Forréttindafemínistinn

evahuld2Eva Huld skrifar:

• Ég er 5 ára og leikskólabróðir minn kýlir mig því ég set ekki hendur undir borð eins og hann fyrirskipar.
• Ég er 7 ára og ég þrái að fá rafmagnsbíl í jólagjöf eins og frændur mínir.
• Ég er 9 ára og er send til skólastjórans því ég hrinti skólabróður mínum þegar hann hætti ekki að toga í hárið á mér og stríða mér.
• Ég er 11 ára og er búin að læra að passa mig á myndlistakennaranum sem horfir ofan í hálsmál stelpnanna og er ,,óþægilegur.“
• Ég er 13 ára og ég er allt of fyrirferðarmikil og hávær og byrjuð að þróa með mér átröskun til að taka minna pláss í heiminum og vera þóknanlegri.
• Ég er 15 ára og mér er ráðlagt að tala minna og hlæja meira að bröndurum strákanna.
• Ég er 17 ára og skólabróðir minn fær sömu laun og ég. Hann fór ekki fram á þau en ég þurfti að rökstyðja að ég ætti rétt á þeim í ljósi reynslu minnar.
• Ég er 19 ára og ég er fárveik af átröskun því þó ég hafi ekki lengur jafn hátt, tek ég samt allt of mikið pláss.
• Ég er 21 árs og fertugur karl tekur ekki mark á mér þegar ég bið hann um að láta mig í friði. Honum finnst ég bara heppinn að vera falleg.
• Ég er 23 ára og vinkonu minni er nauðgað á salerninu á skemmtistað þó við pössuðum okkur að fara aldrei einar á salernin í kjöllurum skemmtistaða.
• Ég er 25 ára með lágt sjálfsmat og brenglaða sjálfsmynd.
• Ég er 27 ára og ég er rekin af því að ég er ólétt.
• Ég er 29 ára og fer aftur í nám því námslánin eru ekki mikið lægri en launin sem mér býðst með menntun mína í kjólasaum. Það er líka eina leiðin sem ég sé mér færa til að tryggja barninu mínu öruggt húsaskjól.
• Ég er 31 árs og kennarinn minn við lagadeild Háskóla Íslands svarar ekki spurningum mínum og virðir mig ekki viðlits á meðan hann ræðir efnið við skólabræður mína eftir kennslustund. Hann veltir því loks upp hvort að konur nenni yfir höfuð að sitja í Hæstarétti.
• Ég er 33 ára og kórstjóri sex ára dóttur minnar skammar hana fyrir að sitja ekki kyrr í stólnum á meðan strákunum líðst að standa upp og iða að vild.

Ég er forréttindafemínisti og ég nenni þessu ekki lengur.

Þessi atriði eru ekki einsdæmi. Þau eru ekki öll sláandi eða refsiverð eins og allar frásagnir kvennanna af kynbundnu ofbeldi sem komið hafa fram á undanförnum mánuðum undir formerkjum #metoo byltingarinnar. Þær eru hins vegar af sama meiði runnar, afleiðingar af menningu sem gerir árásagjarnri karlmennsku hátt undir höfði.
Nú þegar rykið hefur sest eftir byltingar undangenginna ára og áratuga er ljóst að feðraveldið ætlar ekki að horfast í augu við eigin galla. Það elur af sér ofbeldi, fátækt og unga stráka sem falla fyrir eigin hendi. Það er rotið og ógeðslegt og ég neita að mæta því á miðri leið. Ég kæri mig hvorki um forstjóralaun feðraveldisins né eina sætið í hæstarétti sem merkt er konu. Ég kæri mig ekki um að þær örfáu hvítu menntuðu konur sem fá hluta af valdakerfi feðraveldisins öðlist þannig tækifæri til að ráða sér verr staddar konur til að þrífa heimilið, ungling til að sækja börnin í skólann og borga fyrirtæki til að sjá um innkaupin. Mér er alveg sama um glerþakið, ég vil rífa þessa grotnandi byggingu.
Ég vil öryggi fyrir okkur öll; konur, kynsegin fólk, fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna. Ég vil vinnumarkað sem aðlagar sig að þörfum samfélagsins og deilir ábyrgðinni og auðnum. Ég vil að störf kvennanna sem tóku á móti börnunum mínum og fólksins sem menntar þau séu metin til launa eins og störf bankastarfsmannanna sem millifæra mánaðalaunin mín, fólksins sem býr til auglýsingar, byggir fasteignir og stjórnar landinu.
Sem hvíti og menntaði femínistinn sem ég er vil ég að íslenskt samfélag mæti konum á þeirra forsendum en ekki sem undirflokk karla með þeirri afsökun að konur séu líka menn. Ég krefst þess að fólk njóti meðfæddra mannréttinda óháð því hvaða kyni því var úthlutað í fæðingu og innan hvaða landamæra.
Og fyrst ég er að gera kröfur á annað borð vil ég að við hlífum jörðinni sem við búum á, tökum ábyrgð á gjörðum okkar og græðum hana í stað þess að skipuleggja fólksflutninga fyrir feðraveldið til Mars.
Ég vil jafnrétti.

Ein athugasemd við “Forréttindafemínistinn

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.