Samfélagið og þolendur þess

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar:

Ég hef oft orðið vitni að sundrungu, heift og reiði í umræðum í femínískum rýmum, sem er afar skiljanlegt þar sem femínistar takast á við samfélagslega flókin vandamál sem snerta oftar en ekki  erfiðustu og viðkvæmustu tímabilin í lífi fólks. Þegar einstaklingar  eru ósammála um viðkvæm málefni er erfitt að stíga til jarðar án þess að særa, pirra og reita einhvern til reiði. 
Núna nýlega fór af stað umræða um fyrirgefningu kynferðisbrota. Um þetta málefni, eins og svo mörg önnur, mættust pólar sem voru ekki sammála. Þekktir femínistar tóku þátt í umræðunni og þeir tókust á. 

Við fyrstu sýn virðast pólarnir sem mætast vera andstæðingar. Annar vill fá umræðuna um þá úrvinnsluleið sem felst í fyrirgefningu. Rökin eru: þolendur kynferðisbrota fá ekki rými til þess að fyrirgefa, kjósi þeir það. Hinn póllinn segir að samfélagið sé enganvegin tilbúið í það. Rökin eru: samfélagið þvingar  ítrekað þolendur í sátt við gerendur sína, þvert á það sem þolendur þurfa til þess að vinna úr áföllum sínum. 
Ég stóð utan umræðunnar og fann hjá sjálfum mér að ég var sammála þessum konum, sammála þessum pólum báðum eins furðulegt og það kann að hljóma. 

Samfélagið neitar að taka við þolendum. Kjósi þolendur að fyrirgefa eru þeir einhvern vegin að firra gerendur sína ábyrgð, þeir eru að gera litið úr alvarleika kynferðisbrota. Samfélagið segir skýrt við þolendur að þeir eigi að vera reiðir og að gerendur séu skrímsli sem eigi að afhausa!
Samfélagið neitar líka að taka við þolendum sem eru reiðir. Kjósi þolendur að vera reiðir, að neita að fyrirgefa gerendum sínum, eru þeir gerðir ábyrgir fyrir því að gerendur þeirra fái aldrei annað tækifæri í lífinu. Að þessir þolendur standi í vegi fyrir því að gerendur sé afskrímslavæddir. Samfélagið segir skýrt að þolendur eigi að sætta sig við hvað gerðist og “move on”!

Samfélagið stendur með hvorugum pólunum. Það leitast við að búa til innbyrðis deilur milli þeirra sem berjast hvað mest gegn kynferðisbrotum í allri mynd. Þannig búum við ennþá í samfélagi þar sem þolendur þurfa einhvernvegin að etja kappi við hvorn annað til þess að réttlæta það rými sem þeir taka sér. Þær konur sem voga sér að tala máli þeirra þolenda sem ekki endilega hafa rödd í umræðunni, eru svo rifnar í tætlur. Það er engin málefnaleg gagnrýni sem þær þurfa að sitja undir frá okkar elskulega samfélagi, heldur þurfa þær að þola allskonar viðbjóð eins og líflátshótanir, nauðgunarhótanir, þeim er óskað dauða, þær eru sakaðar um yfirgang og frekju, þær eru kærðar, yfir þær ganga endalaus meiðyrði sem og allskonar níð. Að sitja undir þessu endalaust er gríðarlegt álag sem ég held að allar þessar konur hafi orðið varar við. 

Á meðan pirringurinn og ósættin halda áfram að grassera þá eigum við það til að tapa sjónum á þeim sameiginlega grundvelli barist er fyrir. 
Í þessu tilfelli er grundvöllurinn risastór. Báðir pólarnir eru sammála um að þolendur fá ekki rými til að vinna úr áföllum sínum. 
Báðir pólarnir eru sammála um að samfélagið okkar sé engan veginn tilbúið til að taka við þolendum þess og hlúa að þeim eins og þeir þurfa. 
Þessir pólar eru ekki andstæðingar heldur samstarfsfélagar. Þeir virka ekki án hvors annars. Við getum ekki fundið lausnir án þess að ræða kerfisbundið um þann vanda sem við stöndum frami fyrir né heldur getum við útilokað einstaklinga og rétt þeirra til að fá að vinna úr sínum áföllum. Að ræða málin frá kerfisbundnu sjónarhorni útilokar ekki einstaklingssjónarhornið né öfugt. Að segja upphátt að samfélagið okkar sé hreint ekki tilbúið til að veita fyrirgefningu rými er ekki að það sama og að segja að þolendur megi ekki fyrirgefa. Það er heldur ekki það sama að segja að þolendur hafi fullt vald til þess að finna frelsið sitt í fyrirgefningunni, að þeir hafi frelsi til þess að ræða það upphátt er ekki það sama og að segja að við séum að þagga niður í þeim þolendum sem hafa ekki nokkra lyst á að fara þá leið. 
Við erum að vinna með samfélag sem er gegnumsýrt af klám/nauðgunar- og ofbeldismenningu.

Þolendur keppast um það litla rými sem þeir hafa til þess að vinna úr sínum áföllum. 
Hvernig búum við til rýmið, í þessu samfélagi, án þess að setja þessa einstaklinga í þá stöðu að þeim finnist þeir vera að troða öðrum þolendum um tær?

Þökk sé grjóthörðum femínistum og femínískum hreyfingum fortíðar og nútímans þá stöndum við frammi fyrir því að það sé raunverulegur möguleiki á því að við búum okkur til þolendavænt umhverfi.  

Eftir að hafa orðið vitni að þessari umræðu sem var meðhöndluð af mikilli fagmennsku (svo mikilli að ég varð eiginlega svolítið orðlaus) þá fyllist ég mikilli bjartsýni gagnvart framtíðinni. Við erum nefnilega svo stálheppin að eiga konur sem hafa velt grettistökum, oft einar og óstuddar, þegar kemur að þessum málaflokki.

 

 

 

Myndir eru fengnar héðan og héðan og héðan.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.