Fyrirmyndarfemínisti?

Nýverið birtist viðtal við Sigríði Pétursdóttur í Glamour og hér getið þið lesið það sem hún hafði að segja í formi pistils.

Meghan Markle var varla búin að klæða sig úr drifhvítum brúðarkjólnum þegar tilkynning kom frá höllinni um að ekkert væri því til fyrirstöðu að hertogaynjan af Sussex notaði stöðu sína til halda áfram femínískri baráttu sinni. Það kom flatt upp á marga sem höfðu haft hátt um að eftir brúðkaupið yrði þaggað niður í henni hið snarasta. Rökræðurnar hér í Bretlandi halda þó áfram. Sumir telja að eftir að hún sé komin í þessa stöðu geti varla annað komið frá henni en innantómur hljómur yfirstéttarfemínista, meðan aðrir benda á að hún hafi þegar látið til sín taka. Harry og Meghan létu taka það út úr brúðkaupsheitunum að hún ætti að ‘hlýða’ eiginmanninum og brúðurin gekk ein og óstudd inn kirkjugólfið, þó tilvonandi tengdafaðir hafi tekið á móti henni og fylgt síðasta spölinn.

Ennþá merkilegra þykir að Harry og Meghan afþökkuðu brúðargjafir, en báðu gesti þess í stað að gefa til góðgerðarmála, til dæmis að kaupa dömubindi handa indverskum konum. Meghan heimsótti Myna Mahila samtökin á Indlandi í fyrra og skrifaði í framhaldi af því grein í Times Magazine um hvernig skömmin sem fylgir því að fara á túr og skortur á dömubindum geri það að verkum að 23% indverskra stúlkna hætti í skóla um 13 ára aldur. Menntun ungra, fátækra kvenna hefur verið baráttumál hennar árum saman, meðal annars í vinnu fyrir samtök eins og World Vision, One Young World og UN Women.

Meghan og Harry kynntust við góðgerðarstörf, og eðlilegt væri að þau haldi bæði áfram að láta til sín taka. Harry, William og Kate hafa undanfarið ár staðið fyrir vitundarvakningu um geðheilbrigðismál, mikilvægi þess að vera opinská um geðheilsu, og að útrýma skömminni. Meghan er þegar byrjuð að vinna með þeim að því. Fjöldi fólks hefur opnað sig um að herferðin hafi bjargað lífi þess. Unga kóngafólkið er að breyta ásýnd og tilgangi konungdæmisins, og þó sumir fussi vantrúaðir, er ekki annað hægt en að dást að því að fólk í þessari undarlegu stöðu nýti hana til góðra verka. Móðir þeirra og tengdamóðir, Diana heitin, var mannvinur og baráttukona fyrir mannréttindum. Greinilegt er að þau vilja feta í hennar fótspor.

Það er nýtt að meðlimur konungsfjölskyldunnar sé yfirlýstur femínisti, en hógvær og lágstemmd barátta fyrir kvenréttindum hefur samt átt sér stað undanfarin ár. Til að mynda vakti gríðarlega athygli þegar Kate byrjaði að kaupa ódýr föt frá verslunarkeðjum og nota sömu kjólana ítrekað. Hún lét líka sjá sig með rót í hárinu, og allt ætlaði um koll að keyra þegar hún sýndi að konur eru líka með bumbu eftir að þær fæða börn. Þvílík afhjúpun.

Sú sem virðist gleðjast mest yfir þessari nútímavæðingu er Drottningin sjálf, og það vakti athygli að hún bauð Meghan heim fyrr en hún hefur boðið nokkurri annarri viðbót við fjölskylduna. Ekki kom það mér á óvart þar sem Elizabeth II hefur löngum verið þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir til að leggja baráttumálum lið. Uppáhalds sagan mín er af því þegar hún bauð prinsinum af Saudi-Arabíu í bíltúr um landareignina, en konur máttu ekki taka bílpróf í Saudi. Sagan segir að hún hafi meira að segja opnað húddið og duddað eitthvað í vélinni, meðan hann fylgdist með dreyrrauður af skömm og reiði.

Með tilliti til alls þessa hef ég trú á að Meghan muni halda áfram að vera trú sannfæringu sinni og tala fyrir femínisma. Hversu skelegg hún verður er ekki gott að segja. Mun hún til dæmis þora að ræða jafn viðkvæmt mál og rétt kvenna til fóstureyðinga á Írlandi? Einungis tíminn mun leiða það í ljós.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.