Morfydd Owen

Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Árið 1891 fæddist stúlkubarn í Wales og var nefnd Morfydd Llwyn Owen. Sagan segir að þessi fallega hnáta hafi verið farin að syngja áður en hún gat myndað setningar, og í fyllingu tímans varð hún bæði söngkona og tónskáld. Morfydd lést fyrir aldur fram, skömmu fyrir 27 ára afmælisdaginn sinn, en þrátt fyrir það skildi hún eftir sig um 250 verk. Fyrir rúmri viku var eitt þeirra á dagskrá hinnar rómuðu tónleikaraðar BBC Proms. Ég heillaðist upp úr skónum, bæði af verkinu Nocturne og sögu stúlkunnar.

Morfydd Owen ólst upp við lítil efni, en kom fyrst fram og söng frumsamið lag 9 ára gömul. Hún fékk styrki til að læra söng og tónsmíðar, fyrst í háskólanum í Cardiff og síðar í Royal Academy of Music í London. Þar vann hún til ótal verðlauna fyrir verkin sín, þótti frábær mezzosópran og lífið brosti við henni. Í vinahópnum voru Ezra Pound og D. H. Lawrence ásamt fjölmörgum öðrum skapandi listamönnum. Morfydd hafði mikið dálæti á rússneskum þjóðlögum og fékk styrk til að stunda rannsóknir í Sankti Pétursborg, en fyrri heimstyrjöldin kom í veg fyrir að hún færi.

Árið 1916 kynntist hún sálgreininum Ernest Jones og einungis nokkrum mánuðum síðar voru þau gift. Hjónabandið átti illa við Morfydd enda vildi eiginmaðurinn að hún væri húsmóðir, einkaritarinn hans, og skipulegði viðburði. Honum þótti sjálfsagt að hún hugsaði frekar um hann en sinnti tónlistinni.

„Oh dear!“ skrifaði Morfydd til Eliot Crawshay-Williams 22. júlí árið 1918: „Mér gengur illa að aðlagast hjónalífi, og það er enginn tími eftir fyrir sjálfa mig.“ Sex vikum síðar var Morfydd Owen öll. Það er svolítið misjafnt eftir heimildum hvernig sagt er frá dánarorsök. Einhvers konar eitrun vegna botlangaskurðs virðist hafa dregið hana til dauða. Hún var hins vegar aldrei krufin, því það þótti of þungbært fyrir föður hennar og vini að heyra að hún væri með barni.

Í verkum Morfydd Owen má greina áhrif frá Elgar, Debussy og fleirum, en maður getur líka alveg ímyndað sér að ef hún hefði lifað lengur, og fengið tækifæri til að þroskast sem listamaður, hefðu tónsmíðar hennar hentað vel sem kvikmyndatónlist.

Þessi hæfilegaríka kona hefur ekki vikið úr huga mínum undanfarna daga, og á mig hafa sótt hugsanir um allar konurnar sem hafa hætt að skrifa bækur, semja tónverk, og búa til kvikmyndir þegar þær giftust og eignuðust börn. Öll listaverkin sem við höfum misst af. Öll verkin sem liggja í skúffum eða hafa týnst.

Sem betur fer hefur ýmislegt komið upp á yfirborðið undanfarna áratugi. Í ár er haldið upp á 100 ára upphaf kosningaréttar kvenna í Bretlandi, og af því tilefni eru leikin verk á BBC Proms eftir 22 kvenkyns tónskáld, bæði lífs og liðin. Sumar kvennanna eru þekktar í röðum þeirra sem fylgjast vel með tónlist, en flestar eru þær nánast óþekktar. Þegar fréttamaður BBC fór á stúfana og bað fólk á förnum vegi um að nefna eina konu úr röðum tónskálda varð fátt um svör. Þær máttu vera hvaðan sem er úr heiminum, og frá hvaða tímabili sem er. Ekki einn einasti vegfarandi gat stunið upp nafni.

Nocturne á Proms

https://www.youtube.com/watch?v=vTr9h4eNnn8

Kvenkyns tónskáld á Proms

http://www.bbc.co.uk/programmes/articles/1FTvHwbpzmFqy8kjGfKTl8Y/women-composers-at-the-proms

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.