Úr orðabók kvenhatara

Við sem horfðum á HáEmmið í sumar, tókum eftir tilþrifum Neymars í liði Brasilíu. Varla mátti koma við kappann því hann féll við minnstu snertingu, kútveltist eins og lundabaggi og spriklaði þess á milli sem fiskur á öngli. Stundum náði hann að fiska aukaspyrnu út á tilburðina en yfirleitt sáu dómarar gegnum eymingjaskapinn og létu leikinn halda áfram.  Á netinu er áberandi hópur karla sem eru eins og Neymar. Þeir þola ekki mótlæti eða gagnrýni, vakta netumræðu eins og hundar og engjast eins og lítt meiddir knattspyrnukappar við minnsta áreiti. Þeir eru orðljótir, velja konum verstu fúkyrðin, hópa sig saman og eru þá svo sammála að aðrir bergmálshellar verða eins og fjárskjól í samanburðinum.

Í þessum pistli verður rýnt í orðabók þeirra og reynt að þýða helstu gífuryrðin á alþýðumál. Ekki er útilokað að sum skjáskotanna séu úr lokuðum hópum Neymaranna en það gerir ekkert til því þeir eru helsáttir við leka úr femínískum hópum. Feitletruð orð hér á eftir eru úr orðabók þeirra félaga. 

Kvenhatarar eru hrifnir af tjáningarfrelsi.  Þau sem eru ósammála þeim gera aðför að tjáningarfrelsi þeirra og vilja helst beita þá þöggun. Samkvæmt þeirra upplifun eru konur aðallega í slúðri og rógburði um karla en þeir deila reynslu sinni með yfirveguðum hætti og og sýna hver öðrum stuðning meðan þeir kalla konur geðveikar, vitlausar, hysterískar og froðufellandi varðhunda mæðraveldisins. 

Kvenhatarar eru hrifnir af stimplum. Ef óskað er eftir rökstuðningi heitir það að „blása til herferðar“. Þolendur ofbeldis heita „níðingar og ofbeldiskonur“ því þær urðu reiðar í lokuðum hópi þolenda. Skjáskot úr þeirri umræðu hafa verið birt á netinu undir heitinu Femínistaskjölin og eiga að sögn að sanna hvað femínistar eru upp til hópa miklir dólgar og níðingar og skulda öllum feðrum afsökunarbeiðni, bæði fyrir orð sín og læk við athugasemdir. Það þarf lítið tilefni fyrir Neymarana til að veifa tengli á skjölin, eins og um leynileg samsærisskjöl sé að ræða. Sagði einhver Watergate?

Eitt vinsælasta orð karlalistamanna er „tálmunarmóðir„. Það er notað óspart um allar konur sem eru ekki 100% sammála þeim og þegar konur vilja ræða það flókna fyrirbæri sem tálmanir eru og samþykkja ekki að það sé í eðli sínu ofbeldi, þá eru þær fylgjandi tálmunum að ósekju og vilja engar úrbætur í kerfinu, allavega ekki fyrir feður.

Konur hafa löngum kallað eftir  bættri réttarstöðu þolenda kynferðisbrota og bótum í öllu kerfinu, að tekið sé meira tillit til mats sálfræðinga á andlegu ástandi þolanda, að athugað sé hvort samþykki hafi verið fyrir hendi og svo mætti lengi telja. Þetta heitir að vilja öfuga sönnunarbyrði.  Þessari  „öfugu sönnunarbyrði“ var veifað við hvert tækifæri  hér áður fyrr þar til leitað var að merkjum um hana. Þau fundust hvergi og orðið hvarf úr umræðunni þar til karlalistinn fann það í fræðum sínum.

Samantekt annaðist Gísli Ásgeirsson. Þakka ber þeim sem lögðu til dæmi og tilvitnanir.

3 athugasemdir við “Úr orðabók kvenhatara

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.