Hólmsteinn Eiður Hólmsteinsson skrifar:
Á áttunda og níunda áratug tuttugustu aldar ólst ég upp á Akureyri sem barn og unglingur. Fjölskylda mín átti heima í innbænum, en sá hluti Akureyrar er sunnan við miðbæinn og stendur við sjóinn. Alla mína tíð hef ég skilgreint mig sem gagnkynhneigðan karlmann og sem barn var ekki alltaf auðvelt og sanngjarnt að þurfa að leika það leikrit. Í raun má segja að samfélagið hafi brugðist mér um margt.
Þar sem ég var strákur var til þess ætlast af mér að ég væri hugrakkur. Ég setti því upp hugrekkisgrímuna, þrátt fyrir að ég væri langt frá því að vera hugrakkur. Ég var hræddur þegar ég lenti í slagsmálum, einnig þegar ég var að stökkva milli hálla steina í fjörunni og ég var hræddur þegar við félagarnir vorum að leita að ánamöðkum í kolniðamyrkri með vasaljós í ókunnum görðum. Þá bannaði samfélagið mér að viðurkenna vanmátt minn gagnvart ákveðnum aðstæðum, þar sem ég varð að vera sterkur og harka af mér í stað þess að gráta. Í því sambandi fótbrotnaði ég sjö ára gamall árið 1979 og var langdvölum á sjúkrahúsi fjarri mömmu og pabba. Læknar og hjúkrunarfólk höfðu orð á því hversu sterkur ég væri, þar sem ég grét aldrei allan tímann. Það var ekkert undarlegt því ég hleypti út saknaðargrátinum ofan í koddann á nóttunni. Það mátti enginn sjá strákinn gráta.
Öskudagur er dagur, þar sem má klæða sig óhefðbundið og ég veit ekki hversu oft mig langaði til að biðja mömmu um að sauma handa mér pils eða kjóla úr allskonar litríku efni. Í þau skipti sem ég nefndi þetta við mömmu hikaði hún alltaf og því spurði ég vini mína einu sinni hvernig þeim fyndist að vera í kjól á öskudaginn. Strákarnir spurðu hvort ég væri eitthvað verri og þar með var sá draumur úti. Þarna var samfélagið með reglum sínum að bregðast mér, tíu ára gömlum strák um þá upplifun að klæðast þeim fötum sem mig langaði til jafnt á öskudögum sem alla aðra daga. Og litli drengurinn úr innbænum á Akureyri, sem ekkert skildi í reglum samfélagsins varð enn ringlaðri þegar hann komst að því að kjólar voru ekki einu sinni leyfðir á furðufatadögum.
Í sumarfríum Barnaskóla Akureyrar fór ég oft að skoða í búðir með mömmu. Dótið í búðunum var heillandi og annað slagið sagði ég við mömmu hvað mig langaði í. Yfirleitt gat ég sagt allt við mömmu og stundum sagði ég að ég væri alveg til í að eiga svona eldhúsdót eða jafnvel þessa stóru dúkku í búðarglugganum. Ég man að meira að segja hin skilningsríka mamma átti erfitt með að samþykkja brúðukaupin og fékk ég í staðinn að kaupa Ken-dúkku, sem er hliðstæða við Barbie. Ýmsir heimilislegir fylgihlutir voru með Ken, til dæmis sími, plötuspilari og bækur og það var gaman að láta Ken gera hitt og þetta. Hins vegar fannst mér ég verða að leika mér einn með Ken, þar sem ég gat ekki látið það um mig spyrjast að ég ætti dúkku. Stúlkur gátu leikið sér með dúkkur án allra afskipta og þá bæði strákadúkkur og stelpudúkkur. Hins vegar var það ekki samfélagslega samþykkt að strákur léki sér með strákadúkku, svo undarlega sem það hljómar.
„Drengjasaga“ og „Drengjabók með myndum“ stóð á titilsíðu bókanna um bræðurna Frank og Jóa og bókanna um Kim og félaga. Þannig setti samfélagið þessar bækur á leslistann minn og þetta voru bækurnar sem ég fékk í afmælis- og jólagjöf. Þrátt fyrir það laumuðust til mín forboðnar bækur eins og til dæmis „Týndi arfurinn“ eftir Margit Ravn, vinsæl saga meðal ungra stúlkna eins og tekið var fram aftan á kápu bókarinnar. Það var gömul kona úr Reykjavík, sem gaf mér „Týnda arfinn“ og er ég henni ævinlega þakklátur fyrir þá óhefðbundnu gjöf. Það var algengt að ég fengi sem gjafir hvellhettubyssur, hermenn úr plasti, sverð og fleiri bardagahluti án þess ég væri nokkurn tíma spurður álits. Eitthvað var ég að reyna að sýna hetjutilburði með því að skjóta úr þessum byssum og höggva félagana með sverðunum, það var það sem reglur samfélagsins sögðu mér að gera.
Eitt afmæli, sem mér var boðið í sem barni, er mér minnisstætt. Afmælisbarnið var drengur og eftir mikið pylsu- og kökuát fóru allir strákarnir inn í herbergið hans. Þar fengum við að skoða dótið hans og mest var hann að sýna okkur forláta fjarstýrðan kappakstursbíl, sem hann hafði fengið í afmælisgjöf. Systir afmælisbarnsins var á sama tíma með öllum stelpunum úr afmælinu að skoða dúkkuhús, sem hún átti. Eftir litla stund koma tvær af stúlkunum til okkar og eru þær spenntar að sjá fjarstýrða bílinn. Það þykir sjálfsagt mál að þær prófi bílinn og einn af drengjunum hefur orð á því að hann ætli að fara inn í stelpuherbergið að sjá dúkkuhúsið. Ég gleymi aldrei stríðnisgusunni, sem drengurinn fékk yfir sig þegar hann nefndi þennan fáránlega möguleika.
Hér er það tíðarandi heils samfélags, sem tekur sig saman og meinar ungum dreng að skoða dúkkuhús ásamt hópi stelpna. Þarna er samfélagið að bregðast drengnum og það eru allir, sem tapa á því. Skyldi samfélagið ennþá bregðast?