Líta stjórnvöld niður á konur og börn?

Höfundur: Elísabet Kristjánsdóttir

Ljósmæður hafa ekki aðeins sinnt velferð minni og barna minna af mikilli fagmennsku á meðgöngu og í sængurlegu, þær hafa upplýst mig, haldið í höndina á mér, stappað í mig stálinu, þurrkað af mér blóð, svita og tár, þær hafa hjálpað mér á fætur, leitt mig á klósettið, aðstoðað mig í sturtu, séð til þess að ég fyndi ekki of mikinn sársauka, gengið úr skugga um að ég fengi læknisþjónustu þegar ég þurfti á henni að halda, bæði setið og legið hjá mér og aðstoðað mig við erfiða brjóstagjöf á ýmsum tímum sólarhringsins. Og fyrir hvað? Gríðarlega lág laun og mikið álag á vinnustað. Ljósmæður berjast nú fyrir hærri launum og mæta takmörkuðum skilningi og hroka yfirvalda, erfitt er að skilja hvers vegna ekki sé hægt að borga svo mikilvægri og vel menntaðri starfsstétt almennileg laun.

Árið 1974 skrifaði mannfræðingurinn Sherry Ortner fræga grein um hvort að náttúran væri fyrir menningunni það sem konur eru fyrir karlmönnum. Hún velti því fyrir sér hvers vegna konur væru í menningarlegum skilningi undirskipaðar karlmönnum í nær öllum samfélögum heimsins, ástæðuna taldi Ortner vera að konur eru á táknrænan hátt tengdar náttúrunni, þá er þeim stillt upp andstætt karlmönnum, sem eru kenndir við menninguna. Hlutverk menningarinnar er að nýta sér auðlindir náttúrunnar og þar sem konur eru tengdar við náttúruna er það menningarinnar að undiroka konur. Konur skapa með líkömum sínum, ganga með börn og brjóstfæða þau, þar af leiðandi er líkamsstarfsemi kvenna talin tengdari náttúrunni á meðan sköpun karlmanna er tengd menningunni og er þar af leiðandi ekki álitin náttúruleg.

Þá hefur Michelle Rosaldo (1980), sem einnig var mannfræðingur, skrifað á svipuðum nótum um það hvernig samfélög skiptast í almannarými og einkarými. Þessi skipting heldur konum niðri, konur eru tengdar einkarýminu, eða heimilinu, þar ala þær börnin og brjóstfæða, af þeim sökum þykir því eðlilegt að þær taki það að sér að hlúa að börnunum og hugsa um þau. Það hefur svo ólík áhrif á kynin að alast upp hjá móður sinni, stúlkur verða ástríkar mæður en drengir öðlast sjálfsmynd sem hafnar slíkum hlutverkum og lítur niður á þau. Almannarýmið utan heimilisins er rými karla, athafnir karlmanna innan almannarýmisins eru félagslega vel metnar og slík þátttaka veitir karlmönnum aðgang að eignum, auð, samböndum og öðru sem þarf til að viðhalda forystu þeirra og valdi í samfélaginu. Þessi hlutverkaskipting viðheldur síðan misrétti í samfélögum og hefur einnig áhrif á annað misrétti, t.a.m. stéttarmisrétti. Þar erum við einmitt enn stödd í dag.

Þrátt fyrir að greinar Rosaldo og Ortner séu áratuga gamlar eiga þær því miður enn við í dag. Ljósmæðrastéttin er kvennastétt, hún er einnig stétt sem sinnir fyrst og fremst konum og þeim sem ganga með börn á þeirra viðkvæmustu tímum, þeirra gleðilegustu tímum eða í þeirra erfiðustu sorg.  Það er fátt sem er meira tengt hinum náttúrulega kvenleika en að ganga með, fæða og brjóstfæða barn. Kjaradeila ljósmæðra hefur einfaldlega leitt í ljós ákveðið viðhorf. Viðhorf um að konur og nýburar skipta ekki nægilega miklu máli, hvorki heilsa né velferð barnshafandi kvenna og sængurlegukvenna eða nýbura. Stjórnvöld sem geta ekki virt störf og kröfur ljósmæðra eru stjórnvöld sem líta ekki bara niður á kvennastéttir heldur einnig niður á konur og börn.

Höfundur er mannfræðingur í fæðingarorlofi

 

Heimildir

Ortner, S. B. (2006) [1974]. Is female to male as nature is to culture? Í E. Lewin (ritstj.), Feminist Anthropology: A Reader (bls. 72-86). Oxford: Blackwell Publishing.

Rosaldo, M. Z. (2006) [1980]. The Use and Abuse of Anthropology: Reflections on feminism and cross-cultural understanding. Í E. Lewin (ritstj.), Feminist Anthropology: A Reader (bls. 107-128). Oxford: Blackwell Publishing.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.