Samtök Gunnars Kristins Þórðarsonar

Forsaga

Fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor stofnuðu nokkrir karlar Karlalistann og fóru mikinn á samfélagsmiðlum um tíma. Þeir töluðu aðallega illa um konur og hötuðu mest femínista og sökuðu þá um margt misjafnt. Um svipað leyti voru birt skjöl úr lokuðum hópi femínista á Facebook þar sem Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, hafði lækað nokkrar athugasemdir. Það varð forsvarsmönnum listans tilefni til að krefja hana um afsökunarbeiðni  við hvert tækifæri og tjáði hún sig m.a. í þættinum Harmageddon og á Útvarpi Sögu um þessa þráhyggju karlanna, þar sem til andsvara var einn helsti talsmaður Karlalistans, Gunnar Kristinn Þórðarson, sem titlaði sig þá formann og/eða framkvæmdastjóra Samtaka umgengnisforeldra, og hefur jafnan  verið frekar orðljótur í málflutningi sínum um þá sem eru ekki sammála honum. Þetta spjall þeirra vakti athygli vegna yfirvegaðrar framkomu Heiðu og taumlauss ofsa Gunnars, einkum þegar hann var spurður út í samtök umgengnisforeldra. Allt samtalið er aðgengilegt hér:

 

Heiða Björg Hilmisdóttir ræðir við Gunnar Kristinn Þórðarson formann Félags umgengnisforeldra á Útvarpi Sögu

Gunnar Kristinn: Það bara stendur eins og stafur á bók í þessum skjölum.

Heiða Björg: Það stendur nefnilega ekki.

Gunnar Kristinn: Það stendur víst!

Heiða Björg: Ekki …

Gunnar Kristinn: Þú ert á fullu og á kafi í þessu þú og Halla Gunnarsdóttir.

Heiða Björg: Nei.

Gunnar Kristinn: Víst, það bara kemur fyrir og ég meina þú ert bara að grafa holuna dýpra og dýpra. Af hverju viðurkennir þú þetta ekki bara og biður feður afsökunar og samtökin þeirra.

Heiða Björg: Álykta Samtök umgengnisforeldra að það séu „umfjallanir af sama meiði, þar sem nefndir stjórnmálamenn taka þátt í að fullu og styðja.“ Þetta er einfaldlega röng fullyrðing sem er í bréfinu þínu og ég veit ekki hvernig þessi samtök álykta. Ert það þú einn sem ályktar?

Gunnar Kristinn: Ja, bara stjórn.

Heiða Björg: Já, bara stjórn, hverjir eru í þessari stjórn?

Gunnar Kristinn: Ja, je … miðað við hvernig þið talið um og, og, og, og hédna leggið, leggið .

Heiða Björg: Ég gat ekki fundið hverjir eru í þessari stjórn.

Gunnar Kristinn: Já, einmitt, það er einmitt það sem þið gerið …

Heiða Björg: Ég gúgglaði þetta í gær …

Gunnar Kristinn: Það er einmitt það sem þið gerið …

Heiða Björg: Er það leyndarmál? Er engin kona?

Gunnar Kristinn: Ja, sko, miðað við hvernig þið komið fram við feðrahreyfingar og hvernig þið undirbúið, og, aðför að þeim heldur þú að ég sé að fara að segja þér hverjir eru í stjórn?

Heiða Björg: Mér finnst það mjög, mjög furðulegt ef þú ert með opinber samtök …

Gunnar Kristinn: Já

Heiða Björg: … sem eiga að tala fyrir alla …

Gunnar Kristinn: Já

Heiða Björg: … umgengnisforeldra á Íslandi …

Gunnar Kristinn: Já, Af hverju, af hverju …

Heiða Björg: … að það sé leyndarmál …

Gunnar Kristinn: Af hverju vilt þú, af hverju viltu vita …

Heiða Björg: … hver er í stjórn þar.

Gunnar Kristinn: Af hverju viltu vita hverjir eru í stjórn? Ætlarðu að grafast einhvern skít? Vilt þú eitthvað segja um mig? Viltu eitthvað koma einhverju á framfæri núna í beinni útsendingu og barnsmóður mína? Eða tengsl mitt við barnið. Ég vil frekar að þú segir það hér bara en að þú sért með einhvern gjammagang, hédna, annarsstaðar. Segðu bara ef þú hefur eitthvað að segja um mig og mína fjölskyldu og mín persónulegu mál.

Heiða Björg: Hvernig dettur þér í huga að ég hafi einhvern áhuga á þinni fjölskyldu?

Þöggun Gunnars

Þessi viðbrögð vöktu víða athygli og fyrir hönd vefritsins Knúz.is var hringt í Gunnar í þeim tilgangi að forvitnast um samtökin, stjórnarfólk og það góða starf sem þau stóðu fyrir að sögn. Þetta samtal varði í rúma mínútu og lauk með því að Gunnar Kristinn sleit því með nokkrum gífuryrðum og blokkaði síðan símanúmer ritstjórnarfulltrúa. Í kjölfar þess birtist eftirfarandi færsla á fésbókarsíðu Samtaka umgengnisforeldra.

„Samtök umgengnisforeldra 2 klst. · Frá formanni: Bloggari frá vefritinu Knúz.is er að gera frétt um störf mín í þágu Samtaka umgengnisforeldra. Á samtalinu að dæma er vísast markmiðið að gera störf mín í þágu samtakanna tortryggileg. Spurt var ýmist um opinberar styrkveitingar og hvar starfsemin væri til húsa. Ég hef nú þegar gert grein fyrir þessu. Í nokkur ár höfum við fengið 1 milljón króna frá ráðuneyti. Lítil yfirbygging er á starfseminni og hefur framkvæmdin að mestu verið hjá mér. Þessi 6 ár sem ég hef starfað fyrir félagið hef ég aðstoðað hundruðir umgengnisforeldra, á grundvelli skriflegs umboðs. Mesta vinnan hefur þó verið í almennri þjónustu og aðstoð í gegnum tölvupósta, viðtöl og ráðgjöf símleiðis. Allt þetta er rekjanlegt. Það er ótrúlegt að femínistarnir séu að gera þetta tortryggilegt í ljósi þess að á þriðja hundrað milljóna króna renna í vasa feminískra félagasamtaka. Þar af fara 4 milljónir króna í vasa Félags einstæðra foreldra, sem veita mæðrum ráðgjöf og þjónustu, sem og Kvennaráðgjafarinnar. Starfsemi Samtaka umgengnisforledra hefur ávalt verið rekin í vanefnum og er fórnarkostnaður minn í því efni verulegur. Í ár fékk ekkert félag sem vinnur að foreldrajafnrétti styrk frá ríki eða sveitarfélagi. Bring it on! Tölum um fjármögnun feminískra samtaka. Endilega!“

Gunnar hafði í upphafi samtals tekið fram að símtalið væri hljóðritað. Þar sem hann hallar ákaflega réttu máli í ofangreindri færslu var óskað þess í athugasemd að hann birti upptökuna. Athugasemdinni var eytt og lokað fyrir aðgang tíðindamanns Knúz.is að síðu samtakanna á FB.

Nokkrum dögum síðar voru samtökin lögð niður, vefsíðum þeirra lokað og upplýsingum eytt á samfélagsmiðlum. Það sem hér fer á eftir byggir á fréttum fjölmiðla og gögnum frá velferðarráðuneytinu:

Meðlag

Árið 2018 er meðlag með einu barni 33.168 kr. á mánuði eða 398.016  kr. á ári. Meðlög eru reglulegar greiðslur (mánaðarlegar) greiðslur sem foreldri greiðir til framfærslu barns síns. Meðlagið tilheyrir barninu en sá sem annast framfærsluna tekur við greiðslunum og notar til framfærslu barnsins. Ef forsjá er sameiginleg, getur það foreldri sem barnið á lögheimili hjá krafist þess að hinu foreldrinu verði gert að greiða meðlag. Upphæðin er ekki há ef miðað er við mánaðarlaun kennara sem hafa aldrei þótt rífleg.

Meðlagsgreiðendur eru samkvæmt tölum frá 2002 rúmlega 12 þúsund og sjálfsagt fleiri ef nýjustu tölur lægju fyrir. Um tæpur þriðjungur þeirra er að sögn á vanskilaskrá. Afskriftir meðlagsskulda eru mældar í hundruðum milljóna. Þarna er stór hópur sem halda mætti að ætti eitthvað sameiginlegt og vanti vettvang fyrir baráttu. Það fannst Gunnar Kristni Þórðarsyni á sínum tíma og ákvað að stofna samtök.

Samtök meðlagsgreiðenda

voru stofnuð vorið 2012 á kaffihúsi í Faxafeni eins og fram kemur í meðfylgjandi fréttatilkynningu.

Gunnar Kristinn Þórðarson var kosinn formaður stjórnar samtakanna og Jón Hannes Stefánsson varaformaður. Meðstjórnendur eru Arnar Þór Einarsson, Gunnar Ásgeirsson og Svandís Edda Halldórsdóttir. Þessi fimm eru stofnfélagar félagsins og reyndar einu nafngreindu félagsmennirnir. Aðsetur félagsins er á heimili Gunnars Kristins og hann er eini tengiliðurinn við samtökin á opinberum vettvangi.

Um starfsemina og ráðstöfun fjármuna

Árið 2013 mættu aðeins þrír á aðalfund samtakanna og árið 2014 enginn þrátt fyrir ofangreindan fjölda meðlagsgreiðenda.  Greidd félagsgjöld eru nær engin og fyrir vikið hafa samtökin sótt um styrki frá ráðuneytum og öðrum aðilum. Einn slíkra styrkja var veittur fyrir árið 2014 og var hann nýttur sem hér segir í skýrslu til ráðuneytisins.

Samtök um framfærsluréttindi

2014 stofnuðu stjórnarmenn samtakanna Samtök um framfærsluréttindi. Stofnfélagar eru sömu og nefndir eru hér að framan og Gunnar Kristinn Þórðarson er formaður, framkvæmdastjóri og tengiliður. Aðsetur samtakanna er á heimili hans og heimasími hans er skráður.

Samtök umgengnisforeldra

Árið 2015 eru samtök meðlagsgreiðenda lögð formlega niður. Í stað þeirra komu samtök umgengnisforeldra. Þau hafa nú verið lögð niður en systursamtök þeirra, Samtök um framfærsluréttindi starfa enn. Í svari við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar á vorþingi kemur fram að þau hafa fengið fjárstyrk af safnlið fjárlaga. Sömu stofnfélagar eru skráðir. Gunnar er formaður og framkvæmdastjóri, samtökin skráð á heimili hans og sími hans er tilgreindur fyrir þá sem vilja leita upplýsinga og ráðgjafar.

Léttölsfylgi og yfirlýsing

Þrátt fyrir að hamast einstrengingslega fyrir kosningar, hafði listinn ekki erindi sem erfiði. Eftir að atkvæðafjöldi Karlalistans í kosningunum lá fyrir, birti Gunnar Kristinn yfirlýsingu á fésbókarsíðu sinni þar sem hann segir af sér formennsku. Þar kveður við kunnuglegan tón:

„ Nú hygg ég að almenningur allur átti sig á því að Samfylking og Vinstri grænir eru þeir flokkar sem mest hatast út í feður, börn þeirra og mannréttindi. Einnig hefur komið í ljós að DV og Stundin eru þeir fjölmiðlar sem hafa hvað mesta andúð á foreldrajafnrétti og málefnum feðra. Einnig var tilgangur framboðsins að afhjúpa hatur femínismans á málefnum feðra, -eins og femínistaskjölin sýna fram á með skýrum hætti.
Það var einnig tilgangur framboðsins að taka þátt í umræðunni og kynna málefnið fyrir kjósendum og ég held að það hafi tekist vel. Helstu fjölmiðlar gerðu okkur góð skil, og nefni sérstaklega málefnalegan fréttaflutning RÚV og 365 miðla.
Þriðja markmiðið var að þétta raðir umgengnisforeldra, -sem mistókst, og er því miður í samræmi við það áhugaleysi sem feður sjálfir hafa sýnt málstaðin nú um langt árabil. Ég hef unnið við þennan málaflokk í 7 ár, og hefur erfiðasti hluti starfsins verið að fá feður til að sýna samstöðu. Fylgi flokksins í kosningunum samsvarar því að rétt um 4% umgengnisforeldra í Reykjavík hafi kosið okkur. Það er vitaskuld ófullnægjandi, og gefur skýrt til kynna að ekki sé grundvöllur fyrir framboði af þessu tagi.

Fjárstyrkir til samtakanna

Hjá velferðarráðuneytinu fengust neðangreindar upplýsingar um fjárveitingar til samtaka Gunnars.

„Samtök meðlagsgreiðenda –sama kt. og samtök umgengnisforeldra:
VEL16120082 – Styrkur af safnliðum fjárlaga 2017 – Samtök meðlagsgreiðenda. 1.000.000. kr. styrkur veittur 19.04.2017. 
VEL15100270 – Umsókn um velferðarstyrk 2016 – Samtök meðlagsgreiðenda. 1.000.000 kr. styrkur veittur 18.03.2016.
VEL14100102 – Styrkur af safnliðum fjárlaga 2015 – Samtök meðlagsgreiðenda. 1.000.000 kr. 
VEL13120012 – Styrkur veittur af safnliðum fjárlaga 2014 – Samtök meðlagsgreiðenda 1.000.000 kr.
VEL12100194 – Styrkur af safnliðum fjárlaga 2013 – Samtök meðlagsgreiðenda 500.000 kr.“

Samtökin hafa víðar fengið fé. Þetta eru dæmi sem fundust við stutta leit á netinu.

Samfélagsstyrkur Isavia-ekki eru veittar upplýsingar um fjárhæð styrks skv. svörum Isavia. (Viðbót: Isavia upplýsti að styrkurinn hefði verið 50.000 krónur fyrir 2018).

Styrkur frá innanríkisráðuneytinu 2011. -150.000 kr. (skv. bréfi GKÞ til ráðuneytis-óstaðfest)

Styrkir frá MP banka, Íslandsbanka 2013 – 100.912 kr.

Þess ber að geta að þótt Samtök meðlagsgreiðenda hafi verið lögð niður sumarið 2015 sækja þau um ofangreindan styrk og fá útborgað eins og sjá má af umsókn 2016 og yfirliti frá velferðarráðuneyti fyrir 2016 og 2017. Enda er bara skipt um kennitölu.

Niðurstaða
Hér er sagt frá þremur samtökum. Stofnfélagar eru fimm og sama fólkið í öllum tilvikum, Gunnar Kristinn er formaður, framkvæmdastjóri, talsmaður og upplýsingagjafi allra, samtökin eru skráð á heimili hans og reksturinn fer aldrei út fyrir forstofuna. Aðrir en stofnfélagar virðast ekki vera virkir. Engin mæting almennra félagsmanna virðist vera á aðalfundum, áhugi 12 þúsund meðlagsgreiðenda er við frostmark og ályktanir í nafni samtakanna sem sagðar eru samþykktar af stjórn eru samdar af Gunnari. Hann er samtökin og samtökin eru hann. Hann hefur tekið við og ráðstafað styrkjum sem nema milljónum ár eftir ár og er enn að því samtök um framfærsluréttindi fengu styrk af safnliðum fjárlaga 2018. Ekkert er því til fyrirstöðu að Gunnar haldi áfram uppteknum ríkisstyrktum hætti að úthrópa konur, saka femínista um að hata karla og þá einkum feður og níða skóinn af þeim sem dirfast að vera á öðru máli en hann.

Samantekt: Gísli Ásgeirsson

11 athugasemdir við “Samtök Gunnars Kristins Þórðarsonar

 1. Sá sem skrifar þetta á við vandamál að stríða. Það að koma fram með svona skít segir mikið um þann sem þetta skrfar.

   • Ekki rök? Alveg rétt. En maður spyr sig hvað gengur þeim til sem skrifar svona grímulausa árás á mætan mann út í bæ, og dreifir svæsnum skít um viðkomandi. Finnst ykkur virkilega í lagi að dreifa svona einhliða vafasömum og rætnum áróðri, án þess að í það minnsta fact tékka málið? Hvernig yrði ykkur sjálfum við ef þið yrðuð fyrir svona persónulegri árás sjálf? Ef það væru einhver heilindi í ykkar framkomu, þá mynduð þið í það minnsta heyra í viðkomandi (sem b.t.w. hefur séð sig knúinn til að svara þessum óþverra) og fá útskýringar á því sem þið eruð að telja þarna upp, og látið viljandi líta út fyrir að vera eitthvað vafasamt. Þetta minnir í alvöru á framkomu Trump í BNA. Vel gert að taka hann ykkur til fyrirmyndar.

   • Heimildir höfundar eru fengnar frá Velferðarráðuneytinu. Allar tölur eru réttar. Reynt hefur verið að fá Gunnar til að svara greininni með rökum og á málefnalegan hátt en hann hefur ekki gert það.

 2. Greinilega óþægilegur maður hann Gunnar. Fyrst að það þarf að tækla hann svona svakalega. Hvað er það annars sem fer í taugarnar á greinarhöfundi við manninn…..
  Önnur settningin í þessari ufmjöllun er svo bara út úr kortinu. Það held ég að sé vanfundin skrf frá meðlimum Karlalistans þar sem talað er ílla um konur sem hóp.

 3. Mér sýnist raunar að hér sé unnið mjög málefnaleg blaðamennska sem styðst við heimildir. Ég er sérlega undrandi á hve auðveldur aðgangur að styrkjum hefur verið, ég hef nokkra reynslu af að sækja um styrki bæði til samfélagsverkefna og menningartengdra verkefna og hefur ekki fundist þeir liggja svona á lausu, allra síst upphæðir af þessu tagi. Engin þörf virðist á að tækla manninn neitt mikið – starfsemin virðist full fær um það sjálf, er eiginlega sinn eigin versti óvinur. Sýnist mér. Hitt sé ég að menn verða reiðir, en það er sem segir í orðtækinu gamla: Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

 4. „Heiða Björg: Ég gat ekki fundið hverjir eru í þessari stjórn.“

  Reyndar skal ekki undra að menn forðist að vera í framlínunni í samtökum, sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum femínista eftir lesturinn á svokölluðum femínistaskjölum.

  Það virðist nefnilega gæta tilhneigingar til að fara í manninn en ekki boltann.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.