Hán

Eiríkur Rögnvaldsson skrifar:

Ég er talsmaður þess að þriðju persónu fornafnið „hán“ fái þegnrétt í málinu og sé notað í vísun til þeirra sem hvorki vilja skilgreina sig sem karlkyns né kvenkyns. Auðvitað verður engum skylt að nota það en þetta snýst um virðingu og tillitssemi gagnvart þeim sem er þetta hjartans mál.

Ég ætla ekki að fara í gegnum rökin sem hafa verið færð fyrir því að taka þetta fornafn upp, heldur renna yfir helstu rök sem hafa verið færð – eða hægt væri að hugsa sér að færa – gegn upptöku þess, og bregðast við þeim.

1. ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ BREYTA MÁLKERFINU. Íslenska hefur fjögur föll, tvær tölur og þrjú kyn. Það er alveg rétt að það væri meira en lítið vafasamt að ætla sér að breyta þessu. Það væri mjög mikið inngrip í málkerfið. En athugið að ekkert slíkt hefur verið lagt til. Það eina sem hefur verið gert er að bæta við nýju fornafni, „hán“. Með því er ekki verið að bæta við fjórða kyninu í íslensku, því að „hán“ er hvorugkyn og hvorugkyn er fyrir í málinu. Það er bara verið að koma með nýtt orð sem leysir orð sem fyrir er af hólmi að hluta til. Í staðinn fyrir að hafa eitt orð, „það“, til að tákna þriðju persónu eintölu, höfum við nú tvö, „það“ og „hán“.

Þetta er meira að segja ekkert einsdæmi í málinu. Til skamms tíma höfðum við tvö fornöfn til að tákna aðra. persónu – venjulega fornafnið „þú“, í fleirtölu „þið“ og svo „þér“ bæði í eintölu og fleirtölu. Þessi fornöfn höfðu með sér verkaskiptingu, þannig að „þú“ var notað við allar venjulegar aðstæður en „þér“ við fólk sem maður þekkti ekki eða til að sýna virðingu. Svipað má segja um fyrstu persónuna – þar höfum við „ég“, í fleirtölu „við“, en fornafnið „vér“ var notað í upphöfnu tali bæði fyrir eintöluna og fleirtöluna.

Ég hef heyrt því haldið fram að þótt ekki sé verið að bæta við kyni sé þarna verið að breyta málkerfinu með því að búa til nýja málfræðilega formdeild, nýja flokkun – í fólk, sem vísað er til með „hán“, og dýr og dauða hluti, sem vísað er til með „það“. En slík flokkun er þegar fyrir hendi í kerfinu, a.m.k. hjá þeim sem vilja binda orð eins og „éta“, „löpp“ o.fl.. við dýr en nota „borða“, „fótur“ o.s.frv. um fólk.

2. FORNÖFN ERU LOKAÐUR ORÐFLOKKUR. Í skólum er yfirleitt kennt að orðflokkarnir skiptist í opna og lokaða flokka. Opnir eru þá þeir flokkar sem geta bætt við sig nýjum orðum – aðallega nafnorð, en einnig lýsingarorð, sagnir, og að einhverju marki atviksorð. Samtengingar, forsetningar og fornöfn eru aftur á móti taldir lokaðir orðflokkar því að í þá bætist ekki ný orð. Það er líka talað um þetta sem mun á inntaksorðum og kerfisorðum. En ef fornöfn eru lokaður orðflokkur, hvernig er þá hægt að bæta við nýju fornafni?

Hér er rétt að hafa í huga að orðflokkagreining er ekki klöppuð í stein og lokuðu orðflokkarnir eru ekki harðlokaðir. Orðið „allur“ er t.d. greint sem lýsingarorð í eldri málfræðibókum en nú er það alltaf greint sem óákveðið fornafn og samkvæmt því hefur þar bæst orð í lokaðan orðflokk. Það hafa líka bæst við forsetningar og samtengingar frá fornu máli til nútímamáls.

Í öðru lagi má spyrja af hverju þessir tilteknu orðflokkar sem ég nefndi séu lokaðir. Það er augljóst af hverju nafnorð, lýsingarorð og sagnorð eru opnir flokkar – það hlýst af eðli þessara flokka. Það eru alltaf að koma ný fyrirbæri eða nýjar hugmyndir sem þurfa nöfn, það þarf að lýsa fyrirbærum á nýjan hátt, og það eru alltaf að koma til nýjar athafnir eða aðgerðir.

Um fornöfn, forsetningar og samtengingar gegnir öðru máli. Orð af þessum flokkum hafa fyrst og fremst hlutverk innan málsins, eru kerfisorð, eins og áður segir – lýsa ákveðnum venslum milli orða og setninga. Slík vensl breytast ekki svo glatt og þess vegna er sjaldan þörf fyrir ný orð af þessum flokkum. Það má sem sé halda því fram að ástæðan fyrir því að þessir flokkar eru taldir lokaðir sé ekki sú að þeir geti ekki tekið við nýjum orðum, heldur fremur sú að við þurfum svo sjaldan ný orð af því tagi sem þessir flokkar hafa að geyma. En ef við þurfum á þeim að halda, þá er alveg hægt að bæta þeim við.

3. ÞAÐ VANTAR SÉRSTAKA FLEIRTÖLU FYRIR „HÁN“. Ýmsum finnst undarlegt að sömu fleirtölumyndir séu notaðar fyrir „hán“ og fyrir „það“, þ.e. „þau“ – „þau“ – „þeim“ – „þeirra“. En þessar myndir hafa ekki á sér þann neikvæða blæ sem „það“ hefur þegar það er notað um fólk og þess vegna er engin ástæða til að skipta þeim út fyrir eitthvað annað. Auk þess má benda á að þágufalls- og eignarfallsmyndirnar eru sameiginlegar öllum kynjum og því væri mjög óeðlilegt að setja eitthvað annað þar. Það er ekki heldur einsdæmi að tvö fornöfn deili sömu fleirtölumyndum – persónufornöfnin „hann“ og „hún“ hafa sömu fleirtölu og ábendingarfornöfnin „sá“ og „sú“.

4. ÞAÐ VANTAR ÁBENDINGARFORNAFN SEM SAMSVARAR „HÁN“. Ég hef heyrt því haldið fram að það sé ekki hægt að bæta við fornafni eins og „hán“ nema það sé hluti af heildstæðu kerfi. Við höfum ábendingarfornöfnin sá og þessi sem samsvara „hann“, „sú“ og „þessi“ sem samsvara „hún“, og „þetta“ sem samsvarar „það“. „það“ er reyndar líka notað sem ábendingarfornafn í sama hlutverki og „sá“ og „sú“, og því ætti alveg að vera hægt að láta „hán“ gegna tvöföldu hlutverki á sama hátt. Það er hins vegar varla hægt að nota „þetta“ um fólk – það hefur álíka neikvæðan blæ og „það“, sbr. bókina „Hann var kallaður „þetta““. Æskilegast væri að fá ábendingarfornafn sem væri sjálfsprottið í hópi notenda, en vöntun á slíku orði – enn sem komið er – er ekki gild forsenda til að hafna „hán“.

5. BEYGING „HÁN“ ER NAFNORÐABEYGING, EKKI FORNAFNABEYGING. Beyging „hán“ er „hán“ – „hán“ – „háni“ – „háns“. Öll hvorugkynsorð, hvort sem er nafnorð, lýsingarorð eða fornöfn, eru eins í nefnifalli og þolfalli eintölu. „–s“ er líka venjuleg eignarfallsending hvorugkynsorða. Það er einkum þágufallið sem hægt væri að deila um. Bent hefur verið á að flest fornöfn fái „–u“ í þágufalli eintölu; „allt“ – „öllu“, „sumt“ – „sumu“, „sjálft“ – „sjálfu“, „mitt“ – „mínu“, o.s.frv., og því félli „hán“ betur inn í kerfið ef þágufallið væri „hánu“. Þetta má til sanns vegar færa, en á móti má benda á að „hán“ er persónufornafn og almennar reglur ná ekki til þeirra nema að sáralitlu leyti. Eins og við vitum er þágufallið af „það“ ekki *„þaðu“ eða *„þvíu“ eða neitt slíkt, heldur „því“ sem ekki endar á „–u“. Það er nokkuð öruggt að málnotendur læra myndir persónufornafna hverja fyrir sig án þess að styðjast við almenna reglu.

Þess vegna skiptir það í raun litlu máli fyrir börn á máltökuskeiði hvernig beygingin er – þótt málfræðingar geti bent á að „–u“ sé eðlileg þágufallsending fornafna í hvorugkyni eru litlar líkur á að börn nýti sér það í máltökunni. Öðru máli gegnir hins vegar um fullorðna. Hér erum við í þeirri stöðu að vera að innleiða nýtt fornafn í mál fólks sem er komið af máltökuskeiði. Í slíkum tilvikum skiptir máli að hægt sé að hafa stuðning af einhverju öðru í kerfinu. Eitt af því sem málnotendur virðast helst nota til þess er rím – fólk leitar að einhverju sem rímar við „hán“ og finnur þá „lán“, og beygir „hán“ á sama hátt. Það er mun ólíklegra að fólk beri saman við önnur fornöfn.

6. ÞAÐ ER ÓLJÓST HVERNIG Á AÐ BEYGJA LÝSINGARORÐ MEÐ „HÁN“. Það liggur fyrir að „hán“ er hvorugkynsfornafn og tekur með sér lýsingarorð í hvorugkyni – „hán er skemmtilegt/ lasið/ ungt/ glatt“ o.s.frv. Ýmsum finnst þetta undarlegt og halda að þau sem vilja láta vísa til sín með hán séu á móti því að nota hvorugkyn um fólk. En svo er ekki – þau hafa ekkert á móti hvorugkyninu út af fyrir sig. Andstaðan beinist eingöngu gegn því að nota fornöfnin „það“ og „þetta“ í vísun til fólks, vegna þess að í þeirri notkun felist lítilsvirðing.

7. „HÁN“ ER ÓHEPPILEGT OG LJÓTT ORÐ. Þetta er auðvitað smekksatriði. Mér fannst „hán“ ljótt fyrst, en ég hef vanist því. Flest nýyrði hljóma undarlega eða kjánalega í byrjun og það er haft eftir Halldóri Halldórssyni prófessor að maður þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. „hán“ er auðvitað myndað með hliðsjón af „hann“ og „hún“ – hefst á „h“, endar á „n“ og svo er sérhljóð þar á milli. Það má vitanlega velta fyrir sér hvert sérhljóðið ætti að vera. Sænska fornafnið „hen“ er vitaskuld fyrirmyndin þarna og það hefði komið til greina að taka það beint upp. Mér finnst „hán“ samt íslenskulegra og það hefur þann kost að tengja „hann“ og „hún“ betur saman – „á“ er nefnilega tvíhljóð þar sem fyrri hlutinn er „a“ eins og í „hann“ og seinni hlutinn „ú“ eins og í „hún“.

8. ÞAÐ Á EKKI AÐ HANDSTÝRA MÁLINU. Þetta heyrir maður úr ýmsum áttum þótt mismunandi viðhorf liggi að baki. Mörg eru á móti handstýringu vegna þess að þau vilja ekki að málið breytist neitt, en önnur eru á móti vegna þess að þau vilja leyfa málinu að þróast og breytast án meðvitaðra afskipta málnotenda. Ég get haft samúð með báðum sjónarmiðum, en tilfellið er að málið er alltaf að breytast, og við erum alltaf að hafa afskipti af þeim breytingum.

Sum virðast gera grundvallarmun á því að koma í veg fyrir breytingar á málinu og gera breytingar á því – líta svo á að barátta gegn „þágufallssýki“, svo að dæmi sé tekið, sé barátta gegn breytingu á málinu. En það er hæpið viðhorf. Breytingin er þegar orðin í málkerfi stórs hluta málnotenda. Ef við krefjumst þess að þau sem segja „mér langar“ fari að segja „mig langar“ í staðinn erum við í raun að gera kröfu um að þau breyti máli sínu – erum að handstýra málinu. Ég hef grun um að veruleg skörun sé milli þess hóps sem vill berjast með oddi og egg gegn „þágufallssýki“ og þess hóps sem telur að ekki megi breyta málinu með því að innleiða nýtt persónufornafn. Mér finnst afstaða þess hóps órökrétt.

Vissulega er ekkert auðvelt að breyta málnotkun sinni þegar um er að ræða fyrirbæri sem eru jafn inngróin í málkerfi manns og persónufornöfn. Ég þarf alltaf að hugsa mig um þegar ég nota „hán“ – en það þarf ég líka að gera þegar ég tala um „ær“ og „kýr“. Þetta tekur tíma – en það þýðir ekki að það sé ógerlegt.

Að því sögðu get ég alveg tekið undir það að handstýring tungumálsins er almennt séð óæskileg. En það er ekki síður óæskilegt að hópur fólks upplifi sig utangarðs í móðurmáli sínu.

Eiríkur Rögnvaldsson málfræðiprófessor  birti þetta á fésbókarvegg sínum og heimilaði endurbirtingu á knuz.is.

Þessu tengd er Morgunblaðsgrein frá 2016.

Alda Villiljós skrifaði um hán fyrir Knúz.is 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.