Hinar ýmsu birtingarmyndir karlmennskunnar

Höfundur: Hólmsteinn Eiður Hólmsteinsson

Ég hef svolítið verið að velta þessari blessuðu karlmennsku fyrir mér.  Satt að segja leyfi ég mér að halda því fram að hún sé ekki til.  Karlmenn eru eins ólíkir og mismunandi og hugsast getur.  Ef karlmennska er að hafa þetta dót hangandi framan á sér, þá gef ég ekki mikið fyrir þá karlmennsku.  Mestmegnis er þetta líffæri fyrir, til dæmis í þau örfáu skipti á ævinni, sem ég hef tilneyddur leikið fótbolta hefur dagurinn verið ónýtur þegar boltinn hefur hitt þennan sérstaka stað (sem hefur reyndar gerst í hvert einasta skipti).  Og þessar skegglufsur, sem eru komnar framan í mann eftir nóttina, hafna ofan í vaskristinni eftir raksturinn um morguninn.  Ég skil ekki bílaumræður, þoli ekki knattspyrnu og ég á enga borvél.

Höfundur á enga borvél en fékk góðfúslegt leyfi til að taka mynd af þessum kassa í Brynju á Laugaveginum.

Í staðinn fyrir að hugsa um „karlmennsku“ væri meira vit í því að hugsa um „mennsku“, en hún hlýtur að felast í því að reyna að gera þetta jarðlíf eitthvað betra í dag en það var í gær.  Og hún hlýtur einnig að felast í því að koma fram af virðingu og sanngirni við þá einstaklinga, sem deila með manni þessu jarðlífi.  Og það ætti ekki að vera svo flókið.

En birtingarmyndir þessarar svokölluðu karlmennsku eru víða.  Seint í nóvember 2017 sat ég á kaffihúsinu „Kaffitár“ og þar áttu tveir karlmenn samtal sín á milli.  Þeir voru að ræða saman um áreitnina og ofbeldið, sem konur hafa verið að skýra frá.  Mennirnir voru sammála um að frásagnir kvennanna lýstu miklu þjóðfélagsmeini og öðrum varð á orði:  „Við þurfum að hugsa vel um konurnar.“

Þetta var eflaust vel meint hjá manninum, en þetta er einmitt meinið.  Þetta er hluti af vandamálinu.  Það er svona hugsunarháttur sem á þátt í því að viðhalda þessari karllægu menningu.  Hér er verið að búa til tvo hópa.  Annar hópurinn, „við“, er greinilega sterkari aðilinn, sem þarf að hugsa vel um hinn hópinn, því hann er veikari.  Sá hópur, konurnar, getur ekki hugsað um sig sjálfur.

Meðan karlmaðurinn telur sig vita hvað konur þurfi, hvað þær vilji, hvað þeim sé fyrir bestu og að hann verði að hugsa um þær, þá breytist ekki neitt.  Vandamálið felst ekki bara í þeim sem nauðga, þeim sem áreita og þeim sem beita ofbeldi.  Vandamálið snýst ekki hvað síst um þessa rótgrónu menningu að karlinn hugsi vel um konuna.  Þarna er samfélagið sjálft búið að skapa aðstæður fyrir einstaklinga til þess að níðast á öðru fólki í krafti þess að þeir séu eitthvað æðri.

„Við“ þurfum ekkert að hugsa vel um konurnar, þær eru fullfærar um það sjálfar og hafa alltaf verið.  Það er enginn annar en einstaklingurinn sjálfur, sem veit hvað hann þarf og hvað hann vill.  Það þarf að byggja þetta samfélag á trausti og gagnkvæmri virðingu.  Það þurfa allir að koma fram við samborgara sína á manneskjulegan hátt og á jafnræðisgrundvelli.  Þetta er meðal annars það samtal sem karlmenn þurfa að eiga sín á milli.  Það þarf einnig að fara fram í samfélaginu og í því samtali verða allir að taka þátt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.