Úr orðabók kvenhatara

Við sem horfðum á HáEmmið í sumar, tókum eftir tilþrifum Neymars í liði Brasilíu. Varla mátti koma við kappann því hann féll við minnstu snertingu, kútveltist eins og lundabaggi og spriklaði þess á milli sem fiskur á öngli. Stundum náði hann að fiska aukaspyrnu út á tilburðina en yfirleitt sáu dómarar gegnum eymingjaskapinn og létu leikinn halda áfram.  Á netinu er áberandi hópur karla sem eru eins og Neymar. Þeir þola ekki mótlæti eða gagnrýni, vakta netumræðu eins og hundar og engjast eins og lítt meiddir knattspyrnukappar við minnsta áreiti. Þeir eru orðljótir, velja konum verstu fúkyrðin, hópa sig saman og eru þá svo sammála að aðrir bergmálshellar verða eins og fjárskjól í samanburðinum.

Í þessum pistli verður rýnt í orðabók þeirra og reynt að þýða helstu gífuryrðin á alþýðumál. Ekki er útilokað að sum skjáskotanna séu úr lokuðum hópum Neymaranna en það gerir ekkert til því þeir eru helsáttir við leka úr femínískum hópum. Feitletruð orð hér á eftir eru úr orðabók þeirra félaga. 

Fyrir nokkrum árum birtist greinin „Buddubréf“ á knuz.is. Þar var eigandi bókaútgáfunnar Óðinsauga gagnrýndur og svaraði hann fyrir sig af miklu kappi í athugasemdum á Facebook og á knuz.is, eins og hér má lesa. Sjálfur lýsir Huginn þessari atburðarás svona:

HuginnÞórumKnuz

Þarna verður gagnrýni að „árás“ og „aðför“ og svör við athugasemdum Hugins verða að „alræðistilburðum.“  Hótanir finnast ekki þrátt fyrir mikla leit og árásir „öfgafemínista“ í fjölmiðlum „sem þeir höfðu ítök hjá“ eru sennilega ummæli fólks sem er á öðru máli en Huginn. Eftir stendur málefnaleg grein með fjölda athugasemda og fróðlegri umræðu um orðin sem best er að nota. Allir græddu eitthvað á þessu. Nema Huginn. Hann er Neymar.

Kvenhatarar eru hrifnir af tjáningarfrelsi.  Þau sem eru ósammála þeim gera aðför að tjáningarfrelsi þeirra og vilja helst beita þá þöggun. Samkvæmt þeirra upplifun eru konur aðallega í slúðri og rógburði um karla en þeir deila reynslu sinni með yfirveguðum hætti og og sýna hver öðrum stuðning meðan þeir kalla konur geðveikar, vitlausar, hysterískar og froðufellandi varðhunda mæðraveldisins. 

Kvenhatarar eru hrifnir af stimplum. Ef óskað er eftir rökstuðningi heitir það að „blása til herferðar“. Þolendur ofbeldis heita „níðingar og ofbeldiskonur“ því þær urðu reiðar í lokuðum hópi þolenda. Skjáskot úr þeirri umræðu hafa verið birt á netinu undir heitinu Femínistaskjölin og eiga að sögn að sanna hvað femínistar eru upp til hópa miklir dólgar og níðingar og skulda öllum feðrum afsökunarbeiðni, bæði fyrir orð sín og læk við athugasemdir. Það þarf lítið tilefni fyrir Neymarana til að veifa tengli á skjölin, eins og um leynileg samsærisskjöl sé að ræða. Sagði einhver Watergate?

Eitt vinsælasta orð karlalistamanna er „tálmunarmóðir„. Það er notað óspart um allar konur sem eru ekki 100% sammála þeim og þegar konur vilja ræða það flókna fyrirbæri sem tálmanir eru og samþykkja ekki að það sé í eðli sínu ofbeldi, þá eru þær fylgjandi tálmunum að ósekju og vilja engar úrbætur í kerfinu, allavega ekki fyrir feður.

Konur hafa löngum kallað eftir  bættri réttarstöðu þolenda kynferðisbrota og bótum í öllu kerfinu, að tekið sé meira tillit til mats sálfræðinga á andlegu ástandi þolanda, að athugað sé hvort samþykki hafi verið fyrir hendi og svo mætti lengi telja. Þetta heitir að vilja öfuga sönnunarbyrði.  Þessari  „öfugu sönnunarbyrði“ var veifað við hvert tækifæri  hér áður fyrr þar til leitað var að merkjum um hana. Þau fundust hvergi og orðið hvarf úr umræðunni þar til karlalistinn fann það í fræðum sínum.

GK 24.juli

Dólgafemínisti er vinsælasta orð kvenhataranna. Helstu fræðimenn í þeirra röðum geta skilgreint dólgafemínísta í löngu og tilfinningaríku máli. Þessi tvö skjáskot eru gott dæmi.

Ívar Örn Hauksson 25. júlí.

Þessi ummæli Ívars Arnar Haukssonar komu í umræðu um grein Knúz.is um Samtök Gunnars Kristins Þórðarsonar.  Rétt er að geta þess að áður hafði Gunnar Kristinn hvatt til umræðu, en þá á sínum forsendum. Fyrra dæmið er frá 24. júli en það seinna frá 24. maí.

Gunnarathugasemdstrámaður

„Í nokkur ár höfum við fengið 1 milljón króna frá ráðuneyti. Lítil yfirbygging er á starfseminni og hefur framkvæmdin að mestu verið hjá mér. Þessi 6 ár sem ég hef starfað fyrir félagið hef ég aðstoðað hundruðir umgengnisforeldra, á grundvelli skriflegs umboðs. Mesta vinnan hefur þó verið í almennri þjónustu og aðstoð í gegnum tölvupósta, viðtöl og ráðgjöf símleiðis. Allt þetta er rekjanlegt. Það er ótrúlegt að femínistarnir séu að gera þetta tortryggilegt í ljósi þess að á þriðja hundrað milljóna króna renna í vasa feminískra félagasamtaka. Þar af fara 4 milljónir króna í vasa Félags einstæðra foreldra, sem veita mæðrum ráðgjöf og þjónustu, sem og Kvennaráðgjafarinnar. Starfsemi Samtaka umgengnisforledra hefur ávalt verið rekin í vanefnum og er fórnarkostnaður minn í því efni verulegur. Í ár fékk ekkert félag sem vinnur að foreldrajafnrétti styrk frá ríki eða sveitarfélagi. Bring it on! Tölum um fjármögnun feminískra samtaka. Endilega!“

Þegar á reyndi og Gunnari var svarað, „forðaðist hann efnislega umræðu“ um greinina, byggði röksemdafærslu sína einkum á tilfinningum og skotgrafahernaði, eyddi fyrst hluta svara sinna og síðan fésbókaraðgangi sínum og hvarf af netinu. Þar með linnti árásum „oft gagnvart blásaklausu fólki sem leyfir sér það eitt að vera ekki sammála.“  Halda mætti að í ofangreindum ummælum Ívars Haukssonar hafi hann verið að lýsa Gunnari.

Kvenhatarar eru annars hver öðrum líkir. Þeir japla flestir á sömu tuggunni dag eftir dag, viku eftir viku.  Tónninn er alltaf sá sami.  Engin rök, bara tilfinningar. Þó má finna fræðimenn í þeirra röðum sem hafa kynnt sér erlenda mannréttindafrömuði og baráttumenn og þá er einboðið að vitna í þá til að gefa máli sínu aukið vægi. Það er vel við hæfi að Ívar Örn eigi lokaskotið.

Samantekt annaðist Gísli Ásgeirsson. Þakka ber þeim sem lögðu til dæmi og tilvitnanir.

Auglýsingar

22 athugasemdir við “Úr orðabók kvenhatara

 1. Það verður að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Hvað viltu annars ræða í þessari grein? Er einhvers staðar farið með rangt mál?

  • Viltu ekki byrja þá á að rökstyðja notkun orðsins „kvenhatari“? Þú ert að skrifa grein til að gagnrýna sterkt orðalag, og gerir það sjálfur. Líttu í spegil vinur.

  • „Það verður að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.“
   Það að vera efnislega ósammála kennisetningum femínista gerir þá ekki að kvenhöturum. Ólíkt þeim sem standa að þessum vef, styð ég t.d. sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama, en mér dettur ekki í hug að kalla ykkur kvenhattara, eingöngu afvegaleiddar, vel meinandi sálir.

   • Skemmtilegt hvernig þú kemur þér hjá því að ræða greinina efnislega. Fyrir utan fyrstu setninguna sem er innan gæsalappa er annað rakið bull. Ertu virkilega svona illa gefinn?

   • Upphafleg athugasemd mín snérist ekki um efni greinarinnar heldur efnistök og framsetningu. Og þú átt þannig séð enga kröfu til mín að ég ræði efnislega grein sem ég er ábyrgðarlaus af. Og birtingamynd þessara efnistaka er einmitt aðdróttun þín um að ég sé hvort tveggja að bulla og sé illa gefinn. Enda er greinin sjálf að mestu framsetning á skoðunum, en ekki staðreyndum þó svo að sumar þeirra séu þær séu klæddar í slíkan búning. Dæmi: „Kvenhatarar eru hrifnir af tjáningarfrelsi. Þau sem eru ósammála þeim gera aðför að tjáningarfrelsi þeirra og vilja helst beita þá þöggun. “ Eigum við virkilega að ræða hvort að þetta sé skoðun sem ykkur er frjálst að hafa, eða staðreynd?

    Og ef þú sérð ekki sjálfur hvernig grein sem „rýnt [verður] í orðabók þeirra og reynt að þýða helstu gífuryrðin“, notar svo sömu eða verri samskiptatækni en „mótaðilinn“, missir marks, þá er ég ekki vissum að illagefinleikinn sé alfarið minn.

    En já, flestir sem standa að baki þessum vef treysta konum ekki til þess að fara með vald yfir eigin líkama og er birtingarmynd þess andstaða þeirra við staðgöngumæðrun og vændi. Það að banna konu að gerast staðgöngumóðir er að taka ráðstöfunarvald hennar yfir eigin líkama frá henni. Það að banna konu að framfleyta sér með líkama sínum, er það líka.

   • Þú færð prik fyrir að hafa skilið að greinin er framsetning á skoðunum. Þetta er lýsing á upplifun margra á umræðutilburðum kvenhatara. Ef ég man rétt fjallaði greinin ekki um staðgöngumæðrun og vændi, ráðstöfunarvald yfir eigin líkama og sjálfsákvörðunarrétt. En þig langar greinilega til að ræða það frekar en orðræðu kvenhatara. Þú verður að eiga það við þig.

   • Sæll Gísli
    Ég skrifaði

    „„Það verður að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.“
    Það að vera efnislega ósammála kennisetningum femínista gerir þá ekki að kvenhöturum. Ólíkt þeim sem standa að þessum vef, styð ég t.d. sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama, en mér dettur ekki í hug að kalla ykkur kvenhattara, eingöngu afvegaleiddar, vel meinandi sálir.“

    og þú svaraðir:

    “ Fyrir utan fyrstu setninguna sem er innan gæsalappa er annað rakið bull. Ertu virkilega svona illa gefinn?“

    Ég freistaðist til að ætla að „rakna bullið“, í þínum huga, væri líklega ekki fyrri málsgreinin, þ.e. að þeir sem eru ósammála kennisetningum femínista sé ekki endilega kvenhatarar, heldur sú síðar, þar sem ég vék að ósamkvæmni í málflutningi ýmissa aðstandenda þessarar síðu.
    Á ég að túlka svar þitt,

    „Ef ég man rétt fjallaði greinin ekki um staðgöngumæðrun og vændi, ráðstöfunarvald yfir eigin líkama og sjálfsákvörðunarrétt. En þig langar greinilega til að ræða það frekar en orðræðu kvenhatara. “

    sem svo að það hafi verið fyrri setningin sem kallaði fram bull mitt og vangefni en ekki sú síðar, þ.e. að það sé bull og vísbending um vangefni að halda því fram að allir sem ekki eru sammála ykkur séu kvenhatarar?

   • Flækjustig í margföldum neitunum stríddi mér. Niðurlagið átti að sjálfsögðu að vera:
    þ.e. að það sé bull og vísbending um vangefni að halda því fram að allir sem ekki eru sammála ykkur séu EKKI ENDILEGA kvenhatarar?

 2. Já Gísli ég las hana. Browserinn minn telur 10 skipti þar sem þú notar orðið kvenhatari. Þú spyrð hér fyrir ofan hvort þið farið með rangt mál. Ég spyr á móti, ferð þú með rétt mál? Endilega sýndu fram á að þetta sé rétt með farið:

  – Kvenhatarar eru hrifnir af tjáningarfrelsi
  – Kvenhatarar eru hrifnir af stimplum
  – Kvenhatarar eru annars hver öðrum líkir
  – Dólgafemínisti er vinsælasta orð kvenhataranna.
  – Eitt vinsælasta orð karlalistamanna er „tálmunarmóðir„

  og í lokin útskýrðu hvað orðið kvenhatari þýðir, og ég skora á þig að nefna einstaklinga sem uppfylla það skilirði og af hverju þeir gera það.

  Góða helgi.

  • Kvenhatari er einstaklingur sem hatar konur. Of langt mál er að tengja hvert einasta orð í greininni við nafn, enda var ekki tilgangurinn að persónugera níðið. Dæmin skipta tugum.

 3. Einkennileg vöntun á sjálfsskoðun að væla yfir „hatri“ komandi frá karlmönnum til kvenna og í svona rætinni og illgjarnri grein, sem er stútfull af uppnefnum og lítislvirðingum.

  Það hlýtur að fá allt hugsandi fólk til að velta fyrir sér hvort málstaður greinarhöfundar er svo lítilvægur að persónuníð er síðasta úrræðið.

  En málefnaleg umræða hefur sjaldan einkennt málstað femínista.

 4. Þú þekkir ekki nema hálfa söguna á bakvið athugasemdina sem ég set inn. Knuz var aðeins eitt margra rita sem voru með þessa aðför að mínu tjáningarfrelsi, og á undan fékk ég tölvupósta um að ég ætti að breyta þessu orðalagi (meðal annars frá fjölmiðlamanneskju). Þegar ég varð ekki við því, fóru að birtast greinar… sú fyrsta var heldur betur smekkleg eða þannig!
  Þegar blaðakona skrifar í Fréttablaðið og segist hafa gubbað upp í sig, er það málefnaleg umræða eða árás að mér fyrir að nota ekki orð sem femínistar hafa í alvaldi sínu ákveðið að sé hið eina rétta? Þegar á forsíðu Visir.is og Mbl.is birtast greinar um málið/gagnrýni (ekki tilvlijun, þessu er handstýrt þarna inn sem árás á mig þar sem ég neitaði í tölvupóstum að endurskoða orðanotkunina í næstu endurprentun við femínista). Þegar Knuz.is reynir að mála upp einhvert veski með tilheyrandi gagnrýni, á sama tíma og píka er fiskhluti og öllu verra að mínu mati, ef á að fara að grafa upp samheiti orðanna (og bara slök dönsku sletta fyrir pige/uppnefni fyrir stúlkur að mig minnir). Þetta er auðvitað ekkert annað en árás femínista sem reyna að hefta tjáningafrelsi einstaklings. Fólk má hafa skoðanir, en fyrr má nú vera að reka þessa gagnrýni í stærstu netmiðlum landsins (visir.is og mbl.is) og stærsta blaði landsins (Fréttalbaðinu)! Þetta er aðför, að mér og tjáningarfrelsi. Femínistar halda að þær geti með hótunum og alræðistilburður stýrt því hvað ég sem höfundur geri, og í framhaldi af því að ég svaraði þeim fullum hálsi í tölvupóstum (t.d. blaðakonu) þá birtust umræddar „árásir“.

  Þetta tónar svo vel við þær árásir sem við, sem berjumst fyrir réttindum barna til beggja hæfra foreldra sinna, verðum fyrir. Sömu handbrögð, hótanir, ráðist að þeim sem stíga fram, endalaust gagnrýnt allt sem við setjum fram í viðleitni til að berjast gegn misrétti og fyrir jafnrétti. Sama fólkið í herferð gegn málstaðnum. Þetta eru ekki tjáskipti, þetta er viðleitni til að þagga, til að berjast gegn málefninu.

  En mest er þessi grein nú lýsandi fyrir þig Gísli Ásgeirsson, fyrrum kennari minn sem átt nákvæmlega enga virðingu frá mér fyrir svona níð. Að setja mann undir grein þar sem borið er upp á mann kvenhatur, er ekkert annað er ómaklegt. Að í beinu framhaldi sem ég er nefndir talarðu um kvenhatara. Þú ert ósmekklegur í meira lagi. En auðvitað er ég bara með úthrópanir og leiðindi, að sitja ekki undir svona níð frá þér.

  Þú ert blindur ef þú sérð ekki að við sem rísum upp erum að gera það af góðri ástæðu. Misrétti sem ríkir í málum barna er hryllingur. Að við látum heyra í okkur, er auðvitað kvenhatur! Á meðan konur, fórnarlömb nauðgana, sem láta heyra í sér í MeeToo baráttu fá klapp á bakið, fáum við, fórnarlömb barnsrána og tálmana, ekkert nema skítkast. Fjandi ertu nú góður Gísli, opnaðu augun og líttu á þennan málaflokk og þá kannski skilst þér hvernig stendur á því að við erum margir sem látum heyra í okkur núna!

  Skömmin er þín Gísli og þeirra sem berjast gegn baráttunni fyrir réttindum barna. En við hættum ekki!
  Berjumst fyrir jöfnum rétti barna til hæfra foreldra sína. Við látum ekki kúga okkur, þagga umræðuna með persónuníði sbr. þessa grein. #DaddyToo!
  https://www.facebook.com/groups/DaddyToo/

  • Sæll aftur, Huginn minn. Þú stóðst þig ágætlega í þessari fróðlegu og skemmtilegu umræðu um orð og orðanotkun sem vitnað er til í upphafi greinarinnar. Því kom mér á óvart að sjá hvernig þú lýstir henni og það varð kveikjan að téðri „orðabók.“ Ég sé að þú ert enn með sama orðasafnið, veifar hér orðum eins og „aðför að tjáningarfrelsi“ „hótunum og alræðistilburðum“ en það er sennilega skynsamlegt að setja síðan „árásir“ innan gæsalappa. Ég sé líka að þú talar um „femínísta sem reyna að hefta tjáningarfrelsi einstaklings.“ Í umræðum sem spunnust á vefritinu voru ALLAR athugasemdir þínar birtar. Það er varla hefting á tjáningarfrelsi þínu. Auðvitað máttu hafa skoðanir á þessu og öllu mögulegu milli himins og jarðar. Ég skora á þig að birta dæmi um þetta meinta gerræði sem þú sætir. Annars verða þetta bara upphrópanir.
   Ég held að enginn vilji þagga niður málefnalega umræðu og allra síst með persónuníði. Ég get alveg tekið undir með þér þar sem þú segir „Berjumst fyrir jöfnum rétti barna til hæfra foreldra sína.“
   P.S. Mér var eytt úr DaddyToo hópnum og get því ekki svarað þar misgáfulegum athugasemdum um mig persónulega og greinaskrif mín. Gunnar Kristinn hefur lokað á mig á FB en er samt duglegur að tjá sig. Ég get ekki svarað honum. Ætti ég að kalla þetta „aðför að tjáningarfrelsi mínu?“

   • Þú bara hreinlega skilur ekki hvað málið snýst um Gísli. Þegar það er sótt að mér fyrir orðanotkun í bók, og krafist þess að ég breyti því af femínistum, er veist að tjáningarfrelsi mínu, enda um gott og gilt orð að ræða þó skiptar skoðanir geti verið um málið. Eitt er að fólk tjái mér skoðanir sínar, hitt er að það sé herferð í gangi á öllum stærstu fjölmiðlum landsins + Knúz. Semsagt, málið snýst um að fólk reyni að koma á einhverju einu „réttu“ orði og allir sem vogi sér að nota eitthvað annað en píka séu gagnrýndir af svo mikilli hörku að ekki verður hægt að tala um annað en árásir. Skipulagðar, nótabeiðni. Ég hef alveg lent í þessu aftur. Mér var hótað í forsjármáli mínu, að ef ég gæfi ekki eftir, léti barnaræningja (dómur fallinn um að hún héldi barninu mínu ólöglega erlendis) ekki fá að fara aftur, myndi barnsmóðir mín rústa mannorði mínu. Ég gaf ekki eftir þá frekar en áður. Grein yfirfull af rangfærslum birtist 2 vikum síðar … enda hafa konur undanfarið haft opið skotleyfi í Stundinni á karlmenn. Ég sendi Stundinni ítarleg gögn sem sýndu að hún væri að ljúga, en fjölmiðillinn hefur ekki orðið við því að leiðrétta þessar rangfærslur. Þeir eru hreinlega í liði með konum sem geta þarna ráðist að karlmönnum og spilað inn á staðalmyndir.
    Þú hlýtur að skilja það, að ef einstaklingur er gagnrýndur á öllum stærstu miðlum landsins, fyrir orðalag, er aðför í gangi. Handstýrð. Og kom þessi aðför í beinu framhaldi af „viðvörunum“ í tölvupóstum sem ég fékk frá femínistum.

    Þú ert í þeirri stöðu Gísli að beita fyrir þér fjölmiðli, þó lítill sé og gjaldfallinn eftir þessar árásir þínar (bendlar mann og annan við kvenhatur), á meðan fólki er frjálst að tjá sig á facebook, og það getur þú líka gert. Enginn að hefta tjáningarfrelsi þitt, þó opinberri grein sem þú skrifar sé svarað víða og þú getir ekki endilega skoðað persónulega veggi allra þeirra sem ræða þetta. En að nota fjölmiðil til þess að ráðast á einstaklinga sem gagnrýna skrif þín, er lítilmannlegt.

    Nú hefur Gunnar Kristinn lagt gríðarlegan tíma og vinnu í baráttu fyrir réttindum umgengnisforeldra. Finnst þér virkilega mál að ráðast að honum fyrir að félagið sem hann hefur unnið að, fái einhverja skitna milljón á ári? Hvernig væri að skoða önnur mál. Kvennaathvarfið, sem er nú verðugt í grunninn, fær rúmar 90 milljónir frá ríkinu. Hvernig væri að velta upp starfsemi þess. Þeirri staðreynd að athvarfið er farið að taka beinan þátt í forsjármálum og atlögu að einstaklingum í fjölmiðlum. Það er meiriháttar ójafnvægi og ótrúlegt að samtök með ríkisstyrki skulu leyfa sér slíkt. Athvarf á ekki að gerast þátttakandi í forsjármáli, birtast í fjölmiðlum þar sem er verið að bera einstaklinga þungum sökum o.s.frv.
    Eða hvað með Bjarkarkot. Tveir höfum við leitað þangað og sagt frá raunum okkar. Báðir höfum við fengið afhent blað fyrir ofbeldismenn, þó við höfum farið þangað sem fórnarlömb. Hvernig væri að fjalla um þá veruleikafyrringu sem ríkir gagnvart karlmönnum. Hvernig þeir eru stimplaðir hrottar og jafnvel þegar þeir leita sér aðstoðar virðist viðmótið svona algjörlega út úr kú.
    Hvernig væri Gísli að fjalla um aðför Stundarinnar gegn karlmönnum, í beinu framhaldi af því að grunnur var lagður að slíku í lokuðum hópi „fórnarlamba“ sem gerast „gerendur“ að ofbeldi með fölskum ásökunum (femínistaskjölin sem þú lætur hljóma sem léttvægt sprell). Ef þú myndir fylgjast með sæirðu að það er vitundarvakning um allan heim hvað þetta varðar. Rangar sakargiftir eru mjög algengar og viðgangast því miður. Gríðarlega margar konur nota þetta sem vopn í forsjárdeilu. Eða jafnvel bara sem leið til að ná sér niður á fyrrum maka.
    Hvernig væri að stíga aðeins út úr þessum kassa að karlmenn sem eru að benda á veruleikann, séu einhverjir kvenhatarar. Horfðu á Red Pill, lestu þér aðeins til og sjáðu hvort þú getir mögulega losað þig við þessar ranghugmyndir sem því miður gegnsýra allt samfélagið okkar. Karlmenn eru upp til hópa góðir, og það eru konur líka, en myndin sem hefur verið troðið upp á okkur er allt önnur, og um leið og fólk skilur eru þessar staðalímyndir notaðar gegn karlmönnum til að hrifsa réttindi barna til beggja foreldra af þeim.
    Þetta er það sem jafnréttisbaráttan snýst um, þetta ættu sannir femínistar að skilja og berjast fyrir enda er þetta lang stærsta ójafnréttið í dag, og við verðum að hafa hátt, þegar samfélagið hefur þaggað þetta eins og mörg önnur mein sem hafa komið upp á yfirborðið nýlega. Það er gríðarleg mótspyrna gegn breytingum, og þú ættir að sjá sóma þinn í þvi að vera ekki með í þeim atlögum. Ég þekki þetta af eigin raun, og hef nú rætt við vel yfir 100 manns í þessari baráttu og það leikur enginn vafi á því að misréttið er sláandi. Menn mega vera reiðir og menn mega tjá sig sem fórnalömb slíks ofbeldis, án þess að þola svívirðingar frá fólki sem berst gegn jafnrétti.
    Konur hafa kallað mig ofbeldismann undanfarið, ég hef vissulega svarað þeim. Þarna eru öfgafemínistar á ferð sem þola ekki jafnréttisbaráttu er snýr að börnunum. Fólk sem hefur veist að mér og úthrópað, svokallaður dómstóll götunnar. Og að þurfa svo að sitja undir níð um að vera kvenhatari ofanílagt er ótrúlegt. En þú ert einmitt engu skárri en þær konur sem hafa farið með meiðyrði gegn mér á netinu, með svona rógburði. Óbeinar ásakanir um að ég sé kvenhatari, sem þú gengst svo ekki við… eða hvað? Ætlarðu að standa við ásakani um að ég sé kvenhatari? Annað er ekki hægt að lesa út úr þessari grein, en þú ættir þá að vera maður til þess að segja það beinum orðum og útskýra mál þitt, ellegar hafa vit á því að setja ekki svona ósóma á netið.

   • Huginn minn. Þetta er langur póstur hjá þér og mjög margar spurningar sem ég hef hvorki tíma né þekkingu til að svara. Þarna er líka nóg af sleggjudómum og innistæðulausum fullyrðingum ásamt vel meintum ábendingum til mín. Ég veit að þú vilt vel og eflaust með gott hjartalag.
    En þar sem athugasemdin er við grein um orðfæri og umræðuhefð ákveðins hóps, með nokkrum dæmum, vil ég halda mig við hana.
    Ég get ekki tjáð mig um þitt persónulega mál.
    Ég vil ekki láta svarið snúast um meint störf Gunnars Kristins fyrir umgengnisforeldra. Ég reyndi á sínum tíma að ræða við hann í síma en hann rauf samtalið, blokkeraði símanúmer mitt og lokaði fyrir að ég gæti svarað rakalausum fullyrðingum hans á FB. Ef þú rekst á hann, máttu segja honum að ég sé alltaf til í málefnaleg skoðanaskipti.
    Þakka þér fyrir ábendingar um umfjöllunarefni.
    Þakka þér líka fyrir að segja mér hvað sannir femínistar ættu að skilja.
    Ég veit að þig langar til að kæra mig fyrir „meiðyrði“. Þú verður að eiga það við þig.
    Með knúzkveðjum.

 5. Kaldhæðnin hér er sennilega sú, að Gísli virðist ekki þola gagnrýnina sem kom í framhaldi af umfjöllun hans um Gunnar Kristinn og þá smánarlegu upphæð sem hefur farið í réttindarbaráttu umgengnisforeldra og feðrahreyfinga. Laumar sér inn á vefsíðu Gunnars og afritar þar skjáskot, og allir þeir sem voga sér að gagnrýna Knúz, eru orðnir kvenhatarar. Hann bítur til baka, þó það sé hreint ómögulegt að sjá tenginguna við kvenhatur í því, að talað sé um öfgafemínista (eða eru þeir kannski ekki til? Ekkert frekar en aðrir öfgahópar? Afneitum við líka karlrembum og rasistum… og allir sem tala um þetta eru „hatarar“ af einhverju tagi?). Alhæfing, um kvenhatur, er meiðyrði samkvæmt mínum skilningi og krefst ég þess að þú rökstyðjir mál þitt. Það að rætt sé um öfgafemínista hefur það nákvæmlega enga tengingu við kvenhatur, ekki frekar en þegar rætt er um karlrembur, að það sé bein tenging við karlhatur, svo slíku þvaðri sé nú strax svarað.

  • Sæll Huginn minn. Ég varð eiginlega ekki var við nein andsvör við úttektinni um Gunnar Kristinn, enda erfitt að véfengja gögn frá velferðarráðuneytinu og aðrar opinberar upplýsingar. Gunnar þoldi þetta svo illa að hann lokaði á mig á FB og svaraði engu efnislega. Það er síðan mikill misskilningur að allir sem gagnrýna vefritið knúz.is séu kvenhatarar. Greinar þar þola ágætlega málefnalega gagnrýni. Þú ættir endilega að prófa það einhvern tíma. Þessar upphrópanir eru þreytandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.