.
Mér fannst líka að ég hlyti að vera að rangtúlka, að mig misminnti eða að ég væri bara
eitthvað að endurútskýra fortíðina því ég aðgreindi ekki endilega atvikin. Þetta rennur
einhvern veginn allt saman og ég var orðin svo samdauna að þau brenndust ekkert inn í
mig dagsetningu fyrir dagsetningu. Ég man ekkert mörg einstaka atvik en man bara
frekar eftir svona ástandi og aðstæðum líka sem ég reyndi að forðast og þá er bara
einhvern veginn eins og þetta hafi ekki verið neitt, neitt fyrst ég man það ekki greinilega,
man ekki hvenær, hversu oft, nákvæmlega hvernig eða hvað var sagt eða hvernig ég
brást við. En eftir að #metoo fór af stað þá helltist þetta eitthvað yfir mig. Þegar ég sá
hlutina sem aðrar konur töldu upp. Þá mundi ég allt í einu fullt af hlutum sem mér fannst
ekkert stórmál og tók ekki inn á mig… að ég hélt. En auðvitað söfnuðust allir þessir hlutir
saman og voru auðvitað ákveðin verkfæri og aðferðir í hans höndum til að halda mér
áfram meðfærilegri.
Ég get samt einlæglega sagt að á meðan á þessu sambandi stóð þá upplifði ég þetta
sjaldan sem eitthvað ofbeldi og sá sjálfa mig aldrei sem fórnarlamb. Fyrir mér var það ég
sem var gerandinn. Það var ég sem var kynköld og þvingaði hann til þess að grípa til
örþrifaráða. Það var ég sem var svo erfið og óstöðug í skapinu svo hann var alltaf í fýlu
eða reiður útaf því hvernig ég lét við hann. Það var ég sem var alltaf með ósanngjarnar
kröfur á hann og aldrei ánægð og alltaf að röfla eitthvað, hann var bara góður og
þolinmóður við mig og mína galla. Það var ég sem var eitthvað bæld og tepruleg og þoldi
ekki kynferðislega snertingu. Fyrir mér var ég alltaf rótin að vandamálinu. Þannig að ég
sá mig ekki sem eitthvað fórnarlamb. Hann var alltaf fórnarlambið í sambandinu. Og
þess vegna fannst mér það sem hann var að gera mér ekki vera ofbeldi. Það var ekki fyrr
en eftir að ég skildi og fór svo seinna í heilbrigt samband með umhyggjusamri og
tillitsamri manneskju, þá fóru augun aðeins að opnast, en ég veit ekki hvað ég á að gera
við þetta allt…
28.
Ég á einhvern veginn ekki orð fyrir það hvaða pláss þetta er búið að taka inni í mér,
fannst ég alveg vera búin að segja nokkrum vinkonum frá og segja þetta upphátt og losa
mig við þetta út í kosmósinn – en eftir að ég skrifaði mína reynslu niður fyrir sjálfa mig sé
ég að ég er eiginlega ekkert búin að því nema að mjög litlu leiti. Ég sé líka að ég er ennþá
svo föst í því að þetta hafi alveg eins verið mér að kenna, að ég hafi alveg tekið fullan þátt
í þessu ástandi. Það bað mig enginn um það. Ég gerði það bara. Ég reyni að segja við
sjálfa mig að þó að ég hafi látið þetta yfir mig ganga, jafnvel tekið þátt, jafnvel stundum
verið jafn grimm í orðum og hann, jafnvel ýtt undir með að svara fullum hálsi fyrir mig
eða vera með leiðindi á móti, jafnvel þó ég hafi oftar en ekki bara hlegið og slegið
hlutunum upp í grín þegar hann gerði eitthvað sem fór yfir mín mörk… Jafnvel þó ég hafi
gert allt þetta – þá var þetta ekki í lagi.
Eitt sem gerir mig líka alveg botnlaust reiða er hvað ég er eitthvað brotin og kraftlaus þó
að ég sé að halda áfram með líf mitt. Ég er búin að vera í stöðugri uppbyggingarstarfsemi
þessi undanfarin ár og er samt svo… molnuð og örmagna… svo gjörsamlega yfir mig
innilega botnlaust uppgefin af þreytu bara við að halda sjálfri mér í heilu lagi og lifa lífinu
mínu eins vel og ég get. Ég er svo reið að hann hafi náð að taka frá mér þessa lífsorku
sem ég hefði svo gjarnan viljað nota í eitthvað annað meira gefandi og nærandi.
Allir segja að það lækni mann að fyrirgefa. Fyrirgefning er lausnin. Er hún það í
alvörunni? Ef ég fyrirgef þetta allt saman, er ég þá ekki að segja að þetta hafi bara verið í
lagi? Er ég þá ekki að kenna börnunum mínum að það sé í lagi að láta beita sig ítrekuðu
ofbeldi? Og þar fyrir utan, hvar finnur fólk þessa fyrirgefningartilfinningu? Í höfðinu eða
hjartanu? Ég leita oft að henni en þetta er kannski einhver galli í mér? Ég er bara ekki
með fyrirgefningu í handraðanum. Allar klisjurnar segja að maður geti ekki haldið áfram
án þess að fyrirgefa, að maður geti ekki sleppt fortíðinni fyrr en maður fyrirgefur.
En ég er að halda áfram með líf mitt. Á fullu. Það eru góðir hlutir að gerast og fólkið mitt
er til staðar fyrir mig. Í raun gætu hlutirnir bara varla verið betri. Fyrir utan það auðvitað
að ég þarf að senda börnin mín svona mikið í burtu – og það til manns sem ég treysti
ekki af illri raun. Til manns sem mér finnst vera veikur, hættulegur, skaðlegur,
niðurbrjótandi. Maður sem er fær um að eyðileggja sálir og fer illa með ástvini sína. Ég
kenni þeim að passa sig á bílunum, forðast eldinn, þekkja hætturnar og forðast þær. Og
svo sendi ég þau til hans. Það er eitthvað sem ég bara get ekki vanist þrátt fyrir allan
þennan tíma – að senda þau í hans hendur. Get ekki sætt mig við eitthvað sem fer svona
djúpstætt gegn minni dómgreind og mínu innsæi um hvað er börnunum mínum fyrir
bestu. Af hverju sendi ég þau þá?
Af því að samfélagið segir að það sé best fyrir börn að þekkja feður sína og hafa þá í lífi
sínu sama hvað og samfélagið hlýtur að vita betur en ég… En oft er ég reið við sjálfa mig
fyrir að vernda þau ekki betur, fyrir að taka ekki slaginn og neita að senda þau. Fyrir að
flýja ekki með þau eitthvert. Alla daga efast ég um ákvarðanir mínar í kringum börnin
mín og hvort það sé eitthvað sem ég hefði getað gert betur eða öðruvísi, hvort hann nái
að skemma þau, brjóta þau niður, koma inn hjá þeim sínum brestum… Ég hræðist ekkert
meira en að þau verði eins og hann, fái hans „gildismat“ eða „lífsýn“ og verði jafn veikir
einstaklingar og hann… því þá er það mér að kenna því það er ég sem steig ekki nógu
fljótt út úr sambandinu og það er líka ég sendi þau alltaf til hans, aftur og aftur. Því það
er ég sem leyfði þessu öllu saman að gerast.
29.
Hrikalega hefur verið erfitt að þegja allar þessar vikur, alla þessa mánuði, öll þessi ár. Ég
hélt það væri nóg að segja fagaðilum frá þessu, trúnaðarvinkonum og tala um þetta á
sjálfshjálparfundum. En það er ekki nóg.
Ef það má bara hvísla um sifjaspell við fólk sem lofar að þegja, þá er það ennþá
leyndarmál, þá er skömmin ennþá mín en ekki hans.
Í hvert skipti sem ég les frásagnir annarra undir ofangreindum myllumerkjum, í hvert
skipti sem ég les viðtöl við þolendur kynferðisofbeldis eða bækur þeirra fyllist ég af
miklu óþoli. Ég hef þráð að öskra ÉG LÍKA. En alltaf hef ég hætt við, ákveðið að þegja
frekar. Í hvert skipti sem ég heyri fólk tala af virðingu og upphafningu um föður minn
verður mér óglatt. Mig hefur langað að kasta upp en alltaf hef ég kyngt og þagað.
Ég er að kafna í þessari þögn.
Ég taldi að sagan mín myndi ekki bæta neinu við frásagnir annarra. En staðreyndin er sú
að hver einasta frásögn, viðtal og bók hefur gefið mér nýtt sjónarhorn, hjálpað mér að
skilja sjálfa mig betur og linað sársauka minn. Það er svo gott að vita að maður er ekki
einn, og að við erum ekki einu sinni fá, við erum mörg og eigum svo margt sameiginlegt.
Þess vegna hef ég ákveðið að stíga fram. Mig langar að gefa til baka. Og mig langar að
stuðla að betri heimi, heimi sem er laus við kynferðisofbeldi, laus við þöggun, laus við
skömm.
Faðir minn var pervert, nauðgari og barnaníðingur. Hann var líka hæstaréttarlögmaður
og frímúrari.
Ég hef verið um 7 ára aldurinn þegar hann reyndi að troða tippinu undir nærbuxurnar
mínar þar sem ég lá á milli foreldra minna. Mamma öskraði upp og reif mig frá honum.
Árum saman lét hann mig standa yfir sér inni á baði á meðan hann pissaði, skeindi sig og
fróaði sér. Það var enginn sem stöðvaði hann í því. Ætli síðasta skiptið hafi ekki verið
þegar ég var 12 ára, skömmu áður en hann dó.
Hann lét mig líka horfa á sig þar sem hann speglaði sig nakinn eða með buxurnar á
hælunum fyrir framan mannhæðarháan spegil í holinu. Svo gyrti hann sig ánægður. Ef
einhver hringdi á dyrabjölluna þegar hann var í miðju kafi flýði hann inn á baðherbergi,
og reyndi að girða sig á leiðinni.
Svo nauðgaði hann mömmu þegar hann kom heim af frímúrarafundi, fullur. Ég var
andvaka í herberginu mínu af því ég fékk ekki lengur að sofa uppí. Daginn eftir setti
mamma púða í stólinn áður en hún settist með sársaukagrettu á andlitinu. Og þegar hún
náði í gráa og illa lyktandi borðtusku til að þurrka af borðinu henti hún henni á borðið
fyrir framan pabba og hvæsti:
Mér líður eins og borðtusku, það er hægt að nota mig og svo er mér bara fleygt.
Þöggunartilburðum hef ég mætt frá fjölskyldunni, en líka frá ýmsum fagaðilum sem hafa
ráðið mér frá því að opinbera sifjaspellið. Sjálfsagt hafa þeir gert það af góðum hug, viljað
hlífa mér við álaginu sem viðbrögðin geta valdið.
En ég hef ákveðið að taka áhættuna því þagað get ég ekki lengur.
#metoo #höfumhátt og öll hin myllumerkin.
30.
Ég ólst upp á heimili þar sem ofbeldi var notað sem kúgunar og stjórntæki.
Pabbi minn lamdi mömmu mína og okkur systurnar.
Allir vissu það, nágrannar, stórfjölskyldan, vinir þeirra mömmu og pabba o.s.frv. en
enginn gerði neitt til að hjálpa til. Fólk vildi ekki vera að skipta sér af annarra manna
málum.
Konan sem bjó fyrir ofan okkur lamdi líka strákana sína og engin gerði neitt í því.
Þegar ég var 14 ára flúði mamma eftir eina árásina með litlu systur mína í
Kvennaathvarfið. Hún gat ekki tekið okkur, mig og stóru systur mína, með sama dag.
Man ekki af hverju. Við urðum eftir hjá pabba sem hélt vöku fyrir okkur alla nóttina og
krufði málið til mergjar. “Málið” var að mamma var svo geðveik og hafði nú örugglega
farið í Kvennaathvarfið til að ljúga alla fulla.
Ég fór í unglingavinnuna morguninn eftir í hálfgerðu losti en lét á engu bera.
Einhvernveginn, man ekki hvernig, fékk ég skilaboð um hvar mamma væri og átti að taka
strætó á Lækjartorg eftir vinnu og labba í kvennaathvarfið sem þá var á Öldugötu.
Þar vorum við í þrjá mánuði eða þar til mamma ákvað að flytja aftur heim til pabba því
hvert gat hún annars farið? Enginn gat svarað því. Hún var fjárhagslega háð honum með
ekkert bakland þó hún eigi stóra fjölskyldu og mörg systkini. Hún var dæmd af þeim.
Kerfið átti enga lausn. Svo við fórum aftur heim. Ég man hjartsláttinn, svitann, skjálftann
og örvæntinguna þegar við vorum á leiðinni heim aftur. Því ég vissi ekki hvort hann var
ennþá reiður.
Það var svo enginn léttir að hann var í góðu skapi þegar við komum því það gat breyst á
augabragði. Það var eiginlega verra að bíða eftir sprengjunni.
Þetta er örlítið brot af sögunni minni og hennar mömmu sem gerði allt sem hún gat til að
komast af í þessum aðstæðum með börnin sín.
Mér heyrist á öllu að konur nútímans hafi það ekki neitt betra í þessari baráttu við illsku.
Ég vona að það breytist með byltingunni.
31.
Áður en þú dæmir mig, stígðu í mín spor og lifðu lífinu sem ég hef lifað. Ef þú nærð eins
langt og ég þá kannski sérðu hversu sterk ég er.“
Þegar vinir mínir tala um æskuminningar og spyrja hvort ég muni ekki eftir hinu og
þessu frá því vorum í barnaskóla til dæmis, þá er ég alveg tóm. Ég man bara svona
slitrótta búta – og þá líklegast eitthvað sem hefur greipst extra djúpt af einhverjum
ástæðum. Ég er ennþá svona – man voða lítið frá því fyrir þann tíma að ég opnaði mitt
misnotkunarmál.
Ég man heldur ekki nákvæmlega hvað hann gerði við mig í fyrsta sinn eða hvað hann
sagði við mig til þess að ég segði ekki frá. Eina sem ég man var að ég kom inn í herbergi
þar sem hann lá og hann sagðist ætla að sýna mér eitthvað gott. Eftir þetta breyttist líf
mitt að eilífu.
Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég fór að reikna út hvað ég hafi verið gömul
þegar þetta gerðist og komst að því að ég hef verið um 4 ára – þessi misnotkun hélt
áfram þangað ég var 16 ára og fékk hugrekki til að stöðva þetta sjálf – ég skil ekki enn
hvernig ég gat það.
Ég er fædd og uppalin í sveit og bjó hjá móður minni, ömmu og afa.
Þessi maður sem misnotaði mig, er eiginmaður móðursystur minnar og bjuggu þau um
tíma á neðri hæðinni í húsinu þar sem ég bjó, ásamt 3 sonum sínum, á meðan verið væri
að klára að byggja húsið þeirra, sem var stutt frá.
Þessi maður var vel virtur kennari – bæði í barnaskóla og síðar í framhaldsskóla og um
tíma formaður barnaverndarnefndar hér í sveitinni.
Hann laumaðist yfirleitt inn í herbergið mitt snemma morguns, þegar ég var enn sofandi.
Mamma var þá að vinna og amma og afi í fjósinu að mjólka og vaknaði ég við að hann fór
undir sængina hjá mér og þuklaði mig að neðan og sleikti kynfæri mín. Á meðan runkaði
hann sér, en síðan þegar ég fór að eldast þá reyndi hann að setja liminn inn í mig og
smurði mig fyrst með sæðisdrepandi kremi. Sem betur fer þá fékk hann yfirleitt fljótt úr
honum, þannig að aldrei tókst honum að hafa samfarir við mig, en oft var mjótt á
mununum.
Síðan færði hann sig upp á skaftið og fór að taka mig afsíðis hér og þar, út í hlöðu, í
vélageymslunni og uppi á háalofti. Meira að segja í veiðiferð þar sem við vorum í tjaldi
ásamt fjölskyldu hans. Einnig datt honum í hug að gaman væri að láta hundinn sinn, sem
var stór svartur blendingur, sleikja mig og ríða aftanfrá. Ég man enn hvað ég grét mikið á
meðan og að hann stóð hlæjandi yfir okkur. Ég reyndi eins og ég gat að passa að vera
aldrei ein með honum en tókst það því miður ekki alltaf.
Til þess að komast frá þessu þá hafði ég þann vana að þykjast vera sofandi eða loka
augunum og hugsa um eitthvað annað. Það var eins og ég færi úr líkamanum og horfði á
sjálfa mig. Þessi varnaraðferð barna er að mér skilst ein ástæðan fyrir þessu minnistapi
mínu.
Síðan talaði ég við manninn eins og ekkert hefði skeð, þegar ég hitti hann seinna um
daginn eða yfirleitt. Þannig gekk þetta í fjölda ára og vandist ég að setja upp grímu,
þannig að enginn vissi hvernig mér leið í alvörunni.
Ég fór að heiman mjög snemma, kynntist manni 17 ára, gifti mig þegar ég var 18 ára og
var búin að eignast 3 börn þegar ég var 25 ára. Maðurinn minn var 5 árum eldri og má
segja að hann hafi alið mig upp að vissu leiti. Ég var mjög óörugg og opnaði varla
munninn í fjölmenni og hafði aldrei skoðun á neinu. Uppúr þrítugu var ég orðin mjög
þunglynd, ég var heimavinnandi og þegar börnin fóru í skólann á morgnana þá skreið ég
aftur upp í rúm og dragnaðist svo á fætur stuttu áður en þau komu aftur heim. Ég vissi að
vísu ekki þá að ég væri þunglynd á þessum tíma – það var ekki fyrr en löngu seinna
þegar ég fór í Stígamót að ég áttaði mig á þessu.
En mér leið alltaf verr og verr andlega og loksins kom að því að ég brotnaði algjörlega
niður og sagði manninum mínum frá öllu. Hann sagðist ætla að standa með mér í einu og
öllu og komst ég fljótlega í einkatíma hjá Stigamótum og síðan í framhaldi í tvö
sjálfshjálparhópa.
Þessi vinna hjá Stígamótum breytti mér í aðra manneskju, líklega nær þeirri manneskju
sem ég átti að verða. En um leið varð hún til þess að hjónabandið molnaði.
Maðurinn minn fyrrverandi er einn af þeim sem vill ekki rugga bátnum og tók hann það
að sér að tala við og tala um fyrir manninum sem misnotaði mig, í stað þess að berja
hann í klessu – eins og ég hefði viljað. Og í samráði við hann var ekkert gert annað en að
ákveðnir aðilar innan fjölskyldunnar voru látnir vita hvað gerðist. Ekkert breyttist –
konan hans bjó áfram með honum og stórfjölskyldan hafði samband við hann eins og
vanalega og ætlast var til að við sætum saman í veislum. Sonur hans yngsti sem er
sálfræðingur hefur talað við hann og segir mér að hann sé alveg siðblindur, hann skilur
ekkert í því að hann hafi gert eitthvað rangt. Hann skrifaði mér meira að segja bréf, löngu
eftir að þetta komst upp og þar sagðist hann aldrei hafa ætlað að meiða mig – hann hefði
haldið að mér þætti þetta bara gott eins og honum!!
Síðan þegar ég var búin að vera í tveimur hópum hjá Stígamótum, þá átti allt bara að
vera komið í lag og ég bara að verða aftur sama manneskjan og áður fyrir manninum
mínum, sem var náttúrulega ekki hægt.
Við skildum haustið 1999 og mánuði síðan flutti ég til Englands. Ég sé eftirá að ég var að
flýja og var engan vegin búin að klára að vinna í sjálfri mér og því var greiður
aðgangur……
Rúmum mánuði eftir að ég kom til Englands, hitti ég manninn sem átti eftir að verða
sambýlismaður minn í rúm 16 ár. Hann var Englendingur og allt sem fyrrverandi
maðurinn minn var ekki – hár, dökkhærður með sítt hár og tattú. Hann varð líka
SJÚKLEGA ástfanginn af mér fljótlega og var ekkert feiminn við að tjá ást sína og segja
mér hvað ég væri æðisleg. Við vorum bæði ný í þessum bæ og hvorugt að vinna. Við
eyddum því miklum tíma saman og fannst mér allt við hann vera ótrúlega spennandi og
öðruvísi.
Við fórum að búa saman rúmum mánuði eftir að við hittumst og í fyrstu var allt æðislegt.
Ég fékk síðan vinnu og man ég hvað mér fannst frábært að koma heim úr vinnunni og
hann var búinn að elda eða búa til eitthvað girnilegt fyrir mig. Við töluðum mikið saman
og hann vildi vita allt um mig og hvað mér fyndist um alla hluti. Ég hafði aldrei verið með
neinum sem mér fannst í geta sagt allt og talað um allt við, Mér fannst ég vera svo
ótrúlega heppin.
Líkamlega ofbeldið var ekki mikið til að byrja með en hið andlega var miklu verra. Hann
gerði mikið úr því að hann væri með brjálað skap og að hann gæti lítið gert í því, pabbi
hans hefði verið svona líka. Hann átti svo bágt – og mamma hans sagði að hún gæti nú
dáið róleg þar sem hann væri búinn að hitta alvöru konu (semsagt mig). Ég ætlaði sko að
standa mig í því og gera mitt besta til að standast þær kröfur. Hann var mjög óöruggur
með sjálfan sig og fljótlega fékk hann það á heilann að ég væri að halda framhjá honum –
hann fór í gengum tölvupóstana mína og símann minn aftur og aftur, með reglulegu
millibili í gegnum árin. Hann fylltist reglulega reiðiköstum sem höfðu enga ástæðu og
öskraði og grýtti hlutum út um allt, stundum lentu þeir í mér, stundum ekki. Hann drakk
mjög mikið og var háður kannabis, en hans afsökun var að allir gerðu þetta í Englandi.
Ég hef ekki tölu á hversu oft hann lagði hendur á mig eða niðurlægði mig á einn eða
annan hátt þau ár sem við bjuggum saman og það er með þetta eins og misnotkunina
fyrr á árum – það sem hann gerði mér var fljótlega sópað undir teppið og ekki minnst á
það aftur – og ég setti enn og aftur upp grímuna.
Ég var að reyna að rifja þetta upp með sálfræðingi eftir að ég komst úr sambandinu, en
áttaði mig þá á að ég hafði gleymt fjölmörgum skiptum.
Ég var mjög einangruð, vann langt í burtu frá heimilinu og þekkti engann sem bjó í
nágrenni við mig. Ég reyndi að kæra hann nokkrum sinnum en hann var kominn heim
eftir hálftíma og hló framan í mig og sagði, svona gera konur ekki hérna í Englandi. Hann
var líka alltaf voða kammó við lögguna, þannig að þeir horfðu á mig eins og ég væri
einhver fáviti að kæra þennan indælis mann.
Það versta sem ég lenti í úti var þegar hann var blindfullur og fór að rífast við mig út að
einhverju sem ég man ekki lengur. Ég reiddist líka og reyndi í fyrsta sinn að taka á móti,
en það varð til þess að hann skallaði mig og nefbraut mig, þannig að blóðið fossaði um
allt. Við það rann af honum snarlega, en í stað þess að hjálpa mér, þá fór hann niður í
stiga og þóttist ætla að hengja sig og ég náttúrulega fór og „bjargaði“ honum. Ég
skammaðist mín svo mikið að láta hann gera mér þetta að ég laug að vinnunni og
börnunum mínum, sagði vinnunni að ég hefði dottið á skautum og vann heima í nokkurn
tíma. Ég fór aldrei til læknis en er enn með ör á nefinu síðan þetta gerðis og fór í aðgerð
fyrir nokkrum árum síðan til þess að laga nefgöngin.
Mér tókst að fá hann til að samþykkja að flytja til Íslands árið 2014 – eftir ansi
reyfarakennda atburð, sem hjálpuðu þessari ákvörðun. Við keyptum hús, hann fékk
vinnu og í fyrstu var allt tíðindalaust.
En síðan fór allt á verri veginn aftur og endaði með því að hann reyndi að drepa mig þar
sem ég lá í rúminu, sunnudaginn 25. september 2016.
Við vorum með eina stóra sæng og eftir að hafa beðið og vonað að hann væri sofnaður,
þá gerði ég þann hræðilega hlut að reyna að ná smá af sænginni til mín þar sem mér var
kalt. Við það rauk hann upp, sló bylmingshöggi í öxlina á mér og öskraði af hverju ég
væri að vekja hann. Mér brá svo að ég sparkaði til hans, en þá greip hann hurðargereft
sem var laust við enda rúmsins og þrusaði því yfir höfuðið á mér. Sem betur fer náði ég
að setja hægri höndina fyrir andlitið, en höggið var svo fast að ég hélt að ég hefði
handleggsbrotnað. Ég öskraði af öllum lífsins kröftum að hann hefði handleggsbrotið
mig og sem betur fer rauk hann fram. Ég sat smá stund alveg dofin og hugsað hvað ég
gæti gert – þá kemur hann aftur inn í herbergið með fulla fötu af vatni og hellir yfir mig
og rúmið, dregur mig síðan á hárinu og ég renn og dett á gólfið. Hann rýkur aftur fram,
en núna er ég alveg í panikki og held að þetta verði mitt síðasta. Ég var ekki í neinum
fötum en náði að fara í mussu og í opna skó og sem betur fer hafði hann skilið lyklana af
sjálfskipta bílnum sínum á náttborðinu, þar sem ég hefði ekki getað keyrt beinskiptan bíl
með hendina svona.. Ég var líka sem betur fer með símann minn. Ég næ að komast úr
svefnherberginu út á pall og þaðan út í garð og að bílnum, sem fór strax í gang. Hann var
þá farinn að elta mig og hrópa á mig. Ég kemst út á götu og sé lögreglu bíl fyrir framan
mig og reyni allt sem ég get til að blikka hann og flauta. Ég næ svo að hringja í 112 og þá
er hann kominn á eftir mér á hinum bílnum og reynir að stoppa mig en sem betur fer
snýr lögreglubíllinn við og handtekur hann á staðnum.
Þetta er ekki öll sagan – en hann er sem betur fer kominn út úr lífi mínu núna, en það
hefur verið erftitt og tekið mikið á, en með hjálp móður minnar og barnanna minna þá
tókst þetta.
Hann var dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir morðtilraun og hefur
nú þegar brotið skilorðið – þannig að hann verður handtekinn ef hann reynir að koma
aftur til landsins.
32.
Hann var og er eiginmaður móðursystur minnar. Ég var 14 ára og bjó inná heimili þeirra
tímabundið eftir að hafa flutt ári á undan foreldrum mínum frá Vestfjörðum. Það byrjaði
„saklaust“ þar sem hann greip um brjóstin á mér í „fíflaskap“ eða strauk mér utanklæða
þegar ég sat við hliðina á honum í sófanum. Frænka mín vissi ekkert, eða svo sagði hún.
Einn daginn gekk hann lengra og strauk mér innanklæða, bæði á brjóstum og kynfærum.
Ég fraus bara, gat ekkert sagt.
Eftir þetta fóru samskipti versnandi og hann bað hina móðursystur mína og manninn
hennar, sem bjuggu í sama bæ, að hýsa mig.
Tæpu ári seinna komst þetta upp. Hann sagði sjálfur frá þessu og kenndi mér um. Sagði
að ég hefði leitað eftir þessu og hann hefði látið eftir. Við fjölskyldan vorum og erum
kristin og það átti bara að sjá um þetta innan fjölskyldunnar. Það var haldin fundur með
honum, báðum frænkum mínum, manni hinnar frænku minnar, prestinum í kirkjunni
okkar og konunni hans. Þar sagði hann það sem hann gerði og ég sagði mína hlið. Eftir að
hafa rætt saman talaði hann og frænka mín við presthjónin. Ég var svo kölluð til og hann
sagði fyrirgefðu við mig og með alla þessa trúuðu einstaklinga í kringum mig og ekki
vitandi betur þá fyrirgaf ég honum. Svo sá ég eftir því allt mitt líf. Ég neyddist til að vera í
samskiptum við hann í mörg ár eftir þetta. Hann var eftir allt giftur frænku minni og ég
vildi halda samskiptum við hana.
Árin liðu og ég reyndi að gleyma. Ég eignaðist fimm börn en meðgöngu og
fæðingarþunglyndið stigmagnaðist og ég var mjög illa haldin þegar skellurinn kom.
Fósturdóttir hans hafði samband við mig. Ég vissi um leið af hverju hún hafði samband.
Áhyggjur mínar um að hann hefði snert hana líka voru á rökum reistar.
Ég brotnaði niður og fæðingarsturlun tók völdin og eftir að hafa reynt að berjast við það í
tvær vikur missti ég öll völd og fór í algjört blackout. Þegar ég rankaði við mér var ég að
reyna að kæfa þá 6 mánaða son minn með kodda. Hann öskraði og gargaði og ég reif af
honum koddann og gat ekkert annað en haldið honum að mér og sagt fyrirgefðu. Hann
lifði þessa martröð af sem betur fer en ég var í molum. Daginn eftir skráði ég mig inná
geðdeild og var þar í mánuð. Mér leið hræðilega en byrjaði loksins að standa með sjálfri
mér. Ég bað foreldra mína að bjóða þeim aldrei aftur gistingu þegar þau kæmu í
heimsókn og sagði frænku minni að ég vildi aldrei sjá hann aftur. Loksins opnaðist
flóðgáttin og tárin og tilfinningarnar sem ég hafði falið í 17 ár fengu að brjótast út.
33.
Í mínu sambandi kom iðulega fyrir að fyrrverandi maki minn kvartaði undan áhugaleysi
mínu þegar kom að kynlífi, sú athugasemd kom alls ekki úr lausu lofti þar sem
heimilislífið einkenndist af miklu andlegu ofbeldi, sem markaði meðal annars þau áhrif
að mig langaði ekki að stunda kynlíf með honum. En eins og svo margar konur í minni
stöðu hafa metið af tvennu illu, gat maður annað hvort, aukið það álag sem var á
heimilinu, eða gefa eftir til reyna að stuðla að einhverjum tímabundum friði. Þetta kynlíf
einkenndist oftast af ákveðinni hörku, sem ég reyndar sá ég ekki nógu vel fyrr enn ég var
komin út úr aðstæðunum og upplifði kynlíf sem einkenndist af miklu meiri virðingu og
mýkt.
Það var ein tegund jólagjafa sem fyrrverandi maki minn var farinn að taka upp á að gefa
mér. Þessar gjafir voru oftast undirfatnaður sem hann valdi út frá sínum hugmyndum, og
að kvöldi aðfangadags, eftir að vera búin að vera á nálum yfir því að samskipti hans við
börnin mín væru í lagi, og eftir að vera búin að horfa á börnin mín eins og hengd upp á
þráð í kringum hann, því aðfangadagskvöld var það kvöld sem þau voru í lengstu
samfelldum samskiptunum við hann, og allir voru orðnir örmagna á að „haga sér rétt“ til
að koma í veg fyrir uppþot, þá var einn liður eftir sem sneri að mér.
Þetta var síðasti pakkinn undir trénu, ég var fyrir löngu búin að sjá hann og þar sem
hann var ekki opnaður í návist annarra vissi ég nokkurn veginn hvað hann innihélt. Og
ég vissi að ég yrði að setja mig í ákveðnar stellingar þegar ég opnaði hann, ég átti fyrir
það fyrsta að vera afskaplega ánægð með að hann hefði valið þetta fyrir mig, mjög upp
með mér að honum fyndist ég vera nógu sexí til að geta klæðst slíkum fatnaði, svo átti ég
líka að vera ofsalega spennt og að sjálfsögðu 100% til í þetta, því ef ég var það ekki, ef ég
sýndi minnst viðbrögð um að þetta væri ekki nákvæmlega það sem ég vildi líka, þá
kallaði það fram sturlað ástand „það er aldrei hægt að gera þér til hæfis“ „maður reynir
allt“ „hvað er að þér?“ „það er óeðlilegt að þú skulir ekki hafa áhuga á kynlífi“… og þetta
var byrjunin, svo tóku við þagnir, hávaði, augnaráðið, og svo almennar beinar og óbeinar
hótanir sem ég vissi að myndi bitna á börnunum mínum. Í heimilisofbeldisaðstæðum þá
gefa konur eftir, þær gera ótrúlegustu hluti til að reyna að halda frið, en þetta er brot á
þér sem manneskju, og sem kynveru, og þetta brýtur þig niður.
Ég skrifa þetta til að láta vita, konur þurfa ekki að þola þetta, þetta er ein birtingarmynd
heimilisofbeldis. Munstrið gæti verið mismunandi en í lokin þá er staðan sú að þetta er
þvingun til kynlífs og þess vegna heitir þetta kynferðislegt ofbeldi.
34.
Við leiddumst inn á Sólon, ég 17 og hann 18. Sætur var hann utanfrá, utanfrá endurtek
ég, svona „Ken sætur“ – flestum þótti hann það allavega en einhvernveginn var ég bara
ekki viss. Eitt deit hlyti nú samt að vera í lagi, hann þrýsti svo mikið á það. Mér leist ekki
á það svo ég ætlaði mér aldrei að „byrja með honum“. Á öðru deiti svarar hann í símann
sinn: já ég er í bíói með kærustunni minni… of seint í rassinn gripið… þarna er ég orðin
kærasta í fyrsta (!) sinn, óspurð og það er byrjun á ferli sem tók 2 ár…: helvíti löng 2 ár.
Alltof löng ár.
Árið áður hafði ég unnið í að byggja mig upp af öðrum ástæðum, öll vinnan var kramin
eins og fluga við vegg.
Að mestu leyti sætti ég andlegu og kynferðislegu ofbeldi en líkamlega ofbeldið lá ekki
langt undan þegar að veggurinn bognaði við hlið höfuðsins undan þunga hnefans sem
lenti á honum ca 2 cm frá höfðinu mínu.
Ég var eign hans. Svo einfalt var það. Hvernig ég klæddi mig, málaði mig, ef ég málaði
mig og hvenær, hvað ég sagði, við hvern ég talaði, hvernig ég talaði, hvar ég var… hvaða
vini ég hitti, eða hvaða vini ég ætti (ég missti alla vini, ég átti mig ekki sjálf lengur… hug
né líkama, báðu vildi hann stjórna, reyndar trompaðist hann ef að honum fannst sem
hann hefði ekki fulla stjórn á mér, að sjalfsögðu því ég átti auðvitað kærasta og átti að
hlýða. Það sem mer fannst magnað er að fjölskyldan hans tók öll þátt í þessu og þá
sérstaklega mamma hans sem gerði í að sannfæra soninn um að ég hlyti nú bara að vera
að halda framhjá… alltaf… því annars hefði ég að sjálfsögðu ekki fyrir því að vera fín
nokkurn tímann. (Fjölskyldan er í Krossinum og X líka)
Kynferðisofbeldið var engu skárra, hann var fyrsti kærastinn.
Mér var snemma talin trú um að það væri hreinlega partur af þessu að vera neydd til að
gera alla þessa hluti sem ég ekki vildi og var ekki tilbúin til. Og fyrr má nú vera að
maðurinn átti líka allskonar fáránlegar fantasíur…. hver vill láta merkja sig eins og
hundar gera? Ég spyr, að láta pissa á sig og inní sig… 17 ára…. þetta ásamt svo ótal-
ótalmörgu öðru. Niðurlægingin var svo mikil að mér datt ekki í hug að ég myndi nokkurn
tímann vera tilbúin til að stíga upp og tala um það, enda ekki skrýtið… það fylgir því
skrýtin tilfinning að viðurkenna að maður hafi „leyft“ slíkt ofbeldi á sér , gegn sínum
vilja, hvernig útskýrir maður það?
En ég get sagt að öll mín mörk voru algerlega hundsuð. Ég varð tilraunadýr
myrkraverkra brenglaðs huga í kjallaraholu í Breiðholti og ég er ekki enn tilbúin til að
tala þó ég vilji. Þar að auki er ég afkomandi kynslóðar þar sem þöggun er allsráðandi og
ekkert má heita sínu nafni.
Þess vegna fer ég enn hér nafnlaust þó mér þyki það sjálfri glatað og ég vildi að ég væri
sterkari.
En ég veit að þetta (og allt hitt sem ekki kemur fram hér) skilgreinir mig ekki sem
manneskju. En það er vinna og eitthvað sem ég þarf að mata ofan í sjálfa mig á hverjum
einasta degi.
En til að klára söguna:
Ég var svo „heppin“ að ein tæknin sem maðurinn notaði í andlega ofbeldinu var að
„þykjustuhætta“ með mér í hvert sinn sem hann var óánægður með eitthvað… loksins
þegar ég fékk kjarkinn þá greip ég tækifærið þegar hann þykjustuhætti með mér og lét
mig hverfa fyrir fullt og allt. Það var ekki auðvelt en það tókst. Það var byrjunin á frelsinu
þó ég eigi enn smá spöl eftir 14 árum síðar, en ég er þó nær.
35.
Ein saga af mörgum um ofbeldið sem ég hef verið beitt í fjölskyldunni minni. Tek það
fram að ég er lang yngst í frekar stórum systkinahóp. Sá yngsti liggur yfirleitt best við
höggi þegar ofbeldisfólk þarf að finna einhvern til að níðast á. Foreldrar mínir voru að
fagna stórafmælum og það var ákveðið að slá saman í helgarferð til útlanda fyrir þau í
afmælisgjöf. Þegar hugmyndin var borin upp var talað um að elsta systkini mitt og maki
þess myndu fara með þeim. Ég borgaði minn skerf í gjöfinni og fannst þetta bara fín
hugmynd. Svo gerðist það á einhverjum tímapunkti að ég kemst óvart að því að systkini
mín eru öll að fara með foreldrum mínum út án þess að mér hafi verið boðið að slást í
förina. Ég nefni það við elsta systkini mitt sem hafði verið að sjá um að kaupa miðana, að
ég vildi koma með. Frá því fékk ég engin skýr viðbrögð, það bara einhvern veginn
hummaði fram af sér að svara og hunsaði það sem ég sagði. Þá hringdi ég í systur mína
sem ég hélt að ég ætti trúnaðarsamband við en hún svaraði hvöss þessu: “Hefur þú
eitthvað efni á því!?” Þar með var það útrætt frá hennar bæjardyrum. Sem sagt ég var
ekki velkomin með. Í þessa ferð fóru foreldrar mínir og öll systkini mín og makar þeirra
og ég borgaði part af ferðakostnaði foreldra minna. Sagan er ekki búin. Svo koma þessir
ættingjar mínir heim eftir reisuna og mér var boðið í kvöldmat hjá bróður mínum ásamt
öllum hinum. Þegar upp var staðið virtist það heimboð aðallega hugsað sem vettvangur
til að sýna mér ljósmyndir úr ferðinni þeirra og segja mér hvað það hafði verið gaman
hjá þeim svo ég vissi örugglega af hverju ég hafði misst. Ég var miður mín, leið og sár
með mikla höfnunarkennd. Mig langaði ekki að sýna þeim hvernig mér leið svo ég fór inn
á baðherbergi og reyndi að stramma mig af. Þurrka tárin og herða mig upp. Þegar ég
kom út af baðherberginu beið einn bróðir minn fyrir utan dyrnar og hreytti í mig: “Er
ekki allt í lagi með þig?” Ég bað hann um að spyrja mig ekki af því og svo fór ég að gráta.
Þá veðraðist hann allur upp og sagði: “Þú ert ekki í lagi, þú hefur alltaf verið svo
taugaveikluð að þú ættir að vera á geðlyfjum. Þú umgengst tóma aumingja og ættir að
hætta því. Ég skal finna fyrir þig lækni sem getur gefið þér lyf.” Ég fór heim eftir þessa
kvöldstund með “fjölskyldunni minni” niðurbrotin. Það eru um tuttugu ár síðan þetta
gerðist. Meðan ég skrifa þetta endurupplifi ég sársaukann sem þessir atburðir orsökuðu.
36.
Ég hefði aldrei haldið því fram að ég væri í ofbeldissambandi.
Jafnvel þótt maðurinn minn segði mér reglulega að ég væri svo erfið í skapinu að það
væri ekki á nokkurn mann leggjandi að búa með mér.
Ég hefði aldrei haldið því fram að ég væri í ofbeldissambandi.
Jafnvel þótt maðurinn minn fylgdist nákvæmlega með hverri einustu krónu sem ég
eyddi. Vaktaði bankareikninginn okkar til að athuga hvort ég hefði keypt kaffibolla á
kaffihúsi með vinkonu. Hefði auga fyrir hverri einustu nýrri spjör – en bara til að
skammast yfir því hvað hún hefði kostað. Tæki nokkurra daga fýlukast í hverjum mánuði
þegar kreditkortareikningurinn kom inn um lúguna. Skammaði mig fyrir að eyða miklu
meira en hann, þótt það væri yfirleitt ég sem sá um öll matarinnkaup og að kaupa það
sem börnin vantaði en ekki hann.
Ég hefði aldrei haldið því fram að ég væri í ofbeldissambandi.
Jafnvel þótt ég gæti oft ekki treyst því að maðurinn minn væri til staðar fyrir mig
tilfinningalega þegar ég þurfti á ást og stuðningi að halda.
Ég hefði aldrei haldið því fram að ég væri í ofbeldissambandi.
Jafnvel þótt maðurinn sem ég elskaði segði mér reglulega að ég væri með ómerkilegt
háskólapróf og allt of lélegar tekjur. Að ég væri að kasta gáfum mínum og hæfileikum á
glæ með því að vinna við það sem ég hefði menntað mig til. Þegar ég var heima með þrjú
lítil börn tilkynnti hann mér að jafnaldra mín væri orðin forstjóri stórs fyrirtækis sem
naut mikillar velgengni. Og hvað væri ég að gera? EKKERT merkilegt. Hann suðaði
annars stöðugt um að við eignuðumst fleiri börn.
Ég hefði aldrei haldið því fram að ég væri í ofbeldissambandi.
Jafnvel þótt maðurinn minn öskraði á mig að ég væri helvítis öryrki þegar ég lá fárveik
heima úr fylgikvillum meðgöngu og gat ekki sinnt hinum börnunum svo hann þurfti að
vera heima í staðinn fyrir að fara á skíði með vinnufélögunum.
Ég hefði aldrei haldið því fram að ég væri í ofbeldissambandi.
Jafnvel þótt maðurinn minn hefði einu sinni sturlast úr afbrýðisemi þegar ég gisti einu
sinni heima hjá vinkonu minni þegar vinkvennahópurinn var allur staddur á landinu í
fyrsta skipti í mörg ár. Hann hringdi eldsnemma, vakti okkur allar og skipaði mér að
koma heim undireins. Það hefði nefnilega flætt svolítið vatn inn í forstofuna í
rigningunni um nóttina.
Ég hefði aldrei haldið því fram að ég væri í ofbeldissambandi.
Fyrr en nóttina sem hann lagði hendur á mig í fyrsta sinn.
Ofbeldið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti eftir tuttugu ára „ofbeldislausa“ sambúð.
Þegar ég var komin yfir stærsta áfallið, fór ég í viðtal í Kvennaathvarfinu og til
sálfræðings þar sem ég fyllti út heimilisofbeldiskönnun. Niðurstaðan á báðum stöðum
var sú að ég byggi við mjög alvarlegt heimilisofbeldi. Sálfræðingurinn sýndi mér að þótt
líkamlega ofbeldistilfellið væri dregið frá þá næði ég samt leikandi upp í flokkinn
alvarlegt heimilisofbeldi. Það var annað stórt áfall.
Öll þessi ár hafði ég trúað því að að þótt maðurinn minn væri stundum andstyggilegur
við mig, þá hefði ég nógu sterk bein til að þola svolítið mótlæti við og við. Því ekkert
hjónaband væri án átaka. Svo var hann líka ágætur á milli. Stundum mjög góður. Sumir
eiginmenn voru að halda framhjá. Ekki minn. Sumir stöðugt út um allar trissur í
einhverju strákastandi í staðinn fyrir að vera heima með fjölskyldunni. Ekki minn.
Sjaldan veldur einn þá tveir deila og allt það, eins og ég fékk allt of oft að heyra ef ég
trúði einhverjum fyrir erfiðleikunum í hjónabandinu – meira að segja úr munni
fjölskylduráðgjafa sem ég fór til og sem vissi að hann hefði lagt hendur á mig. En þá var
sem betur fer farið að renna upp fyrir mér að sannleikurinn var aðeins annar.
Það erfiðasta en jafnframt besta sem ég hef gert um ævina var að fara frá manninum
mínum. Ættingjar, gott fólk, reyndu að fá mig ofan af því að skilja þótt þeir vissu um
ofbeldið. Var það nokkuð alveg svo alvarlegt að það væri réttlætanlegt að sundra
fjölskyldunni? Árin á eftir kynntist ég sjálfri mér upp á nýtt og komst að því að ég er
hvorki sá skaphundur né heldur sá bjálfi í fjármálum sem búið var að telja mér trú um að
ég væri meirihluta ævinnar. Ég hugsa oft um það að það ætti að vera bannað að fara í
langtímasamband þegar maður er eins ungur og ég var þegar ég kynntist manninum
mínum fyrrverandi. Húrra fyrir átakinu Sjúk ást!
Ég lendi reglulega í því að þurfa hálfpartinn að réttlæta sjálfa mig þegar ég segi fólki að
ég hafi búið með ofbeldismanni svona lengi. Hvers vegna var ég ekki löngu farin? Það
held ég að enginn skilji sem ekki hefur verið í aðstæðunum sjálfur. Þetta flókna samspil
af ást, skuldbindingu, lúmsku niðurbroti á sjálfsmynd, góðu stundunum á milli sem geta
varað lengi og maður nýtur svo margfalt af því að það var búið að vera svo erfitt og
andstyggilegt. Verður háður þeim, meistari í að njóta góðu tímabilanna í botn og gleyma
öllu því vonda. Já, hvenær er ástandið orðið nógu slæmt til að réttlæta það að sundra
fjölskyldu? Hjá mér fylltist mælirinn ekki fyrr en við fyrsta högg
37.
Í febrúar 2015 ákvað ég að gera upp áralangt opinbert leyndarmál um kynferðislegt
ofbeldi sem ég hafði orðið fyrir í heimabæ mínum í æsku og á unglingsárum.
Ástæðan fyrir tímasetningunni var einföld, það var að koma að fermingarafmæli og ég
vildi ekki forðast viðfangsefnið lengur heldur segja bara af hverju ég vildi ekki koma.
Vettvangurinn var lokuð Facebook-grúppa sem aðeins um 50 manns úr mínum árgangi
höfðu aðgang að. Ég settist niður og samdi lítinn póst sem ég reyndi að hafa þannig að
þeir sem ættu að skammast sín myndu kannski, vonandi gera það, hinir sem hefðu heyrt
kjaftasögur og dæmt mig út frá þeim fengju mína hlið og þriðji hópurinn sem ég hafði
treyst fyrir mínum raunum væru lausir undan loforðinu um að segja ekkert. Í póstinum
voru engin nöfn fyrir utan eitt, nafn gerandans, þeim sem kom boltanum af stað. Nafn
gerandans varð að vera þar að mínu mati svo þeir gætu ekki skýlt sér bak við hann. En
gerandinn tilheyrði ekki grúppunni enda eldri. Eftir að hafa pósta þessu, sagði ég mig úr
grúppunni enda málinu lokið að minni hálfu.
Síðan kemur Beautytips-byltingin og í kjölfar hennar kemur ákveðin lögfræðingur í
fjölmiðlum og hvetur menn sem telja sig hafa verið ásakaða um kynferðislegt ofbeldi á
Facebook að hafa samband við sig. Frá þeirri frétt líða nokkrir daga og þá fæ ég bréf frá
þessum lögfræðingi þar sem gerandinn minn var orðin umbjóðandi hans. Gerandinn var
að krefja mig um opinbera afsökunarbeiðni og rétt undir hálfa milljón sem ég átti að
greiða næsta dag. Annars ætlaði hann að stefna mér. Maðurinn sem beitti mig
kynferðislegu ofbeldi í 7 ár og veitti fjöldann allan af vinum sínum aðgang af líkama
mínum ætlaði í mál við mig.
Eini skynsamlegi hluturinn var að fá líka lögfræðing. Ég var svo heppin að finna
yndislegan lögfræðing, því hvernig sannar þú 25 ára gamalt kynferðisafbrotamál. Það er
nógu erfitt að sanna þau sem eru að gerast í dag, en með því að gefast ekki upp tókst
henni að finna samtímagögn sem ekki var búið að eyða.
Síðan kemur stefnan eftir endalausar hótanir um að stefna væri á leiðinni. Í stefnunni
játar gerandinn á sig kynferðislegt samband við mig þegar ég er á aldrinum 9-14 ára.
Engin undir 14 ára getur átt í kynferðislegu sambandi, barn getur ekki gefið samþykki.
Málinu er lokið hélt ég þá. Dómarinn hendir því og honum út úr dómsalnum. Nei þannig
virkar það ekki. Eftir 10 fyrirtökur og þegar lögmaður gerandans er næstum búin að
tefja málið í 2 ár upp á dag er mál nr. E-669 tekið fyrir í Héraðsdóm Reykjavíkur.
Þar stendur minn lögfræðingur tilbúin, búin að vinna rannsóknarvinnu sem vanalega
teymi hjá Ríkissaksóknara og lögreglunni gera, leggur fram nokkur hundruði blaðsíðna
af gögnum til að VERJA mig og lögmaður gerandans leggur fram eitt skjal, stefnuna.
Rúmlega viku seinna sit ég þegar dómur er lesin upp yfir mér og heyri saklaus.
Lögmaður minn tekur utan um mig en lögmaður gerandans gengur framhjá og tilkynnir
að það sé bara hálfleikur.
Gerandinn hefur 90 daga til þess að áfrýja málinu til Hæstaréttar og þrátt fyrir
tilkynninguna þegar dómur féll nýtir hann alla dagana. Við Hæstarétt tekur við sama
leikritið. Gerandinn vill koma inn fleiri vitnum, við mætum í skýrslutöku, hans lögmaður
boðar ekki vitnin. Allt þetta er partur af því ofbeldi sem gerandinn og hans lögmaður er
löglegt að beita. Þeir geta leikið sér með tíma, peninga og sálarlíf einstaklinga þar á
meðal míns með það fyrir augum að brjóta mig eða í þeirri von að ég gefist upp. Eftir 4 ár
af stanslausum árásum, þurfa að rifja upp hryllilegt ofbeldi sem ég varð fyrir þá brotnaði
ég. Ég var komin á þann stað að líkaminn minn gafst bara upp. Núna er það búið að taka
mig 7 mánuði að finna einhvers konar jafnvægi aftur. En um leið kemur kallið frá
Hæstarétti, mál nr. 404 er komið á dagskrá. Hvernig það fer veit ég ekki.
En það sem ég veit er HVAÐ SVO? Hvað næst og ég tala um misnotkunina, um ofbeldið á
ég þá von á stefnu frá þessum lögfræðingi? Taka þá við önnur 5 ár af helvíti? Er þöggunin
ævilöng með stuðningi dómkerfisins og valdið ávallt í höndum ofbeldismanna?
38.
Stjúpfaðir minn brást trausti mínu þegar ég var unglingur og misnotaði mig
kynferðislega. Þetta byrjaði allt sakleysislega. Hann og mamma fóru að vera saman þegar
ég var enn á leikskólaaldri. Hann var aldrei vondur við mig en ég get ekki sagt að hann
hafi veitt mér mikla athygli fram að fermingu. Um það leyti fór hann að sýna mér meiri
áhuga. Við urðum vinir, meira að segja trúnaðarvinir. Ég hafði þörf fyrir að tjá mig og tala
um mín stelpu-, unglingamál og vandamál og hann var góður að hlusta og veita ráð. Ég
var glöð, forvitin og frekar opin manneskja svo við töluðum mjög náið um mín mál,
aðalega þó kynlífsreynslu mína sem ég var að ganga í gegnum smátt og smátt á
unglingsárunum. Á þeim tíma montaði ég mig við bekkjarsystur mína að að stjúpi minn
væri besti vinur minn.
Þegar ég var 15 ára fór ég á ball með þeim mömmu og fékk leyfi til að drekka áfengi með
þeim. Þegar heim kom fannst okkur þrem, mjög fyndið að ég myndi gista á milli þeirra
eins og litla barnið þeirra, ég vaknaði í faðmlögum við hann en mamma var farin úr
rúminu. Sennilega var það upphafið af mjög svo brengluðu sambandi milli okkar þriggja.
Ég flutti 16 ára að heiman en var dugleg að koma heim um helgar og oftar en ekki var
dreypt á áfengum drykkjum. Mamma sofnaði oft fljótlega og við stjúpi sátum eftir á
spjalli fram eftir.
Í eitt skiptið var ég komin upp í rúm, hann kom inn, lagðist hjá mér og spurði hvort hann
mætti sjá brjóstin á mér. Ég fraus, bjóst alls ekki við þessu og vissi ekki hvað ég ætti að
gera. Hann sagði mér að mamma væri ekki búin að sinna honum kynferðislega svo lengi
að honum langaði svo að sjá á mér brjóstin. Ég var frosin og sá mömmu mína fyrir mér
liggjandi í sínu rúmi í næsta herbergi og vonaði að hún myndi birtast í dyragættinni og
stoppa þetta. Hann hélt áfram að reyna að tala mig til. Hann var mjög rólegur en
biðjandi, eins og lítill hvolpur og þar sem ég lá fór ég að vorkenna honum. Á einhverjum
tímapunkti hvarlaði meira að segja að mér sú hugsun að sýna honum á mér brjóstin þar
sem hann ætti svo bágt. Það gerðist ekki og hann fór þegar ég sagði ekki neitt og færði
sængina lengra upp að hálsi. Annað skipti man ég efir að hann bað um að fá að taka
myndir af mér nakinni, ég hefði svo fallegan líkama. Ég neitaði en fannst ég ætti að leyfa
honum það þar sem honum langaði svo að taka af mér mynd.
Í enn eitt skiptið man ég eftir að hafa vaknað blaut og heit að neðan. Ég var æst en smá
stund að átta mig á aðstæðum. Hann lá við hliðina á mér með fingurnar á kynfærum
mínum. Ég fraus og þóttist vera sofandi, gat ekki hreyft mig. Eftir smá stund fór hann.
Með tímanum hafa komið upp fleiri atriði sem ég sé í dag að voru ekki eðlileg í
samskiptum okkar þriggja. Eftir öll skiptin blokkaði ég það sem hafði gerst og lét eins og
ekkert væri, hristi það bara af mér en það var eitthvað, alltaf og heimsóknum mínum um
helgar fækkaði. Um 21 árs aldur brast afneitunin og ég leitaði til Stígamóta og fékk
aðstoð við að vinna úr málunum. Ég sagði mömmu frá þessu en hún trúði mér ekki og í
kjölfarið fann ég kulda frá systkinum mínum. Ég frétti að hann hafi sagt þeim sína sögu af
málinu og þegar eitt systkini mitt hafði samband við mig nokkrum árum seinna og vildi
heyra mína hlið af málinu sagði hún sögur okkar svipaðar nema hann hafi sleppt öllu
þessu kynferðislega. Mamma trúði mér aldrei, þegar ég sagði henni frá þessu gaf hún
frekar í skyn að þetta hefði verið mér að kenna þar sem ég hefði verið hrifin af honum og
sóst mikið í hann. Ég hélt áfram að hafa samband við hana um einhvern tíma og svo hafði
ég það ekki í mér lengur, ég bara gat það ekki. Það var eitthvað svo rangt við að hún
skildi ekki hvað hafði gerst þó ég væri búin að segja henni það.
Ég hafði aldrei í mér að kæra eða segja fleirum frá þessu, bara nánustu vinum og fáum í
fjölskyldunni. Þó ég viti að þetta hafi ekki verið mér að kenna hefur alltaf fylgt mér viss
skömm yfir þessu og samkennd með mömmu og systkinum mínum að vera í þessari
aðstöðu… ef ég kærði eða segði frá.
Það var ekki fyrr en litla frænka mín var send um tíma til þeirra sem ég hótaði að kæra
hann, ég hafði samband við barnaverndanrefnd og sagði þeim frá því sem hafði gerst
með mig. Ég var spurð hvort ég hefði kært hann sem ég neitaði. Þá fannst mér ég vera
orðin kona út í bæ sem væri kannski rugluð bara… því frænka mín var send til þeirra og
fékk aldrei að njóta vafans. Ég gugnaði á að kæra þar sem ég fékk skilaboð frá mömmu í
gegnum þriðja aðila að ef ég myndi kæra manninn hennar myndi hún kæra manninn
minn fyrir að leita á frænku mína sem þá var 13 ára. Þó það hafi aldrei verið nein stoð
fyrir því gat ég ekki hugsað mér að draga manninn minn meira inn í þessi mál en þá var
komið.
Ég hef ekki séð mér fært að vera við fermingarveislur eða jarðarfarir náinna
fjölskyldumeðlima því ég hef ekki treyst mér að hitta þau. Skömmin og fyrirlitningin sem
ég hafði á sjálfri mér fyrir að hafa leyft þessu að gerast og segja svo frá var ólýsanleg og
yfirþyrmandi oft á tíðum. Ég upplifi óþægileg móment þegar fólk á förnum vegi sem veit
ekki hvernig í málunum liggur, spyr mig hvað sé að frétta af mömmu, því ég veit ekki
hvað ég á að segja. Ég hef einangraði mig frá fólki, ég á erfitt með að treysta fólki og
aldrei karlmönnum. Þó vinn ég stöðugt í því að sleppa tökunum.
Ég er í sambandi með góðum manni sem styður við bakið á mér, ég er glöð með mitt
brotna hjarta. Ég hef ógeð á stjúpa mínum og fyrirlít hann, ég mun aldrei geta fyrirgefið
honum að hafa brugðist trausti mínu og hafa tekið af mér það sem hann tók frá mér. Ég
hef gengið í gegnum mikla reiði gagnvart mömmu þótt í seinni tíð vorkenni ég henni að
vissu leyti. Ég skil ekki afneitun hennar og ég skil ekki aðstæður hennar að fullu. Ég er
sorgmædd yfir sambandsleysi við systkini mín og að geta ekki heimsótt æskustöðvar
mínar. Líf mitt er ekki heilt en ég hef reynt að standa með sjálfri mér eftir bestu getu og
sættast á hlutina eins og þeir hafa þróast og eru. Ég er sorgmædd yfir að börnin mín hafa
aldrei hitt ömmu sína, ég græt það að vissu leyti því hún er góð kona og hefði orðið þeim
góð amma. Hún lifir í skrýtnum heimi, heimi mannsins hennar sem hefur þau áhrif á
hana að hún trúir ekki sinni eigin dóttur. Börnin mín spyrja stundum um mömmu mína
en ég segi þeim að einu sinni hafi ég átt mömmu en eigi ekki lengur. Ég reyni að lifa í
núinu en um leið kvíði ég framtíðinni.
39.
1. Ofbeldi getur verið svo lúmskt og ofbeldi í fjölskyldum og samböndum er svo dulið,
tala nú ekki um þegar ofbeldið er andlegt, þá eru marblettirnir, skömmin, niðurbrotið og
djöfulskapurinn ekki sýnilegur þegar þú ferð út í búð eða innan um fólk. Ég hef orðið
fyrir líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi frá því ég man eftir mér. Það var bara í
eitt skipti sem ofbeldismanneskjan var ókunn og ekki tengd mér. Það var þegar 2
karlmenn tóku mig upp í bíl gegn vilja mínum, en ég var of drukkin til að geta veitt næga
mótspyrnu, þeir sögðu mér að ég þyrfti ekki að vera hrædd við þá því þeir væru úr
„björgunarsveitinni“ og hlógu (auðvitað voru þeir ekki í björgunarsveitinni). Mér var
nauðgað oft þá nótt og þeir skiptust á og buðu þeim þriðja, sem þó afþakkaði. Ég skreið
heim til mín næsta morgun.
Ofbeldi af einhverju tagi hefur staðið yfir í mínu lífi fram að tæplega fertugu – með
hléum, þá gerðist eitthvað innra með mér sem breytti öllu – Ég fékk ofnæmi fyrir ofbeldi
– í alvöru – ég þekki ofbeldi þegar ég sé það – ég finn það í viðbrögðum líkamans og hið
innra – ég kem mér úr skaðlegum aðstæðum – því ég á það ekki skilið – NEVER AND NO
MORE.
2. TW. Þegar ég var 6 ára bjó ég um tíma hjá móður minni og hennar sambýlismanni. Þau
voru bæði mjög veikir alkóhólistar. Móðir mín reyndi alltaf að gera sitt besta fyrir mig,
en af veikum mætti og enga aðstoð var að fá á þeim tíma nema helst að börnin væru
send í fóstur. Þetta var sumarið 1972. Sambýlismaður hennar var ofbeldismaður og ég
var mjög hrædd við hann. Ég var mjög öryggislaus og myrkfælin. Hafði verið í
Silungapolli, Dalbraut, hjá ættingjum og í fóstri og upplifað ýmislegt sem ekkert barn á
að upplifa. Af þessum sökum svaf ég upp í rúmi hjá þeim. Sambýlismaður mömmu lét
mig runka sér, ég man ekki hve oft. Hann tók litlu höndina mína og setti á liminn hélt
utan um höndina á mér og runkaði sér. Ég var svo hrædd að ég þorði ekki að anda,
þóttist vera sofandi. Þetta versnaði og hann fór að hálf leggjast ofan á mig og runka sér á
milli læranna á mér. Ég var bara lítið barn, ég þorði ekki að segja frá því ég vissi að þá
yrði ég send í burtu frá mömmu minni sem ég elskaði meira en allt annað. Svo kom
fyrsta taugaáfallið. Þegar hann barði mömmu í klessu fyrir framan mig þegar hún neitaði
að láta hann hafa síðasta peninginn í áfengi, það yrði að vera til matur fyrir barnið (mig).
Mamma hrópaði á mig að fara undir rúm. Þarna sem hún barðist fyrir lífi sínu reyndi hún
að forða mér. Undan rúminu sá ég allt. Hvernig hann hélt áfram að ganga í skrokk á
henni eftir að hún var orðin rænulaus, hann tók trékoll og mölbraut hann á andlitinu á
henni þannig að blóðið sprautaðist upp í loft. Hún þrí höfuðkúpubrotnaði og augað var
út á kinn. Ég hélt hún væri dáinn. Ég fór í eitthvað lost. Gat ekki hreyft mig, gat ekki talað.
Konan á hæðinni fyrir ofan hringdi á lögregluna og reyndi að ná mér undan rúminu en ég
var frosin föst, lömuð af skelfingu. Það var ekki fyrr en lögreglumaður skreið undir
rúmið og tók mig í fangið og talaði rólega við mig að það slaknaði á mér og ég gat grátið.
Mamma lifði af en jafnaði sig aldei til fulls og minn versti ótti rættist, ég var send í fóstur
og missti mikið sambandið við mömmu mína. Þessi maður var aldrei kærður og hlaut
enga refsingu sem mér er kunnugt um. Hann býr í næsta bæ við mig og ég hef mætt
honum í Bónus og skepnan kom í jarðaför móður minnar, ég lamaðist inni í mér. Takk
fyrir að lesa langlokuna mína.
3. TW. Ég eignaðist kærasta þegar ég fór í menntaskóla, var frekar saklaus, hafði aldrei
drukkið, reykt eða verið með strák, ég var hrein mey. Andlega ofbeldið byrjaði fljótt,
hann reyndi að stjórna mér á allan hátt, svo kom hitt. Í fyrsta sinn sem reyndum að hafa
kynmök, var ég mjög stressuð og hann mjög harðhentur, ég varð hrædd og vildi hætta
við. Ég bað hann að stoppa, hætta, sagði að hann meiddi mig – Hann varð reiður og sagði
það er of seint að hætta við núna og þrykkti í gegn. Sársaukinn var gríðarlegur, bæði
líkamlega og tilfinningalega. Þar sem upplýsingar voru af skornum skammti í þá daga
(1982) vissi ég ekki að mér hafði verið nauðgað, að ungi maðurinn sem ég treysti hafði
nauðgað mér. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég fór í Stígamót út af öðru máli að mér
hefði verið nauðgað. Ég hélt í barnaskap mínum að nauðgun væri bara þegar einhver
skuggalegur hettuklæddur ókunnur maður réðist á konur með hníf á lofti að það væri
nauðgun, svona eins og í bíó. Ég áttaði mig ekki á ofbeldinu því ég kom úr svo
skemmdum aðstæðum úr æsku.
Þessi sami kærasti var ekki búinn að beita mig nægu ofbeldi greinilega, því í partýi um
sumarið þá „leyfði“ hann besta vini sínum að „fá mig“ þetta voru samantekin ráð hjá
þeim og ég vissi ekki neitt. Vinurinn var sífellt að hella í glasið mitt og ég áttaði mig ekki
á hvað ég drakk mikið, enda ný farin að drekka. Svo af „góðmennsku sinni“ hjálpar hann
mér inn í herbergi þegar ég er að drepast áfengisdauða. Ég man næst að hann er að
reyna að ná af mér nærbuxunum og ég reyndi að streitast á móti af veikum mætti, enda
ofurölvi og gat ekki rönd við reist þar sem hann var mun sterkari en ég. Hann hélt mér
niðri og kom fram vilja sínum og ég grét allan tímann. Þegar hann var búinn stóð hann
upp og fór að hlægja, sagði: „að sjá þig liggjandi þarna, þú lítur næstum út eins og
strákur, þú er með svo lítil brjóst“ svo fór hann fram og skildi mig eftir í blóði mínu. Ég
reyndi að finna fötin mín, fann ekki skóna mína og klöngraðist heim til mín gangandi,
skríðandi á köflum því fæturnir sviku mig.
Þessi fyrsti kærasti minn varð síbrotamaður og á að baki dóma fyrir kynferðisbrot
gagnvart konum, m.a. þroskaskertri konu sem hann hélt fanginni og misnotaði
hrottalega. Í dag hefur hann fengið uppreist æru og gengur um eins og fínn maður –
afsakið á meðan ég æli! Hann hefur aldrei beðið mig afsökunar.
4. TW. Þegar ég var 6 ára var ég búin að veltast um „í kerfinu“ í ca 3-4 ár og endaði í
fóstri hjá ömmusystur minni. Hún var mjög veik á geði. Hún beitti mig andlegu,
líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Andlega ofbeldið var eiginlega verst, ég fékk títt að
heyra að ég væri einskis virði, sjaldan félli eplið langt frá eikinni, þú verður alveg eins og
pabbi þinn, þú verður alveg eins og mamma þín, það verður ekkert úr þér, ekki halda að
þú verðir neitt annað en aumingi, sjaldan kemur dúfa úr hrafnseggi o.s.frv. Alveg sama
hvað ég stóð mig vel í skólanum eða var stillt og hlýðin, það skipti engu máli, ofbeldið var
alltaf til staðar. Ég varð fljótt snillingur í að lesa umhverfi mitt. Ef ég óhlýðnaðist
einhverju eða ef ég slóraði á leið heim úr skólanum þá beið mín hörð líkamleg refsing.
Geðveiki hennar versnaði með tímanum, hún var með ofsóknaræði á háu stigi og ég ólst
upp við að ég mætti ekki segja frá, það væri allur heimurinn á móti okkur, og að ég yrði
þá bara aftur send á Silungapoll eða eitthvað þaðan af verra. Ég lærði að treysta engum –
það var eiginlega verst. Konan var svo illa haldin af trúarofstæki, en það var ein
birtingarmyndin af geðsýkinni að hún var rekin úr Vottum Jehóva – samt sendi hún mig
og eldri systur mína alltaf á samkomur – en enginn mátti heilsa okkur eða tala við okkur
af því að fósturmóðirin var brottræk. Skömmin fylgdi mér. Í skólanum var svo einelti út
af trúarbrögðunum og oft fékk ég að heyra; ég má ekki leika við þig, eða, ég má ekki fara
heim til þín. Einangrunin var alger. Fjölskyldan var löngu hætt að reyna að hafa
samskipti því hún var svo veik – ég skil vel að fólk hafi gefist upp. Kerfið gafst líka upp því
hún „var svo erfiður einstaklingur“ og hótaði barnaverndarnefnd hægri vinstri ef þeir
reyndu að hrófla við einhverju. Eitt sinn, það var í síðasta sinn sem barnaverndarnefnd
reyndi að ná mér af heimilinu, þá braust lögreglan inn og braut niður 2 hurðar, tók mig
og ég endaði á vistheimili barna á Dalbraut um tíma.
Kynferðisofbeldið fólst í því að hún vildi stundum rannsaka á mér kynfærin, og spurði
oft: „Hvern varstu að láta ríða þér núna“ Come on ég var 7 ára og vissi ekki hvað „ríða“
þýddi. Hún hengdi lök og teppi fyrir alla glugga meðan hún rannsakaði á mér kynfærin –
ég man skömmina. Einnig var hún að taka hendurnar á mér að setja inn á sig, kalla á mig
þegar hún var í baði og láta mig þvo á sér bakið. Þegar ég var 14 ára kýldi ég hana og
öskraði á hana, fékk eitthvað brake down, fékk nóg – aldrei aftur skyldi hún reyna svona
– og það stóð. Ég var bara brotið barn og átti engan að – Hvar var kerfið? Það hefur tekið
mig ótal sálfræðimeðferðir, sálgreiningu vikulega í 3 ár, 2 Stígamóta meðferðir, og
gríðarlega vinnu að vinna mig út úr öllu þessu ofbeldi, en í dag og um margra ára skeið,
hef ég verið sterk kona, og náð að verða aftur heil, ótrúlegt en satt, en það tók þrotlausa
vinnu og mikið af tárum. Ég tók þá ákvörðun um tvítugt, eftir að hafa farið í mína fyrstu
og einu áfengis meðferð að ég skyldi nota alla þessa skelfilegu reynslu til góðs, því ég
ætti val, ég gæti látið þetta eyðileggja mig, eða ég gæti notað þetta til að allavega skilið
annað fólk sem lent hefur í svipuðu og hjálpað öðrum – Ætlaði ég að láta þessa reynslu
eyðileggja líf mitt? NEI! Ég valdi hina leiðina og sjálfsvinnan hófst. Stundum finnst mér
eins og henni ljúki aldrei.
40.
– Fyrst kastaði hann í hana kertastjaka, hitti ekki en það kom dæld í vegginn við hliðina á
henni. Braut síma (marga), tölvu, glös. Kom fyrir njósnaforriti í tölvunni hennar. Fékk
yfirlit hjá símafyrirtækinu yfir alla símanotkun hennar. Hann hringir í yfirmann hennar,
kærastann hennar, vini, vinkonur, fjölskyldu, kærasta vinkvenna hennar. Alla – hann
hefur samband við alla sem honum dettur í hug að tengist henni til að segja þeim hversu
klikkuð og ógeðsleg hún er, að það sé í raun hún sem beiti ofbeldi. Hann hefur sagt svo
ljóta hluti við fólkið sem stendur henni næst að vinir hans og fjölskylda myndu aldrei
trúa því upp á hann. Hann hótar að birta af henni nektarmyndir og setja upp heimasíðu
með persónulegum upplýsingum um hana. Sendi póst upp í háskóla um að hún hefði
svindlað í lokaritgerð. Mætir upp í skóla til hennar eða vinnu, stundum með beinum
hótunum, stundum í þögulli ógn. Sótti hana með valdi og ofbeldi til vinkonu hennar því
hann hætti við að leyfa henni að fara út.
– Hann sótti skammbyssu inn í bílskúr, hlóð hana og rétti henni hana. Hún átti að skjóta
hann, frekar en að skilja við hann eins og hún vildi. Hún fraus og gerði ekkert,
hálflamaðist. Barnið var sofandi inni í herbergi.
– Hann réðst á hana. Hélt þéttingsfast um andlitið á henni, munn og háls. Reif í hárið á
henni. Hélt henni upp við vegginn. Skellti henni utan í hurðarkarminn, vörin sprakk og
það blæddi úr andlitinu á henni. Hann hélt henni blóðugri niðri í baðkarinu og kveikti á
heita vatninu, bara heita vatninu. Hún náði að flýja út um bakdyrnar og hringja á
lögreglu hjá nágrönnum. Barnið var sofandi inni í herbergi. Eftir að lögregla kom var
henni meinað að taka barnið með sér. Ofbeldismaðurinn var rólegur, sögðu lögreglan og
barnaverndarfulltrúinn, og barnið hafði ekki vaknað.
– Hann gaf í og sagðist ætla að keyra með þau útaf. Hún sæi barnið aldrei framar. Hann
sló hana flötum lófa, oft. Ýtti henni niður að gírstönginni og sló hana ef hún fór upp með
hausinn. Dró hana út úr bílnum, yfir bílstjóramegin, eftir götunni og út í móa. Tók upp
stóran stein og sagði að nú væri þessu lokið. Hún náði að hlaupa í burtu en hann náði
henni fljótt og dró hana eftir malarveginum og inn í bílinn. Keyrði með hana út á bryggju
og fór út að tala í símann. Henni fannst hún sjá hreyfingu á bryggjunni svo hún tók
sénsinn og stökk út, hljóp og öskraði á hjálp. Það heyrði enginn í henni og hann náði
henni. Felldi hana og dró hana inn í bíl.
– Hann þvingaði hana til að opna fyrir honum hurðina, á heimili hennar og barnsins –
eftir að hún fór frá honum í fyrra skiptið. Barnið var enn vakandi, uppi í rúmi í
herberginu sínu. Hann kastaði henni á eldhúsborðið og sussaði á hana þegar hún
kveinkaði sér og barnið spurði hvaða læti þetta hefðu verið.
– Hann braut rúðu í útidyrahurðinni heima hjá henni. Hellti yfir hana lítra af AB-mjólk –
hún var í vinnunni. Hrækti á hana – líka þegar hún var í vinnunni.
– Margt af þessu er gamalt, sumt ekki og sumt þorir hún ekki að segja af skömm. Ofbeldið
hófst þegar hún kynntist honum, fyrir 12 árum síðan, og það stendur enn þrátt fyrir að
sambandi þeirra hafi verið lokið endanlega fyrir þremur árum. Það hefur tekið hana
mörg ár að ná því og melta það að ofbeldið sem hann beitti hana og beitir enn er
alvarlegt. Hverri einni og einustu heimsókn í Kvennaathvarfið, Bjarkarhlíð eða til
lögreglu fylgir örlítið sjokk yfir því að það sem hann er að gera henni er gróft ofbeldi –
sjálfsefinn og sjálfsvantraustið sem hann forritaði hana með lifir að því leyti enn.
-Hún hefur verið þvinguð af sýslumannsembættinu til að eiga samskipti við manninn, og
þrátt fyrir að hafa gert ítarlega grein fyrir ofbeldinu og boðist til að sýna fram á það með
göngum, meðal annars áverkavottorðum og lögregluskýrslum, var henni gert að sitja
svokallaða sáttameðferð með honum hjá sýslumanni. Hann er margdæmdur
glæpamaður og var nýlega laus úr afplánun refsivistar fyrir ofbeldisbrot þegar hann
höfðaði forsjár- og umgengnismál hjá sýslumanni. Á sáttafundi var henni sagt að
ofbeldið sem hann beitir fólk, hana, aðrar konur eða karla skipti ekki máli.
– Samband þeirra var auðvitað ekki alltaf eintómur hryllingur og hann er auðvitað ekki
alltaf eins og satan sjálfur. Hann gat og getur meira að segja verið nokkuð eðlilegur, hann
getur verið heillandi og sannfærandi eftir hentugleika en þessum jákvæðu eiginleikum
getur hann jafnauðveldlega snúið upp í blekkingar, lygar og ringulreið, eins og dæmigert
er með ofbeldismenn.
– Það var erfitt að fara frá honum, brjótast út úr ofbeldismynstrinu – og henni tókst það
ekki í fyrstu tilraun, og það tókst ekki einu sinni með því að slíta sambandinu. Það hefur
verið enn erfiðara að horfast í augu við það að afleiðingarnar af langvarandi ofbeldinu,
kúguninni og vanvirðingunni eru að fara að fylgja henni um ókomna tíð. Ofbeldið fer
ekki neitt. Það er þarna, alltaf. Það er fast í hjartanu hennar og líkamanum öllum.
Ofbeldið verður alltaf hluti af lífi hennar og það sem verra er, barnanna hennar líka. Og
kerfið er ekki enn tilbúið að styðja hana og aðrar konur í þessum sporum. Það sem hún
ætlar að gera til að komast í gegnum þetta er að hún ætlar að halda áfram að segja frá,
sama hversu margir og hversu oft og mikið er reynt að þagga niður í henni; hún ætlar að
muna að hún þarf aldrei aftur að eiga samskipti við geranda sinn aftur frekar en hún vill
og treystir sér til; og hún ætlar að sættast við það að ekkert af þessu, það sem gerðist eða
staðan eins og hún er núna, er henni að kenna.
41.
Mig langar svo að segja ykkur mína sögu í stórum dráttum en það eru reyndar 30 ár
síðan en ég hef í raun aldrei unnið úr þessu.
Ég var fyrir nokkru skilin við manninn sem að ég átti með 2 börn. Það eldra sem er
stelpa þá 3 ára fór til pabba síns svo að ég gæti einbeitt mér að umönnun yngra barnsins
8 mánaða drengs sem var oft veikur. Ég fór á árshátíð hjá félagi sem að ég var í þegar ég
sé þennan myndarlega mann og áður en ég vissi þá var hann fluttur inn ásamt bróður og
mágkonu sem voru mikið óreglufólk og hann líka. Ég tek fram að drengurinn var hjá
pabba sínum nokkra mánuði. Eftir 3-4 mánaða partí þá leið mér skelfilega því ég tók ekki
þátt í partíinu, nema að ég tók róandi lyf (ef að þeim var ekki stolið) til að komast í
gegnum þetta alveg skelfingu lostin… það kom auðvitað að því að ég missti íbúðina sem
var nánast orðin fokheld eftir slagsmál og annað því þarna kom fullt af öðru óreglufólki.
Á þessum tíma beitti hann mig „bara“ andlegu ofbeldi og var búin að drepa niður
sjálfsmyndina hjá mér og var bara eins og skjálfandi fugl en ég hef glímt við þunglyndi og
kvíða frá því að ég var barn.
Ég fékk aðra íbúð og fékk drenginn heim og fór í fulla vinnu… maðurinn fylgdi með en
hann þó skildi það að ég var með barnið og það voru engir auka gestir en hann var
kominn í mikla neyslu af öllu mögulegu og var snargeðveikur… hann hélt vöku fyrir mér
í nærri 3 sólarhringa leyfði mér ekki að sofna en ég fór samt í vinnu sem var krefjandi
vinna í banka.
Einn daginn þegar ég kom heim þá var hann kolruglaður og búin að raða hnífum um allt
og svo þegar hann kraup hjá mér rann hnífur úr erminni hjá honum og ég bara fraus því
ég hélt að hann ætlaði að stinga mig. Ég var ófrísk þarna komin 4 mánuði á leið… hann
stendur síðan upp og stakk hnífnum á kaf í magann á sér en ég rétt gat hringt á hjálp
áður en hann skar á símasnúruna (það voru bara snúrusímar) Hann var heppin að halda
lífi. Ég sat bara í hnipri þegar lögreglan kom og kom ekki upp orði titraði bara og skalf…
hann fór beint af spítalanum í fangelsi vegna gamalla dóma þannig að ég gat klárað
meðgönguna í friði en hann kom 2-3 vikum áður en ég eignaðist fallegan dreng…
fæðingin gekk illa og maðurinn ætlaði að vera viðstaddur en honum var vísað út af
spítalanum því hann var svo dópaður. Hann fór svo stuttu seinna aftur í fangelsi og þegar
hann kom út aftur þá byrjaði skelfingin fyrir alvöru… hann fór í botnlausa neyslu og
drykkju og blandaði öllu saman og þá fór hann að beita mig líkamlegu ofbeldi og
uppáhaldið hanns var að taka mig kyrkingartaki þar til að ég missti meðvitund og í eitt
skiptið þá var ég lengi að ná meðvitund aftur og svo að halda mér vakandi en hann barði
mig líka oft og illa og ég man eftir að hafa lokað mig inni í herbergi með litla barnið í
fanginu og íhugaði í alvöru að stökkva fram af svölunum af 4. hæð og reyna að lenda á
bakinu svo barnið hefði mig undir sér.
Og auðvitað var barnavernd komin í málið og ég passaði mig að vera alltaf í
rúllukragapeysu þegar von var á heimsókn frá þeim til að fela marið á hálsinum á mér
sem var nokkuð oft…. en ég missti báða strákana frá mér en ekki báða í einu svo að þetta
var óbærilegur andlegur sársauki tvisvar… barnavernd vildi ekki aðstoða mig við að
losna við hann en ég var oft búin að reyna að henda honum út en hann bara braut niður
hurðina… mér var bara sagt að þeim væri sama um mig, málið væri að vernda barnið
sem að ég auðvitað skildi en ég mátti bara halda áfram í ofbeldinu.
Dæmi um hvað hann gerði líka: hann kom heim dópaður eins og venjulega… réðst á mig
svo að ég rifbeinsbrotnaði og svo tók hann glas og braut það og þvingaði mig til að ganga
berfætt yfir glerbrotin. Ég náði að hringja í lögregluna og þeir fóru með mig á slysadeild
ásamt ársgömlum stráknum mínum og þvílík ömurleg aðstaða að vera á slysadeild að
láta tína glerbrot úr fótunum meðan barnið mitt var frammi og lögreglumaður að passa
það.
Eitt skiptið var ég að labba nálægt Hlemmi til að taka strætó þá kemur hann og ræðst á
mig, hendir mér inni í leigubíl og þrýsti hníf í síðuna á mér og hótaði að stinga mig ef að
ég reyndi að biðja leigubílstjórann um hjálp og þegar heim var komið þá slær hann mig í
gólfið og sparkar svo ítrekað í magann á mér en ég var nýkomin úr stórri
móðurlífsaðgerð sem var frá nafla og niður og það rifnaði upp þar sem hafði verið
saumað á 2 stöðum og blæðing inn á húðina þannig að maginn á mér varð einn stór
marblettur… og ekki nóg með það… hann batt mig á höndum og fótum með
rafmagnssnúrum og skildi mig eftir en fyrir rest þá gat ég losað hendurnar og hringdi á
lögregluna og þau koma og þá segir lögreglukonan já kona… þetta fer nú að verða
þreytandi þú hlýtur að bjóða upp á þetta.
Í síðasta skipti sem að hann gerði mér eitthvað þá kærði ég hann… hann var búin að
hringja og segja mér að hann væri að koma og drepa mig… ég hringdi í lögregluna og
nefndi bara nafnið hans og þá fóru þeir á stað… sem betur fer því hann var á undan
lögreglunni og náði að henda mér á borðhorn og sparkaði ítrekað í mig bæði í bakið og
magann, bringuna og braut í mér 2-3 rifbein og brákaði hryggjarliði bara á korteri því þá
kom löggan og þeir þurftu að brjóta upp hurðina og kasta sér á hann til að yfirbuga
hann… hann var á skilorði á þessum tíma en þetta var ekki dæmt sem skilorðsbrot vehna
þess að við vorum gift og þetta flokkaðist sem heimiliserjur en ég fór í Kvennaathvarfið í
kjölfarið.
Eins og ég sagði þá kærði ég hann og myndir teknar af áverkunum ásamt því að vera
með áverkavottorð en það sagði mér enginn að ég þyrfti lögfræðing og mætti því ein í
dómssal þar sem að ég var skotin í kaf af lögfræðingnum hans… dómurinn var 2 mánuðir
skilorðsbundið en í sama mánuði fékk hann 10 mánuði fyrir skjalafals… mannslíf voru
ekki metin mikils á þessum árum.
Hann eyðilagði mannorð mitt því allir í undirheimunum vissu hver hann var… hann
reyndi að selja kynlíf með mér fyrir dóp… hann neyddi mig með ofbeldi til að falsa
undirskrift á einhverja pappíra og ávísanir og fékk dóm sem var nú bara 3 mánuðir
skilorðsbundnir til 2 ára því dómarinn vissi alveg hvers kyns var en sagðist ekki geta
sleppt mér alveg við dóm og bað mig svo innilega að fara frá honum.
Meðvirknin var algjör… ég hlyti að hafa gert og eða sagt eitthvað vitlaust… ég leyndi
þessu alveg fyrir fjölskyldu og vinum en hann vildi ekki að ég talaði við mína vini og ég
minnkaði sambandið við fjölskylduna og fyrir rest var ég alveg einangruð í hans heimi
sem samanstóð af dópi og allskyns glæpum… heimilið iðulega fullt af fólki sem var í
neyslu og þá mest mönnum sem höfðu verið á Litla Hrauni sem honum.
Ég losnaði svo úr þessu þegar hann fór í fangelsi í meira en ár og ég var búin að kynnast
öðrum manni eftir 7 ára hrylling og ég kunni varla eðlileg samskipti við fólk… en ég fór í
meðferð á Vogi fljótlega eftir að gerandinn fór í fangelsi því ég var orðin háð róandi og
svefnlyfjum og það hjálpaði mér mjög mikið þó að ég hafi ekki talað mikið um ofbeldið.
Þó að það séu 30 ár síðan þetta var þá er ég enn að fá martraðir um þetta… og það var
mjög erfitt að skrifa þetta og ýfa upp sárin en ég verð að koma þessu frá mér og þetta er
skrifað í fram og til baka ekki í tímaröð og þetta eru bara brot af því sem gerðist.
Takk fyrir að nenna að lesa þetta.
42.
Ég er ein af 5 systkinum, yngsta systkinið er örverpi, ég var á hálf fullorðin þegar hún
fæddist. Við bjuggum í 4 herbergja íbúð í fjölbýlishúsi þegar ég var lítil, við systkinin tvö
og tvö saman í herbergi. Þegar ég var um 8 ára gömul missti pabbi minn stjórn á
drykkjunni. Alltaf þegar hann var fullur kom hann uppí til mín. Sagðist vilja fylgjast með
mér vaxa. Hann káfaði á mér allri, setti tunguna upp í mig og var nuddaði sér upp við mig
með hann beinstífan og lét mig runka sér. Einu sinni vorum við í tjaldferðalagi
fjölskyldan og hann setti svefnpokann minn við hliðina á sínum, en ekki hvað. Hann
renndi svefnpokanum svo niður og fór að káfa á mér, fljótlega setti hann svo typpið
beinstíft á milli læranna á mér og hvíslaði að svona væru karlmenn þegar þeir væru
tilbúnir að ríða. En hann ætlaði ekki að gera það núna, hinir gætu vaknað. Þarna var ég
um 9 ára gömul. Oft fór hann með puttana í píkuna á mér til þess að kenna mér hvernig
karlmenn kæmu konum til. Taldi það vera sitt hlutverk sem sagt að kenna mér þetta.
Þetta gekk svona í nokkur ár, hætti þegar ég var um 13–14 ára. Ansi margar svona sögur
af honum sem vakna við að lesa aðrar sögur hér í hópnum, en ég hef svo oft velt fyrir
mér af hverju gerðu aðrir í fjölskyldunni ekkert? Við bjuggum í blokkaríbúð og ég var
ekki í sérherbergi. Af hverju gerði systir mín ekkert? Af hverju gerði mamma ekkert?
Fannst henni ekkert skrýtið að pabbi væri alltaf upp í hjá mér? Fullur. Ætli hún mundi
halda því fram að hún hafi ekkert vitað ef ég mundi ganga á hana? Trúi því ekki, sorry.
Eftir að þetta hætti þá gisti ég eina nótt hjá ömmu minni og afa, systir mín sem hafði gist
í herbergi með mér, glotti þá og sagði við mig „já, þú getur látið afa ríða þér“ Hún vissi
sem sagt allt um það hvað hafði verið í gangi en gerði ekkert til að hjálpa mér. Þessar
pælingar mínar hafa alla tíð litað samskipti mín við fólk almennt, ég á rosalega erfitt með
að treysta fólki og hleypa því að mér. Lái mér hver sem vill. En ég hef verið að vinna í
sjálfri mér undanfarin ár, rosalega erfitt en vissulega gefandi. Þótt ótrúlegt sé eru
samskipti okkar pabba ágæt í dag, hann hefur ekki drukkið í mörg ár, við höfum rætt
þetta sem hann gerði, hann hefur beðið mig afsökunar en gerir sér ekki grein fyrir
afleiðingunum sem þetta hefur haft fyrir mig, að sumu leyti eru samskiptin okkar betri
en samskipti mín við mömmu (enda hef ég aldrei getað rætt þetta við hana).
Í dag stend ég sterkari en nokkru sinni, treysti á sjálfa mig og finn það að öll naflaskoðun
undanfarinna ára hefur skilað einhverju. Kannski þori ég einhvern tímann að koma fram
undir nafni, en ekki núna, ekki alveg strax. Þúsund þakkir kæru konur fyrir ykkar sögur.
43.
Sagan mín
Ég var 21 árs þegar ég kynntist þáverandi eiginmanni mínum. Ég verð ófrísk af elsta syni
okkar þegar við erum nýbúin að kynnast og eignumst síðan annan son rúmlega ári síðar.
Hann sýndi strax í byrjun ógnandi hegðun og ofbeldistakta. Ég var komin nokkra mánuði
á leið af eldri syni okkar þegar hann ætlaði að berja mig, ég var það heppin að vera hjá
foreldrum mínum að það slapp til. Nokkrum vikum síðar varð ég að flýja til foreldra
minna þar sem hann og bróðir hans voru í slagsmálum á heimili okkar. Ég skil ekki í dag
hvað ég var strax blind á þessa hegðun og að ég hafi ekki gert eitthvað fyrr.
Fljótlega í sambandi okkar fór á bera á sérkennilegri kynferðislegri hegðun, hann var
mjög kröfuharður og stjórnsamur og ef ég vildi t.d. fara sofa og hann enn vakandi skipaði
hann mér að sofa þá ber svo hann gæti komið á mig þegar hann kæmi inn, ef ég sagði nei
þá var það fýlustjórnun í langan tíma og leiðindi. Ef eg vildi ekki kynlíf var ég kölluð
ljótum nöfnum og önnur leiðindi. Ég þurfti að uppfylla hans fantasíur sama hversu ljótar
þær voru.
Hann fór síðar að ganga lengra og lengra og vildi að ég hringdi í stefnumótalínur sem á
þessum árum voru mjög vinsælar, þar átti ég að klæmast við karla og hann að hlusta á og
fróa sér í leiðinni. Ef ég mótmælti kallaði það á fýlu, reiði og andlegt ofbeldi. Þetta hélt
svona áfram og ágerðist. Líkamlegt ofbeldi var einnig til staðar og þurfti ég að flýja
heimilið með syni okkar stundum að næturlagi ef hann var drukkinn og ofbeldisfullur.
Kynferðislega ofbeldið hélt áfram og náði nýjum hæðum, internetið var komið og vildi
hann ég væri þar að klæmast við karlmenn á stefnumótasíðum og hann fór síðan í það að
mæla okkur mót við ókunna karlmenn á hótelum þar sem ég átti að stunda kynlíf með
þeim og hann að horfa á. Sama hvað ég þráaðist við lét hann ekki undan, þetta skyldi
gerast sama hvað tautaði og raulaði, stundum tók það hann nokkrar vikur að fá sínu
framgengt, þá með miklu andlegu ofbeldi, kúgun og fýlustjórnun, aukinni drykkju. Ég lét
undan, fór með honum á hótel þar sem ókunnir menn birtust, ég man ég fór yfirleitt inn á
klósett var þar í góðan tíma og grét og bað hann að hætta við. En allt kom fyrir ekki, ég
fór því í hlutverk, lét mig hafa þetta og vissi að þetta tæki enda í þetta sinn. Þetta gekk í
nokkur skipti svona. Ég var orðin andlega úrvinda og kúguð og hrædd og þorði ekki að
mótmæla. Þegar þessu var lokið átti ég svo að sinna honum eins og ekkert væri.
Við eignuðumst annað barn og alltaf hélt ég að ástandið myndi lagast, sem það gerði
ekki. Ég man að ég var nýkomin með barnið heim af spítala þá vildi hann fara í leik þar
sem hann vildi blanda 3 aðilanum inn í kynlífið, ég hélt mínu til streitu og hafði það í
gegn í svolítinn tíma í staðinn þurfti ég að fara í „símaleik“ – þegar barnið var 8 mánaða
var ástandið orðið mjög slæmt, ég var búin að neita hótelferð í nokkrar vikur og hann
ekki búinn að tala við mig í marga daga, ég var komin með fæðingarþunglyndi á þessum
tíma, hitti geðhjúkrunarfræðing og fékk aðstoð sem ég nýtti ekki til fulls því ég var svo
brotin og vissi ekki hvað sneri upp og niður, var með óteljandi grímur. Ég talaði þarna í
fyrsta sinn um að skilja, hann kom þá með hótanir og ógnanir svo ég hætti við allt. Þegar
barnið var að verða 1 árs fór ég erlendis með vinkonu minni, þar opnaði ég mig fyrir
henni og sagði henni við hvað ég byggi við og spurði hvort þetta væri eðlilegt hjónaband.
Þarna opnuðust augu mín, ég reyndar vissi að þetta var ekki normalt en var orðin svo
blind og bæld að ég réð ekki við neitt. Ég ákvað þarna fljótlega að biðja um skilnað, hann
flutti út í 2 vikur, var með hótanir um að taka börnin og ég gæti ekki séð um okkur, á
milli þess sem hann lofaði öllu fögru og ætlaði svo sannarlega að taka sig á. Hann var
einnig með hótanir og ógnanir við vinkonu mína því hann kenndi henni um að ég ætlaði
að skilja við hann. Í ótta og blindni ákvað ég að gefa honum tækifæri, hélt að allt myndi
lagast. Ég fór aftur til geðhjúkrunarfræðingsins sem ég hafði verið að hitta um sumarið,
lagði spilin á borðið og þá sagðist hún skilja allt, allt pússlið passaði nú saman. Ég gaf
honum sem sagt tækifæri en ástandið lagðist svo sannarlega ekki. Drykkjan og andlega
ofbeldið sem og kynferðislega ofbeldið hélt áfram, sem og að hann var að hverfa í tíma
og ótíma. Þremur árum seinna hafði ég kjark til að ganga alla leið. Það gekk ekki
þrautalaust en skilnaðurinn gekk í gegn, ég leitaði aðstoðar hjá Kvennaathvarfinu og
Stígamótum og fékk mikinn stuðning hjá þeim og var þar í sjálfshjálparhóp sem gerði
mikið fyrir mig. Í mörg ár eftir skilnaðinn var hann enn að ógna mér og hóta og með
afskipti inn á mitt heimili, fyrstu vikurnar eftir skilnað þorði ég ekki að vera ein heima á
pabbahelgum því hann var oft með hótanir og ég var líka bara hrædd og óörugg. Í dag er
ég í góðum málum, búin að mennta mig, gifta mig aftur en vissulega situr þetta alltaf í
sálinni og hefur í raun mótað mig og haft mikil djúp áhrif á mig og mitt líf. Það að hafa
fengið stuðning og aðstoð hjá fagaðilum hefur hjálpað mikið. Ég segi mína sögu öðrum
konum til stuðnings svo þær sem eru í svipaðir stöðu geti risið upp og yfirgefið ofbeldið.
44.
Hæ elsku konur. Mikið eruð þið hugrakkar allar sem ein! Mig langaði að stikla á stóru í
sögunni minni. Ég skildi á síðasta ári við mann og ég er alltaf að fatta betur og betur
hversu gengdarlaus ofbeldisseggur hann var. Og er enn, því ég eignaðist barn með
honum sem er enn það ungt að ég neyðist til að vera í samskiptum við ofbeldismanninn
vegna umgengni og fleira. Ætla að koma með nokkur minningarbrot:- Ég er ólétt,
maðurinn flutti hinum megin á landið vegna vinnu, ég flutti ekki til hans alveg strax.
Hann heldur mér í heljargreipum. Ég var bíllaus á þessum tíma og hann sendir mig í ótal
sendiferðir vegna vinnu hans. Á hjólinu. Hann tekur ekki nei fyrir svar. Segir að ég sé
hulstrið utanum barnið hans og því þurfi ég að sinna þeim skyldum sem mér ber. Hann
krefur mig um að senda sér kynferðislegar myndir og myndbönd af sjálfri mér í tíma og
ótíma.
-Ég er flutt til hans, hinum megin á landið. Kasólétt og þekki engan. Hann grípur í rassinn
á mér á virkilega óviðeigandi hátt í Bónus. Fyrir framan börnin okkar, en við eigum bæði
börn úr fyrri samböndum. Ég bið hann að hætta þessu og gera ekki svona aftur þar sem
ég er mjög bregðugjörn og þoli ekki svona public dót. Það er eins og hann æsist við þetta
og gerir þetta við mig í tíma og ótíma eftir þetta. Þótt ég biðji hann ítrekað að sleppa
þessu. Núna á ég t.d. erfitt með að labba á undan einhverjum upp stiga, þar sem hann
greip ítrekað í mig í svoleiðis aðstæðum.
-Ég er nýbúin að eignast barnið okkar. Full af hormónum og ást til litla drengsins míns.
Maðurinn tuðar daglega og heimtar að ég veiti honum munnmök, þar sem við megum
ekki stunda samfarir svona stuttu eftir fæðingu. Ég segi ítrekað nei, en læt svo undan á
endanum. Fannst það ógeð.
-Hann er að útskrifast úr námi og við ætlum að halda veisluna heima hjá okkur. Kvöldið
fyrir útskriftarveisluna erum við að fara að sofa, en hann vill kynlíf. Ég segi ekki nei strax,
kyssi hann eitthvað en segi svo að mig langi ekki í kynlíf núna þar sem sonur okkar var í
rúminu. Hann strunsar fram í fýlu en kemur svo aftur í rúmið og nauðgar mér. Daginn
eftir vakna ég eiginlega grátandi og spyr hann hvort hann átti sig á því hvað hann hafði
gert kvöldið áður. Hann byrjar að kenna mér um þetta. Segir að ég vilji nú alveg stundum
fara í leiki og eitthvað bull og hann hafi haldið að þessi nei hjá mér hafi verið leikur. Svo
fer hann í fórnarlambsgír og þetta verður heiftarlegt rifrildi sem endar á kvíðakasti hjá
mér. Eftir að ég er búin að jafna mig á kvíðakastinu spyr ég hann hvort við gætum
mögulega frestað útskriftarveislunni eða hann frekar hitt þessa fáu gesti sem ætla að
koma á kaffihúsi eða veitingastað. Hann hélt nú ekki. Ég ætti bara að hunskast til að baka
pönnukökur (sem ég svo viðbrenndi) og fara í bakarí og kaupa mat ofaní gestina. Þetta
væri dagurinn hans. Ég hlýddi og þetta var einn erfiðasti dagur sem ég hef lifað.
Ég á (því miður) mun fleiri svona sögur af þessum manni. Samt vorum við bara saman í 4
ár. Ég er smátt og smátt að komast nær sjálfri mér aftur með hjálp fagaðila og vina, en
glími enn við alls konar afleiðingar. Takk fyrir þennan hóp elsku konur og áfram við!
45.
Sagan mín er sú að ég ólst upp í stórum systkinahóp, næst elst, hjá foreldrum sem voru
ekkert allt of samstíga. Þau elskuðu hvort annað mjög mikið en einhvernveginn náðu þau
ekki að vera til staðar fyrir hvort annað. Þegar ég var lítil sá ég pabba minn eiginlega
aldrei nema á kvöldmatartíma en hann var voða góður við mig samt, hann kunni bara
ekki á fjölskyldulífið.
Mamma sá um allt. Pabbi skaffaði stundum ágætlega en mamma var sú sem sá til þess að
hlutirnir gengju upp. Hún var alltaf að leita leiða til að láta heimilislífið ganga og
stundum þurfti amma að hjálpa til eða aðrir nákomnir. Við fluttum mikið og því þurfti ég
sífellt að vera að aðlagast nýjum aðstæðum, skóla, krökkum og nýju fullorðnu fólki.
Ég var rólegt barn, mjög blíð og góð og góður vinur. Foreldra annarra barna vildu
gjarnan fá mig „lánaða“ því ég dró það besta fram í þeirra börnum.
Þar sem pabbi minn var mikið fjarverandi vegna vinnu og mamma sá um allt, var hún oft
uppgefin og stundum pirruð. Eftir margra ára álag á mömmu, pirring og rifrildi
foreldranna á milli, lærði maður að læðast um og vera ekki til ama. Það hljómar eitthvað
svo hrikalega þegar ég skrifa þetta, því ég var bara lítil stelpa sem vildi leika mér og var
að læra á lífið.
Þegar ég er 9 ára var ég einu sinni í heimsókn hjá frænkum mínum í sveitinni. Ég hafði
heimsótt þær oft áður og við vorum allar á svipuðum aldri – önnur var ári yngri en ég en
hin 2 árum yngri. Þær áttu eldri bróður sem var óttalegur vandræðagemsi og frekar
skrítinn. Einu sinni þegar ég var heima hjá þeim stakk bróðir þeirra uppá því að við
færum í leik. Leikurinn gekk út á það að maður mætti alls ekki hreyfa sig og sá sem gerði
það ætti að girða niður um sig og leyfa hinum að skoða einkastaðina sína. Hann var
dómarinn og sá til þess að leikurinn færi eftir hans höfði. Allar 3 náðum við að girða
niður um okkur og hann skoðaði og skoðaði en mér þótti þetta frekar óáhugaverður
leikur. Hvað er svona merkilegt við einkastaðina manns? Hann stjórnaði leiknum og vissi
því best hver hreyfði sig og aldrei var það hann og því sáum við aldrei hans einkastaði.
Hann var ca 12 ára þegar þetta gerist. Ég vissi einhvernveginn að þetta væri eitthvað
sem maður ætti ekki að tala um og auðvitað vildi ég ekki íþyngja mömmu með þessu, ja
eða bara trufla hana með svona rugli.
Ég hugsaði ekki um þennan atburð aftur fyrr en mörgum árum seinna. Það liðu eflaust
meira en 20 ár.
Þegar ég er 9 ára var ég líka eitt sinn að leika inní tjaldi með öðrum frænda og vildi hann
leika „skeið“ eða liggja í „skeið“. Mér fannst þetta allt hið furðulegasta og skynjaði að
þetta væri eitthvað sem maður ætti ekki að gera en velti því svo sem ekkert meira fyrir
mér.
Svo var það þegar ég er 10 ára. Ég var enn og aftur flutt á nýjan stað. Byrjuð í nýjum
skóla og búin að eignast nýja vinkonu. Hún var ekki vinsæl og ég var aðkomu manneskja
og ekki eins góð og heimamenn. Við vorum samt rosa góðar vinkonur. Pabbi var enn
mikið fjarverandi og mamma sá um allt sem kom að fjölskyldulífinu. Hún passaði uppá
að við hefðum ofan í okkur og á og sá til þess að við kæmumst í tómstundir, skóla,
verslaði, eldaði þreif þvott og allt það.
Svo gerðist það eitt kvöldið eða nóttina að ég vakna við að einhver snertir einkastaðina
mína. Þetta var bróðir minn. Hann fer inná nærbuxurnar mínar og byrjar að snerta
einkastaðina mína á þann hátt sem ég hafði aldrei hugsað útí sjálf. Ég hafði bara þurrkað
mér eftir bað og þegar ég fór á klósettið. Ég var ekki meðvituð um að einkastaðirnir
mínir væru kynfæri. Ég fraus gjörsamlega. Ég gat ekkert gert. Ég gat ekkert sagt ég var
alveg lömuð og ég var þess fullviss að þetta væri rangt. En ég vissi ekki að ég væri ekki að
gera neitt rangt, ég fylltist skömm.
Eftir þetta fór ég að upplifa það í fyrsta sinn að langa að deyja, að óska þess að ég þyrfti
aldrei aftur að vakna.
Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað þetta gerðist oft en þar sem ég flutti oft get ég tengt
atburðina við þau herbergi sem ég átti hverju sinni.
Ég fór að klæða mig í meiri náttföt en vanalega og vefja mig inní sængina á hverju kvöldi,
þéttingsfast. Þetta gerði ég til að varna því að hann myndi reyna aftur.
Ég var farin að upplifa mikinn kvíða og streitu vegna þessa. Það var álag að fara að sofa,
því hann gæti reynt aftur.
Árin liðu og þetta gerðist áfram reglulega.
Heilinn er þannig byggður að hann reynir að eyða áhyggjum og útilokar því sumar
minningar. Þannig lifir maður af þegar svona er.
Ég þorði aldrei að segja neinum frá þessu og ég þorði ekki að læsa að mér því ef mamma
myndi spyrja afhverju ég læsti myndi ég neyðast til að segja frá þessu. Það virðist
kannski furðulegt að tilhugsunin um að segja frá þessu var yfirsterkari þörfinni til að
verja sig. En svona var þetta fyrir mig.
Ég man að þegar ég var 11 ára var ég orðin mjög reið og brást illa við öllu áreiti á
heimilinu. Ég var sífellt öskrandi á mömmu og hagaði mér stundum meira eins og
skrímsli úr teiknimyndum en eins og 11 ára stelpa.
Ég fór að verða harkaleg við litlu systkinin mín og var oft vond við þau. Mér leið líka
stundum eins og ég væri skrímsli. Ég skildi ekki hvað var að gerast með mig.
Þegar ég varð 14 ára og í kringum þann aldur þegar hormónarnir voru farnir á fullt fór
ég að verða enn meira reið og það var komin uppreisn í mig. Uppreisnin lýsti sér þannig
að ég var skapstygg og fór að gera hluti sem ég mátti ekki – vísvitandi. Ég byrjaði að
drekka áfengi og upplifði frelsi í fyrsta skipti í mörg ár. Ég man eftir þessu frelsi sem
barn, að vera frjáls til að vera sá sem maður er. Þetta upplifði ég þarna aftur og ég elskaði
þessa tilfinningu.
Allt í einu var áfengi orðinn sjálfsagður hluti að lífi mínu. Ég hélt samt áfram á þeirri
braut sem ég var komin á. Var óheiðarleg við foreldra mína, stal peningum úr vösunum
þeirra og laug til um hvert ég væri að fara, með hverjum ég væri og hvað ég væri að fara
að gera.
Við tóku mörg ár þar sem ég stal, laug og sveik foreldra mína til þess að geta notið þeirra
áhrifa sem áfengi hafði á mig.
Þegar ég er á fimmtánda aldursári, stuttu áður en að við vorum að fara að flytja enn á ný,
náði ég botninum. Bróðir minn hafði komið inn til mín enn einu sinni um nóttina og ég
hafði fengið nóg. Í stað þess að liggja frosin og bíða þess að þetta væri afstaðið, rauk ég
upp og hljóp inní herbergi foreldra minna og náði að stama eitthvað útúr mér með
ekkasogum.
Mamma skildi strax að það var eitthvað alvarlegt í gangi, en ég gat ekki komið upp fleiri
orðum og gat því ekki sagt hvað hafði gerst. Raunar liðu tæp 20 ár áður en ég í fyrsta
sinn gat lýst atburðunum fyrir annari manneskju með orðum. Ég gat í mörg ár bara sagt
að bróðir minn hafi brotið á mér kynferðislega en gat ómögulega komið upp þeim orðum
sem myndu lýsa atburðunum fyrir öðrum.
Mamma fór strax daginn eftir með bróður minn til að fá ráðgjöf fyrir hann, leitaði
aðstoðar fyrir hann en í öllu þessu vorum við að flytja og einhvernveginn gleymdist ég.
Þetta var ekki tilkynnt til barnaverndar, þó að lögin væru skýr um það.
Ég hélt áfram mínu, eins og ekkert hefði gerst og ef mamma reyndi að ræða þetta
eitthvað við mig brást ég illa við.
Ég fékk ítrekuð flassbökk og þetta hrjáði mig mikið. Þá var heppilegt að ég hafði fundið
meðal sem gat hjálpað mér.
Mér fór að ganga verr og verr í skóla og áfengi fór að koma meira við sögu. Þegar ég var
16 ára fór ég að drekka oftar en bara um helgar.
Ég man að vinur minn spurði mig einu sinni hvort ég hefði einhverntímann orðið fyrir
kynferðis ofbeldi og ég man að ég hugsaði „en furðuleg spurning“ og svaraði að bragði
heiðarlega „nei, aldrei“. Þarna var þetta allt búið að þurrkast úr minninu mínu um stund.
Ég bara mundi þetta ekki.
En auðvitað hélt þetta áfram að koma upp. Flassbökkin hættu ekkert að ásækja mig. Ég
var með viðbjóð á sjálfri mér. Mér fannst ég ógeðsleg.
Áfengi fór að verða daglegt brauð uppúr 16 ára aldri. Ég drakk eins oft og ég mögulega
gat. Vinir mínir voru ekki allir alltaf að drekka eins og ég og því drakk ég oft með rónum
og öðrum sem voru utanveltu í samfélaginu. Ég ung 16 ára að hanga með gömlum
fyllibyttum.
Árin líða með drykkju og ótal tilraunum til að ná stjórn á lífi mínu. Ég fer svo í meðferð
þegar ég er á tuttugasta aldursári.
Loksins gat ég hvílt mig frá þessu erfiðislífi sem mikil áfengisneysla er. Ég var algjörlega
búin að missa stjórn á lífi mínu og var orðin hrædd um líf mitt. Ítrekað hafði ég lent í því
að sofna úti í kuldanum, kasta mér fyrir bíl í blackouti eða koma mér í aðrar ógöngur.
Eftir meðferð kem ég inní AA samtökin. Ég var hrædd, vissi ekki hvernig ég ætti að vera,
hvað maður ætti að gera í AA, hvernig ég ætti að halda áfram að vera hætt að drekka.
Ég var enn að fá flassbökk og ég var í rúst innra með mér. Ég var ógeðsleg og hataði sjálfa
mig.
Ég fékk sponsor og fór að vinna sporin og strax fór mér að líða betur. Ég fór að trúa því
að ég gæti verið edrú áfram og hægt og rólega lærði ég að tjá mig. Ég kynntist konu með
svipaða reynslu og ég og í fyrsta sinn gat ég farið að opna mig um ofbeldið sem ég hafði
orðið fyrir. Loksins var ég búin að hitta einhvern sem skildi mig.
Ég varð mjög aktív innan AA og fór á fullt að vinna í sjálfri mér, en það var erfitt að opna
á þetta ljóta leyndarmál sem ég hafði haft í meira en 10 ár. Ég skildi ekki enn
afleiðingarnar sem þetta hafði haft fyrir mig. Það tók mörg ár.
Skömmin fór ekkert, flassbökkin héldu áfram og á sama tíma fannst mér þetta allt skakkt
og asnalegt og að þetta gæti ekki verið rétt.
Það liðu meira en 10 ár frá þessum tíma þar til að ég gat sagt það upphátt og bróðir minn
væri barnaníðingur.
Þegar hér var komið gafst ég upp á að skrifa meira. En undanfarið hef ég hugsað mikið
um það sem gerðist og hvernig foreldrar mínir brugðust mér. Ég fékk enga hjálp. Ég fór
sjálf að leita mér hjálpar fyrst fyrir 20 árum síðan. Ég er enn að triggerast við að heyra
um ofbeldi á konum og börnum. Ég fordæmi allt ofbeldi gegn börnum og ég fordæmi
þöggunina og meðvirknina sem samfélagið sýnir og ætla að vera partur af lausninni og
ekki partur af vandanum. Takk þið sem lásuð þessa löngu sögu. #höfumhátt, #metoo,
#ekkilítaundan
Mig langar líka að deila þessari sögu: Mér hefur verið hugsað til þess þegar ég eitt sinn
sat á bar með tveimur vinkonum mínum sem voru stjúpsystur. Önnur þeirra hafði verið
misnotuð af aðila sem tengdist þeim báðum fjölskylduböndum. Hún var búin að segja
mömmu sinni frá því hvað hann hafði gert henni en hann bjó samt enn á heimilinu.
Stjúpsystir hennar talaði um að gerandinn væri bilaður, alveg snargeðveikur. Ég brást
við með því að segja að ég hefði líka verið misnotuð og við ættum bara að prísa okkur
heppnar því hvernig hefðum við annars átt að komast að því að við værum kynverur.
Þær svöruðu engu. Þarna var ég 16 ára og það voru liðin 2 ár frá því að kynferðisofbeldið
sem ég varð fyrir í æsku átti sér stað síðast. Þetta lýsir bara litlum hluta af afleiðingum
þess að verða fyrir kynferðisofbeldi á unga aldri. Hugmyndir mínar um lífið og sjálfa mig
voru brenglaðar. Ég er enn á fullorðinsaldri að takast á við afleiðingarnar.
46.
Þetta byrjaði þegar ég var 8 ára og hann 12. Var “saklaust” í fyrstu en varð svo grófara og
grófara. Ég kenndi sjálfri mér um, því ég fékk alltaf eitthvað í staðinn. Þetta gerðist á
heimili mínu og við bjuggum undir sama þaki. Hann hætti jafn snögglega og hann byrjaði
og ég skildi ekki neitt, en þó kynferðisofbeldið væri hætt, þá var óttinn alltaf til staðar.
Var alltaf hrædd um að hann myndi byrja aftur.
Ég lokaði á þetta allt í langan tíma en svo fór ég að sjá myndir af atburðunum þegar ég
var um 14 ára. Það tók mig einhvern tíma að átta mig á að þessar myndir voru minningar
en ekki atriði úr einhverri bíómynd. Ég hef kosið að rifja ekki upp eða ræða hvað hann
gerði nákvæmlega, þar sem ég held að það brjóti mig bara meira niður. Innst inni veit ég
þó hvað hann gerði mér.
Það var ekki fyrr en ég var búin að kynnast núverandi manninum mínu og eignast fyrsta
barnið mitt sem ég áttaði mig á hversu mikil áhrif þetta hafði á allt mitt líf. Ég fékk oft
grátköst, átti erfitt með að gefa af mér og var ofboðslega reið inni í mér. Þegar ég ræddi
þetta við manninn minn sagði hann að ég réði ekki hvað kæmi fyrir mig, en ég gæti
ákveðið hvernig ég vinn úr því. Hann benti mér á að ég þyrfti að fronta þennan mann. Ég
varð mjög reið við hann í fyrstu og fannst hann ótrúlega vondur við mig þá, en ég þakka
honum fyrir þetta í dag.
Það kom að því að ég frontaði manninn, hann viðurkenndi þetta fyrir mér og ég ákvað að
fyrirgefa. Gerði það fyrir sjálfa mig til að losna við reiðina og hatrið sem kraumaði inni í
mér.
Það er svo skrýtið að þegar þetta kom upp á yfirborðið, þá var þetta samt ekkert rætt. Sá
sem braut á mér lækkaði ekkert í áliti hjá öðrum í fjölskyldunni, með örfáum
undantekningum þó. Sumir láta eins og þetta hafi aldrei gerst og ætlast til að maður geti
verið nálægt honum eins og ekkert sé, á jólunum, veislum og ýmsu öðru og þegar hann
er ekki nálægt þá er kannski verið að tala um hvað hann er að gera, hvert hann ætlar í
sumarfríinu. Eins og ég hafi einhvern áhuga á að vita það.
Það var fyrir um ári síðan, að ég hætti alveg að hitta eða ræða við þennan mann og ég tel
hann farinn úr lífi mínu eins mikið og hægt er, þar sem hann er það mikið skyldur mér.
Og það er langt síðan mér hefur liðið eins vel. Ég þarf ekki að þykjast lengur, til að
þóknast fjölskyldu minni eða öðrum.
Ég hef alltaf furðað mig á af hverju enginn fullorðinn greip inní, var viss um að t.d.
mamma vissi af þessu og ég var henni mjög reið, í mörg ár,af hverju gerði hún ekki neitt?
Fólk hlýtur að hafa séð breytinguna á mér, fór úr glöðu, saklausu barni yfir í grátgjarnan,
uppstökkan og vansælan krakka.
Ég hef heyrt því slengt fram að þetta hafi nú örugglega ekki verið svo alvarlegt, þar sem
gerandinn var þetta ungur. Vá, hvað ég varð sár og reið. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að
þegar þeir eru þetta ungir, þá geti þeir einmitt verið hættulegri. Þeir hafa engin mörk og
þegar þeir komast upp með eitthvað þá gangi þeir lengra næst. Það er mín reynsla.
Ég veit ekki alveg af hverju ég er að setja þetta hérna inn. Held samt að það geti hjálpað
að skrifa frá sér svona hluti.
47.
Ég var orðin 34 ára og flutt 400 kílómetra frá æskuslóðunum þegar stíflan brast.
Niðurbældar minningar um kynferðisofbeldið sem faðir minn beitti mig komu upp á
yfirborðið. Ofbeldi sem stóð frá því ég var ungabarn og þar til ég byrjaði á blæðingum 12
ára gömul. Við kynþroska missti faðir minn áhuga á mér og við tók andlegt ofbeldi sem
stóð öll unglingsárin.
Síðan ég hóf að vinna úr því ofbeldi sem ég varð fyrir eru liðin fjögur ár. Minningar eru
enn að koma upp á yfirborðið og smám saman er ég að fá heildarmynd á æskuna. Faðir
minn var ekki sá eini sem misnotaði mig. Maður sem bjó inni á heimilinu öll mín
uppvaxtarár braut ítrekað á mér. Ég átti alltaf eina minningu um hann með hendina ofan
í nærbuxunum mínum. Ég hef þá verið svona fjögurra ára. Þá minningu ræddi ég einu
sinni við fjölskylduráðgjafa sem ég hitti reglulega þegar ég var rúmlega tvítug. Hún
horfði á mig og sagði svo: „Já þetta er nú svona á gráu svæði og óþarfi að gera neitt úr
þessu.“ Þessi fagaðili brást mér algjörlega.
Afleiðingarnar sem ofbeldið hefur haft á líf mitt eru miklar. Ég „droppaði“ oft út úr
framhaldsskóla og var lengi að klára háskólanám. Ég var í mörgum ástar- og
bólfélagasamböndum og var í endalausri leit að umhyggju og viðurkenningu.
Sjálfsmyndin var í molum. Ég glímdi við kvíða, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Skömmu
áður en ég náði að opna á minningarnar var ég greind með áunninn athyglisbrest.
Samfélagið brást mér sem barni. Kerfið brást mér þegar ég var rúmlega tvítug. Mér finnst
ég lánsöm að hafa náð að opna á minningarnar og hefja bataferlið. Ég óttaðist í fyrstu að
ég gæti aldrei tekist á við þetta. Að opna á minningarnar og vinna með þær myndi gera
illt verra. Sá ótti reyndist ástæðulaus. Vissulega tekur svona vinna á en lífsgæði mín hafa
aukist mikið. Ég upplifi mig hafa stjórn á eigin lífi og mér líður í alla staði betur.
Ég vona að þessar línur hjálpi til við að veita fleirum kjark til þess að segja sína sögu.
Skömmin er ekki okkar.
48.
Ég fæ flassbakk, myndir af gúrkum og kertum og dildóum og drasli inni í mér og því að
hafa setið undir einræðum um ömurlegheit mín og kynkulda og endalausar frásagnir
hvað allar þessar konur væru sexý og hann til í að taka þær og hvað allar hinar konurnar
sem hann hafði sofið hjá væru miklu skemmtilegri í rúminu en ég og að hann yrði að eiga
viðhald því ég væri svo víð og boring og hvað ég þoli ekki að labba á undan neinum upp
stiga eftir að hafa verið slegin milljón sinnum í rassinn af því að honum fannst svo fyndið
hvað mér fannst það óþolandi vont og honum að heimta að raka mig að neðan af því að
honum fannst það svo gaman og mér að leika rúnkmúffu svo að hann færi ekki í fýlu og
mér að leika allskonar leikrit og gera bjánalegar mjaðmahreyfingar sem honum fannst
svo gaman að glápa á og þurfa að vera með einhverja hálfvitalega grímu og herma eftir
atriði úr klámmyndum og honum með nektarmyndir af mér sem hann setti á einhverja
síðu sem ég fékk aldrei að vita hvar er og fokking helvítis ógeðslega brundinn sem
honum fannst svo sexý að káma yfir mig alla og honum að reyna alltaf að girða niðrum
mig í lyftum og niðurlægingin í því að totta til að halda friðinn og ég fæ illt í magann af að
hugsa um sársaukann í hinu gatinu sem átti alltaf að vera bara mitt fyrir mig en var
stolið af mér. Ég man líka svipmyndir af honum að lemja mig ólétta og hrækja á mig og
ég man hvernig ég hugsaði um að passa barnið í maganum á mér og hvernig mér fannst
svo eins og þetta hefði nú ekki verið svo slæmt því hann hætti að lemja mig. Hann notaði
bara fýlukúgun og þögn í staðinn. Ég er að reyna að hætta að vera líka reið við sjálfa mig.
Það er vegferð.
49.
Ég upplifði mikið ofbeldi sem krakki. Pabbi var mikill drykkjumaður og eftir að foreldrar
mínir skildu þá einhverra hluta vegna fannst fólki góð hugmynd að ég færi til hans aðra
hverja helgi. Hann lofaði nefnilega að drekka ekki þegar hann væri með mig.
Á mínum helgum upplifði ég hann drekka mikið, hann drapst oft og lengi og ég var ein og
hjálparlaus allt niður í 5 ára gömul að draga blindfullan kallinn á lappir þegar hann
limpaðist í götuna og sofnaði. Hann fór með mig drykkjubælanna á milli, þekkta rónabari
og yfirgefin hús til að drekka með félögum sínum í. Einu sinni læsti ég mig yfir nótt í
herbergi í yfirgefnu húsi þegar hann og vinur hans voru í samningaviðræðum hvað það
myndi kosta vininn að fá aðgang að mér. Ég var ca 9 ára. Hann beitti mig gríðarlegu
andlegu ofbeldi sparkaði í mig, hótaði barsmíðum og reyndi í gríð og erg að snerta mig á
mínum einkastöðum. Ég á skrítin minningarbrot af kynferðislegu ofbeldi en þau eru stutt
sem ég næ ekki að setja almennilega saman. Líklega því ég hef verið svo ung. Þegar ég
var eldri kvartaði hann undan því að það væri ekkert hægt að gera með mér því ég
kjaftaði alltaf öllu. Líklega mín lífsbjörg.
Það kynferðislega ofbeldi sem ég man eftir hins vegar greinilega eftir var þegar 13 ára
frændi minn reyndi að nauðga mér 7 ára inni á baði í afmælisveislu. Hann neyddi mig til
munnmaka, reyndi að nauðga mér í gegnum leggöng og endaþarm en var of klaufalegur
til að það tækist fyllilega. Fallegasta hljóð í heimi var þegar frænka mín barði með
miklum látum á hurðina og rak hann til að opna. Hún hafði fundið á sér að eitthvað gengi
á og honum var eftir það bannað að umgangast mig. Málið var tæklað þannig. Þennan
dag missti ég minn uppáhalds frænda og vin.
Þegar ég var 13 ára kom að kaflaskilum þar sem kallinn gekk svo fram af mér að ég
óskaði eftir að fá hjálp. Ég gat ekki meir. Sú hjálp endaði með nálgunarbanni sem ég hef
ævinlega verið þakklát fyrir. Það gaf mér loksins pláss til að anda. Ég lærði samt ekki fyrr
en eftir þrítugt hvað ofbeldi í raun og veru er eftir mikla aðstoð og er enn að læra.
Kvennaathvarfið kenndi mér líka og það að hafa leitað þangað á einhverjum tímapunkti
eftir samband sem fullorðin kona, er alltof algengt miðað við reynslu úr æsku.
Ég glími við afleiðingar lífsins á hverjum degi og suma daga þarf ég að klappa mér á
öxlina fyrir að standa enn í lappirnar. Eins og það er erfitt að lesa sögurnar ykkar og
þekkja mína eigin í þeim þá er svo þakklát fyrir að það er vettvangur til að koma þessu
frá sér.
50.
Mín saga er saga andlegs- og líkamlegs ofbeldis af hendi eiginmanns míns.
Við vorum saman í tæp 18 ár. Fyrstu árin voru góð en svo byrjuðu öskrin, vantraustið og
hlutir brotnuðu viljandi. Hann kallaði mig nöfnum, m.a. að ég væri vitlaus, viðbjóður,
veruleikafirrt, fáviti, lygari, kynköld, fráhrindandi, o.s.frv. Hann fílaði ekki að vera
náriðill.
Svo fór hann að beita mig líkamlegu ofbeldi en ég man ekki nákvæmlega hvenær það
hófst. En oft hugsaði ég: „Næst þegar hann lemur mig, þá fer ég“. Það þurfti mjög margar
barsmíðar þangað til að ég fékk loks kjarkinn til að fara. Líkamlega ofbeldið fólst í
barsmíðum, spörkum, hálstökum og að snúa upp á handleggina. Í eitt skipti fór ég í
ómskoðun á Domus Medica því ég hélt að ég væri brotin. Ég var oft með úlnliðshlífar því
ég var svo aum. Einu sinni barði hann mig með skaftpotti, þannig að skaftið brotnaði af. Í
hinni hendinni hélt hann á pönnu.
Hann þoldi ekki þegar ég fór út á kvöldin og var alltaf brjálaður þegar ég kom heim. Á
meðan ég var að heiman, sendi hann mér iðulega sms um að vera ekkert að koma heim.
Ég væri betur sett annars staðar. Að börnin væru betur sett hjá honum án mín. Smátt og
smátt var ég farin að fjarlægjast vini mína.
Við börnin talaði hann illa um mig og rakkaði mig niður fyrir framan þau. Hann beitti
þau einnig andlegu ofbeldi. Þau áttu að segja „pabbi og mamma“, ekki „mamma og
pabbi“. Á kvöldin hreytti hann framan í þau að hann sá eftir að hafa eytt deginum með
þeim.
Oft henti hann mér út úr húsinu en alltaf fór ég aftur inn. Stundum beið ég lengi með að
fara aftur heim. Ef hann var ekki sofnaður þegar ég kom aftur, þá héldu öskrin og
barsmíðarnar áfram.
Þegar andrúmsloftið var þannig að ég vissi í hvað stefndi, þá missti ég hægðir af hræðslu.
Í íbúðinni er brot í vegg, hurð og borð. Hann ógnaði mér með hnífum en sem betur fór,
var það bara sófaborðið og borðstofuborðið sem varð fyrir hnífaárás.
Það er næstum liðið eitt og hálft ár frá því að ég losnaði. En til þess að losna, þá gekk ég í
gegnum versta ofbeldið. Hann sló mig með flösku í höfuðið þannig að sauma þurfti
nokkur spor. Ég mun ávallt bera það ör. Hann tók mig hálstaki þannig að ég átti erfitt
með að kyngja í 4 vikur. Hann ætlaði að henda mér fram af svölunum. Hann lét höggin
dynja á andliti mínu og líkama. Að lokum henti hann mér út, í roki og rigningu, á
nærbuxum og bol. Þarna fann ég loks kraftinn að fara. Ég var lögð inn á spítala vegna
þess hversu illa farin ég var. Í kjölfarið dvöldum ég og börnin í Kvennaathvarfinu.
Ofbeldið hélt samt áfram. Hann vildi ekki trúa því að ég væri farin. Á 4 mánaða tímabili
sendi hann mér um 130 tölvupósta, sem innihéldu allt frá ástarjátningum yfir í hótanir. Í
tvígang reif hann bílnúmerin af bílnum mínum. Hann fékk á sig 5 nálgunarbönn.
Ég glími við minnisleysi, er greind með áfallastreituröskun og mér bregður mjög
auðveldlega.
En þrátt fyrir allt er ég frjáls kona sem gæti ekki verið hamingjusamari. Ég elska lífið.
51.
Ég fæddist inn í fjölskyldu með óheilbrigð tengsl, sem kostaði að lítil stúlka bar ein
ábyrgð gjörða ættingja öll sín uppvaxtarár. Ég var 5 ára þegar mamma fór út að skemmta
sér og ég var í pössun hjá frænku og frænda, frændi minn þá rúmlega 13 ára bað mig um
að gista uppi hjá sér, þetta kvöld var sakleysi mínu rænt, þegar hann reyndi
endaþarmsmök við 5 ára gamalt barn, ég man vel óttann og hræsluna þegar ég faldi mig
bak við svefnsófann, þegar mamma kom heim um nóttina eftir skemmtun kvöldins og
þegar ég neitaði að færa mig úr stað, ég sagði ekkert og mamma fattaði ekkert þar til 3
árum síðar þegar næsti frændi, bróðir mömmu minnar passaði mig heilt sumar þegar ég
var að verða 9 ára, það var enn verra og ógeðslegra og aftur var þetta unglingur undir
lögaldri 14 ára gamall sem mamma treysti til að gæta mín, eftir þetta sumar tóku við
martraðir og fyrstu sjálfsvígshugsanirnar. Mamma fór í sambúð með manni þegar ég var
10 ára sem betur fer stóð stutt og hann einnig beitti kynferðislegu ofbeldi gagnvart mér
og dóttur sinni, í þetta sinn sagði ég aldrei mömmu frá þessu enda þegar búin að læra að
segja frá hjálpaði mér ekki neitt. Ég var orðin fullorðin 10 ára, þegar búin að vera beitt
kynferðislegu ofbeldi af 5 mismunandi einstaklingum sem maður átti að treysta og eða
sem móðir mín treysti fyrir. Ég sagði mömmu frá 9 ára sem hjálpaði ekki því hún lét
barnið sitt bera afleiðingar þessara brota í 33 ár, haldandi að öll þau ár hafi hún látið
rétta aðila vita og gert eitthvað í málinu á sínum tíma, en málið var ég ólst upp í veikri
fjölskyldu þar sem þögnin var vopnið og öllum þessum árum síðar þegar ég skilaði loks
skömminni formlega kom í ljós að móðir mín hafði aldrei gert neitt. Ég veit ekki hvort sé
verra ofbeldið eða þögnin því eftir áratuga sjálfsvinnu skilaði ég skömminni og tilkynnti
ættingjum og móður að ég væri hætt að taka ábyrgð lengur, fylgdi engin samúð eða
stuðningur, ég bjóst svo sem ekki við neinu frá móður minni enda vissi ég fyrir löngu að
hún væri óhæf um að taka ábyrgð og öll púslin voru orðin að mynd að hennar hegðun
mín uppvaxtarár voru byggð á þeirri staðreynd að sektarkennd, yfirhylming og lygi var
það sem hún ákvað að viðhalda og fela svona ljótri sögu 5 ára barni til að bera. Það
sorglega er að öll móðurfjölskyldan brást líka þessum 33 árum seinna með þögninni.
Þögnin er versti óvinurinn. Ég er löngu hætt að þegja.
52.
Mér var nauðgað af maka, með vakandi barn í fanginu. Ég sagði nei, hættu, ekki og reyndi
að berjast um án árangurs.
Ég kærði málið seint og um síðir en það var fellt niður.
53.
Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvað ég var gömul þegar hann byrjaði né í hvaða röð
atvikin voru en hér koma nokkur brot.
– Hann kom inn settist á rúmið mitt, hann var fullur, sagði að nú væri ég byrjuð að fá
brjóst og þá þyrfti hann að sýna mér hvernig strákar ætti að koma við þau, hann lyfti
sænginni á meðan hann talaði og byrjaði að þukla mig, ég var skíthrædd, tárin láku, ég
reyndi að toga sængina upp að hálsi en hann hélt henni frá, skyndilega stóð hann upp og
fór og ég grét mig í svefn.
– Ég og systir mín vorum í mömmu rúmi þegar hann kom fullur heim úr partýi en
mamma var ennþá þar. Hann settist hjá okkur og ég kjökra bið hann að fara fram en nei
hann varð að finna brjóstin… hvort þau væru ekki að stækka rétt en í þetta skipti þreifaði
hann bara undir sænginni sennilega vegna systur minnar. Við vorum báðar svo hræddar
að við hágrétum.
– Hann sat fullur á rúminu mínu og var að tala við mig þegar mamma kom og bað hann
að koma fram en hann þráttaði og heimataði að fá að tala við mig áfram… hann væri ekki
að gera mér neitt …. hann var bara að tala við mig en ég lá skíthrædd í rúminu og vonaði
að mamma næði honum fram …. þau voru farin að rífast hátt hún að segja honum að
drullast fram og hann að þrjóskast við að vera hjá mér að „tala“ …það endaði með því að
mamma var farin að toga hann fram á meðan hann ríghélt í rúmgaflinn hjá mér hún náði
honum loks þegar rúmið skall á veggnum við hurðina slíkur var offorsinn.
– Við vorum með barnapíu, frændi hans og kærasta frændans.
Hann kemur á undan mömmu (eins og oft) og fer nánast beint inn til mín en í þetta
skiptið hafði ég hlaupið inn í herbergi og læst að mér þannig að hann fer að banka og
biðja mig um að tala við sig … heimtar að fá að sjá hvort ég sé búin að læra en þarna er
hann farinn að berja þannig á hurðina að frændinn hafði áhyggjur um að hann myndi
vekja hin systkinin mín og bað mig að opna fyrir honum…. ég… hlýddi…
hann settist við skrifborðið mitt og lét mig setjast í fangið á honum… hann þóttist hlýða
mér yfir heimanámið á meðan hann þuklaði brjóstin.
ég heyrði kærustuna hafa áhyggjur af því að hann væri inni hjá mér og bað kærastann
um að ná kallinum fram en hann þorði því ekki en hún hætti ekki að jagast í honum ég
man að þarna var engillinn minn kominn að bjarga mér… þarna myndi allt fattast og
hætta.
frændinn byrjaði að banka og kalla á kallinn, segja kallinum að koma fram, koma og tala
við sig en kallinn gaf sig ekki, sagði frændanum að hann væri að aðstoða mig við
heimanámið.
Frændinn á endanum braust inn og dró kallinn fram með látum og ég hljóp uppí rúm og
undir sæng …. eftir smástund kemur kærastan og finnur mig með ekkasog og skjálfta,
hún talar rólega við mig og segir „ég veit hvað var í gangi þetta kom fyrir mig líka“
frændinn kemur inn og hún segir við hann “ þú verður að hringja í mömmuna ég veit
hvað var í gangi ég hef lent í þessu sjálf“ ég man bara eftir ljósa síða hárinu á henni…. það
gerðist ekkert í kjölfarið af þessu. Nema ég fór sjálf niður í Stígamót og lærði sjálfsvörn.
– Mamma fór til útlanda en kl. 17 þann daginn var hann byrjaður að drekka og eftir þetta
með frændann (sem var 2 árum fyrr) vandi hann sig á að gefa mér pening en um ca. kl.18
gaf hann mér pening og var að tala við mig. Hann var að spurja hvort ég væri farin að
vera með strákum hvort ég væri farin að kyssa og hvort ég væri búin að ríða strák.
Ég reyndi eins og ég gat að koma mér út úr þessum aðstæðum …. það var enginn að fara
koma heim í 4 daga… ég var að panikka og minnti hann á að ég kynni sjálfsvörn, hann tók
um hendurnar mínar og spurði hvort við ættum að reyna á það.
Ég náði að stynja því uppúr mér hvort ég mætti ekki fara í félagsmiðstöðina eins og um
var samið og þarna var klukkan blessunarlega að verða 19 þannig að ég slapp út.
Ég man að ég var allt kvöldið að reyna að finna út hvernig ég ætti að leysa þetta en það
endaði á að ég fríkaði út inni á skrifstofu hjá starfsfólkinu og sagði allt held ég … ég man
ekki almennilega eftir þessari sturlun nema að ég var færð niður á Kvennaathvarf.
Þarna loksins kom kraftur í mig og ÉG LAGÐI FRAM KÆRU.
– Barnaverndarnefnd skikkaði okkur í fjölskyldumeðferð hjá sálfræðingi en við áttum að
vinna í því að vera meira sátt sem fjölskylda, við vorum í þessari „meðferð“ i 2 ár, það er
skemmst frá því að segja að þetta virkaði ekki því það snérist allt um hve erfið ég var.
Eftir að ég sá að málinu var vísað frá vegna ónógra sannanna hét ég mér því að ÉG MUNI
ALDREI ÞEGJA og ég sagði öllum frá sem heyra vildu.
– Svo líður tíminn og ég tala ekki eins mikið um þetta og á sama tíma kúpla ég mig frá
fjölskyldunni fer ég að vilja síður að þessi eða hinn viti sannleikann eins og yngri systkin
mín þegar þau stækkuðu og ég sá hve mikið þau elskuðu pabba sinn gat ég ekki hugsa
mér að þau vissu þetta.
– Hann þuklaði aftur á mér þegar ég var 19 ára, ætlaði að sýna mé hversu saklaust þetta
var.
– Áramótapartý hjá mömmu og stjúpa, það var liðið vel á nóttina og við systur skruppum
heim til mín, blönduðum okkur nokkra drykki og röltum svo aftur í partýið en þá voru
allir farnir heim svo ég tíndi til dótið mitt og var að fara heim, kemur kallinn til að kveðja
mig og smellir á mig kossi nema þessum kossi fylgdi tunga uppí mig og ég fraus, ég fékk
svo mikið áfall að ég pissaði niður og ýtti honum frá mér. Svo ráfaði ég eins og illa gerður
hlutur þarna í eldhúsinu, systkinin mín voru að tannbursta og mamma lá í sófanum, ég
gekk að henni beygði mig niður og kyssti hana marg oft á kinnina, við höfum ekki sýnt
hvor annari líkamlega ást nema að mjög litlu og þvinguðu leiti síðan ég var lítil, faðmlög
og kossar voru sirka 1 sinni á ári svo þetta var mjög skrítin hegðun hjá mér.
Ég held að þarna hafi ég verið að kveðja hana.
Ég fór út og ráfaði um hverfið í áfalli í eitthvern tíma áður en ég fór heim. Ég náði að
segja manninum mínum frá þessu í febrúar ég fann ekki orðin og kjarkinn fyrr.
Fór ekki aftur til þeirra.
– Ég fór oft í hest og fjárhúsin með stjúpafa enda hafði ég óendalegan áhuga á dýrum.
þegar ég var um 11 eða 12 ára fóru bílferðirnar heim að verða erfiðar, hann lagði oft
höndina sína á hnéð á mér og strauk upp lærið. Hann strauk hærra og hærra í hverri ferð
á endanum var hann farinn að þukla klofið utan klæða í hverri bílferð og nú báðar leiðir.
Eitt skipti inni í fjárhúsi ýtti hann mér upp við vegg og þuklaði bróstin og reyndi að fara í
sleik við mig en ég klemmdi munninn fast saman og einu sinni í bílnum fyrir utan heimili
mitt náði hann að setja tunguna upp í mig en eftir þetta fór ég að taka vinkonu með til að
hann gæti ekki gert neitt.
Ég var svo vön að vilja fara með honum í sveitina að ég vissi ekki hvernig ég ætti að
koma mér út úr því án þess að segja frá.
Ég hélt að ég myndi fagna þegar hann myndi deyja því kom það mér í opna skjöldu þegar
ég syrgði hann og brotnaði gjörsamlega niður ég skildi ekki tilfinningar mínar.
-Þegar ég fór niður á gamla RLR að gefa skýrslu um stjúpann fékk ég í fyrsta skipti
hugrekki til að segja frá stjúpafanum en mamma greip fram í og sagði “ nei, nú hættir þú“
í þá daga var foreldri eða forráðamaður með inni í skýrslutökunni. Þessi hluti
fékk ekki að heyrast. Mamma sagði við lögregluna að ég væri að misskilja gamla
manninn, hann væri bara kall sem faðmaði þétt og kyssti innilega.
Ég var alltaf hrædd um að fleiri hafi lent í honum.
– Ég byrjaði fljótlega í neyslu og varð erfið , hætti að nenna skólanum og snéri mér alfarið
að strákum því ég fann hvernig valdataflið snerist, ég átti hvern kærastan af fæti öðrum,
ég réð ferðinni og þróaði með mér ástar- og kynlífsfíkn ásamt áfengisfíkn en 14 ára
kynntist ég barnsföður mínum sem var eldri og flutti til hans eftir nokkurra mánaða
samband, hann var miðinn minn út af heimilinu.
– Í 10unda bekk var ég send í heimavistarskóla þar sem fljólega fór mikið einelti í gang
sem endaði með því að ég strauk og í framhaldi af því lögð inn á BUGL.
Það reyndist hið mesta gæfuspor fyrir mig því þarna var hlustað á mig og tekin staða
með mér. Ákveðið var að ég gæti ekki farið aftur heim og fundin var fósturfjölskylda fyrir
mig.
– Samskiptin við fjölskylduna urðu alltaf erfiðari og erfiðari, enginn trúði mér og ég var
bara vandræðaunglingur.
Ég rasaði út í nokkur ár, eignaðist barn, missti fótana og endaði í meðferð.
– Afleiðingarnar af ofbeldinu hafa verið miklar þunglyndi, sjálfsvígshætta, ptsd,
flemturröskun óvinnufærni, vefjagigt, lágt sjálfsmat, engin sjálfsvirðing, sjálfshatur, ótti
við yfirmenn, leigusala, banka, hætti að geta faðmað dóttir mína (skömmin sem því
fylgdi var nánast óyfirstíganleg), hætti að faðma fólk, hrædd við hávaxna karlmenn,
örorka, fátækt, vanmáttur í erfiðum aðstæðum, og svona mætti lengi telja.
2012 setti ég sjálfsvinnu í algjöran forgang enda var ég komin í þrot með sjálfa mig, ég
leitaði til 12 spora og fór að vinna sporin. 2013 fann ég mikla löngun á að taka til í gömlu
tilfinningunum og fékk viðtöl í Drekaslóð. Sjálfsvinnan gekk vel, ég var tilbúin, ég var
laus úr fórnarlambshlutverkinu og gat séð hvernig ég hefði val í öllum aðstæðum,
hvernig ég hafði alltaf eitthvað að segja um hvernig hlutirnir fóru og gat sett mig í
forgang. Ég er óendanlega þakklát fyrir alla sem hjálpuðu mér í batagöngunni
stuðninginn sem ég fékk.
Ég er enn að vinna með afleiðingarnar en ég sé núna að ég má vera glöð, ég má vera
hamingjusöm, ég má vera ÉG með öllum mínum göllum, ég er líklegast ekki að fara verða
vinnufær í þessu lífi en ég er hætt að hafa samviskubit yfir því, ég í dag reyni að gera allt
til að vera hamingjusöm og glöð.
#metoo #höfumhátt #konurtala #égmunaldreiþegja #metoofjölskyldutengsl
Undirskriftir:
1. Kolbrún Dögg Arnardóttir
2. María Hjálmtýsdóttir
3. Brynhildur Yrsa Valkyrja
4. Ragnhildur Jóhanns
5. Ásta Grétars
6. Helga Jónasar
7. Sædís Ósk Harðardóttir
8. Matthildur Kristmannsdóttir
9. Sesselja Þrastardóttir
10. Hildur Jónsdóttir
11. Þórhildur Löve
12. Elva B. Sigurðardóttir
13. Emma Ásudóttir Árnadóttir
14. Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachmann
15. Sigurlaug St S. Kjartansson
16. Helga Ólöf Þórdísardóttir
17. Ragnheiður Sölvadóttir
18. Sunna Lind Bang
19. Sigrún Sif Jóelsdóttir
20. Hrafnhildur Rafnsdóttir
21. Guðrún Ágústa Kjartansdóttir
22. Hrefna Cregger
23. Erna Dýrfjörð Stefánsdóttir
24. Karen Steinþórsdóttir
25. Auður Hrefnudóttir
26. Sigurbjörg Sæmundsdóttir
27. Særún Magnea Samúelsdóttir
28. Sonja Einarsdóttir
29. Guðrún Línberg Guðjónsdóttir
30. Nína Vigdísardóttir Björnsdóttir
31. Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir
32. Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir
33. Sigríður Elín Olsen
34. Guðrún Helga Eyþórsdóttir
35. Ásta Sóllilja Karlsdóttir
36. Nótt Aradóttir
37. Helga Svava Hauksdóttir
38. Ylfa Lind Gylfadóttir
39. Elva Dögg Blumenstein
40. Steinunn Anna Radha
41. Sara Kristjánsdóttir
42. Kristín Ragnheiður Óðinsdóttir
43. Sigríður Ásta Árnadóttir
44. Kristín Vilhjálmsdóttir
45. Tinna Steindórsdóttir
46. Katrín Baldursdóttir
47. Gerður Björk Ólafsdóttir
48. Birta Rós Antonsdóttir
49. Ragnhildur Erla Þorgeirsdóttir
50. Elísabet Gígja
51. Anna Sigríður Gunnarsdóttir
52. Gabríela Bryndís Ernudóttir
53. Júlía Margrét Einarsdóttir
54. Helga Bryndís Ernudóttir
55. Jenný Heiða Zalewski
56. Birta Dögg
57. Hafdís Erla Árnadóttir
58. Berglind Blöndal
59. Anna Ragna Magnúsardóttir
60. Fjóla Guðmundsdóttir
61. Steinunn Lilja Logadóttir
62. Eva Dís Þórðardóttir
63. Ragna Björg Björnsdóttir
64. Sigríður Björnsdóttir
65. Lovisa Kelly
66. Svava Brooks
67. Fríða Bragadóttir
68. Karen Elva Jónsdóttir
69. Sigurlaug Lára
70. Viktoría Rós Jóhannsdóttir
71. Nanna K. Kristjánsdóttir
72. Hjördís Guðlaugsdóttir
73. Guðrún Anna Friðbertsdóttir/Hoolboom
74. Anna S. Gunnarsdottir
75. Birgitta Lind Vilhjálmsdóttir
76. Helga Dís Ísfold Álfheiðardóttir Sigurðardóttir
77. Candice Michelle Goddard
78. Valgerður Kristinsdóttir
79. Edda Sigurðardóttir
80. Eyrún Þórsdóttir
81. Elín Lóa Kristjánsdóttir
82. Freyja Vals Sesseljudóttir
83. Þóra Hjörleifsdóttir
84. Áslaug Ragnhildardóttir
85. Steinunn Ólöf Hjartardóttir
86. Guðrún Ósk Þórðardóttir
87. Elena Arngrímsdóttir
88. Elva Rut Antonsdóttir
89. Hulda Hrund Sigmundsdóttir
90. María Rut Hinriksdóttir
91. Helga Skjoldal
92. Dagrún Þórný Marínardóttir
93. Anna Karen Káradóttir
94. Kristjana Margrét
95. Guðný Ósk Þórðardóttir
96. Hugrún Jónsdóttir
97. Ólöf Þóra Sverrisdóttir
98. Marsilía Dröfn Sigurðardóttir
99. X – 39 ára, öryrki
100. Heiða Hrönn Sigmundsdóttir
101. Sigrún Jóhannsdóttir
102. Fríða Rós Valdimarsdóttir
103. Guðný Hrefna Leifsdóttir
104. Laufey Þorsteinsdóttir
105. Berglind Ýr Gylfadóttir
106. Heiðdís Ýr Angel
107. Ólöf Þóra Hafliðadóttir
108. Jenný Kristín Valberg
109. Sigrún Ósk Arnardóttir
110. Erla Karlsdottir
111. Sonja Bjarnadottir
112. Freyja Eilíf Helgudóttir
113. Arndís Ey Eiríksdóttir
114. Arna Björg Jónasdóttir
115. Birna Rún Pétursdóttir
116. Halldóra Jónasdóttir
117. Edda Rún Aradóttir
118. Birta Marsilía Össurardóttir
119. Heiða Hrönn Sigmundsdóttir
120. Hlíf Steinsdóttir
121. Sara Stef. Hildardóttir
122. X – 43 ára móðir
123. X – 34 ára móðir sem getur ekki komið fram undir nafni af ótta við hefnd
barnsföður
124. Sjöfn Friðriksdóttir
125. X – kona sem óttast hefnd barnsföður
126. Bryndís Svavarsdóttir
127. Hrafnhildur Hauksdóttir
128. Borghildur Dóra Björnsdóttir
129. Eva Lilja Rúnarsdóttir
130. María Norðdahl
131. X – 47 ára móðir
132. Halldóra Kristjánsdóttir Larsen
133. Linda Íris Emilsdóttir
134. Sigrún Karls Kristínardóttir
135. Helga Svava Hauksdóttir
136. Björg Guðrún Gísladóttir
137. Lúcía Sigrún Ólafsdóttir
138. Hildur Ösp Þorsteinsdóttir
139. Baddy Hrönn
140. Isabelle Axelsdóttir
141. Laufey Jóhannesdóttir
142. X – 42 ára

Ein athugasemd við “Fyrir luktum dyrum #metoo

  1. Ert þú fórnarlamb slíkra svika eða hvers kyns netsvindls! Safnaðu saman öllum sönnunargögnum þínum á einu samræmdu sniði og sendu þau til Lallroyal .org. Endurheimtarfyrirtækið rukkar núll fyrirframgjöld og rekur kynningarfrjáls ráðgjöf. Þeir hjálpuðu mér einu sinni á síðasta ári þegar ég tapaði meira en $37.000 vegna rómantísks svindls á netinu í gegnum bitcoin, kreditkortamillifærslu og millifærslu. Þeir eru bestir.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.